13.12.06

Moskva og Salekhard

Það eru nokkrar ástæður fyirir því að ég hef ekkert skrifað undanfarið. Var algerlega ónettengdur í viku í Rússlandi og hef svo verið bakveikur og ekki getað hugsað mér að sitja lengur við tölvuna en allra nauðsynlegast er í vinnunni. Maður er aðeins farinn að skána.

Mikið ferlega er Moskva stór og skítug, og öll svolítið harðgerð. Það er alveg svakalega mikið að ofboðslega stórum blokkum þarna og þeim fer mikið fjölgandi. Byggingaframkvæmdir út um allar trissur. Þetta eru ósköp gráleit og leiðinleg hverfi sýnist mér, sem virðast hafa sáralitla sál. Þetta er svona eins og fellahverfið nema bara tuttugu sinnum stærra allt saman. Þá er umferðin ferleg. Bílaeign Moskvubúa hefur aukist rosalega undanfarið en samgöngukerfið er ennþá miðað við þá tíma þegar fólk beið í tíu ár eftir Lödunni sinni. Umferðin ar kaótísk og vegakantar eru almennt notaðir sem auka akrein. Þá eru stanslausar umferðarteppur þarna. Svo aka allir á nagladekkjum sem spæna upp malbikið sem maður andar svo að sér og þetta sest á bíla og hús þannig allt virkar frekar skítugt. Neðanjarðarlestakerfið er svo magnað. Flottar stöðvar og örar ferðir. Mér sýndist eins og það kæmu lestir á ca. þriggja mínútna fresti.

Ég var ekki nema einn dag í Moskvu og svo var haldið áfram til Salekhard sem er í norðaustri frá Moskvu. Bærinn stendur við ánna Ob og er í Yamal Nenets héraðinu. Þarna eru víst 70% af jarðgasi rússa. Húsin virðast flest vera ný og ansi flott. Þetta minnti mig svolítið á sum íslensk sjávarþorp. Ekki falleg hús, lítið um listir eða menningarlíf, en meiri útgerðarfílingur. Heimamenn tóku ansi vel á móti okkur og fundurinn gekk vel fyrir sig. Tilgangurinn var að halda fund vegna undirbúnings SÞ skýrslu um stöðu frumbyggja, og Rússarnir höfðu boðist til þess að halda fundinn og borga. Við kynntumst líka svolítið lifnaðarháttum frumbyggjanna þarna sem eru hreindýrahirðingjar. Margir þeirra búa ennþá úti á túndrunni, en þar getur orðið djöfull kalt. Ég tók slatta af myndum og hef þegar sett nokkrar á flickr síðuna mína. Ég bæti inn fleirum á næstu dögum.

25.11.06

Ljósmyndun

Ég fékk mér nýja myndavél um daginn og er að reyna að læra á þetta. Fékk mér líka þrífót. Í dag fór ég út að hjóla og tók fullt af myndum. Fór í gegnum Brooklun og meðfram Hudson ánni þangað til ég kom til Long Island City sem er í Queens, beint á móti SÞ. Það þekkja flestir SÞ bygginguna, en ég vinn í DC2, sem er beint til hægri og bak við SÞ bygginguna á þessari mynd.

Vona svo að ég nái einhverjum almennilegum myndum í Salekhard, sem er í Síberíu, en ég fer þangað á þriðjudaginn og verð í burtu í ca. viku. Þar fer fram fundur sem heimamenn boða til og rætt verður um útgáfu á SÞ skýrslu um frumbyggja sem ég er að vinna í. Er satt að segja farinn að hlakka til, en það er víst helvíti kalt þarna. Undanfarið hefur verið 36-40 stiga frost þarna, samkvæmt síðasta tölvupósti sem ég fékk þaðan.

Heimur batnandi fer (a.m.k. á Norður Írlandi)

Einkennilegar fréttir frá Norður Írlandi þar sem DUP flokkur Ian Paisley og Sinn Fein eru sífellt að komast nær því að geta hugsanlega unnið saman í ríkisstjórn. Sambandssinnar eru ennþá afar tregir til þess að vinna með lýðveldissinnunum frá Sinn Fein, mönnum eins og Gerry Adams og Martin McGuinnness, sem allir vita að voru lengi vel æðstu menn í írska lýðveldishernum. Nú hefur IRA hætt öllum látum og sambandssinnar hafa í raun engar afsakanir til þess að standa í vegi fyrir myndun ríkisstjórnar. Málið er bara að hatrið ristir ansi djúpt og mörgum sambandssinnum (þeir sem vilja viðhalda stöðu N. Írlands sem hluti af Stora Bretlandi) finnst það hið versta mál að vinna með kaþólsku óvinunum.

Einn þeirra sem er ekki nógu ánægður með stöðu mála er Michael Stone, en hann er vel þekkt fígúra á Norður Írlandi. Hann tók sig til í vikunni og mætti í Stormont (þar sem þing N. Írlands situr) með skammbyssu, hníf, bakpoka fullann af heimatilbúinum sprengjum og málningarbrúsa. Áður en hann æddi inn í þingsalinn sprayaði hann "Sinn Fein/IRA mur... " fyrir utan húsið. Tókst greinilega ekki alveg að klára þetta. Svo hendir hann bakpokanum inn í salinn, hrópar "No Surrender" og er festir sig svo í dyrunum á leiðinni út þar sem öryggisverðir ná honum. Þetta er í raun stórfyndinn atburður. Ekki síst vegna þess hvaða maður Michale Stone er.

Stone var og er sjálfsagt ennþá félagi í Ulster Defence Association (UDA) sem er eitt af hryðjuverkasamtökum sambandssinna. Árið 1988 mætti hann í útför þriggja IRA manna sem höfðu verið drepnir af Bretum á Gíbraltar og hóf að kasta handsprengjum á syrgjendur og skjóta svo á hópinn, sem elti hann uppi, náði honum og höfðu sjálfsagt drepið hann, hefðu breskir leyniþjónustumenn ekki komið á bíl og bjargað honum. Hann drap þrjá manns og særði sextíu til viðbótar og sat í fangelsi þar til friðarsamkomulagið var undirritað og öllum föngum selppt í kjölfarið. Hann hefur verið laus s.l. 6 ár.

Fyrir ekki svo löngu síðan hefðu þetta verið hræðilegar fréttir og lýðveldissinnar verið líklegir til þess að hefna sín fyrir tilraunina, en Stone var eflaust að reyna að drepa Adams, McGuinness og félaga. Nú er bara hæðst að Stone sem er greinilega einangraður og náttúrulega spinnegal. Menn hlæja bara að klaufalegri tilraun hans til að sleppa í gegnum "revolving" dyrnar. Siðblindir fantar eins og Stone voru áður fyrr voru álitnar hetjur og leiðtogar af mörgum innan samfélags síns, en eru nú miklu frekar fyrirlitnir og útskúfaðir. Heimur batnandi fer.

Youtube er náttúrulega með þetta allt saman. Hér er sjónvarpsfrétt um árásina frá 1988.
Og svo upptaka frá atburðinum í vikunni.

21.11.06

Enn meiri kaldhæðni

Reuters fréttastofan segir í dag frá sex múslimaklerkum sem var bannað að fara um borð í flugvél í dag á leið frá Minnesota til Phoenix. Þeir voru handjárnaðir, leiddir út úr vélinni og yfirheyrðir. Að lokum var þeim sleppt, enda höfðu þeir ekkert gert af sér. Þeir höfðu hins vegar leyft sér að iðka trú sína og biðja til guðs síns áður en þeir fóru inn í vélina. Það var nóg til þess að flugstjóri sæi ástæðu til þess að krefjast þess að öryuggisverðir kæmu og fjarlægðu mennina eftir að þeir voru komnir um borð. Þetta kallast "suspicious activity" í dag.

Klerkarnir voru á leið heim eftir að hafa tekið þátt í þriggja daga ráðstefnu Norður Amerískra klerka sem fjallaði um að byggja brýr á milli Múslima og Bandarísks samfélags. Gangi þeim vel!

Það er ömurlegt hversu hrætt fólk er orðið og hversu algeng islamfofóbía er. Að sama skapi verður maður að spyrja hvort þessir klerkar séu veruleikafirrtir. Jafnvel þó svo að þeir séu bara að iðka trú sína, geta þeir ekki allavegana sleppt bænahaldi á flugvellinum? Maður þarf ekki að vera glöggur þjóðfélagsrýnir til þess að átta sig á að Bandaríkjamenn eru langt frá því að vera búnir að ná sér eftir 11. sept.

18.11.06

Abu Ghraib

Það er fróðleg umfjöllun á vefritinu Slate í dag um nýja sýningu Kólumbíska málarans Fernando Botero en umfjöllunarefni hans eru pyntingarnar í Abu Ghraib. Ég er enginn listgagnrýnandi og ætla ekki að reyna að rýna í þau verk sem hægt er að sjá á netinu. Gæti alveg hugsað mér að kíkja á sýninguna í Marlborough Galleríinu þó.

Aðallega finnst mér merkilegt og í raun frábært að sjá málverk um málefni sem eru svo djöfull pólitísk, mikilvæg og relevant í dag. Það er ekki nógu mikið hugsað hérna í heimsveldinu um hvað er verið að gera í nafni réttlætis, frelsis og lýðræði. Pistillinn á Slate, sem er vel þess virði að kíkja á, endar með þessum tveimur málsgreinum:

Aside from Botero, surprisingly few major artists have taken on the subject of torture at Abu Ghraib. One notable exception is Richard Serra, who translated the iconic image of the hooded prisoner with outstretched arms into a crude grease-stick drawing framed by the slogan "Stop Bush." It may be that the incidents in Iraq have yet to be culturally digested. And perhaps some artists also feel that the photographs taken by the American guards and later released to the press are themselves the most powerful visual indictments of the crimes committed there.

Yet Botero, by tackling this imagery in a focused and extended series, has demonstrated not only that such things can be represented in art but also that a figurative, cartoonish idiom may be the most powerful means of representing modern atrocity. It's no coincidence that one of the most profound and affecting works of Holocaust literature—Spiegelman's Maus—is a comic book. To some viewers, the chubby figures in Botero's paintings may appear ridiculous, grotesque—but so were the monstrous abuses of power to which they testify.

Hræðsluáróður

Hafi einhver áhyggjur (eða áhuga), þá er hættuástandið, samkvæmt heimavarnarstofnun í Bandaríkjnunum í dag gult sem þýðir á máli heimamanna:

ELEVATED: Significant Risk of Terrorist Attacks

Það er ljóst að maður þarf sífellt að vera á varðbergi. Það er aldrei að vita hvað nágrannarir eru að gera.

16.11.06

Siðblinda (annar hluti)

Það eru ekki bara þingmannsefni og glæpamenn á Íslandi sem þjást af siðblindu. Fox sjónvarpsstöðin ætlar að birta viðtal við OJ Simpson um hvernig hann hefði staðið að morðinu á fyrrverandi eiginkonu sinni og kærasta hennar sinni ef hann hefði gert það. Viðtalið er til að vekja athygli á væntanlegri bók hans sem ber hinn létt ósmekklega titil, "If I did it, Here´s How it Happened". Bókin er gefin út af ReganBooks sem er í eigu News Corporation veldis Rupert Murdoch, sem á m.a. Fox.

15.11.06

Yfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna um rétindi frumbyggja

Fyrr í sumar samþykkti nýstofað Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna Réttindayfirlýsingu Frumbyggja (Declaration on the Rights of Indigenous Peoples) og þessi yfirlýsing er nú til umræðu á yfirstandandi Allsherjarþingi. Líklega er góður meirihlugi aðildarríkja eru fylgjandi yfirlýsingunni sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að leggja línurnar um hver réttindi frumbyggja eru og að vera yfirlýsing alþjóðasamfélagsins um réttindi sem ber að stefna að. Yfirlýsingar eru eins og leiðbeiningar, frekar en fyrirmæli. Yfirlýsingar hafa ekki lagalegt gildi eins og t.d. sáttmálar og aðildarríkin þurfa ekki að staðfesta yfirlýsingar á þjóðþingum sínum. Þekktasta yfirlýsingin af þessu tagi er náttúrulega Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna, sem hefur einmitt ekki lagalegt gildi en hefur gífurlega mikilvægt siðferðislegt gildi.

Þessa dagana fara fram afar harðar umræður um Réttindayfirlýsingu Frumbyggja í Þriðju Nefnd Allsherjarþings. Aðildarríkin og fulltrúar frumbyggja hafa reyndar rætt og samið um orðalag yfirlýsingarinnar undanfarin 20 ár. Þessar samningaviðræður fóru fram undirnefnd Mannréttindanefndar SÞ í Genf, sem hefur nú verið lögð niður og Mannréttindaráð tekið við. Þetta er afar pólitískt málefni sem tengist annars vegar ógeðfelldri sögu og þjóðarmorðum á frumbyggjum og viðleitni til þess að leiðrétta söguleg mistök og hins vegar aðgang að landi, en frumbyggjar búa víðast hvar á landsvæðum þar sem náttúruauðlindir hafa ekki enn verið fullnýttar og því er oft um mikla hagsmuni að ræða.

