31.7.06

Sjónvarpsgláp

Við hjónin erum áskrifendur að netflix, sem virkar þannig að við leigjum dvd í gegnum póstinn. Við borgum fast verð í hverjum mánuði og erum því alltaf með eitthvað í gangi. Þetta er fín leið til að horfa á sjónvarpsþætti sem við höfum misst af, eins og Six Feet Under eða Sopranos, sem eru báðir framleiddir af HBO sem við náum ekki.

Þessa dagana erum við að horfa á þriðja síson af West Wing, sem eru um forseta Bandaríkjanna, nánustu aðstoðarmenn hans og þau málefni sem berast á borð þeirra. Þessir þættir fara í taugarnar á mörgum Evrópubúum sem finnst allt of mikið af Amerískri þjóðernishyggju og hvernig bandaríska framkvæmdavaldið er persenterað svo hreint og tiltölulega saklaust. Aðrir kvarta yfir því hvernig Repúblíkanar eru gerðir næstum því alltaf að vondu köllunum. Þessir þættir fara í taugarnar á mörgum og þar var ég ekkert undanskilinn. Samt fannst mér, og finnst enn gaman af því að horfa á pólitískt drama.

Sérstaklega fór ég að hafa gaman að þeim, þegar ég las viðtal við framleiðanda þáttanna, sem segir að fyrst og fremst séu þættirnir tilraun til þess að ímynda sér hvernig Bandaríkjunum gæti verið stjórnað bara ef fólk kysi menn sem eru vel menntaðir og vilja vinna af heilindum við að þjóna almenningi. Þetta eru svona "What if...?" þættir. Hvernig gæti heimurinn og Bandarísk stjórnvöld verið ef núverandi valdamenn hefðu ekki komist til valda. Það er ekki endilega verið að fegra Bandarísk stjórnvöld, heldur er þetta hrein og klár ádeila.

Hinir þættirnir sem við höfum verið að horfa á eru líka hálfgerðir "What if...?" þættir, en af allt öðrum toga. Þetta er Curb Your Enthusiasm, með Larry David í aðalhlutverki. Hann leikur sjálfan sig, en hann maðurinn á bak við Seinfeld þættina. Hann er núna forríkur og býr í Los Angeles, ásamt afar þolinmóðri eiginkonu. Þættirnir snúast allir í kring um það hversu leiðinglegur og klaufalegur Larry getur verið. Honum tekst undantekningalust að móðga nánast alla sem á vegi hans verða, og út á það ganga þættirnir. Einhversstaðar heyrði ég viðtal við Larry David, þar sem hann lýsir þessu þannig að hann í þáttunum segir upphátt það sem hann sjálfur myndi aldrei þora að segja í alvörunni. Einn af uppáhaldsþáttunum mínum í þessari seríu er þegar Larry David býður tveimur Survivors í heimsókn (hann er að reyna að gera Rabbía greiða). Annar var þáttakandi í raunveruleikasjónvarpi, en hinn var Gyðingur sem lifði af helförina. Þeir enda með því að rífast um það hvor Survivor-inn hafi gengið í gegnum erfiðari lífsreynslu.

Allt ber þetta með sér afar raunverulegan blæ, enda er David, auk margra annarra leikara í þáttunum að leika sjálfa sig, eða réttara sagt útgáfu af sjálfum sér. Úrkoman er yfirleitt óttalega vandræðaleg og ferlega fyndin. Minnir mann helst á The Office sem ég held að séu fyndnustu sjónvarpsþættir sem nokkru sinni hafa verið framleiddir. Á það sameginlegt með Office að yfirleitt eru það karlmenn sem hafa gaman að þessu á meðan konur sem horfa á verða yfirleitt pirraðar.

30.7.06

Það sem gerir internetið svo merkilegt

Í helgarútgáfu Wall Street Journal er grein um fólk sem er að meika það á netinu. Þetta eru ljósmyndarar, kvikymndagerðarmenn, bloggarar eða tónlistarmenn sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa náð frama eingpöngu í krafti vinsælda sinna á netinu. Þetta er fólk sem, þegar það byrjaði hefði líklega aldrei átt möguleika á að koma sér á framfæri með gamaldags aðferðunum. Núna getur óþekkt hljómsveit orðið vinsæl í gegnum myspace, áhugaljósmyndari fengið samning í krafti flickr síðunnar sinnar og kvikmyndargerðarmenn sýnt umheiminum stuttmyndina sem ekkert kvikmyndahús myndi nokkru sinni sýna.

