21.9.06

Kominn til baka

Ég hef ekki skrifað hérna í talsverðan tíma. Ég ætlaði að byrja á því að skrifa eitthvað um Allsherjarþing og lætin í kringum Hugo Chavez, en það er búið að fjalla svoi mikið um þetta alls staðar að það tekur því ekki.

Ferðin til Bólivíu var merkileg. Þetta er eitt fátækasta landið í Suður Ameríku og er innilokað, hefur semsagt enga strandlengju. Tapaði aðgangi að sjó í stríði gegn Chile í kringum 1880. Landið hefur reyndar misst helming landssvæðis síns í stríðum síðan það hlaut sjálfstæði. Meirihluti landsmanna búr uppi í Andesfjöllunum, en fundurinn sem ég sótti var í stærstu borg landsins, Santa Cruz, sem er austarlega á láglendissvæðinu. Bólivía er að ganga í gegnum sögulegt tímabil núna. Fyrir ca. sjö mánuðum var frumbygginn Evo Morales kjörinn forseti og hans flokkur stjórnar nú landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem frumbyggjar komast til valda á ný í allri Ameríku síðastliðin 500 ár, frá því að Spánverjar komu.

Það kemur ekki á óvart að þetta skuli hafa gerst fyrst í Bólivíu, enda líta mikill meirihluti landsmanna á sig sem frumbyggja. Væntingarnar til Morales eru gífurlegar og að sama skapi er andstaða gömlu valdaklíkunnar svakaleg. Þetta á eftir að vera afar erfitt. Sérstaklega er mikið deilt um jarðgas, sem Morales sagðist munu þjóðnýta, en hingað til hafa Brasilísk og Spænsk fyrirtæki stjórnað allri gasframleiðslu landsins. Ég veit ekki hvernig þetta fer. Ég varð var við það í Santa Cruz, þar sem mikið af auðugu fólki af Evrópskum uppruna býr, er heiftarleg og ógeðfelld andstaða gagnvart Morales, sem bar keim af rasisma. Það er svosum ekki við öðru að búast þegar nýr hópur tekur við völdum.

Hérna í Bandaríkjunum er alltaf nóg um að vera. Í pólitíkinni hefur mikið verið fjallað um skýrsluna frá nokkrum leyniþjónustum Bandaríkjanna og niðurstöðu þeirra um að stríðið í Írak hafi orðið til þess að auka hættuna á hryðjuverkum. Nema hvað!!!??? Auðvitað verður stríð, hernám og hertaka á heilu landi til þess að fleiri vitleysingar ákveði að stunda hryðjuverk. Sérstaklega þegar rökin fyrir innrásinni í Írak standast ekki. Auðvitað þarf að taka á trúarofstækinu sem virðist fá að blómstra nánast óáreitt í Mið Austurlöndum, en það var alltaf ljóst að innrás í Írak myndi ekki leysa neitt.

Svo er hér smá dæmi um standardinn á sjónvarpsauglýsingum sem frambjóðendur til beggja deilda þingsins eru að bjóða fólki upp á. Þessi er frá repúblíkananum Vernon Robinson....

9.9.06

Til Bólivíu.

Ég er á leiðinni til Bólivíu. Fer þangað á Sunnudaginn og verð í tæplega viku þarna. Ég er að mæta á fund frumbyggja í S. Ameríku sem eru að undirbúa sig fyrir þáttöku í alþjóða ráðstefnu - World Congress on Communication for Development sem fram fer í Róm seinna í haust. Frumbyggjarnir í Suður Ameríku vildu fyrst fá einvhern úr Frumbyggjanefnd SÞ, en þar sem enginn komst, urðu þeir að sætta sig við einn starfsmann nefndarinnar, sem er ég. Þessi fundur fer fram í Santa Cruz, sem er rétt aðeins fyrir ofan sjávarmál, þannig að þar ríkir nokkurs konar frumskógarloftslag. Santa Cruz er ein ríkasta borgin í Bólivíu og ég held að hún sé líka fjölmennust. Þar er meira um evrópsk áhfrif og víst ekki mikið fyrir túrista að sjá. Reyndar er borgin skipulögð nokkuð merkilega, en hún er í hringjum. Hver hringur er búinn til úr stórum breiðgötum og miðbærinn er nátturulega í innsta hringnum. Mér skilst svo að fátækt aukist eftir því sem utar er farið í hringjunum. Það hefði verið meira spennandi að fara til höfuðborgarinnar La Paz sem er hátt uppi í fjöllunum, en maður getur varla kvartað. Ég tek náttúrulega myndavélina með.