Nokkur afar áhrifamikil aðildarríki eru andsnúin yfirlýsingunni. Þessi lönd eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Nýja Sjáland og jafnvel Rússland auk nokkurra Afríkuríkja, t.d. Botswana. Það sem þessi lönd óttast eru hugsanleg áhrif sem yfirlýsingin gæti haft á innanríkismál þeirra, en yfirlýsingin inniheldur orðalag um sjálfsákvörðunarrétt frumbyggja. Sérstaklega eru þau ósátt með þriðju og fjórðu málsgreinar yfrrlýsingarinnar.

Article 3
Indigenous peoples have the right of self determination. By virtue of that right they freely determine their political status and freely pursue their economic, social and cultural development.

Article 4
Indigenous peoples, in exercising their right to self-determination, have the right to autonomy or self-government in matters relating to their internal and local affairs, as well as ways and means for financing their autonomous functions.

Það sem ríkin segjast óttast er að að orðalagið um sjálfákvörðunarrétt frumbyggja sé hrein og bein ógnun gagnvart ríkinu og að það geti haft alvarleg áhrif á deilumál innan landamæra þeirra en það eru einmitt fjödinn allur af yfirstandandi dómsmálum í gangi í þessum löndum þar sem frumbyggjar eru að berjast fyrir réttindum sínum og þá aðallega eignarhald á landi. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir eitthvað um sögu þessara landa. Þá benda þessi ríki á að yfirlýsing um sérstök réttindi frumbyggja búi til tvenns konar þegna innan landa þeirra. Hvers vegna þarf sérstaka yfirlýsingu um réttindi frumbyggja fram yfir aðra hópa, spyrja þeir.

Aftur á móti eru nánast öll ríki mið og suður Ameríku fylgjandi yfirlýsingunni, auk Evrópulanda og flestra ríkja Asíu. Þá er fjöldinn allur af frjálsum félagastamtökum sem styðja yfirlýsinguna, þ.á.m. Amnesty International. Sem dæmi má nefna að Norðmenn og Finnar óttast ekki yfirlýsinguna og standa þétt með Sömum sem eru ansi virkir í alþjóðlegri réttindabaráttu frumbyggja. Þeir sem eru fylgjandi yfirlísingunni benda á að yfirlýsingin innihaldi engin ný réttindi sem eru ekki til í öðrum alþjóðasáttmálum eða yfirlýsingum. Þá sé orðalagið um sjálfsákvörðunarréttin ekki tilefni til ótta, enda vísar það til þess að frumbyggjar eigi að fá að ráða eigin málum, en ekki að þeir hafi frelsi til að stofna ný ríki. Þá er einnig orðalag í 46 málsgrein yfirlýsingarinnar sem er sett þar inn sérstaklega til að tryggja réttindi ríksins.

Article 46
1. Nothing in this Declaration may be interpreted as implying for any State, people, group or person any right to engage in any activity or to perform any act contrary to the Charter of the United Nations.
2. In the exercise of the rights enunciated in the present Declaration, human rights and fundamental freedoms of all shall be respected. The exercise of the rights set forth in this Declaration shall be subject only to such limitations as are determined by law, in accordance with international human rights obligations. Any such limitations shall be non-discriminatory and strictly necessary solely for the purpose of securing due recognition and respect for the rights and freedoms of others and for meeting the just and most compelling requirements of a democratic society.

Þau ríki sem styðja yfirlýsinguna segja að þetta orðalag tryggi aðildarríki fyrir því að frumbyggjar geti notfært sér yfirlýsingunu til að réttlæta sjálfstæðisbaráttu. Auk þess benda frumbyggjar sjálfir á að þeir hafi ekki nokkurn áhuga á stofnun eigin ríkja. Þeir vilji einfaldlega að réttindi þeirra séu virt.

Málið er í hnút núna og það eiga sér stað heilmiklar umræður og smaningar innan veggja Sameinuðu Þjóðanna. Ég veit ekki hvernig málið fer, en það gæti farið svo að samningaviræður um orðalag yfirlýsingarinnar verði opnaðar á ný. Það myndi nánast örugglega þýða að staðfesting yfirlýsingarinnar mynfi frestast um einhver ár. Þá er einnig möguleik á að kosið verði um yfirlýsinguna. Allsherjarþing forðast yfirleitt kosningar eins og heitan eldinn, enda hafa yfirlýsingar, eins og áður sagði, ekki lagalegt gildi, heldur aðeins siðferðislegt gildi. Þess vegna eru yfirlýsingarnar miklu sterkari ef allir eru sammála. Það er einmitt þess vegna sem orðalagið í svona textum er oft svo vandræðalegt og nánast ólæsilegt. Þegar orðalag er hreint og beint, og skorinort, má alltaf búast við því að eitthvert af 192 aðildarríjunum sé ósammála. Orðalag sem er óljóst og ómarkvisst geta ríkin hins vegar oftar sætt sig við.

Ég þarf að koma mér aftur að efninu. Þrðja nefnd heldur formlegan fund aftur á morgun og þá verður vonandi búið að leysa hnútinn. Ég er samt ekki allt of vongóður. Það er líklegt að þeir sem eru fylgjandi munu reyna að þrýsta á kosningu á meðan þeir sem eru andsnúnir munu beita einhverjum leiðum til að fresta málinu. Þá má ekki gleyma því að hér er stunduð alvöru realpolitik og allar alvöru ákvarðanir eru teknar á bak við luktar dyr. Það sem kemur fram á opnum fundum er oftast ekkert nema formsatriði. Þess vegna eru doplómatarnir núna að ræða þetta og væntanlega að mynda einhver bandalög. Stóra spurningin núna er hvort andstæðingar yfirlýsingarinnar hafi náð að mynda nógi stórt bandalag til að fella eða fresta samþykkt yfirlýsingarinnar. Þetta kemur í ljós á morgun eða hinn.

14.11.06

Tæknileg mistök

Ég kíki stundum á fréttir að heiman áður en ég fer heim úr vinnunni og sá þar viðtal við Árna Johnsen, þar sem hann segist iðrast og hafa gerst sekur um tæknileg mistök.

Er þetta þá ekki tæknileg iðrun?

13.11.06

Giuliani á leið í framboð

Það lítur út fyrir að Rudy Giuliani sé á leiðinni í forsetaframboð fyrir Repúblíkanaflokkinn. Hann er allavegana búinn að taka fyrsta skrefið og stofna the Rudy Giuliani Presidential Exploratory Commitee Inc. sem gerir honum kleift að safna fé fyrir framboðið. Eftir úrslit síðustu kosninga hljóta hófsamir repúblíkanar að vera afar spenntir fyrir möguleikum sínum, enda höfnuðu kjósendur harðlínustefnu hægrimanna.

Við getum fastlega búist við því að heyra svipaðar fréttir frá John McCain og George Pataki, en ég held að sá síðarnefndi eigi ekki séns. Svo kemur að því að Barack Obama lýsi yfir framboði. Hann er það vinsæll núna að hann getur ekki annað en látið reyna á þetta. Það er aldrei að vita hver staða hans verður eftir 4 ár, á meðan hann veit það að hann á mjög góða möguleika núna. Hann getur hreinlega ekki tekið sénsinn á því að fara ekki fram.

Hins vegar er ómögulegt að segja til um Hillary Clinton. Henni er smám saman að takast að bæta ímynd sína, en ég held samt að hún eigi ekki séns á að vinna. Hún á reyndar mjög góðan séns á að vinna prófkjörið og verða frambjóðandi demókrata, en ég held að hún sé ennþa svo illa liðin á hægri vængnum að forsetaframboð hennar myndi tryggja gífurlega mikla þáttöku hægrimanna. Það eru einfaldlega ofboðslega margir Ameríkanar sem hreinlega þola hana ekki! Svo er hún kona. Það er ljótt að segja þetta, en ég held að Ameríkanar séu ekki tilbúnir til þess að velja konu sem forseta.

Við munum fyrr sjá svartan mann sem forseta heldur en konu. Ég held nefnilega að umræðurnar fyrir nokkrum árum um Colin Powell sem hugsanlegan forsetaframbjóðenda hafa orðið til þess að plægja akurinn og ég held að þjóðin sé til í að kjósa svartan mann í embættið. Obama vs. McCain gæt orðið spennandi barátta.

2.7 milljón króna kompa

Það var æðisleg frétt í Sunnudagsblaði NY Times í gær um hjón sem höfðu keypt sér pínulitla kompu (10x10 fet) á $38500 sem eru ca. 2.7 miljónir króna. Satt að segja veit ég ekki hvort er skrítnara - fasteignaverð á Manhattan, eða söfnunaráráttan sem fær fólk til þess að kaupa svo mikið drasl að það hefur aldrei pláss fyrir það. Þetta er heldur ekki neitt einsdæmi. Í íbúðarhúsum á Manhattan eru langir biðlistar eftir svona geymsluplássi, sem losnar ekki nema þegar fólk flytur eða deyr.

10.11.06

Er Bolton næstur?

Það virðist líklegra með hverjum deginum að John Bolton fylgi í fótspor Donald Rumsfeld og verði næsta fórnarlamb kosningaúrslitanna. Bolton hefur verið afar umdeildur sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ. Hann er reyndar svo umdeildur að núverandi öldungadeild gat ekki einu sinni staðfest hann, en hann var settur í stöðuna tímabundið á meðan þingið var í fríi. Það er útilokað að nýkjörin öldungadeild staðfesti hann. Stjórnin er núna að reyna að ná fá hann staðfestan áður en nýkjörið þing kemur saman, en Lincoln Chafee fráfarandi öldungadeildarþingmaður frá Rhode Island segist ekki vera fylgjandi þeirri tilraun, samkvæmt frétt frá BBC.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig samskiptin á milli SÞ og Bandríkjanna þróast á nýju ári þegar Ban Ki Moon tekur við sem aðalritari og væntanlega nýr sendiherra Bandaríkjanna kominn til starfa.

9.11.06

Kaldhæðni

Ég var rétt að byrja á bók James Traub um Kofi Annan og SÞ. Bókin byjar ágætlega og ég hef þegar lært eitthvað nýtt.

Árið 1970 voru aðildarríki SÞ að velja sér nýjan Aðalritara sem átti að taka við af U. Thant. Norðurlöndin tefldu fram finnska diplómatanum Max Jakobsson og naut hann talsverðs stuðnings, meðal annars frá Bandaríkjamönnum. Þetta var náttúrulega í miðju kalda stríðinu og mikil spenna á milli USA og USSR. Sovétríkin beittu hins vegar neitunarvaldi sínu og felldu framboð Jakobssonar, sem nota bene var og er sósíalisti. Ástæðan sem Sovétmenn gáfu var sú að Jakobsson er gyðingur og að Arabaríki mynu aldrei sætta sig við hann sem aðalritara. Hver var svo niðurstaðan? Hvern gátu þjóðir heimsins sætt sig við, úr því að ekki mátti fá gyðing í starfið? Gamli nasistinn Kurt Waldheim var gerður að aðalritara og hann gengdi stöðunni næstu 10 árin.

Hvað varð um 9 millarða dollara?

Á meðan Bandaríkjamenn fóru með stjórnun Íraks, undir forystu Paul Bremer, tóku þeir m.a. 20 milljarða bandaríkjadollara sem voru í eigu írakska ríkisins. Þetta fé átti að að fara í það að kosta starfsemi ríkisins, og það er ekkert beinlínis óeðlilegt við það. Málið er hins vegar að 9 af þessum 20 milljörðum eru týndir. Það veit enginn hvert þeir fóru, og það sem merkilegast er - enginn neitar þessu, enginn efast um þessa staðhæfingu og um þetta hefur sáralítið verið fjallað. Kaldhæðnin við þetta er að þessir 20 milljarðar komu frá "oil for food" sjóðum íraka, en það var einmitt SÞ verkefnið sem Bandaríkjamenn kvörtuðu svo mikið yfir og notuðu til að gagnrýna Kofi Annan.

Ég trúi ekki öðru en að Demókratar munu krefjast rannsóknar á þessu.
Þessir týndu 9 milljarðar hafa ekki hlotið mikla athygli, en það má lesa um þetta hér, hér, hér og hér.

8.11.06

Rumsfeld farinn

Maður þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrstu áhrifunum. Donald Rumsfeld er farinn. Það kemur kannski ekki svo mikið á óvart, enda var maðurinn orðinn persónugerving íraksklúðursins.

Það er Rumsfeld sem hefur neitað að senda inn fleiri hermenn í Írak, enda passaði það ekki inn í kenningar hans um nútímahernað. Hann, eins og þessi stjórn, yfirleitt neitaði að horfast í augu við raunveruleikann þegar raunveruleikinn passaði ekki inn í hugmyndafræðina. Hugmyndafræði Rumsfeld byggir á því að nútímavæða Bandaríkjaher. Samkvæmt þessu á nútímaher að vera tiltölulega fámennur hópur vel þjálfaðra manna sem eru hreyfanlegir og beita nýjustu tækni þannig að baráttan fer að miklu leyti fram í fjarlægð - fjarstýrður hernaður. Þessar hugmyndir hafa ekki verið mjög vinsælar, hvorki á meðal hermanna né almennings, enda er það almennt talið að mun fleiri hermenn þurfi til að bæla niður uppreisnina þarna. Colin Powell var hefur til dæmis alltaf farið fram á mun fleiri hermenn væru sendir til Íraks. Til viðbótar, þá hefur stjórnunarstíll Rumsfelds gert hann ótrúlega óvinsælan innan varnarmálaráðuneytisins. Nýleg bók Bob Woodwards, lýsir Rumsfeld t.d. sem manni sem er bókstaflega hataður af nánast öllum samstarfsmönnum fyrir utan Bush og Cheney.