Það sem mér finnst svo flott við þetta er hverning tæknin hefur auðveldað fólki að gera hlutina sjálft. Tæknin hefur fært þetta allt nær okkur. Það kostar orðið sáralítinn pening að framleiða stuttmynd eða plötu. Svo er heill hellingur af vefsvæðum þar sem fólk hefur möguleika á að koma vinnu sinni áleiðis. Stundum eru undirtektirnar ótrúlegar. Sem dæmi nefnir WSJ, íslenska ljósmyndarann, Rebekku sem er með eina af vinsælustu síðunum á flickr. Samkvæmt greininni hefur Toyota beðið hana um að taka myndir fyrir sig. Myndin sem fylgir færslunni er "stolin" af hennar síðu. Annað svona dæmi er hljómsveitin Clap Your Hands Say Yeah, sem framleiddu og gáfu sjálfir út plötuna sína, kynntu hana á myspace og urðu svo vinsælir í kjölfar þess að pitchforkmedia og fleiri vefrit gáfu þeim góða dóma.

Vonandi er þetta bara rétt byrjunin.

28.7.06

Nýr aðalritari SÞ (frh.)

Fyrr í vikunni fjallaði ég aðeins um aðalritara Sameinuðu Þjóðanna og umræður í Öryggisráðinu um arftaka Kofi Annan, sem lætur af störfum um næstu áramót.

Steve Colbert, sem er einn af bestu grínistum hér í vesturheimi ræddi um sama mál nýlega, en hann er með athyglisverða uppástungu. Colbert sem starfaði um skeið í hinum frábæra þætti The Daily Show, er nú kominn með sinn eigin þátt, The Colbert Report.

Fáfræði

Helmingur Bandaríkjamanna trúir því að Írakar hafi haft gereyðingarvopn þegar Íraksstríðið hófst á meðan 64% telja að það hafi verið sterk tengsl á milli Saddam Hussein og Al Qaeda. Þetta kemur fram í The Harris Poll sem birtist í síðustu viku. Þá segja 76% aðspurðra að Írakar hafi það betra núna en undir stjórn Husseins.

Hvernig er þetta hægt?

Flestir þeir útlendingar sem ég þekki hérna kvarta mikið undan Bandarískum fjölmiðlum og segjast hafa haft miklu betri aðgang að upplýsingum í heimalandi sínu, að fréttir hérna séu slæmar, hlutdrægar og fjalli um lítið annað en Bandaríkjamenn í stríði (erlendar fréttir) og glæpi (local fréttir). Ég held satt að fólk sé þá aðallega að tala um sjónvarpsfréttir hérna, sem eru vissulega afar takmarkaðar. Að maður minnist ekki á miðla eins og Fox News! Aftur á móti fer fram ansi góð blaðamennska á stóru dagblöðunum, eins og New York Times, Washington Post, Wall Street Journal eða LA Times. Til viðbótar er National Public Radio (sem fær bæði opinbert fé og frjáls framlög) þrælgóður fréttamiðill. Ég hlusta til dæmis alltaf á NPR á morgnana. Svo er auðvitað fullt af fínum Bandarískum netmiðlum.

Því miður, fylgjast allt of fáir með þesum miðlum og margir treysta á menn eins og Rush Limbaugh eða Bill O´Reilly til þess að fræðast um hvað er að gerast, á meðan stóru sjónvarpsfréttastofur NBC, CBS og ABC hafa verið að draga saman seglin. Risarnir þrír hafa misst áhorfendur til cable sjónvarpsstöðva sem hefur leitt til þess að fréttamesnska þeirra stjórnast meira af því að höfða til áhorfenda en að miðla upplýsingum. Aðalatriðið er að ná auglýsingatekjur - annars fara menn á hausinn. Ted Koppel, fyrrverandi fréttamaður á ABC hefur talsvert fjallað um hnignun sjónvarpsfrétta. Þetta sagði hann til dæmis í pistli sem birtist í New York Times fyrir ekki svo löngu síðan.