7.9.06

Kosningabarátta

Það fer að koma að kosningum hérna og þegar er heilmikil barátta í gangi. Yfirleitt fréttir maður ekki mikið af kosningabaráttu þingmanna, nema þeirra sem eru hérna í næsta nágrenni og svo af nokkrum sem vekja sérstaka athygli, eins og Joe Lieberman eða Catherine Harris. Ég rakst svo á þessa auglýsingi fyrir tilviljun og hún er alveg æðisleg. Svona hef ég hvergi annars staðar séð. Væri ekki flott að sjá Össur Skarphéðinsson með haglabyssuna í prófkjörsslag?

6.9.06

Forca Barca

Eftir að hafa búið í Barcelona bæði sem barn og fullorðin hef ég alltaf haft taugar til borgarinnar og náttúrulega fótboltaliðsins. Reyndar dvínar áhuginn sífellt á fótboltanum þegar þetta verður meira og meira bisness og hefur sífellt minna með íþróttaandann sbr ungmennafélögin og allt það. Ensku klúbbarnir eru ekki klúbbar, FC er orðið að plc. og liðið er orðið að vörumerki.

Þess vegna er ég sérstaklega stoltur af "mínum" mönnum í Barca núna sem voru að gera samning við UNICEF. Í fyrstu fannst mér þetta reyndar ekki svo merkilegt, en svo sá ég að liðið hefur skuldbundið sig til þess að ráðstafa o.7% af hagnaði sínum til þess að vinna að þúsaldarmarkmiðum SÞ (Millennium Development Goals). Það sem er svo merkilegt við þetta, er að 0.7% er einmitt sú tala sem öll iðvnædd ríki (að Íslandi meðtöldu) hafa marg marg marg skuldbundið sig til að veita í þróunaraðstoð, en aðeins nokkur þeirra hafa staðið við það (nema Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Holland og eitt annað sem ég man ekki hvert er). Fótboltafélagið Barcelona er sem sagt að sýna í verki hversu skammarlega ríku löndin hafa staðið sig um leið og þetta er náttúrulega frábært dæmi sem aðrir gætu tekið upp... Til dæmis eitt ríkasta land í heimi miðað við höfðatölu... Ísland.

Áfram Barcelona!

kæra kæra kæra

Yfirleitt tekst manni að vera sæmilega sáttur hérna í bandarísku samfélagi, allavegana á meðan maður reynir að hugsa ekki of mikið um forsetann, Guantanamo, gífurlegan ójöfnuð og fátækt, framkomu gagnvart indjánum o.s.frv. Maður verður bara að reyna að taka þessu rólega. Annars yrði maður geðveikur. Svo les ég stundum fréttir og ég veit satt að segja ekki hvað maður á að hugsa. Það gerist oftar og oftar að ég held að Bandaríkin séu hnignandi veldi sem sé að rotna innan frá. Það er svo margt reyndar sem bendir í þá átt, og eitt þeirra er hreint út sagt geðveikin í kring um að kæra náungann.

Fyrir nokkrum dögum var Mark Morice kærður af nágranna sínum fyrir að hafa stolið bát hans. Það er reyndar rétt að Morice tók bátinn í leyfisleysi og eigandinn fékk víst aldrei bátinn í réttu ástandi til baka. Væri þetta allt og sumt, væri kannski eðlilegt að nágranninn kærði Morice. Málið er hins vegar að eigandi bátsins og Morice búa báðir í New Orleans. Morice notaði bátinn til þess að bjarga um 200 manns frá drukknun. Eigandinn var ekki heima og Morice sá sig tilneyddan til þess að "stela" þremur bátum þegar fellibylurinn Katrína rústaði New Orleans og hundruðir manna fórust. Eftir að þetta gekk yfir fór Morice til nágranna síns og lét hann vita hvað hafði gerst. Svo gerðist það seinna að nágranninn sendi Morice bréf þess efnis að tryggingafyrirtækið hafi ekki greitt nema helming upphaflegs verðs bátsins og hann mætti vinsamlegast ganga frá þessum 12 þúsund dollurum sem vantaði upp á. Morice hélt að þetta væri grín og hundsaði bréfið. Nú er nágranninn búinn að kæra hann.

Sjá frétt hér, og hér.