Þeir unnu

Demókratar náðu heldur betur fínni kosningu í gær. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á svo miklum breytingum, en það tókst greinilega hjá þeim að gera kosningarnar fyrst og fremst að kosningum um íraksstríð og Bush. Demókratar munu verða með öruggan meirihluta og Nancy Pelosi ætti því að verða sterkur leiðtogi þeirra á þingi. Það var satt að segja svolítið skrítið að heyra "the Democratic majority" í útvarpinu í morgun. Maður var orðinn svo vanur hinum merihlutanum. Svo þurfum við ennþá að bíða eftir niðurstöðunum frá Virginia og Montana, en þar munar svo sáralitlu. Demókratar þurfa að vinna bæði sæti til að ná eins sætis meirihluta í öldungadeildinni. Takist það má fastlega búast við nýjum sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ.

Annars er maður þegar spenntur fyrir því að sjá hverjar breytingarnar verða. Það eina sem er nokkuð öruggt er að nýji meirihlutinn muni afgreiða lög um lágmarkslaun og stofnfrumurannsóknir. Þá má gera ráð fyrir alls konar rannsóknum á íraksstríðinu og aðdraganda þess. Annars virðast demókratar ekki hafa hugmynd um hvað þeir vilja gera með Írak. Þeir hafa enga skýra stefnu, aðra en að segja að núverandi stefna Bush stjórnarinnar gangi ekki upp. Þeir komust upp með svona stefnuleysi fyrir kosningar, en nú þegar þeir hafa náð þinginu, þá verða þeir að koma fram með eitthvað bitastætt. Ég hugsa að þeir bíði eftir Baker-Hamilton skýrslunni.

Svo er alltaf séns á því að Bush neyðist til að gera einhverjar breytingar, svona til þess að bregðast við þessum köldu skilaboðum sem þjóðin var að senda honum. Hann gæti til dæmis fórnað Rumsfeld og leitað leiða til að vinna með nýjum þingmeirihluta, en það er nú ekki líklegt.

7.11.06

Kosið í dag

Þá er loksins komið að kosningadeginum. Catherine var að fara út til að kjósa á meðan ég sit hérna með kaffið og fer yfir helstu spár um kosningarnar. Hérna hjá okkur er þetta ekki mjög spennandi. Demókratar vinna þetta allt, nokkrun veginn. Elliot Spitzer verður fylkisstjóri (hann er reyndar afar spennandi kostur fyrir forsetaframboð eftir kannski átta ár eða svo), Hillary Clinton verður áfram fulltrúi okkar í öldungadeildinni og Demókratinn Yvette Clark verður fulltrúi okkar frá 11. kjördæmi New York fylkis í fulltrúadeildinni. Eina spennan hjá okkur er um Alan Hevesi sem er svokallaður Comptroller en hann er nokkurs konar fjármálaráðherra borgarinnar. Hevesi er demókrati og ætti að vera öruggur, en það komst upp nýlega að hann hefur látið starfsmenn borgarinnar vinna sem eikabílstjóra fyrir eiginkonu sína undanfarin ár. Aðrir demókratar hafa auðvitað forðast hann eins og heitan eldinn en hann heldur áfram að auglýsa.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu. Ég er orðinn nokkuð viss um að demókratar nái nokkuð öruggum meirihluta í fulltrúadeildinni en öldingadeildin verður ábyggilega rosalega spennandi. Það gæti meira að segja farið þannig að báðir flokkar nái 50 sætum. Þá er það hinn heitt elskaði varaforseti, Dick Cheney sem hefur úrslitaáhrif í öldungadeildinni. Svo er það Joe Lieberman (fyrrum varaforsetaefni), sem var felldur í prófkjöri demókrata í Connecticut en virðist munu halda sæti sínu sem óháður frambjóðandi. Það væri rosalegt comeback fyrir hann að komast inn - sæti hans gæti meira að segja orðið munurinn á milli meirihluta og minnihluta fyrir fyrrverandi félaga hans í demókrataflokknum.

2.11.06

Er fiskurinn í sjónum að klárast?

Samkvæmt nýrri rannsókn, sem BBC vitnar í, verður lítið sem ekkert eftir af fiski í sjónum eftir 50 ár. Ef þetta er rétt, þá er þetta náttúrulega hræðilegt, og ef þetta er ekki rétt, þá eru þetta ekki heldur góðar fréttir fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er spurning hvort maður verði sjálfur lifandi eftir 50 ár til að geta staðfest þetta?

Assif Mandvi

Ég er sannfærður um það að the Daily Show sé langbesta sjónvarpsefnið hérna. Ég er svo hrifinn af þættinum að hann er helsta ástæða þess að við gerðumst áskrifendur að kabalsjónvarpi nýlega, en þættirnir eru því miður á Comedy Central sem næst ekki í "venjulegu" sjónvarpi. Aðalmaðurinn á bak við þáttinn (sem er skopstæling af þessum dæmigerðu CNN fréttaspjallþáttum) er stjónrandinn John Stewart. Þó svo að Stewart sé helvíti góður, eru spekúlantarnir sem gera þáttinn jafn æðislegan og hann er. Daily Show er farið að minna mann á hvernig Saturday Night Live var hér áður fyrr - þáttur sem elur af sér hvern grínistann af öðrum sem gerir það svo gott annars staðar. Helsta mætti nefna Steven Colbert og Steve Carell.

Nýlega hefur Assif Mandvi verið að gera frábæra hluti í þættinum. Til dæmis var hann með fínt innlegg um aulabrandarann hjá Kerry og bar hann saman við brandara sem Bush og hans menn hafa sagt um Íraksstríðið. Það besta sem ég hef samt séð frá honum var samt þetta hér...

Kaldhæðnin er reyndar ekki sterkasta hlið Bandaríkjamanna og maður heyrir það að áhorfendum þykir óþægilegt að hlusta á þetta. Engu að síður frábært efni. Ég hlakka til þess að sjá meira frá Mandvi.

1.11.06

Ekkifrétt vikunnar

John Kerry, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Demókrata hefur orðið fyrir heiftarlegri gagnrýni hérna fyrir brandara sem hann sagði í Kaliforníu í gær. Þar var hann, að vanada, að gagnrýna forsetann og sagði svo þetta...

"You know education, if you make the most of it, you study hard, you do your homework, and you make an effort to be smart, you can do well. If you don’t, you get stuck in Iraq."

Það er margbúið að sýna þetta í sjónvarpinu og Repúlíkanar hafa gripið tækifærið og krafist þess að Kerry biðjist afsökunar. Að það sé algerlega óásættanlegt að hann skuli gera lítið úr Bandarískum hermönnum sem eru að fórna lífi sínu fyrir þjóðina. Málið er að Kerry var ekki að tala um hermenn - hann var að tala um forsetann. Hann var að reyna að gera grín að Bush og gefa í skyn að hann væri vitlaus. Eins og svo oft vill gerast, þá eru ummælin tekin úr samhengi. Það virðist samt engu máli skipta enda eru kosningar framundan.

31.10.06

Eru hvalveiðar virkilega þess virði?

Sjávarútvegsráðherra skrifar um hvalveiðar á vísi í dag og hvers vegna íslendingar mega veiða hvali ef þeir vilja. Íslensk stjórnvöld eru komin í vafasaman félagsskap þegar þau vísa í þjóðarrétt og sjálfsákvörðunarrétt til þess að réttlæta óvinsælar aðgerðir sínar. Þetta eru sömu rök og Súdanir, Norður Kóreumenn og Kínverjar beita.

Jafnvel þó svo að veiðar á nokkrum langreyðum megi réttlæta með vísindalegum hætti og þó svo að það sé öruggt að þessar veiðar séu algerlega sjálfbærar út frá umhverfissjónarmiðum, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar veiðar skaða ímynd íslands. Ímynd skiptir máli. Yfirleitt virðast íslensk stjórvöld gera sér grein fyrir því. Hérna í USA hafa íslendigar eytt mikilli orku í að byggja upp ímynd íslands sem hreint og fagurt land sem býður upp á óspillta náttúru, ferskan fisk og besta lamabakjöt í heimi. Hver er markhópurinn sem íslendingar eru að leita til með þessari markaðssetningu? Nákvæmlega sama fólkið sem hryllir við tilhugsuninni um að drepa hvali. Það er nefnilega millistéttin í vestrænum borgarsamfélögum sem hefur efni og áhuga á því að kaupa íslenskt lamabakjöt og fara í sumarfrí til þess að skoða Gullfoss og Geysi. Þessi sama millistétt vestrænna samfélaga er uppistaðan í hópum umhverfinsverndarsinna sem mótmæla hvalveiðum harðast.

Auðvitað geta Íslendingar þrjóskast áfram og haldið áfram að drepa nokkra hvali bara vegna þess að okkur finnst við mega það. En er það skynsamlegt? Er þetta þess virði?

28.10.06

Besta kosningaauglýsingin

Kosningar í nánd og ofboðslegt magn af sjónvarpsauglýsingum sem eru annað hvort ferlega hallærislegar family values kúrekakjaftæði eða þá hatursfullar árásir og hræðsluáróður. Þessi frá Massachusets er aðeins öðruvísi. The Big Dig er svakaleg samgönguframkvæmd í Boston sem hófst 1985 og hefur kostað yfir 14.6 milljarða Dollara. Upphaflega átti þetta allt saman að kosta 2.5 milljarða. Þetta er víst eitt mesta verkfræði- og pólitískt klúður sem til er, og enn sjá menn ekki fram á nokkra lausn.

27.10.06

Kosningar

Það eru kosningar framundan hérna í Bandaríkjunm til beggja deilda þingsins. Það verður kosið um 33 af 100 sætum í öldungadeildinni (Senate) og öll 440 sætin í fulltrúadeildinni (Congress). Það bendir margt til þess að Demókratar munu ná þokkalegri kosningu og eru reyndar líklegir til þess að taka fulltrúadeildina og þeir eiga meira að segja séns á að ná meirihlutanum í öldungadeildinni. Þetta eru engar nýjar fréttir.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta allt saman eru kannski þrjú atriði sem eru öll skyld og tengd. Í fyrsta lagi er það hversu ofboðslega erfitt það er fyrir frambjóðanda að sigra stijandi þingmann, það sem menn hérna kalla "the power of incumbency". Í öðru lagi hvernig er búið að breyta kjördæmum til þess að tryggja örugga meirihluta sitjandi þingmanna og svo í þriðja lagi einkennileg og mótsagnakennd viðhorf kjósenda gagnvart þingheimi annars vegar og svo einstökum þingmönnnum hins vegar.

95% af sitjandi þingmönnum hérna halda sætum sínum á þingi. Þetta er aðallega skýrt með fyrirgreiðslupólitílk en þingmenn hérna berjast afar hart fyrir því að fá eins mikið af skattpeningum í verkefni inn í sín kjördæmi. Sitjandi þingmenn hafa auðvitað betri aðgang að fjölmiðlum og sömu leiðis betri aðgang að fjárstuðningi frá lobbyistum. Þá hafa Repúlíkanar verið afar snjallir í því að styðja þingmenn með tæpan meirihluta í sínum kjördæmum með því að tryggja þeim lykilembætti í þingnefndum þar sem þeir geta betur barist fyrir gæluverkefnum sem höfða til kjósenda. Repúblíkaninn Rick Santorum sem er senator frá Pennsylvania er gott dæmi um pólitíkus sem hefur fengið mikinn stuðning flokksins, enda standa Demókratar yfirleitt vel að vígi þar. Kerry vann til dæmis Pennsylvania í síðustu forsetakosningum.

Annað sem ráðamenn hafa gert til að auðvelda endurkjör sitjandi þingmanna er að breyta kjördæmum þannig að sitjandi þingmenn eigi meiri möguleika á að halda sæti sínu. Á ensku er þetta kallað gerrymandering. Orðið gerrymander er nefnt eftir Bandaríska pólitíkusnum Elbridge Gerry, og er blanda af eftirnafni hans og salamöndru, en mönnum þótti kjödæmið sem hann lét skapa til að tryggja sér góða kosningu, líkjast salamöndru í laginu. Sjálfur kynntist ég fyrst gerrymandering þegar ég kynnti mér sögu Norður Írlands, en þar skiptu mótmælendur borginni Derry kjördæmi, sem tryggðu mótmælendum meirhluta í borgarstjórn þrátt fyrir að kaþólikkar væru meirihluti borgarbúa. Niðurstaðan var að árið 1967 tryggðu 35% atkvæða mótmælenda 60% af borgarfulltrúm Derry. Myndin hérna sýnir hvernig Travis County (merkt með rauðu) er hluti af þremur kjördæmum (fyrir fulltrúadeildina) í Texas. Demókratar njóta miklis stuðnings í Travis County. Myndin sýnir glöggt hverning Repúblíarnar sem stjórna Texas fylki hafa klofið Travis County þannig að sýslan er hluti af þremur einkennilega löguðum kjördæmum þar sem öruggur meirihluti Repúblíkana er tryggur. Demókratar hafa sjálfir gerst sekir um svipaða hegðun annars staðar.