When the Federal Communications Commission was still perceived to have teeth ... network owners nurtured their news divisions, encouraged them to tackle serious issues, cultivated them as shields to be brandished before Congressional committees whenever questions were raised about the quality of entertainment programs and the vast sums earned by those programs...

The goal for the traditional broadcast networks now is to identify those segments of the audience considered most desirable by the advertising community and then to cater to them. Most television news programs are therefore designed to satisfy the perceived appetites of our audiences...


Indeed, in television news these days, the programs are being shaped to attract, most particularly, 18-to-34-year-old viewers. They, in turn, are presumed to be partly brain-dead -- though not so insensible as to be unmoved by the blandishments of sponsors...


No television news executive is likely to acknowledge indifference to major events overseas or in our nation's capital, but he may, on occasion, concede that the viewers don't care, and therein lies the essential malignancy.

Til viðbótar þá virðast féttamenn oft telja sig þurfa að gera grein fyrir "báðum hliðum málsins" þar sem staðreyndum er stundum gert janf hátt undir höfði og tilhæfulausum fullyrðingum. Þetta er til dæmis galdurinn á bak við áhrif Fox News, en slagorð þeirra er "Fair and Balanced". Þannig sjá áhorfendur þeirra, til dæmis bæði viðtöl við fólk sem segir að Hussein hafi verið í slagtogi með Al Qaeda og svo í öðrum sem segja að ekkert hafi komið fram sem styðji þá fullyrðingu. Að lokum endurtekur þáttarstjórnandinn alltaf sömu klisjuna "We Report. You Decide."

Niðurstöður þessarar könnunar hér að ofan koma því miður ekki mikið á ovart.

27.7.06

Jóga mottur

Það var fínn dagur hjá Catherine í dag, en á hverjum fimmtudegi kemur Thursday Styles hlutinn af New York Times, þar sem hún vinnur. Hún heldur utan um Fitness hlutann. Það sem hún gerir er að koma með hugmyndir um greinar (sem krefst mikillar vinnu, yfirleitt), ritstýra blaðamanninum sem skrifar greinina, og sjá um að allt sé eins og það eigi að vera. Þá skrifar hún líka greinar af og til.
Í dag kom út grein á hennar vegum um jógamottur í æfingasölum og hversu skítugar þessar mottur verða og hættuna á því að þær beri smit á milli berfættra heilsudýrkenda sem stunda jóga. Þessi grein er nú vinsælasta greinin á nytimes síðunni þannig að Catherine er og má vera stolt. Ég er auðvitað stoltur af henni líka. Ég hefði bara viljað að hún hefði skrifað greinina sjálf, enda var þetta hennar eigin hugmynd. Það hefði hjálpað henni að skapa sér enn frekar nafn í blaðamannheiminum hérna. Henni gengur samt prýðilega.

Djöfull hefði maður átt að kaupa sér hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða jógamottur, því í kjölfar þessarar greinar er alveg pottþétt að annar hver jóga iðkandi í USA mun kaupa sér sína eigin mottu. Ég segi þetta í gríni náttúrulega. Maður á ekki að notfæra sér slíka aðstöðu. Held líka að það sé ábyggilega eitthvað í siðareglum blaðamanna sem bannar slíka tegund af innherjaviðskiptum.

25.7.06

Nýr aðalritari SÞ

Kofi Annan lætur af störfum sem aðalritari Sameinuðu Þjóðanna á þessu ári eftir að seinna kjörtímabili hans lýkur um næstu áramót. Hann var lengi vel nokkuð vel liðinn en hefur undanfarin 2-3 ár sætt talsverðri gagnrýni, ekki síst frá Bandaríkjamönnum. Ástæður þess eru margar og vel þekktar. Ég ætla ekki að fara yfir feril hans hérna, enda skortir mig algerlega yfirsýn og reynslu til þess. Ég get hins vegar sagt það að þessi síðustu tvö ár hafa ekki bara verið erfið fyrir æsta starfsmann SÞ, heldur einnig fyrir stóran hluta starfsmanna hérna. Andrúmsloftið hérna er alls ekki nógu gott. Það vita það allir að stofnunin þarfnast verulegra umbóta og fyrirhugaðar umbætur munu ráða miklu um hver það verður sem tekur við af Annan.

