31.10.06

Eru hvalveiðar virkilega þess virði?

Sjávarútvegsráðherra skrifar um hvalveiðar á vísi í dag og hvers vegna íslendingar mega veiða hvali ef þeir vilja. Íslensk stjórnvöld eru komin í vafasaman félagsskap þegar þau vísa í þjóðarrétt og sjálfsákvörðunarrétt til þess að réttlæta óvinsælar aðgerðir sínar. Þetta eru sömu rök og Súdanir, Norður Kóreumenn og Kínverjar beita.

Jafnvel þó svo að veiðar á nokkrum langreyðum megi réttlæta með vísindalegum hætti og þó svo að það sé öruggt að þessar veiðar séu algerlega sjálfbærar út frá umhverfissjónarmiðum, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar veiðar skaða ímynd íslands. Ímynd skiptir máli. Yfirleitt virðast íslensk stjórvöld gera sér grein fyrir því. Hérna í USA hafa íslendigar eytt mikilli orku í að byggja upp ímynd íslands sem hreint og fagurt land sem býður upp á óspillta náttúru, ferskan fisk og besta lamabakjöt í heimi. Hver er markhópurinn sem íslendingar eru að leita til með þessari markaðssetningu? Nákvæmlega sama fólkið sem hryllir við tilhugsuninni um að drepa hvali. Það er nefnilega millistéttin í vestrænum borgarsamfélögum sem hefur efni og áhuga á því að kaupa íslenskt lamabakjöt og fara í sumarfrí til þess að skoða Gullfoss og Geysi. Þessi sama millistétt vestrænna samfélaga er uppistaðan í hópum umhverfinsverndarsinna sem mótmæla hvalveiðum harðast.

Auðvitað geta Íslendingar þrjóskast áfram og haldið áfram að drepa nokkra hvali bara vegna þess að okkur finnst við mega það. En er það skynsamlegt? Er þetta þess virði?

28.10.06

Besta kosningaauglýsingin

Kosningar í nánd og ofboðslegt magn af sjónvarpsauglýsingum sem eru annað hvort ferlega hallærislegar family values kúrekakjaftæði eða þá hatursfullar árásir og hræðsluáróður. Þessi frá Massachusets er aðeins öðruvísi. The Big Dig er svakaleg samgönguframkvæmd í Boston sem hófst 1985 og hefur kostað yfir 14.6 milljarða Dollara. Upphaflega átti þetta allt saman að kosta 2.5 milljarða. Þetta er víst eitt mesta verkfræði- og pólitískt klúður sem til er, og enn sjá menn ekki fram á nokkra lausn.

27.10.06

Kosningar

Það eru kosningar framundan hérna í Bandaríkjunm til beggja deilda þingsins. Það verður kosið um 33 af 100 sætum í öldungadeildinni (Senate) og öll 440 sætin í fulltrúadeildinni (Congress). Það bendir margt til þess að Demókratar munu ná þokkalegri kosningu og eru reyndar líklegir til þess að taka fulltrúadeildina og þeir eiga meira að segja séns á að ná meirihlutanum í öldungadeildinni. Þetta eru engar nýjar fréttir.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta allt saman eru kannski þrjú atriði sem eru öll skyld og tengd. Í fyrsta lagi er það hversu ofboðslega erfitt það er fyrir frambjóðanda að sigra stijandi þingmann, það sem menn hérna kalla "the power of incumbency". Í öðru lagi hvernig er búið að breyta kjördæmum til þess að tryggja örugga meirihluta sitjandi þingmanna og svo í þriðja lagi einkennileg og mótsagnakennd viðhorf kjósenda gagnvart þingheimi annars vegar og svo einstökum þingmönnnum hins vegar.

95% af sitjandi þingmönnum hérna halda sætum sínum á þingi. Þetta er aðallega skýrt með fyrirgreiðslupólitílk en þingmenn hérna berjast afar hart fyrir því að fá eins mikið af skattpeningum í verkefni inn í sín kjördæmi. Sitjandi þingmenn hafa auðvitað betri aðgang að fjölmiðlum og sömu leiðis betri aðgang að fjárstuðningi frá lobbyistum. Þá hafa Repúlíkanar verið afar snjallir í því að styðja þingmenn með tæpan meirihluta í sínum kjördæmum með því að tryggja þeim lykilembætti í þingnefndum þar sem þeir geta betur barist fyrir gæluverkefnum sem höfða til kjósenda. Repúblíkaninn Rick Santorum sem er senator frá Pennsylvania er gott dæmi um pólitíkus sem hefur fengið mikinn stuðning flokksins, enda standa Demókratar yfirleitt vel að vígi þar. Kerry vann til dæmis Pennsylvania í síðustu forsetakosningum.