Það kemur það mér alltaf á óvart hveru lítið traust fólk hefur til þingheims hérna. Ég heyrði í útvarpinu í morgun að þingdeildirnar báðar njóta trausts 16% landsmanna. Það er sífellt verið að birta skoðanakannanir sem sýna að fólk bera afar lítið traust til pólitíkusa almennt og tilfinningin er sú að spillingin í Washington sé svakaleg. Á sama tíma segjast kjósendur yfirleitt vera ánægðir með sína eigin þingmenn. Það eru bara allir hinir sem eru svo slæmir. Þetta hefur sjálfsagt eitthvað með fyrirgreiðslur að gera og svo það að fólk þekkir sína menn, en þingmenn almennt eru í huga fólks óljósari - hluti af einhverju siðspilltu kerfi sem er fyrst og fremst að verja eigin hagsmuni og hagsmuni stuðningsmanna sinna.

Það sem ég er að fara með þessu er eiginlega það að þrátt fyrir miklar óvinsældir sitjandi stjórnar, klúðrið í kring um Írak, Katrínu og endalausar sögur um spillingu í Washington, þá hefur það ekki svo mikil áhrif á ákvarðanir kjósenda sem sýna "sínum mönnum" alveg ótrúlega tryggð. Það er ekki nema menn geri einhver hræðileg mistök (til dæmis George "macaca" Allen eða Joe Lieberman sem eru báðir sitjandi senatórar sem eiga ennþá þokkalega möguleika á endurkjöri) að þingmenn missi sæti sín. Þess vegna er aðal spennan í kring um frekar fá sæti sem flest eru opin, þ.e.a.s. sæti þar sem núverandi þingmaður býður sig ekki fram til endurkjörs. Þess vegna held ég að þessar kosningar hafi ekki svo mikil áhrif. Úrslitin munu líklega ekki breyta svo miklu í deildum þingsins og jafnvel þó svo að Demókratar nái að vinna aðra eða báðar deildir þingsins, þa mun það kannski helst leiða til aukins eftirlits með framkvæmdavaldinu. Og talandi um framkvæmdavaldið, þá má ekki gleyma því að forsetinn er náttúrulega með neitunarvald, sem hann mun örugglega ekki hika við að beita, nái Demókratar að vinna stórsigur. Sem sagt, ekki búast við of miklu.

13.10.06

Bear Butte

Bear Butte er fjall í Suður Dakota sem tilheyrði Sioux Indíánum áður en Evrópumenn komu til Norður Ameríku. Þetta fjall sem stendur eitt og sér á Black Hills svæðinu sem eru mest megnis sléttur, þannig að fjallið er tilkomumikið og sést víða að. Þetta fjall er heilagt land fyrir tugi Indíánaþjóða í Norður Ameríku og þangað hafa þeir farið og stunda sín trúarbrögð svo öldum skiptir. Reyndar hafa fundist fornleifar þarna sem eru næstum því 10,000 ára gamlar. Landið á sléttunum í kringum Bear Butte var tekið með valdi af frumbyggjum Ameríku á seinni hluta 19 aldar, þrátt fyrir sáttmála á milli Sioux manna og Bandaríkjamanna. Menn voru nefnilega að leita að gulli. Frumbyggjarnir voru drepnir og þeir sem eftir lfiðu voru fluttir á "reservations". Engu að síður er Bear Butte jafn heilagt landa í þeirra huga enn þann dag í dag þó svo að landið í kring sé nú allt saman einkavætt.
Einn af núverandi eigendum landsins heitir Jay Allen, bisnessmaður frá Arizona. Hann er að byggja risastóran bar fyrir mótorhjólamenn á landinu þarna. Biker bar á helgu landi Indíána. Þeir eru ósáttir við þetta og eru núna að reyna að berjast gegn þessu. Hvað myndu kaþólikkar segja um MacDonalds við innganginn í Péturskirkju, eða hvernig myndi okkur Íslendingum hafa líkað það ef Danir hefðu opnað súludansstað á Þingvöllum. "Fjörugar stelpur! Komdu og skoðaðu Almannagjá!" Þetta er jafn mikil lítilsvirðing.

Jay Allen segist hins vegar vilja sættast við Indíánana. Hann er reyndar ekki að hætta við að byggja barinn, sem á að verða einn stærsti barinn í öllum Bandaríkjunum, og mun líka hafa tónleikasvið fyrir 30.000 áhorfendur. Til þess að sýna Amerískum Indíánum virðingu hefur hann sagst ætla að láta gera rúmlega 30 metra styttu af Amerískum Indíána!

Yunus fær friðarverðlaun Nóbels

Mohammed Yunus sem stofnaði Grameen bankann í Bangladesh fær Friðarverðlaun Nóbels í ár. Þetta eru frábærar fréttir þar sem Grameen bankinn er eitt besta dæmið um vel heppnaða leið til að draga úr sárustu fátækt í heiminum, sem er að veita fátæku fólki lítil lán. Fáktækasta fólkið í heiminum (rúmlega tveir milljarðar manna), fólk sem lifir á minna en einum dollara á dag, hefur yfirleitt engan aðgan að lánum eða annars konar bankaþjónustu. Þessi hópur getur hvorki stofnað bankareikninga né fengið lán frá venjulegum bönkum. Þess vegna hafa sprottið upp stofnanir sem veita smálán (microcredit) og hafa vakið heilmikla lukku. Míkrókredit er merkilegt fyrir margar sakir, einna helst fyrir það hversu hátt endurgreiðsluhlutfallið er af lánum. Fátækt fólk er duglegra við að endurgreiða lán en ríkara fólk (endurgeiðsluhlutföllin eru einhversstaðar í kringum 98-99%). Þá hafa konur sérstaklega notið góðs af þessum smálánastofnunum. Ef ég man rétt, þá eru yfir 90% af viðskiptavinum Grameen bankans konur.

Á fyrsta ári mínu hérna í SÞ tók ég þátt í að skipuleggja alþjóðlegt ár smálána (the International Year of Microcredit) og þar kynntist ég því hversu ferlega góð hugmynd smálán eru. Þetta er nefnilega ekki gamaldags þróunaraðstoð í þeirri mynd að fólki er veitt styrkir, heldur eru þetta lán, sem fólk endurgreiðir með vöxtum. Þessi lán fara yfirleitt í það að styðja einkaframtak fátæks fólks, borga fyrir nauðsynlega heilsuþjónustu eða menntun. Aðalatriðið er að fólkið sjálft ákveður hvernig það ráðstafar fénu, frekar en búrókratar hjá SÞ eða einhverjum þróunarsamvinnustofnunum. Þar sem smálánastofnanir eru til staðar eru þau yfirleitt eini möguleikinn fyrir fólk til að fá lán, fyrir utan glæpsamlega aðila (loansharks) sem rukka svimandi háa vexti sem handrukkarar fylgja eftir.

Virkilega vel gert hjá Nóbelsnefndinni.

12.10.06

Að koma karlmönnum til læknis

Það er vel þekkt að karlmenn eru latari við að fara til læknis og hugsum almennt verr um okkur en konur gera. Fyrir þessu eru eflaust fleiri en ein ástæða, eins og hugmyndir um karlmennsku og hvernig okkur hefur verið kennt að harka hlutina af okkur, eða það að við kunnum einfaldlega ekki að tjá okkur almennilega um hvernig líður. Án þess að hafa beinlínis rannsakað það eða lesið um það, þá er ég líka handviss um að þetta hefur líka með það að gera að konum er yfirleitt snemma kennt að taka að sér umönnunarhlutverk og við karlmenn tökum þátt með því að láta mömmur, systur og eiginkonur okkar annast okkur. Ég veit ekki hvort þetta sé áð breytast en mig grunar að mín karlmenn minnar kynslóðar séu eitthvað skárri hvað þetta varðar en pabbar okkar, en við eigum langt í land með að ná konum okkar.

En hvað er til ráða? Hvernig getum við bætt þessa hegðun karlmanna og fengið þá til þess að hugsa betur um heilsu sína? New York Methodist Hospital, sem er spítalinn hérna í Park Slope er kominn með eina lausn. Það þýðir ekkert að bíða eftir því að næstu kynslóðir karlmanna fari að fatta þetta. Miklu betra bara að fá konurnar til að redda þessu.

11.10.06

Einkennileg framkoma

Ég var rétt áðan að hlusta á fréttaupptöku frá undirritun varnarsamnings Íslands við Bandaríkin, sem fram fór í dag. Þar mismælir Condoleezza Rice sig og segir "Ireland" áður en hún leiðréttir sjálfa sig. Þetta endurspeglar kannski hversu litlu máli þessi samningur skiptir Bandaríkin. Þarna voru þau stödd, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra litla ríkisins og hún mundi ekki alveg hvað það hét. Ruglaði því saman við aðra litla eyju í Atlantshafnu. Ráðherrarnir þrír höfðu reyndar komið við í gær, en þá hafði hún ekki tíma til að hitta þau. Frestaði fundinum. "Sorry guys, I´m really busy today, let´s do lunch tomorrow". Rumsfeld hitti ráðherrana ekki heldur.

Er reyndar að lesa bókina hans Bob Woodward, State of Denial sem fjallar um m.a. um aðdragandann að Íraksstríðinu, en ofboðslega virðist Rumsfeld vera óvinsæll meðal samstarfsmanna. Það er eins og nánast enginn geti unnið með honum. Til dæmis þurfti forsetinn sjálfur að skipa honum að svara símhringingum Condi, á meðan hún var öryggisráðgjafi (national security adviser). Þá er hann víst bæði skapstyrður, dónalegur og hreint út sagt leiðinlegur við fólk auk þess sem hann þarf að vera með puttana í öllu - míkrómanager. Ég er ekki hissa á því að hann hafi ekki nennt að hitta ráðherrana okkar. Telur sjálfan sig sjáfsagt hafa merkilegri hluti að gera. Hafi Woodward rétt fyrir sér, hafa ráðherrarnir okkar heldur ekki misst af neinu...

10.10.06

Nýr aðalritari

Þá er það ákveðið. Ban Ki-moon verður næsti aðalritari SÞ. Eftir því sem ég kemst næst er maðurinn afar fær diplómati og nýtur mikillar virðingar heima fyrir í S-Kóreu. Ég hef enn sem komið er ekki séð neina alvöru gagnrýni á manninn sem er bara jákvætt. Hann þykir hægverskur, lítillátur og vel gefinn og sjálfsagt fellur það ágætlega að óskum stórveldanna sem myndu sjálfsagt aldrei sætta sig við vel þekktann karismatískann leiðtoga. Ban á greinilega fáa eða enga óvini og sjálfsagt vel hæfur í starfið. Það er nokkuð augljóst að fáir utan S-Kóreu hafa haldið því fram að hann sé besti maðurinn í djobbið, en þannig virkar þetta ekki. Hann var bara eini frambjóðandinn sem enginn var á móti.

Þá hefur hann helst lýst því yfir að taka þurfi til innan SÞ, sem fellur vel að hugmyndum Bandaríkjamanna, og reyndar er ég alveg sammála. Það er löngu orðið tímabært að módernísera allt SÞ kerfið og sérstaklega höfuðstöðvarnar. Kofi Annan hefur reyndar reynt að gera heilmikið í þeim efnum, en helsta vandamálið er að aðildarríkin sjálf þurfa að komast að niðurstöðu um umbæturnar. Aðalritarinn einn og sér er afskaplega valdalítill og getur lítið gert án samþykkis Allsherjarþings, og það getur stundum verið erfitt að fá 192 aðildarríki til að verða sammála um eitt eða neitt.

Svo var rétt í þessu verið að fljúga flugvél á íbúðarhús hérna 30 blokkum fyrir norðan mann. Heyrði heilmikið í sírenum, en var á fundi þegar þetta gerðist. Svo kom heilmikil tilkynning í öryggiskerfinu um að þetta og að það væri engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur. Það er skiljanlegt að öryggisliðið vilji koma í veg fyrir að fólk paníkeri, en hvernig vita þeir það fyrir víst, 20 mínútum eftir að flugvél krassar í íbúðarhús í kílómetra fjarlægð, að það sé engin ástæða til að óttast - að allt sé í góðum málum? Þetta er eins og öryggisleiðbeiningar sem maður fær í flugvélum, un neyðarútganga og hvernig ber að haga sér ef vélin þurfi að nauðlenda í sjó. Einhversstaðar las ég að það hafi aldrei gerst, að farþegaflugvél hafi nauðlent í sjó...

En allavegana, það fór aðeins um mig þegar ég heyrði þessar fréttir um að lítil flugél hafi klesst á hús hérna á manhattan. Ég er sjálfsagt ekki einn um það.

21.9.06

Kominn til baka

Ég hef ekki skrifað hérna í talsverðan tíma. Ég ætlaði að byrja á því að skrifa eitthvað um Allsherjarþing og lætin í kringum Hugo Chavez, en það er búið að fjalla svoi mikið um þetta alls staðar að það tekur því ekki.