Einmitt þessa dagana er lokasprettur hinnar einkennilegu kosningabáráttu um næsta aðalritara að fara fram, og það eru fjórir menn (allt karlmenn auðvitað!) í framboði. Á pappírnum er það afar einfalt hvernig valið fer fram. Öryggisráðið kemur sér saman um að mæla með einni manneskju sem Allsherjarþing kýs svo um. Í reynd er þetta afar flókið ferli sem virðist fara að mestu leyti á bak við tjöldin, þar sem þau fimm ríki sem fara með neitunarvald í Öryggisráðinu stjórna ferðinni.

Asíumenn gera tilkall til næsta aðalritara og allir þeir fjórir sem hafa verið formlega tilnefndir eru þaðan, en þeir eru Ban Ji Moon (S-Kórea), Jayantha Dhanapala (Sri Lanka), Surakiart Sathirathai (Tæland) og Shashi Tharoor (Indland). Síðustu aðalritarar hafa verið frá Afríku (Annan, Boutros Ghali) og S-Ameríku (de Cuellar), og eini Asíumaðurinn sem gengt hefur embættinu er U Thant en það eru 35 ár síðan hann læt af störfum. Þess vegna segja Asíumenn að eðlilegt sé að næsti aðalritari komi þaðan. Til þessa hafa önnur aðildarríki ekki mótmælt þessu, þó svo að margir lýsi því yfir að réttast sé að velja til starfsins besta manninn eða konuna óviðkomandi upprunalandi.

Það er nú ekki líklegt að Allsherjarþing fari að velja aðalritara SÞ óviðkomandi upprunalandi, eða bara út frá hæfni. Til dæmis er hefð fyrir því að aðalritarinn sé ekki frá neinu af þeim fimm ríkjum sem fara með neituarvald í öruyggisráðinu. Þess vegna koma til dæmis Bill Clinton og Tony Blair varla til greina, þó svo að oft sé minnst á þá, sérstaklega þann fyrrnefnda. Reyndar hafa allir aðalritarar til þessa komið frá frekar smáum og valdalitlum ríkjum, sem engum stafar veruleg ógn af. Þess vegna er til dæmis ólíklegt að næsti aðalritari muni koma frá Indlandi eða Pakistan.

Nú í vikunni fór fram hálfgerð vinsældarkosning í Öryggisráðinu um þessa fjóra menn sem eru í framboði. Öll 15 ríkin í Öruggisráðinu gáfu til kynna hvort þau hefðu jákvæða, neikvæða eða hlutlausa afstöðu gagnvart hverjum frambjóðanda og þar kom hinn Kóreski Ban best út. Tharoor kom einnig vel út, en hinir tveir munu þurfa að endurmeta stöðu sína. Annars má fastlega búast við því að ný nöfn munu bætast inn í myndina á næstunni. Sjálfur myndi ég veðja á núverandi framkvæmdastjóra Þróunaráætlunar SÞ, Kemal Dervis í djobbið. Hann er tyrkneskur, vil liðinn og það er margt sem mælir með því að fá mann sem þekkir vel til Mið Austurlanda. Það er einmitt þannig sem Tyrkir presentera sig oft í alþjóða samstarfi - sem nokkurs konar brú á milli Vesturlanda og Austulanda enda er margt til í því. Sjáum til.

Hér eru svo að lokum tvær síður sem fjalla um þetta mál.
Who will be the next UN Secretary General?
Chapter 15

21.7.06

Föstudagsfílingur

Það er ekki oft sem ég verð eirðarlaus hérna í vinnunni og langar bara beint heim. Nenni ekki að vinna. Get ekki beðið eftir helginni. Yfirleitt hef ég það mikið að gera að ég er ekkert að flýta mér heim eða finna fyrir eirðarleysi. Núna líður mér eins og ég sé aftur kominn í skólann og get ekki beðið eftir því að skólinn sé búinn. Það er að koma helgi. Reyndar byrjar þetta ekkert allt of vel. Hér eru þrumur og eldingar og helli helli demba. Þetta þrumuveður hefur staðið yfir núna í þrjá tíma og virðist ekkert ætla að hætta.