Annað sem ráðamenn hafa gert til að auðvelda endurkjör sitjandi þingmanna er að breyta kjördæmum þannig að sitjandi þingmenn eigi meiri möguleika á að halda sæti sínu. Á ensku er þetta kallað gerrymandering. Orðið gerrymander er nefnt eftir Bandaríska pólitíkusnum Elbridge Gerry, og er blanda af eftirnafni hans og salamöndru, en mönnum þótti kjödæmið sem hann lét skapa til að tryggja sér góða kosningu, líkjast salamöndru í laginu. Sjálfur kynntist ég fyrst gerrymandering þegar ég kynnti mér sögu Norður Írlands, en þar skiptu mótmælendur borginni Derry kjördæmi, sem tryggðu mótmælendum meirhluta í borgarstjórn þrátt fyrir að kaþólikkar væru meirihluti borgarbúa. Niðurstaðan var að árið 1967 tryggðu 35% atkvæða mótmælenda 60% af borgarfulltrúm Derry. Myndin hérna sýnir hvernig Travis County (merkt með rauðu) er hluti af þremur kjördæmum (fyrir fulltrúadeildina) í Texas. Demókratar njóta miklis stuðnings í Travis County. Myndin sýnir glöggt hverning Repúblíarnar sem stjórna Texas fylki hafa klofið Travis County þannig að sýslan er hluti af þremur einkennilega löguðum kjördæmum þar sem öruggur meirihluti Repúblíkana er tryggur. Demókratar hafa sjálfir gerst sekir um svipaða hegðun annars staðar.

Það kemur það mér alltaf á óvart hveru lítið traust fólk hefur til þingheims hérna. Ég heyrði í útvarpinu í morgun að þingdeildirnar báðar njóta trausts 16% landsmanna. Það er sífellt verið að birta skoðanakannanir sem sýna að fólk bera afar lítið traust til pólitíkusa almennt og tilfinningin er sú að spillingin í Washington sé svakaleg. Á sama tíma segjast kjósendur yfirleitt vera ánægðir með sína eigin þingmenn. Það eru bara allir hinir sem eru svo slæmir. Þetta hefur sjálfsagt eitthvað með fyrirgreiðslur að gera og svo það að fólk þekkir sína menn, en þingmenn almennt eru í huga fólks óljósari - hluti af einhverju siðspilltu kerfi sem er fyrst og fremst að verja eigin hagsmuni og hagsmuni stuðningsmanna sinna.

Það sem ég er að fara með þessu er eiginlega það að þrátt fyrir miklar óvinsældir sitjandi stjórnar, klúðrið í kring um Írak, Katrínu og endalausar sögur um spillingu í Washington, þá hefur það ekki svo mikil áhrif á ákvarðanir kjósenda sem sýna "sínum mönnum" alveg ótrúlega tryggð. Það er ekki nema menn geri einhver hræðileg mistök (til dæmis George "macaca" Allen eða Joe Lieberman sem eru báðir sitjandi senatórar sem eiga ennþá þokkalega möguleika á endurkjöri) að þingmenn missi sæti sín. Þess vegna er aðal spennan í kring um frekar fá sæti sem flest eru opin, þ.e.a.s. sæti þar sem núverandi þingmaður býður sig ekki fram til endurkjörs. Þess vegna held ég að þessar kosningar hafi ekki svo mikil áhrif. Úrslitin munu líklega ekki breyta svo miklu í deildum þingsins og jafnvel þó svo að Demókratar nái að vinna aðra eða báðar deildir þingsins, þa mun það kannski helst leiða til aukins eftirlits með framkvæmdavaldinu. Og talandi um framkvæmdavaldið, þá má ekki gleyma því að forsetinn er náttúrulega með neitunarvald, sem hann mun örugglega ekki hika við að beita, nái Demókratar að vinna stórsigur. Sem sagt, ekki búast við of miklu.

13.10.06

Bear Butte

Bear Butte er fjall í Suður Dakota sem tilheyrði Sioux Indíánum áður en Evrópumenn komu til Norður Ameríku. Þetta fjall sem stendur eitt og sér á Black Hills svæðinu sem eru mest megnis sléttur, þannig að fjallið er tilkomumikið og sést víða að. Þetta fjall er heilagt land fyrir tugi Indíánaþjóða í Norður Ameríku og þangað hafa þeir farið og stunda sín trúarbrögð svo öldum skiptir. Reyndar hafa fundist fornleifar þarna sem eru næstum því 10,000 ára gamlar. Landið á sléttunum í kringum Bear Butte var tekið með valdi af frumbyggjum Ameríku á seinni hluta 19 aldar, þrátt fyrir sáttmála á milli Sioux manna og Bandaríkjamanna. Menn voru nefnilega að leita að gulli. Frumbyggjarnir voru drepnir og þeir sem eftir lfiðu voru fluttir á "reservations". Engu að síður er Bear Butte jafn heilagt landa í þeirra huga enn þann dag í dag þó svo að landið í kring sé nú allt saman einkavætt.
Einn af núverandi eigendum landsins heitir Jay Allen, bisnessmaður frá Arizona. Hann er að byggja risastóran bar fyrir mótorhjólamenn á landinu þarna. Biker bar á helgu landi Indíána. Þeir eru ósáttir við þetta og eru núna að reyna að berjast gegn þessu. Hvað myndu kaþólikkar segja um MacDonalds við innganginn í Péturskirkju, eða hvernig myndi okkur Íslendingum hafa líkað það ef Danir hefðu opnað súludansstað á Þingvöllum. "Fjörugar stelpur! Komdu og skoðaðu Almannagjá!" Þetta er jafn mikil lítilsvirðing.