Ferðin til Bólivíu var merkileg. Þetta er eitt fátækasta landið í Suður Ameríku og er innilokað, hefur semsagt enga strandlengju. Tapaði aðgangi að sjó í stríði gegn Chile í kringum 1880. Landið hefur reyndar misst helming landssvæðis síns í stríðum síðan það hlaut sjálfstæði. Meirihluti landsmanna búr uppi í Andesfjöllunum, en fundurinn sem ég sótti var í stærstu borg landsins, Santa Cruz, sem er austarlega á láglendissvæðinu. Bólivía er að ganga í gegnum sögulegt tímabil núna. Fyrir ca. sjö mánuðum var frumbygginn Evo Morales kjörinn forseti og hans flokkur stjórnar nú landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem frumbyggjar komast til valda á ný í allri Ameríku síðastliðin 500 ár, frá því að Spánverjar komu.

Það kemur ekki á óvart að þetta skuli hafa gerst fyrst í Bólivíu, enda líta mikill meirihluti landsmanna á sig sem frumbyggja. Væntingarnar til Morales eru gífurlegar og að sama skapi er andstaða gömlu valdaklíkunnar svakaleg. Þetta á eftir að vera afar erfitt. Sérstaklega er mikið deilt um jarðgas, sem Morales sagðist munu þjóðnýta, en hingað til hafa Brasilísk og Spænsk fyrirtæki stjórnað allri gasframleiðslu landsins. Ég veit ekki hvernig þetta fer. Ég varð var við það í Santa Cruz, þar sem mikið af auðugu fólki af Evrópskum uppruna býr, er heiftarleg og ógeðfelld andstaða gagnvart Morales, sem bar keim af rasisma. Það er svosum ekki við öðru að búast þegar nýr hópur tekur við völdum.

Hérna í Bandaríkjunum er alltaf nóg um að vera. Í pólitíkinni hefur mikið verið fjallað um skýrsluna frá nokkrum leyniþjónustum Bandaríkjanna og niðurstöðu þeirra um að stríðið í Írak hafi orðið til þess að auka hættuna á hryðjuverkum. Nema hvað!!!??? Auðvitað verður stríð, hernám og hertaka á heilu landi til þess að fleiri vitleysingar ákveði að stunda hryðjuverk. Sérstaklega þegar rökin fyrir innrásinni í Írak standast ekki. Auðvitað þarf að taka á trúarofstækinu sem virðist fá að blómstra nánast óáreitt í Mið Austurlöndum, en það var alltaf ljóst að innrás í Írak myndi ekki leysa neitt.

Svo er hér smá dæmi um standardinn á sjónvarpsauglýsingum sem frambjóðendur til beggja deilda þingsins eru að bjóða fólki upp á. Þessi er frá repúblíkananum Vernon Robinson....

9.9.06

Til Bólivíu.

Ég er á leiðinni til Bólivíu. Fer þangað á Sunnudaginn og verð í tæplega viku þarna. Ég er að mæta á fund frumbyggja í S. Ameríku sem eru að undirbúa sig fyrir þáttöku í alþjóða ráðstefnu - World Congress on Communication for Development sem fram fer í Róm seinna í haust. Frumbyggjarnir í Suður Ameríku vildu fyrst fá einvhern úr Frumbyggjanefnd SÞ, en þar sem enginn komst, urðu þeir að sætta sig við einn starfsmann nefndarinnar, sem er ég. Þessi fundur fer fram í Santa Cruz, sem er rétt aðeins fyrir ofan sjávarmál, þannig að þar ríkir nokkurs konar frumskógarloftslag. Santa Cruz er ein ríkasta borgin í Bólivíu og ég held að hún sé líka fjölmennust. Þar er meira um evrópsk áhfrif og víst ekki mikið fyrir túrista að sjá. Reyndar er borgin skipulögð nokkuð merkilega, en hún er í hringjum. Hver hringur er búinn til úr stórum breiðgötum og miðbærinn er nátturulega í innsta hringnum. Mér skilst svo að fátækt aukist eftir því sem utar er farið í hringjunum. Það hefði verið meira spennandi að fara til höfuðborgarinnar La Paz sem er hátt uppi í fjöllunum, en maður getur varla kvartað. Ég tek náttúrulega myndavélina með.

7.9.06

Kosningabarátta

Það fer að koma að kosningum hérna og þegar er heilmikil barátta í gangi. Yfirleitt fréttir maður ekki mikið af kosningabaráttu þingmanna, nema þeirra sem eru hérna í næsta nágrenni og svo af nokkrum sem vekja sérstaka athygli, eins og Joe Lieberman eða Catherine Harris. Ég rakst svo á þessa auglýsingi fyrir tilviljun og hún er alveg æðisleg. Svona hef ég hvergi annars staðar séð. Væri ekki flott að sjá Össur Skarphéðinsson með haglabyssuna í prófkjörsslag?

6.9.06

Forca Barca

Eftir að hafa búið í Barcelona bæði sem barn og fullorðin hef ég alltaf haft taugar til borgarinnar og náttúrulega fótboltaliðsins. Reyndar dvínar áhuginn sífellt á fótboltanum þegar þetta verður meira og meira bisness og hefur sífellt minna með íþróttaandann sbr ungmennafélögin og allt það. Ensku klúbbarnir eru ekki klúbbar, FC er orðið að plc. og liðið er orðið að vörumerki.

Þess vegna er ég sérstaklega stoltur af "mínum" mönnum í Barca núna sem voru að gera samning við UNICEF. Í fyrstu fannst mér þetta reyndar ekki svo merkilegt, en svo sá ég að liðið hefur skuldbundið sig til þess að ráðstafa o.7% af hagnaði sínum til þess að vinna að þúsaldarmarkmiðum SÞ (Millennium Development Goals). Það sem er svo merkilegt við þetta, er að 0.7% er einmitt sú tala sem öll iðvnædd ríki (að Íslandi meðtöldu) hafa marg marg marg skuldbundið sig til að veita í þróunaraðstoð, en aðeins nokkur þeirra hafa staðið við það (nema Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Holland og eitt annað sem ég man ekki hvert er). Fótboltafélagið Barcelona er sem sagt að sýna í verki hversu skammarlega ríku löndin hafa staðið sig um leið og þetta er náttúrulega frábært dæmi sem aðrir gætu tekið upp... Til dæmis eitt ríkasta land í heimi miðað við höfðatölu... Ísland.

Áfram Barcelona!

kæra kæra kæra

Yfirleitt tekst manni að vera sæmilega sáttur hérna í bandarísku samfélagi, allavegana á meðan maður reynir að hugsa ekki of mikið um forsetann, Guantanamo, gífurlegan ójöfnuð og fátækt, framkomu gagnvart indjánum o.s.frv. Maður verður bara að reyna að taka þessu rólega. Annars yrði maður geðveikur. Svo les ég stundum fréttir og ég veit satt að segja ekki hvað maður á að hugsa. Það gerist oftar og oftar að ég held að Bandaríkin séu hnignandi veldi sem sé að rotna innan frá. Það er svo margt reyndar sem bendir í þá átt, og eitt þeirra er hreint út sagt geðveikin í kring um að kæra náungann.

Fyrir nokkrum dögum var Mark Morice kærður af nágranna sínum fyrir að hafa stolið bát hans. Það er reyndar rétt að Morice tók bátinn í leyfisleysi og eigandinn fékk víst aldrei bátinn í réttu ástandi til baka. Væri þetta allt og sumt, væri kannski eðlilegt að nágranninn kærði Morice. Málið er hins vegar að eigandi bátsins og Morice búa báðir í New Orleans. Morice notaði bátinn til þess að bjarga um 200 manns frá drukknun. Eigandinn var ekki heima og Morice sá sig tilneyddan til þess að "stela" þremur bátum þegar fellibylurinn Katrína rústaði New Orleans og hundruðir manna fórust. Eftir að þetta gekk yfir fór Morice til nágranna síns og lét hann vita hvað hafði gerst. Svo gerðist það seinna að nágranninn sendi Morice bréf þess efnis að tryggingafyrirtækið hafi ekki greitt nema helming upphaflegs verðs bátsins og hann mætti vinsamlegast ganga frá þessum 12 þúsund dollurum sem vantaði upp á. Morice hélt að þetta væri grín og hundsaði bréfið. Nú er nágranninn búinn að kæra hann.

Sjá frétt hér, og hér.

22.8.06

um aðlögun og þjóðerniskennd

Í kljölfar fréttanna nýlega um hóp ungra Múslima á Bretlandi sem ætluðu sér að sprengja flugvélar á leiðinni til Bandaríkjanna frá Bretlandi hafa bæði NPR og New York times verið með umfjöllun og samanburð á ungum Múslimum á Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sérstaklega eru menn hérna að velta því fyrir sér hvers vegna ungir Múslimar og innflytjendur almennt virðast vera sáttari með tilveruna í Bandaríkjunum heldur en á Bretlandi. Ég hef sjálfur velt þessu talsvert fyrir mér, ekki síst fyrr í vetur þegar óeirðirnar í París áttu sér stað. Mín kenning er sú að þjóðerniskennd Evrópumanna sé mun exklúsívari en sú Bandaríska. Tökum íslensku þjóðerniskenndina sem dæmi. Hvað er það að vera íslendingur? Er það nóg að vera með íslenskan ríkisborgararétt? Þarf maður að tala íslensku? Þarf maður að vera hvítur? Þarf maður að eiga sér "rætur" á Íslandi? Auðvitað er ekki til neitt eitt svar við þessu en við höfum flest einvherja tilfinningu fyrir því hvað það er að vera íslendingur. Það hafa líka innflytjendur sem sest hafa að hér á Íslandi og margir finna reglulega fyrir því að þeir séu ekki "alvöru" íslendingar, sama hversu mikið þeir læra íslensku og reyna að aðlagast. Stundum á þetta líka við um börn þeirra sem hafa aldrei búið annars staðar en á Íslandi. Þessir krakkar reka sig samt á það (sums staðar) að það líta ekki allir á þau sem íslendinga. Það sama á við um innflytjendur í flestum öðrum Evrópulöndum.

Hér í Bandaríkjunum er þetta öðruvísi. Bandaríkjamenn krefjast þess eins að innflytjandinn skilgreini sjálfan sig sem Bandaríkjamann, með tilheyrandi þjóðernishyggju (patriotism) og þar með er maður orðinn Bandaríkjamaður. Lýsi maður yfir hylli sinni gagnvart fánanum er maður orðinn hluti af hópnum. Bandaríkjamenn krefjast þess í raun af innflytjendum að þeir skilgreini sig sem Bandaríkjamenn líka. Annars fá þeir ekki að koma inn (auðivtað eru líka aðrar ástæður sem koma í veg fyrir að innflytjendur komist inn). Þetta er bæði harkalegra viðhorf og líka "inclusive". Í Evrópu eru heimamenn sífellt að velta fyrir sér aðlögun innflytjenda á sama tíma og þeir gefa innflytjendum ekki séns á að verða nokkru sinni "alvöru" Evrópumenn. Bandaríkjamenn kerfjast þess hins vegar að innflytjendur gerist kanar líka - annar geta þeir bara hypjað sig. Ég er ekki endilega að mæla með þessu, en það vekur athygli manns að á meðan Bandaríkjastórn hagar sér eins og hún gerir, þá hafa engir ungir Múslimar staðið fyrir mótmælum eða óeirðum að neinu marki og ekki hafa (allavega enn sem komið er) borist fréttir af "homegrown" hryðjuverkamönnum eins og við erum að sjá á Bretlandi.

3.8.06

Er einhver vafi ennþá um gróðurhúsaáhrif?

Eitt af því sem mér hefur alltaf þott merkilegt að gera, er að horfa á fólk í subway á leiðinni í vinnuna. Mannlífið hérna í NY er svo svakalega fjölbreytilegt að ég get stundum alveg gleymt mér í fólkskoðun. Á meðan ég var að þessu, lét ég hugann reika og mér var hugsað til þess hversu ferlega heitt öllum er hérna. Ég rifjaði upp þegar ég heyrði fyrst um gróðurhúsaáhrif og hitnun jarðarinnar og hvernig maður reyndi að ímynda sér hvernig það væri að upplifa gróðurhúsaáhrifin beint. Ég man hvernig maður ímyndaði sér eyðimerkur og hitabylgjur með tilheyrandi uppskerubrestum og dauða. Ætli ég hafi ekki verið svona 13 ára eða svo þegar maður fór fyrst að velta þessu fyrir sér. Auðvitað var þetta voða dramatískt í huga mínum. Þetta var allt frekar biblíukennt hjá manni. Syndaflóð og plágur o.s.frv...

Ég þarf ekki lengur að ímynda mér hvernig þetta er. Það er heitt, rakt og stundum ansi vindasamt. Þessa dagana fellur hvert hitametið á eftir öðru um öll bandaríkin. Yfir 50 borgir í USA settu nýtt hitamet. Heitasta sumar EVER. Svo sagði Al Gore okkur í myndinni sinni að af 21 heitustu árum síðan mælingar hófust, hafa 20 þeirra átt sér stað á s.l. 25 árum. Svipaða sögu má segja frá Evrópu. Fréttavefur BBC í dag segir:
July the hottest month on record for UK
Gleymum svo ekki öllum fellibyljunum sem verða sífellt algengari vegna hækkandi sjávarhita. Spike Lee er nýbúinn með fjögurra þátta heimildamynd um Katrínu eyðilegginguna í New Orleans, en þar fjallar hann m.a. um stöðu fátæks svarts fólks og hversu litlu máli líf þeirra skiptir. Þrátt fyrir eyðilegginguna og yfir 1800 dauðsföll hefur þetta engin áhrif á umhverfisstefnu stjórnvalda. Hvað svo með evrópu? Muna menn eftir hitabylgjunni 2003 og hversu margir dóu þá? Ég verð að viðurkenna að ég hafði gleymt því hveru margir dóu, en ég leitaði að þessu áðan. Það er áætlað að 35,000 manns hafi látist sumarið 2003 í Evrópu vegna hitabylgjunnar!