Einn sá allra latasti hérna á skrifstofunni var að labba hérna fram hjá. Hann lætur rigninguna ekki stoppa sig. Ég sver það, hann fer alltaf heim á sama tíma. Það er eins og hann hafi ekkert að gera og fari bara heim þegar hann er búinn að uppfylla kröfur um lágmarks viðveru hérna. Mig grunar reyndar að hann geri reyndar andskotann ekki neitt, fyrir utan smá vinnu sem þarf að sinna á háannatíma. Meira að segja þá, lætur hann aðra um að vinna fyrir sig. Þá er alltaf lokað inn á skrifstofuna hjá honum. Alltaf. Þegar starfsólk hérna kjaftar saman, þá koma alltaf upp einhverjar sögur um svona lið, enda er dágóður slatti af fólki hérna sem er á þessu róli. Þetta fólk er kallað "deadwood" hérna og eitt af mikilvægustu málefnunum í umbótunum á SÞ er einmitt að finna leiðir til að losa stofnunina við þessa starfsmenn sem eru ekkert nema byrðar. Meira um þetta síðar.

Katla er að koma í heimsókn og ég hlakka til þess að sýna henni borgina. Góða helgi.

20.7.06

Öfgar

Alveg er það ömurlegt sem er að gerast í Líbanon og Ísrael þessa dagana. Eins og við er að búast er almennur og mikill stuðningur við Ísraelsmenn hérna í Bandaríkjunum. Vissulega birtast fréttir af eyðileggingunni í Líbanon, en það er eins þessar sprengjuárásir þyki sjálfsagðar og eðlilegar. Það eina sem nálgast gagnrýni á Ísraela eru spurningar um hvort spregjárásirnar séu óhóflega harkaleg viðbrögð árásum Hezbollah. New York Times birtu til dæmis grein undir fyrirsögninni "With Israeli Use of Force, Debate Over Proportion". Þar gekk blaðið ekki lengra en svo en að segja frá því að deilt væri um það hvort árásir Ísraela á Líbani væru úr samhengi við árásir Hezbollah. Að Ísraelar sýni of mikla hörku. Stuðningsmenn Ísraela benda réttilega á að það sé út í hött að velta sér upp úr slíkum samaburði. Það sé ekki hægt að krefjast þess að Ísraelar verji sig og borgara sína í einhverju hernaðarlegu samhengi við árásir Hezbollah. Það sé eðlilegt að Ísraelsk stjórnvöld beiti öllum brögðum til að vernda Ísraelska borgara. Ekki ætla ég að dæma um það, enda hef ég aldrei orðið fyrir sprengjuárás.

Hins vegar saknar maður einnar grundvallarspurningar í umræðunni. Í stað þess að velta því fyrir sér hvort Ísraelar hafi rétt á því að demba sprengjum yfir Líbanon, eða hvort sprengjurnar séu of margar, mætti velta því fyrir sér hvort það sé yfirleitt skynsamlegt að gera það. Hverjum gagnast slíkar árásir? Hver hefur hag af þessari eyðileggingu? Það er augljóst að þetta þjónar ekki hagsmunum Líbansks almennings. Ég efa það líka að Ísraelskur almenningur muni njóta frekari öryggis í kjölfar þessara árása, þar sem þessi átök munu líklega leiða til enn frekari árása hryðjuverkamanna innan Ísrael. Einhvernveginn held ég að fréttamyndir af Beirut þar sem heilu hverfin eru í rúst, hundruðir manna fallnir og yfir hálf milljón manna á flótta gætu leitt til þess að enn fleiri bætist við í hópa íslamskra öfgamanna. Sprengjurásirnar hafa víst þann tilgang að uppræta Hezbollah, en gamaldagas hernaðaraðgerðir eins og loftárásir vikra sjaldan gegn skæruliðum. Líkelga var þetta nákvæmlega tilgnagur Hezbollah manna. Þeir virðast hafa verið að fiska eftir þessum hörðu viðbrögðum frá Ísraelsstjórn. Það eru fyrst og fermst almennir borgarar sem þjást. Að sama sakpi eru það líklega öfgamenn innan Ísrael sem hagnast mest á þessum ósköpum (ásamt íslömskum öfgamönnum um víða veröld). Til dæmis geta landnemar á Vesturbakkanum geta nú andað léttar, enda eru hverfandi líkur á að samið verði Palestínumenn um herteknu svæðin á næstunni. Það verða sjálfsagt engir samningar gerðir á meðan Hamas er í stjórn Þegar átök brjótast út eru það oftast öfgahópar beggja megin sem hagnast hvað mest á meðan hófsamar raddir heyrast varla. Þetta er ömurlegt ástand.