Jay Allen segist hins vegar vilja sættast við Indíánana. Hann er reyndar ekki að hætta við að byggja barinn, sem á að verða einn stærsti barinn í öllum Bandaríkjunum, og mun líka hafa tónleikasvið fyrir 30.000 áhorfendur. Til þess að sýna Amerískum Indíánum virðingu hefur hann sagst ætla að láta gera rúmlega 30 metra styttu af Amerískum Indíána!

Yunus fær friðarverðlaun Nóbels

Mohammed Yunus sem stofnaði Grameen bankann í Bangladesh fær Friðarverðlaun Nóbels í ár. Þetta eru frábærar fréttir þar sem Grameen bankinn er eitt besta dæmið um vel heppnaða leið til að draga úr sárustu fátækt í heiminum, sem er að veita fátæku fólki lítil lán. Fáktækasta fólkið í heiminum (rúmlega tveir milljarðar manna), fólk sem lifir á minna en einum dollara á dag, hefur yfirleitt engan aðgan að lánum eða annars konar bankaþjónustu. Þessi hópur getur hvorki stofnað bankareikninga né fengið lán frá venjulegum bönkum. Þess vegna hafa sprottið upp stofnanir sem veita smálán (microcredit) og hafa vakið heilmikla lukku. Míkrókredit er merkilegt fyrir margar sakir, einna helst fyrir það hversu hátt endurgreiðsluhlutfallið er af lánum. Fátækt fólk er duglegra við að endurgreiða lán en ríkara fólk (endurgeiðsluhlutföllin eru einhversstaðar í kringum 98-99%). Þá hafa konur sérstaklega notið góðs af þessum smálánastofnunum. Ef ég man rétt, þá eru yfir 90% af viðskiptavinum Grameen bankans konur.

Á fyrsta ári mínu hérna í SÞ tók ég þátt í að skipuleggja alþjóðlegt ár smálána (the International Year of Microcredit) og þar kynntist ég því hversu ferlega góð hugmynd smálán eru. Þetta er nefnilega ekki gamaldags þróunaraðstoð í þeirri mynd að fólki er veitt styrkir, heldur eru þetta lán, sem fólk endurgreiðir með vöxtum. Þessi lán fara yfirleitt í það að styðja einkaframtak fátæks fólks, borga fyrir nauðsynlega heilsuþjónustu eða menntun. Aðalatriðið er að fólkið sjálft ákveður hvernig það ráðstafar fénu, frekar en búrókratar hjá SÞ eða einhverjum þróunarsamvinnustofnunum. Þar sem smálánastofnanir eru til staðar eru þau yfirleitt eini möguleikinn fyrir fólk til að fá lán, fyrir utan glæpsamlega aðila (loansharks) sem rukka svimandi háa vexti sem handrukkarar fylgja eftir.

Virkilega vel gert hjá Nóbelsnefndinni.

12.10.06

Að koma karlmönnum til læknis

Það er vel þekkt að karlmenn eru latari við að fara til læknis og hugsum almennt verr um okkur en konur gera. Fyrir þessu eru eflaust fleiri en ein ástæða, eins og hugmyndir um karlmennsku og hvernig okkur hefur verið kennt að harka hlutina af okkur, eða það að við kunnum einfaldlega ekki að tjá okkur almennilega um hvernig líður. Án þess að hafa beinlínis rannsakað það eða lesið um það, þá er ég líka handviss um að þetta hefur líka með það að gera að konum er yfirleitt snemma kennt að taka að sér umönnunarhlutverk og við karlmenn tökum þátt með því að láta mömmur, systur og eiginkonur okkar annast okkur. Ég veit ekki hvort þetta sé áð breytast en mig grunar að mín karlmenn minnar kynslóðar séu eitthvað skárri hvað þetta varðar en pabbar okkar, en við eigum langt í land með að ná konum okkar.