Hvað þarf eiginlega til? Hveru margir þurfa að farast áður en við förum að breyta hegðun okkar? Hversu heitt þarf eiginlega að verða hérna?

31.7.06

Sjónvarpsgláp

Við hjónin erum áskrifendur að netflix, sem virkar þannig að við leigjum dvd í gegnum póstinn. Við borgum fast verð í hverjum mánuði og erum því alltaf með eitthvað í gangi. Þetta er fín leið til að horfa á sjónvarpsþætti sem við höfum misst af, eins og Six Feet Under eða Sopranos, sem eru báðir framleiddir af HBO sem við náum ekki.

Þessa dagana erum við að horfa á þriðja síson af West Wing, sem eru um forseta Bandaríkjanna, nánustu aðstoðarmenn hans og þau málefni sem berast á borð þeirra. Þessir þættir fara í taugarnar á mörgum Evrópubúum sem finnst allt of mikið af Amerískri þjóðernishyggju og hvernig bandaríska framkvæmdavaldið er persenterað svo hreint og tiltölulega saklaust. Aðrir kvarta yfir því hvernig Repúblíkanar eru gerðir næstum því alltaf að vondu köllunum. Þessir þættir fara í taugarnar á mörgum og þar var ég ekkert undanskilinn. Samt fannst mér, og finnst enn gaman af því að horfa á pólitískt drama.

Sérstaklega fór ég að hafa gaman að þeim, þegar ég las viðtal við framleiðanda þáttanna, sem segir að fyrst og fremst séu þættirnir tilraun til þess að ímynda sér hvernig Bandaríkjunum gæti verið stjórnað bara ef fólk kysi menn sem eru vel menntaðir og vilja vinna af heilindum við að þjóna almenningi. Þetta eru svona "What if...?" þættir. Hvernig gæti heimurinn og Bandarísk stjórnvöld verið ef núverandi valdamenn hefðu ekki komist til valda. Það er ekki endilega verið að fegra Bandarísk stjórnvöld, heldur er þetta hrein og klár ádeila.

Hinir þættirnir sem við höfum verið að horfa á eru líka hálfgerðir "What if...?" þættir, en af allt öðrum toga. Þetta er Curb Your Enthusiasm, með Larry David í aðalhlutverki. Hann leikur sjálfan sig, en hann maðurinn á bak við Seinfeld þættina. Hann er núna forríkur og býr í Los Angeles, ásamt afar þolinmóðri eiginkonu. Þættirnir snúast allir í kring um það hversu leiðinglegur og klaufalegur Larry getur verið. Honum tekst undantekningalust að móðga nánast alla sem á vegi hans verða, og út á það ganga þættirnir. Einhversstaðar heyrði ég viðtal við Larry David, þar sem hann lýsir þessu þannig að hann í þáttunum segir upphátt það sem hann sjálfur myndi aldrei þora að segja í alvörunni. Einn af uppáhaldsþáttunum mínum í þessari seríu er þegar Larry David býður tveimur Survivors í heimsókn (hann er að reyna að gera Rabbía greiða). Annar var þáttakandi í raunveruleikasjónvarpi, en hinn var Gyðingur sem lifði af helförina. Þeir enda með því að rífast um það hvor Survivor-inn hafi gengið í gegnum erfiðari lífsreynslu.

Allt ber þetta með sér afar raunverulegan blæ, enda er David, auk margra annarra leikara í þáttunum að leika sjálfa sig, eða réttara sagt útgáfu af sjálfum sér. Úrkoman er yfirleitt óttalega vandræðaleg og ferlega fyndin. Minnir mann helst á The Office sem ég held að séu fyndnustu sjónvarpsþættir sem nokkru sinni hafa verið framleiddir. Á það sameginlegt með Office að yfirleitt eru það karlmenn sem hafa gaman að þessu á meðan konur sem horfa á verða yfirleitt pirraðar.

30.7.06

Það sem gerir internetið svo merkilegt

Í helgarútgáfu Wall Street Journal er grein um fólk sem er að meika það á netinu. Þetta eru ljósmyndarar, kvikymndagerðarmenn, bloggarar eða tónlistarmenn sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa náð frama eingpöngu í krafti vinsælda sinna á netinu. Þetta er fólk sem, þegar það byrjaði hefði líklega aldrei átt möguleika á að koma sér á framfæri með gamaldags aðferðunum. Núna getur óþekkt hljómsveit orðið vinsæl í gegnum myspace, áhugaljósmyndari fengið samning í krafti flickr síðunnar sinnar og kvikmyndargerðarmenn sýnt umheiminum stuttmyndina sem ekkert kvikmyndahús myndi nokkru sinni sýna.

Það sem mér finnst svo flott við þetta er hverning tæknin hefur auðveldað fólki að gera hlutina sjálft. Tæknin hefur fært þetta allt nær okkur. Það kostar orðið sáralítinn pening að framleiða stuttmynd eða plötu. Svo er heill hellingur af vefsvæðum þar sem fólk hefur möguleika á að koma vinnu sinni áleiðis. Stundum eru undirtektirnar ótrúlegar. Sem dæmi nefnir WSJ, íslenska ljósmyndarann, Rebekku sem er með eina af vinsælustu síðunum á flickr. Samkvæmt greininni hefur Toyota beðið hana um að taka myndir fyrir sig. Myndin sem fylgir færslunni er "stolin" af hennar síðu. Annað svona dæmi er hljómsveitin Clap Your Hands Say Yeah, sem framleiddu og gáfu sjálfir út plötuna sína, kynntu hana á myspace og urðu svo vinsælir í kjölfar þess að pitchforkmedia og fleiri vefrit gáfu þeim góða dóma.

Vonandi er þetta bara rétt byrjunin.

28.7.06

Nýr aðalritari SÞ (frh.)

Fyrr í vikunni fjallaði ég aðeins um aðalritara Sameinuðu Þjóðanna og umræður í Öryggisráðinu um arftaka Kofi Annan, sem lætur af störfum um næstu áramót.

Steve Colbert, sem er einn af bestu grínistum hér í vesturheimi ræddi um sama mál nýlega, en hann er með athyglisverða uppástungu. Colbert sem starfaði um skeið í hinum frábæra þætti The Daily Show, er nú kominn með sinn eigin þátt, The Colbert Report.

Fáfræði

Helmingur Bandaríkjamanna trúir því að Írakar hafi haft gereyðingarvopn þegar Íraksstríðið hófst á meðan 64% telja að það hafi verið sterk tengsl á milli Saddam Hussein og Al Qaeda. Þetta kemur fram í The Harris Poll sem birtist í síðustu viku. Þá segja 76% aðspurðra að Írakar hafi það betra núna en undir stjórn Husseins.

Hvernig er þetta hægt?

Flestir þeir útlendingar sem ég þekki hérna kvarta mikið undan Bandarískum fjölmiðlum og segjast hafa haft miklu betri aðgang að upplýsingum í heimalandi sínu, að fréttir hérna séu slæmar, hlutdrægar og fjalli um lítið annað en Bandaríkjamenn í stríði (erlendar fréttir) og glæpi (local fréttir). Ég held satt að fólk sé þá aðallega að tala um sjónvarpsfréttir hérna, sem eru vissulega afar takmarkaðar. Að maður minnist ekki á miðla eins og Fox News! Aftur á móti fer fram ansi góð blaðamennska á stóru dagblöðunum, eins og New York Times, Washington Post, Wall Street Journal eða LA Times. Til viðbótar er National Public Radio (sem fær bæði opinbert fé og frjáls framlög) þrælgóður fréttamiðill. Ég hlusta til dæmis alltaf á NPR á morgnana. Svo er auðvitað fullt af fínum Bandarískum netmiðlum.

Því miður, fylgjast allt of fáir með þesum miðlum og margir treysta á menn eins og Rush Limbaugh eða Bill O´Reilly til þess að fræðast um hvað er að gerast, á meðan stóru sjónvarpsfréttastofur NBC, CBS og ABC hafa verið að draga saman seglin. Risarnir þrír hafa misst áhorfendur til cable sjónvarpsstöðva sem hefur leitt til þess að fréttamesnska þeirra stjórnast meira af því að höfða til áhorfenda en að miðla upplýsingum. Aðalatriðið er að ná auglýsingatekjur - annars fara menn á hausinn. Ted Koppel, fyrrverandi fréttamaður á ABC hefur talsvert fjallað um hnignun sjónvarpsfrétta. Þetta sagði hann til dæmis í pistli sem birtist í New York Times fyrir ekki svo löngu síðan.

When the Federal Communications Commission was still perceived to have teeth ... network owners nurtured their news divisions, encouraged them to tackle serious issues, cultivated them as shields to be brandished before Congressional committees whenever questions were raised about the quality of entertainment programs and the vast sums earned by those programs...

The goal for the traditional broadcast networks now is to identify those segments of the audience considered most desirable by the advertising community and then to cater to them. Most television news programs are therefore designed to satisfy the perceived appetites of our audiences...


Indeed, in television news these days, the programs are being shaped to attract, most particularly, 18-to-34-year-old viewers. They, in turn, are presumed to be partly brain-dead -- though not so insensible as to be unmoved by the blandishments of sponsors...


No television news executive is likely to acknowledge indifference to major events overseas or in our nation's capital, but he may, on occasion, concede that the viewers don't care, and therein lies the essential malignancy.

Til viðbótar þá virðast féttamenn oft telja sig þurfa að gera grein fyrir "báðum hliðum málsins" þar sem staðreyndum er stundum gert janf hátt undir höfði og tilhæfulausum fullyrðingum. Þetta er til dæmis galdurinn á bak við áhrif Fox News, en slagorð þeirra er "Fair and Balanced". Þannig sjá áhorfendur þeirra, til dæmis bæði viðtöl við fólk sem segir að Hussein hafi verið í slagtogi með Al Qaeda og svo í öðrum sem segja að ekkert hafi komið fram sem styðji þá fullyrðingu. Að lokum endurtekur þáttarstjórnandinn alltaf sömu klisjuna "We Report. You Decide."

Niðurstöður þessarar könnunar hér að ofan koma því miður ekki mikið á ovart.

27.7.06

Jóga mottur

Það var fínn dagur hjá Catherine í dag, en á hverjum fimmtudegi kemur Thursday Styles hlutinn af New York Times, þar sem hún vinnur. Hún heldur utan um Fitness hlutann. Það sem hún gerir er að koma með hugmyndir um greinar (sem krefst mikillar vinnu, yfirleitt), ritstýra blaðamanninum sem skrifar greinina, og sjá um að allt sé eins og það eigi að vera. Þá skrifar hún líka greinar af og til.
Í dag kom út grein á hennar vegum um jógamottur í æfingasölum og hversu skítugar þessar mottur verða og hættuna á því að þær beri smit á milli berfættra heilsudýrkenda sem stunda jóga. Þessi grein er nú vinsælasta greinin á nytimes síðunni þannig að Catherine er og má vera stolt. Ég er auðvitað stoltur af henni líka. Ég hefði bara viljað að hún hefði skrifað greinina sjálf, enda var þetta hennar eigin hugmynd. Það hefði hjálpað henni að skapa sér enn frekar nafn í blaðamannheiminum hérna. Henni gengur samt prýðilega.

Djöfull hefði maður átt að kaupa sér hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða jógamottur, því í kjölfar þessarar greinar er alveg pottþétt að annar hver jóga iðkandi í USA mun kaupa sér sína eigin mottu. Ég segi þetta í gríni náttúrulega. Maður á ekki að notfæra sér slíka aðstöðu. Held líka að það sé ábyggilega eitthvað í siðareglum blaðamanna sem bannar slíka tegund af innherjaviðskiptum.

25.7.06

Nýr aðalritari SÞ

Kofi Annan lætur af störfum sem aðalritari Sameinuðu Þjóðanna á þessu ári eftir að seinna kjörtímabili hans lýkur um næstu áramót. Hann var lengi vel nokkuð vel liðinn en hefur undanfarin 2-3 ár sætt talsverðri gagnrýni, ekki síst frá Bandaríkjamönnum. Ástæður þess eru margar og vel þekktar. Ég ætla ekki að fara yfir feril hans hérna, enda skortir mig algerlega yfirsýn og reynslu til þess. Ég get hins vegar sagt það að þessi síðustu tvö ár hafa ekki bara verið erfið fyrir æsta starfsmann SÞ, heldur einnig fyrir stóran hluta starfsmanna hérna. Andrúmsloftið hérna er alls ekki nógu gott. Það vita það allir að stofnunin þarfnast verulegra umbóta og fyrirhugaðar umbætur munu ráða miklu um hver það verður sem tekur við af Annan.

Einmitt þessa dagana er lokasprettur hinnar einkennilegu kosningabáráttu um næsta aðalritara að fara fram, og það eru fjórir menn (allt karlmenn auðvitað!) í framboði. Á pappírnum er það afar einfalt hvernig valið fer fram. Öryggisráðið kemur sér saman um að mæla með einni manneskju sem Allsherjarþing kýs svo um. Í reynd er þetta afar flókið ferli sem virðist fara að mestu leyti á bak við tjöldin, þar sem þau fimm ríki sem fara með neitunarvald í Öryggisráðinu stjórna ferðinni.