18.7.06

Hot hot hot

Ferlega er heitt hérna. Þriðja daginn í röð er yfir 95 stiga hiti á farenheit (um og yfir 35 á celsíus kvarðanum). Metið í New York borg er víst 101, þannig að það verður ekki mikið heitara hérna. Til viðbótar er rakinn 45-50%. Þegar ég fór út í hádeginu áðan kom ég drullusveittur til baka og þá er manni náttúrulega kalt í helvítis loftkælingunni í lobbyinu. Sem betur fer er loftkælingin inni á skrifstofunni hérna ekki keyrð í botni eins og gert er á flestum vinnustöðum og byggingum almennt. Já, þetta með Bandaríkjamenn og loftkælingu er eitthvað sem ég á afar erfitt með að átta mig á. Auðvitað er loftkæling nauðsynleg á dögum eins og í dag, en þetta er bara svo öfgakennt hérna.

Ég hef ennþá kynnst neinni manneskju sem getur skýrt það fyrir mér hvers vegna svo margir staðir heyra loftkælinguna af þvílíku magni að fólki verður skítkalt innanhúss. Ekki er þetta bara óþægilegt, heldur er þetta rándýrt. 14-16% af allri raforku landsins á hverju ári fer í að kæla loft. Rafmagnsreikningurinn heima hjá okkur tvöfaldaðist frá Maí til Júní. Ég kenni Önnu, herbergisfélaga okkar aðallega um, en hún er alltaf með þetta í gangi - alla nóttina, þannig að herbergið hennar og stofan er rétt fyrir ofan frostmark á hverjum morgni! Auðvitað er ég að ýkja aðeins, en loftkælingaráráttan er hrein og klár geðveiki og er gífurleg sóun á orku, að maður minnist ekki á umhverfisáhrifin.

Að lokum ætti maður að bæta því við að það er búið að opna yfir 300 kælistöðvar í skólum og opinberum byggingum fyrir fólk sem ekki hefur loftkælingu heima hjá sér. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að (sérstaklega eldra) fólk hreinlega deyji úr hita. Þá þurfti að loka einni hraðbrautinni í gær á Long Island vegna þess að malbikið gaf sig í hitanum. Gatan bókstaflega bráðnaði!

Þess skal svo getið að myndinni sem fylgir þessari færslu "stal" ég af nytimes vefsíðunni. Það er ekki óalgengt að fólk taki sig til og skrúfi frá brunahönum hér í borg.

15.7.06

Svaðilför í suðri

Þá erum við nýkomin til baka frá hinu fallega fylki Virginia. Þetta er eitt gróðursælasta land sem ég hef nokkru sinni séð. Þarna er heill hellingur af vínökrum en annars er Virgina þekktast fyrir tóbakframleiðslu, skinku og nálægð við Washington D.C. Þarna átti Thomas Jefferson til dæmis heima. Reyndar voru fjórir af fyrstu fimm forsetum Bandaríkjanna frá Virginia. Ókei - Virginia er sem sagt fallegt fylki og þar var gaman að koma. Tilgangur ferðarinnar hins vegar að ganga á fjöll í Shenandoah þjóðgarðinum og heimsækja Gwen (vinkonu Catherine), eiginmann hennar, Peter (sem m.a. rekur þessa vefsíðu) og dóttur þeirra, Annick. Það var æðislega fínt að heimsækja þau í sveitasælu suðurríkjanna, sjá nýfædda kálfa í túnunum og spila tennis á bænum (bóndahjónin sem þau leigja hjá eiga þennan fína tennisvöll!). Þetta var sem sagt voðalega fín heimsókn. Við hjónin fórum þangað ásamt Lindu Fan vinkonu okkar en Preston maðurinn hennar komst ekki með vegna vinnu. Þau eru bæði læknar og eiga erfitt með að láta orlof sín stemma saman.