En hvað er til ráða? Hvernig getum við bætt þessa hegðun karlmanna og fengið þá til þess að hugsa betur um heilsu sína? New York Methodist Hospital, sem er spítalinn hérna í Park Slope er kominn með eina lausn. Það þýðir ekkert að bíða eftir því að næstu kynslóðir karlmanna fari að fatta þetta. Miklu betra bara að fá konurnar til að redda þessu.

11.10.06

Einkennileg framkoma

Ég var rétt áðan að hlusta á fréttaupptöku frá undirritun varnarsamnings Íslands við Bandaríkin, sem fram fór í dag. Þar mismælir Condoleezza Rice sig og segir "Ireland" áður en hún leiðréttir sjálfa sig. Þetta endurspeglar kannski hversu litlu máli þessi samningur skiptir Bandaríkin. Þarna voru þau stödd, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra litla ríkisins og hún mundi ekki alveg hvað það hét. Ruglaði því saman við aðra litla eyju í Atlantshafnu. Ráðherrarnir þrír höfðu reyndar komið við í gær, en þá hafði hún ekki tíma til að hitta þau. Frestaði fundinum. "Sorry guys, I´m really busy today, let´s do lunch tomorrow". Rumsfeld hitti ráðherrana ekki heldur.

Er reyndar að lesa bókina hans Bob Woodward, State of Denial sem fjallar um m.a. um aðdragandann að Íraksstríðinu, en ofboðslega virðist Rumsfeld vera óvinsæll meðal samstarfsmanna. Það er eins og nánast enginn geti unnið með honum. Til dæmis þurfti forsetinn sjálfur að skipa honum að svara símhringingum Condi, á meðan hún var öryggisráðgjafi (national security adviser). Þá er hann víst bæði skapstyrður, dónalegur og hreint út sagt leiðinlegur við fólk auk þess sem hann þarf að vera með puttana í öllu - míkrómanager. Ég er ekki hissa á því að hann hafi ekki nennt að hitta ráðherrana okkar. Telur sjálfan sig sjáfsagt hafa merkilegri hluti að gera. Hafi Woodward rétt fyrir sér, hafa ráðherrarnir okkar heldur ekki misst af neinu...

10.10.06

Nýr aðalritari

Þá er það ákveðið. Ban Ki-moon verður næsti aðalritari SÞ. Eftir því sem ég kemst næst er maðurinn afar fær diplómati og nýtur mikillar virðingar heima fyrir í S-Kóreu. Ég hef enn sem komið er ekki séð neina alvöru gagnrýni á manninn sem er bara jákvætt. Hann þykir hægverskur, lítillátur og vel gefinn og sjálfsagt fellur það ágætlega að óskum stórveldanna sem myndu sjálfsagt aldrei sætta sig við vel þekktann karismatískann leiðtoga. Ban á greinilega fáa eða enga óvini og sjálfsagt vel hæfur í starfið. Það er nokkuð augljóst að fáir utan S-Kóreu hafa haldið því fram að hann sé besti maðurinn í djobbið, en þannig virkar þetta ekki. Hann var bara eini frambjóðandinn sem enginn var á móti.

Þá hefur hann helst lýst því yfir að taka þurfi til innan SÞ, sem fellur vel að hugmyndum Bandaríkjamanna, og reyndar er ég alveg sammála. Það er löngu orðið tímabært að módernísera allt SÞ kerfið og sérstaklega höfuðstöðvarnar. Kofi Annan hefur reyndar reynt að gera heilmikið í þeim efnum, en helsta vandamálið er að aðildarríkin sjálf þurfa að komast að niðurstöðu um umbæturnar. Aðalritarinn einn og sér er afskaplega valdalítill og getur lítið gert án samþykkis Allsherjarþings, og það getur stundum verið erfitt að fá 192 aðildarríki til að verða sammála um eitt eða neitt.

Svo var rétt í þessu verið að fljúga flugvél á íbúðarhús hérna 30 blokkum fyrir norðan mann. Heyrði heilmikið í sírenum, en var á fundi þegar þetta gerðist. Svo kom heilmikil tilkynning í öryggiskerfinu um að þetta og að það væri engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur. Það er skiljanlegt að öryggisliðið vilji koma í veg fyrir að fólk paníkeri, en hvernig vita þeir það fyrir víst, 20 mínútum eftir að flugvél krassar í íbúðarhús í kílómetra fjarlægð, að það sé engin ástæða til að óttast - að allt sé í góðum málum? Þetta er eins og öryggisleiðbeiningar sem maður fær í flugvélum, un neyðarútganga og hvernig ber að haga sér ef vélin þurfi að nauðlenda í sjó. Einhversstaðar las ég að það hafi aldrei gerst, að farþegaflugvél hafi nauðlent í sjó...

En allavegana, það fór aðeins um mig þegar ég heyrði þessar fréttir um að lítil flugél hafi klesst á hús hérna á manhattan. Ég er sjálfsagt ekki einn um það.