Asíumenn gera tilkall til næsta aðalritara og allir þeir fjórir sem hafa verið formlega tilnefndir eru þaðan, en þeir eru Ban Ji Moon (S-Kórea), Jayantha Dhanapala (Sri Lanka), Surakiart Sathirathai (Tæland) og Shashi Tharoor (Indland). Síðustu aðalritarar hafa verið frá Afríku (Annan, Boutros Ghali) og S-Ameríku (de Cuellar), og eini Asíumaðurinn sem gengt hefur embættinu er U Thant en það eru 35 ár síðan hann læt af störfum. Þess vegna segja Asíumenn að eðlilegt sé að næsti aðalritari komi þaðan. Til þessa hafa önnur aðildarríki ekki mótmælt þessu, þó svo að margir lýsi því yfir að réttast sé að velja til starfsins besta manninn eða konuna óviðkomandi upprunalandi.

Það er nú ekki líklegt að Allsherjarþing fari að velja aðalritara SÞ óviðkomandi upprunalandi, eða bara út frá hæfni. Til dæmis er hefð fyrir því að aðalritarinn sé ekki frá neinu af þeim fimm ríkjum sem fara með neituarvald í öruyggisráðinu. Þess vegna koma til dæmis Bill Clinton og Tony Blair varla til greina, þó svo að oft sé minnst á þá, sérstaklega þann fyrrnefnda. Reyndar hafa allir aðalritarar til þessa komið frá frekar smáum og valdalitlum ríkjum, sem engum stafar veruleg ógn af. Þess vegna er til dæmis ólíklegt að næsti aðalritari muni koma frá Indlandi eða Pakistan.

Nú í vikunni fór fram hálfgerð vinsældarkosning í Öryggisráðinu um þessa fjóra menn sem eru í framboði. Öll 15 ríkin í Öruggisráðinu gáfu til kynna hvort þau hefðu jákvæða, neikvæða eða hlutlausa afstöðu gagnvart hverjum frambjóðanda og þar kom hinn Kóreski Ban best út. Tharoor kom einnig vel út, en hinir tveir munu þurfa að endurmeta stöðu sína. Annars má fastlega búast við því að ný nöfn munu bætast inn í myndina á næstunni. Sjálfur myndi ég veðja á núverandi framkvæmdastjóra Þróunaráætlunar SÞ, Kemal Dervis í djobbið. Hann er tyrkneskur, vil liðinn og það er margt sem mælir með því að fá mann sem þekkir vel til Mið Austurlanda. Það er einmitt þannig sem Tyrkir presentera sig oft í alþjóða samstarfi - sem nokkurs konar brú á milli Vesturlanda og Austulanda enda er margt til í því. Sjáum til.

Hér eru svo að lokum tvær síður sem fjalla um þetta mál.
Who will be the next UN Secretary General?
Chapter 15

21.7.06

Föstudagsfílingur

Það er ekki oft sem ég verð eirðarlaus hérna í vinnunni og langar bara beint heim. Nenni ekki að vinna. Get ekki beðið eftir helginni. Yfirleitt hef ég það mikið að gera að ég er ekkert að flýta mér heim eða finna fyrir eirðarleysi. Núna líður mér eins og ég sé aftur kominn í skólann og get ekki beðið eftir því að skólinn sé búinn. Það er að koma helgi. Reyndar byrjar þetta ekkert allt of vel. Hér eru þrumur og eldingar og helli helli demba. Þetta þrumuveður hefur staðið yfir núna í þrjá tíma og virðist ekkert ætla að hætta.

Einn sá allra latasti hérna á skrifstofunni var að labba hérna fram hjá. Hann lætur rigninguna ekki stoppa sig. Ég sver það, hann fer alltaf heim á sama tíma. Það er eins og hann hafi ekkert að gera og fari bara heim þegar hann er búinn að uppfylla kröfur um lágmarks viðveru hérna. Mig grunar reyndar að hann geri reyndar andskotann ekki neitt, fyrir utan smá vinnu sem þarf að sinna á háannatíma. Meira að segja þá, lætur hann aðra um að vinna fyrir sig. Þá er alltaf lokað inn á skrifstofuna hjá honum. Alltaf. Þegar starfsólk hérna kjaftar saman, þá koma alltaf upp einhverjar sögur um svona lið, enda er dágóður slatti af fólki hérna sem er á þessu róli. Þetta fólk er kallað "deadwood" hérna og eitt af mikilvægustu málefnunum í umbótunum á SÞ er einmitt að finna leiðir til að losa stofnunina við þessa starfsmenn sem eru ekkert nema byrðar. Meira um þetta síðar.

Katla er að koma í heimsókn og ég hlakka til þess að sýna henni borgina. Góða helgi.

20.7.06

Öfgar

Alveg er það ömurlegt sem er að gerast í Líbanon og Ísrael þessa dagana. Eins og við er að búast er almennur og mikill stuðningur við Ísraelsmenn hérna í Bandaríkjunum. Vissulega birtast fréttir af eyðileggingunni í Líbanon, en það er eins þessar sprengjuárásir þyki sjálfsagðar og eðlilegar. Það eina sem nálgast gagnrýni á Ísraela eru spurningar um hvort spregjárásirnar séu óhóflega harkaleg viðbrögð árásum Hezbollah. New York Times birtu til dæmis grein undir fyrirsögninni "With Israeli Use of Force, Debate Over Proportion". Þar gekk blaðið ekki lengra en svo en að segja frá því að deilt væri um það hvort árásir Ísraela á Líbani væru úr samhengi við árásir Hezbollah. Að Ísraelar sýni of mikla hörku. Stuðningsmenn Ísraela benda réttilega á að það sé út í hött að velta sér upp úr slíkum samaburði. Það sé ekki hægt að krefjast þess að Ísraelar verji sig og borgara sína í einhverju hernaðarlegu samhengi við árásir Hezbollah. Það sé eðlilegt að Ísraelsk stjórnvöld beiti öllum brögðum til að vernda Ísraelska borgara. Ekki ætla ég að dæma um það, enda hef ég aldrei orðið fyrir sprengjuárás.

Hins vegar saknar maður einnar grundvallarspurningar í umræðunni. Í stað þess að velta því fyrir sér hvort Ísraelar hafi rétt á því að demba sprengjum yfir Líbanon, eða hvort sprengjurnar séu of margar, mætti velta því fyrir sér hvort það sé yfirleitt skynsamlegt að gera það. Hverjum gagnast slíkar árásir? Hver hefur hag af þessari eyðileggingu? Það er augljóst að þetta þjónar ekki hagsmunum Líbansks almennings. Ég efa það líka að Ísraelskur almenningur muni njóta frekari öryggis í kjölfar þessara árása, þar sem þessi átök munu líklega leiða til enn frekari árása hryðjuverkamanna innan Ísrael. Einhvernveginn held ég að fréttamyndir af Beirut þar sem heilu hverfin eru í rúst, hundruðir manna fallnir og yfir hálf milljón manna á flótta gætu leitt til þess að enn fleiri bætist við í hópa íslamskra öfgamanna. Sprengjurásirnar hafa víst þann tilgang að uppræta Hezbollah, en gamaldagas hernaðaraðgerðir eins og loftárásir vikra sjaldan gegn skæruliðum. Líkelga var þetta nákvæmlega tilgnagur Hezbollah manna. Þeir virðast hafa verið að fiska eftir þessum hörðu viðbrögðum frá Ísraelsstjórn. Það eru fyrst og fermst almennir borgarar sem þjást. Að sama sakpi eru það líklega öfgamenn innan Ísrael sem hagnast mest á þessum ósköpum (ásamt íslömskum öfgamönnum um víða veröld). Til dæmis geta landnemar á Vesturbakkanum geta nú andað léttar, enda eru hverfandi líkur á að samið verði Palestínumenn um herteknu svæðin á næstunni. Það verða sjálfsagt engir samningar gerðir á meðan Hamas er í stjórn Þegar átök brjótast út eru það oftast öfgahópar beggja megin sem hagnast hvað mest á meðan hófsamar raddir heyrast varla. Þetta er ömurlegt ástand.

18.7.06

Hot hot hot

Ferlega er heitt hérna. Þriðja daginn í röð er yfir 95 stiga hiti á farenheit (um og yfir 35 á celsíus kvarðanum). Metið í New York borg er víst 101, þannig að það verður ekki mikið heitara hérna. Til viðbótar er rakinn 45-50%. Þegar ég fór út í hádeginu áðan kom ég drullusveittur til baka og þá er manni náttúrulega kalt í helvítis loftkælingunni í lobbyinu. Sem betur fer er loftkælingin inni á skrifstofunni hérna ekki keyrð í botni eins og gert er á flestum vinnustöðum og byggingum almennt. Já, þetta með Bandaríkjamenn og loftkælingu er eitthvað sem ég á afar erfitt með að átta mig á. Auðvitað er loftkæling nauðsynleg á dögum eins og í dag, en þetta er bara svo öfgakennt hérna.

Ég hef ennþá kynnst neinni manneskju sem getur skýrt það fyrir mér hvers vegna svo margir staðir heyra loftkælinguna af þvílíku magni að fólki verður skítkalt innanhúss. Ekki er þetta bara óþægilegt, heldur er þetta rándýrt. 14-16% af allri raforku landsins á hverju ári fer í að kæla loft. Rafmagnsreikningurinn heima hjá okkur tvöfaldaðist frá Maí til Júní. Ég kenni Önnu, herbergisfélaga okkar aðallega um, en hún er alltaf með þetta í gangi - alla nóttina, þannig að herbergið hennar og stofan er rétt fyrir ofan frostmark á hverjum morgni! Auðvitað er ég að ýkja aðeins, en loftkælingaráráttan er hrein og klár geðveiki og er gífurleg sóun á orku, að maður minnist ekki á umhverfisáhrifin.

Að lokum ætti maður að bæta því við að það er búið að opna yfir 300 kælistöðvar í skólum og opinberum byggingum fyrir fólk sem ekki hefur loftkælingu heima hjá sér. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að (sérstaklega eldra) fólk hreinlega deyji úr hita. Þá þurfti að loka einni hraðbrautinni í gær á Long Island vegna þess að malbikið gaf sig í hitanum. Gatan bókstaflega bráðnaði!

Þess skal svo getið að myndinni sem fylgir þessari færslu "stal" ég af nytimes vefsíðunni. Það er ekki óalgengt að fólk taki sig til og skrúfi frá brunahönum hér í borg.

15.7.06

Svaðilför í suðri

Þá erum við nýkomin til baka frá hinu fallega fylki Virginia. Þetta er eitt gróðursælasta land sem ég hef nokkru sinni séð. Þarna er heill hellingur af vínökrum en annars er Virgina þekktast fyrir tóbakframleiðslu, skinku og nálægð við Washington D.C. Þarna átti Thomas Jefferson til dæmis heima. Reyndar voru fjórir af fyrstu fimm forsetum Bandaríkjanna frá Virginia. Ókei - Virginia er sem sagt fallegt fylki og þar var gaman að koma. Tilgangur ferðarinnar hins vegar að ganga á fjöll í Shenandoah þjóðgarðinum og heimsækja Gwen (vinkonu Catherine), eiginmann hennar, Peter (sem m.a. rekur þessa vefsíðu) og dóttur þeirra, Annick. Það var æðislega fínt að heimsækja þau í sveitasælu suðurríkjanna, sjá nýfædda kálfa í túnunum og spila tennis á bænum (bóndahjónin sem þau leigja hjá eiga þennan fína tennisvöll!). Þetta var sem sagt voðalega fín heimsókn. Við hjónin fórum þangað ásamt Lindu Fan vinkonu okkar en Preston maðurinn hennar komst ekki með vegna vinnu. Þau eru bæði læknar og eiga erfitt með að láta orlof sín stemma saman.

Ferðin til Shenandoah var ekki alveg jafn sæt og fín. Reynar byrjaði þetta ágætlega. Við ákváðum senmma hvaða leið við ætluðum að ganga, ráðfærðum okkur við þjóðgarðsvörð og fundum göngustíginn auðveldlega. Vegurinn í gegnum garðinn er meðfram heilmiklum hryggi þannig að leiðin byrjaði með því að ganga niður í dal og svo aftur upp á annan hrygg hinum megin í dalnum. Eftir rúmlega þriggja klst. göngu vorum við búin að ganga í drjúgan tíma á hryggnum og farin að nálgast fyrstsa "toppinn" af þremur og við fórum að byrja að skyggnast eftir hugsanlegum tjaldstæðum. Það var ekki svo auðvelt að finna tjaldstæði þar sem hrygurinn var það mjór að hann bauð ekki upp á mikið pláss fyrir tjöld. Auk þess var skógurinn ansi þéttur þarna. Við héldum göngu okkar áfram og fórum að sjá nokkrum sinnum stóran svartan skít sem minnti mig kannski helst á blöndu af gæsaskít (skíturinn var svartblár) og hrossataði. Við komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri bjarnarskítur.