Ferðin til Shenandoah var ekki alveg jafn sæt og fín. Reynar byrjaði þetta ágætlega. Við ákváðum senmma hvaða leið við ætluðum að ganga, ráðfærðum okkur við þjóðgarðsvörð og fundum göngustíginn auðveldlega. Vegurinn í gegnum garðinn er meðfram heilmiklum hryggi þannig að leiðin byrjaði með því að ganga niður í dal og svo aftur upp á annan hrygg hinum megin í dalnum. Eftir rúmlega þriggja klst. göngu vorum við búin að ganga í drjúgan tíma á hryggnum og farin að nálgast fyrstsa "toppinn" af þremur og við fórum að byrja að skyggnast eftir hugsanlegum tjaldstæðum. Það var ekki svo auðvelt að finna tjaldstæði þar sem hrygurinn var það mjór að hann bauð ekki upp á mikið pláss fyrir tjöld. Auk þess var skógurinn ansi þéttur þarna. Við héldum göngu okkar áfram og fórum að sjá nokkrum sinnum stóran svartan skít sem minnti mig kannski helst á blöndu af gæsaskít (skíturinn var svartblár) og hrossataði. Við komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri bjarnarskítur.

Skömmu síðar sáum við bjarndýrið þar sem það var í gögnustígnum í ca. 20 metra fjarlægð að leita sér að "blackberries". Við brugðumst rólega við, náðum í potta og bolla og glömruðum heilmikið þannig að björninn varð okkar var og fór í burtu. Við sáum ekki meira til hans. Rúmum klukkutíma síðar fundum við loks smá svæði þar sem hægt var að koma upp tjöldum í skóginum, í 10 metra fjarlægð frá göngustígnum. Við pössuðum okkur á því að elda í tæplega 100 metra fjarlægð frá tjaldstæðinu og að geyma matinn (hangandi í trjágrein) á öðrum stað langt frá tjaldstæðinu til að tryggja að engin lykt myndi laða birni að okkur sofandi í tjöldunum. Við gerðum þetta allt saman samkvæmt ströngustu reglum enda vissum við að birnir væru þarna á kreiki.

Við Catherine sváfum í einu tjaldi og Linda í öðru við hlið okkar. Veðrið var hlýtt og rakt þannig að við settum ekki upp himna á tjöldin þannig að við fengum smá golu inn í tjöldin og heyrðum afar vel í vhoru öðru - og svo náttúrulega skóginum. Þar sem við höfðum gengið ansi greitt í hitanum og vorum öll orðin þreytt, þá vorum við öll fljót að sofna. Skömmu eftir að ég sofnaði þá fór ég að heyra hljóð, eins og maður eða stór skepna gengi meðfram stígnum. Hljóðið var skýrt og greinilegt og það nálgaðist ótt. Ég var hins vegar ekki alveg viss hvort mig væri að dreyma eða ekki og það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því að mig var svo sannarlega ekki að dreyma og fótsporin voru orðin djöfull nálægt tjöldunum (ég sá ekki út, en ég giska á svona 3 metra fjarlægð frá Lindu). Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og það hafi tekið mig allt of langan tíma til að átta mig á því og viðurkenna það sem var svo augljóst - björninn var kominn alveg upp að tjöldunum!

Catherine var þá ennþá sofandi og ég vakti hana. Strax og ég byrajði að vekja hana spurði Linda mig hvort heyrði í skepnunni fyrir utan tjaldið. Hún hafði þá gengið í gegnum sama hugsanaferlið og ég. Í fyrstu vorum við ekki alveg viss um hvernig við ættum að bregðast við. Ég vissi vel hvað á að gera þegar maður mætir björnum á göngu, en ég hafði aldrei heyrt neitt um það hvernig maður á að bregðast við þegar birnir koma inn á tjaldstæði til manns. Við ákváðum að hafa uppi heilmikinn hávaða og hrópuðum, kölluðum og sungum næstu mínúturnar. Á meðan við görguðum heyrðum við vitaskuld ekkert í birninum þannig að við vissum ekki hvort köll okkar bæru þann árangur að hræða skepnuna í burtu. Við hættum að kalla og hlustuðum aftur.