Skömmu síðar sáum við bjarndýrið þar sem það var í gögnustígnum í ca. 20 metra fjarlægð að leita sér að "blackberries". Við brugðumst rólega við, náðum í potta og bolla og glömruðum heilmikið þannig að björninn varð okkar var og fór í burtu. Við sáum ekki meira til hans. Rúmum klukkutíma síðar fundum við loks smá svæði þar sem hægt var að koma upp tjöldum í skóginum, í 10 metra fjarlægð frá göngustígnum. Við pössuðum okkur á því að elda í tæplega 100 metra fjarlægð frá tjaldstæðinu og að geyma matinn (hangandi í trjágrein) á öðrum stað langt frá tjaldstæðinu til að tryggja að engin lykt myndi laða birni að okkur sofandi í tjöldunum. Við gerðum þetta allt saman samkvæmt ströngustu reglum enda vissum við að birnir væru þarna á kreiki.

Við Catherine sváfum í einu tjaldi og Linda í öðru við hlið okkar. Veðrið var hlýtt og rakt þannig að við settum ekki upp himna á tjöldin þannig að við fengum smá golu inn í tjöldin og heyrðum afar vel í vhoru öðru - og svo náttúrulega skóginum. Þar sem við höfðum gengið ansi greitt í hitanum og vorum öll orðin þreytt, þá vorum við öll fljót að sofna. Skömmu eftir að ég sofnaði þá fór ég að heyra hljóð, eins og maður eða stór skepna gengi meðfram stígnum. Hljóðið var skýrt og greinilegt og það nálgaðist ótt. Ég var hins vegar ekki alveg viss hvort mig væri að dreyma eða ekki og það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því að mig var svo sannarlega ekki að dreyma og fótsporin voru orðin djöfull nálægt tjöldunum (ég sá ekki út, en ég giska á svona 3 metra fjarlægð frá Lindu). Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og það hafi tekið mig allt of langan tíma til að átta mig á því og viðurkenna það sem var svo augljóst - björninn var kominn alveg upp að tjöldunum!

Catherine var þá ennþá sofandi og ég vakti hana. Strax og ég byrajði að vekja hana spurði Linda mig hvort heyrði í skepnunni fyrir utan tjaldið. Hún hafði þá gengið í gegnum sama hugsanaferlið og ég. Í fyrstu vorum við ekki alveg viss um hvernig við ættum að bregðast við. Ég vissi vel hvað á að gera þegar maður mætir björnum á göngu, en ég hafði aldrei heyrt neitt um það hvernig maður á að bregðast við þegar birnir koma inn á tjaldstæði til manns. Við ákváðum að hafa uppi heilmikinn hávaða og hrópuðum, kölluðum og sungum næstu mínúturnar. Á meðan við görguðum heyrðum við vitaskuld ekkert í birninum þannig að við vissum ekki hvort köll okkar bæru þann árangur að hræða skepnuna í burtu. Við hættum að kalla og hlustuðum aftur.

Þá heyrðum við í birninum ganga hálfan hring í kringum taldstæðið og hann nálgaðist okkur að neðan. Þá vorum við öll orðin hrædd. Ég sá fyrir mér að hann myndi ráðast inn í tjald okkar. Ég hélt fast utan um Catherine með annarri hendinni og í hinni hélt ég á vasahnífi. Ég átti alveg eins von á að sjá klærnar á birninum rífa tjaldið í sundur. Við hugsuðum öll það sama: "Hvern andskotann er ég að gera hérna? Af hverju er ég ekki frekar heima í þægindum og öryggi?". Sem betur fer ákvað björninn að halda áfram leið sinni niður brekkuna og við önduðum aðeins léttar. Hjartað sló samt áfram afar hratt.

Tuttugu mínútum síðar kom björninn aftur og þá fyrst urðum við virkilega hrædd. Björninn hafði þá væntanlega fundið kvöldmatarplássið okkar, fundið lyktina þar og ætlað sér að finna uppsprettuna. Við hrópuðum og kölluðum enn meira en síðast. Hótuðum birninum öllum andskotanum og sögðum meira að segja lélega brandara. Hafi ég verið hræddur áður, þá var ég dauðskelkaður í þetta skiptið. Okkur hafði greinilega ekki tekist að hræða skepnuna á brott. Allir pottar og önnur tól til að búa til hávaða héngu upp í trjágrein langt í burtu ásamt matnum okkar. Við vorum ein uppi á fjalli og engin leið til að kalla á hjálp eða finna sér felustað. Við gátum ekkert gert nema hrópað og vonast eftir því besta. Djöfull var maður eitthvað máttlaust þarna. Ég mun seint gleyma þessari nótt. Auðvitað fór björninn burtu að lokum og engum varð meint af. Við áttum samt erfitt með svefn það sem eftir lifði nætur.

Catherine segist ekki munu fara aftur í útilegu á bjarnarslóðir aftur. Ætli við förum ekki næst til Þórsmerkur...

7.7.06

Á leið til Shenandoah

Við ætlum í stuttan vikutúr til Virgina að ganga á fjöll og kynnast menningu innfæddra. Ég get ekki sagt að ég þekki mikið til suðurríkjanna hérna. Maður er náttúrulega uppfullur af fordómum gagnvart þeim sem þar búa, en ég hlýt að geta haft stórn á sjálfum mér og notið þess að vera í fríi. Reyndar er ég ekki viss um að þetta séu fordómar í mér. Það voru nú einu sinni suðurríkin sem börðust fyrir "rétti" sínum til að þræla og enn þann dag í dag eru afturhaldsöflin ríkjandi í þessum hluta landsins. En úr því ég gat látið ér líða vel innan um hatrið og ofstopann í Belfast, þá hlýt ég að finna fullt af hlutum sem eru fínir við suðurríkjamenninguna. Getur ekki annað verið. Svo er maður að þessu til að komast út úr stórborginni í náttúru, og Shenandoah á að vera fallegur garður. Þetta er áframhald af þeirri ákvörðun minni að prófa allavegana einn nýjan þjóðgarð á hverju ári á meðan ég bý hérna. Ég skelli inn lýsingu af garðinum og ferðinni eftir rúma viku þegar ég er kominn heim aftur til Brooklyn.

6.7.06

Trú og stjórnmál

Í dag unnu vitleysingar í New York sigur fyrir dómstólum þegar æðsti réttur NY fylkis komst að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá NY fylkis tryggi ekki endilega samkynhneigðum rétt til þess að giftast. Þess vegna er löggjafarvaldinu hérna heimilt að skilgreina hjúskap sem eingöngu á milli karmanns og konu. Ekki veit ég hvort það er sem fer meira í taugarnar á mér - fordómarnir gagnvart samkynheigðum eða það hvernig repúblíkanar beita þessu máli fyrir sér til þess að höfða til trúarofstækismanna hérna í þeirri von að fá atkvæði þeirra í kosningum í haust.

Það fara fram afar mikilvægar kosningar í haust og það er meira að segja dálítill möguleiki á því að repúblíkanara missi meirihluta sinn bæði í Congress og Senate (nenni ekki að þýða þetta). Sá möguleiki er reyndar ekki mikill, en samt nógu mikill til þess að gera stjórnmálin hérna spennandi á næstunni. Þetta er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að forsetinn hefur aldrei verið jafn óvinsæll og einmitt núna.

Hvernig bregðast þá ráðamenn við? Hlusta þeir á fólk sem er ósátt með stríðið í Írak, njósnir á borgurum innanlands, stanslausa spillingu í Washington DC, eða ömurlegt ástand í New Orleans. Ó nei. Þeir reyna bara að höfða til "the base" eða undirstöðufylgisins. "Hvað vill undirstöðufylgið?" spyrja þeir. Svarið er einfalt. Undirstöðufylgið er hrætt. Það er hrætt við innflytjendur, homma, fóstureyðingar, Sameinuðu Þjóðirnar og fólk sem vill skemma ameríska fána. Þess vegna eru endalausar umræður hérna um að hefta ólöglegan innfluting fólks (sem er reyndar bráðnauðsynlegur fyrir efnahagslífið), koma í veg fyrir hjúskap samkynhneigðra, banna allar fóstureyðingar, hætta í SÞ og breyta sjálfri stjórnarskránni til þess að vernda alla ameríska fána.

Auðvitað mun sáralítið breytast. Stjórnarskránni verður ekki breytt, fóstureyðingar verða áfram leyfilegar, það stendur eingöngu til þess að koma á umbótum innan SÞ (sem er svosum í fínu lagi) og ólöglegir innflytjendur munu halda áfram að streyma hingað inn á meðan það er eftirspurn eftir þeim hérna. Það eina sem stendur eftir er að þeim er að takast að traðka aðeins á réttindum homma og lesbía. Allt þjónar þetta einum tilgangi. Að gera íhaldssinnaða trúarofstækismenn nógu reiða og hrædda til þess að mæta á kjörstað og kjósa repúblíkana. Það tókst í síðustu forsetakosningum, og gæti vel tekist aftur.

5.7.06

Mountain Goats

Ein besta hljómsveitin sem ég hef uppgötvað undanfarið er The Mountain Goats frá Kalíforníu. Ég ætla svosum ekki að fara út í neinar meiriháttar lýsingu á hljómsveitinni, enda finnst mér yfirleitt leiðinlegt að lesa það sem aðrir hafa að segja um hljósveitir, rétt eins og mer finnst leiðinlegt að skrifa um poppsveitir. Hér er bara dæmi um texta eins lags sem ég var að hlusta á áðan. Helvíti flott:

No Children
I hope that our few remaining friends
give up on trying to save us.
I hope we come out with a fail-safe plot
to piss off the dumb few that forgave us.

I hope the fences we mended
fall down beneath their own weight.
And I hope we hang on past the last exit,
I hope it's already too late.

And I hope the junkyard a few blocks from here
someday burns down.
And I hope the rising black smoke carries me far away,
and I never come back to this town again.

In my life, I hope I lie,
and tell everyone you were a good wife.
And I hope you die,
I hope we both die.

I hope I cut myself shaving tomorrow;
I hope it bleeds all day long.
Our friends say it's darkest before the sun rises;
we're pretty sure they're all wrong.

I hope it stays dark forever,
I hope the worst isn't over.
And I hope you blink before I do,
and I hope I never get sober.

And I hope when you think of me years down the line,
you can't find one good thing to say.
And I'd hope that if I found the strength to walk out,
you'd stay the hell out of my way.

I am drowning.
There is no sign of land.
You are coming down with me,
hand in unlovable hand.

And I hope you die,
I hope we both die.

Ég held að þetta sé eins konar ástarljóð um tvær bitrar manneskjur sem geta ekki án hvors annars verið. Ég er samt ekki alveg viss. Þeir hafa víst gert seríu af lögum sem heita Going to...
Þetta eru ca. 40-50 lög. Eitt þeirra heitir Going to Iceland. Annað heitir Going to Reykjavík. Meira veit ég ekki.

3.7.06

Það er komið sumar

Ferlega er heitt og rakt hérna þessa dagana. Ég var heillengi að sofna í gær þrátt fyrir að vera alveg uppgefinn eftir hjólreiðatúrinn. Við fórum til yfir George Washington brúna til New Jersey til Piermont og svo aftur til baka. Þetta var ca. 3 klst. túr og við fórum ca. 70-80 km. Ég var búinn að vera eftir á. Líklega drakk ég ekki nógu mikið vatn á leiðinni. Sem betur fer hafði ég vit á að bera á mig sólarvörn þannig að ég brann ekki.

Mikið er gaman að vera kominn á alvöru spítthjól (sjá mynd til hægri). Fram til þessa hef ég bara notað fjallahjól og hjól ætluð börnum (þegar ég var sjálfur barn). Þetta er talsvert öðruvísi. Hjólið er fislétt og það er magnað hversu auðvelt er að ná upp talsverðum hraða. Nokkrum sinnum brá mér hreinlega við það hversu hratt maður ég fór. Næsta skref er að fá sér hjólaskó og til þess gerða pedala og þá fer maður ennþá hraðar. Svo var Catherine að stinga upp á því að ég fari með henni í duathlon keppni. Duathlon er að hlaupa og hjóla. Það fer fram eitt slíkt í ágúst í Prospect Park, í okkar nágrenni þar sem byrjað er á að hlaupa 5 km. svo eru hjólaðir 22 km. og að lokum er hlaupið 5 km. í víðbót. Það væri gaman að prófa þetta.

Nú er mánudagurinn 3. júlí og á morgun er þjóðhátíðardagur heimamanna. Flestir virðast hafa tekið sér frí í dag. Lestin var hálftóm og sárafáir á götunum hérna í Midtown. Hér eru fáir á skrifstofunni og maður er í frekar rólegum gír. Af vinnunni er helst frá því að segja að mér líður ansi vel í UNPFII (frumbyggjanefnd SÞ). Málefnin eru spennandi og maður er heldur betur að fá að gera eitthvað sem skiptir máli, enda þarf mikið að gera til þess að bæta réttindi frumbyggja. Ég er stoltur yfir því að fá að taka þátt í þeirri vinnu. Um daginn fór faram árlegur fundur frumbyggjanefndarinnar þar sem yfir 1000 frumbyggjar mættu alls staðar að úr heiminum. Ég var því miður allt of upptekinn til að taka ljósmyndir eða fylgjast með umræðunum, en á vefsíðu frumbyggjanefndarinnar (sem ég held utan um) eru myndir sem ég var að setja upp nýlega.