Þá heyrðum við í birninum ganga hálfan hring í kringum taldstæðið og hann nálgaðist okkur að neðan. Þá vorum við öll orðin hrædd. Ég sá fyrir mér að hann myndi ráðast inn í tjald okkar. Ég hélt fast utan um Catherine með annarri hendinni og í hinni hélt ég á vasahnífi. Ég átti alveg eins von á að sjá klærnar á birninum rífa tjaldið í sundur. Við hugsuðum öll það sama: "Hvern andskotann er ég að gera hérna? Af hverju er ég ekki frekar heima í þægindum og öryggi?". Sem betur fer ákvað björninn að halda áfram leið sinni niður brekkuna og við önduðum aðeins léttar. Hjartað sló samt áfram afar hratt.

Tuttugu mínútum síðar kom björninn aftur og þá fyrst urðum við virkilega hrædd. Björninn hafði þá væntanlega fundið kvöldmatarplássið okkar, fundið lyktina þar og ætlað sér að finna uppsprettuna. Við hrópuðum og kölluðum enn meira en síðast. Hótuðum birninum öllum andskotanum og sögðum meira að segja lélega brandara. Hafi ég verið hræddur áður, þá var ég dauðskelkaður í þetta skiptið. Okkur hafði greinilega ekki tekist að hræða skepnuna á brott. Allir pottar og önnur tól til að búa til hávaða héngu upp í trjágrein langt í burtu ásamt matnum okkar. Við vorum ein uppi á fjalli og engin leið til að kalla á hjálp eða finna sér felustað. Við gátum ekkert gert nema hrópað og vonast eftir því besta. Djöfull var maður eitthvað máttlaust þarna. Ég mun seint gleyma þessari nótt. Auðvitað fór björninn burtu að lokum og engum varð meint af. Við áttum samt erfitt með svefn það sem eftir lifði nætur.

Catherine segist ekki munu fara aftur í útilegu á bjarnarslóðir aftur. Ætli við förum ekki næst til Þórsmerkur...

7.7.06

Á leið til Shenandoah

Við ætlum í stuttan vikutúr til Virgina að ganga á fjöll og kynnast menningu innfæddra. Ég get ekki sagt að ég þekki mikið til suðurríkjanna hérna. Maður er náttúrulega uppfullur af fordómum gagnvart þeim sem þar búa, en ég hlýt að geta haft stórn á sjálfum mér og notið þess að vera í fríi. Reyndar er ég ekki viss um að þetta séu fordómar í mér. Það voru nú einu sinni suðurríkin sem börðust fyrir "rétti" sínum til að þræla og enn þann dag í dag eru afturhaldsöflin ríkjandi í þessum hluta landsins. En úr því ég gat látið ér líða vel innan um hatrið og ofstopann í Belfast, þá hlýt ég að finna fullt af hlutum sem eru fínir við suðurríkjamenninguna. Getur ekki annað verið. Svo er maður að þessu til að komast út úr stórborginni í náttúru, og Shenandoah á að vera fallegur garður. Þetta er áframhald af þeirri ákvörðun minni að prófa allavegana einn nýjan þjóðgarð á hverju ári á meðan ég bý hérna. Ég skelli inn lýsingu af garðinum og ferðinni eftir rúma viku þegar ég er kominn heim aftur til Brooklyn.

6.7.06

Trú og stjórnmál

Í dag unnu vitleysingar í New York sigur fyrir dómstólum þegar æðsti réttur NY fylkis komst að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá NY fylkis tryggi ekki endilega samkynhneigðum rétt til þess að giftast. Þess vegna er löggjafarvaldinu hérna heimilt að skilgreina hjúskap sem eingöngu á milli karmanns og konu. Ekki veit ég hvort það er sem fer meira í taugarnar á mér - fordómarnir gagnvart samkynheigðum eða það hvernig repúblíkanar beita þessu máli fyrir sér til þess að höfða til trúarofstækismanna hérna í þeirri von að fá atkvæði þeirra í kosningum í haust.

Það fara fram afar mikilvægar kosningar í haust og það er meira að segja dálítill möguleiki á því að repúblíkanara missi meirihluta sinn bæði í Congress og Senate (nenni ekki að þýða þetta). Sá möguleiki er reyndar ekki mikill, en samt nógu mikill til þess að gera stjórnmálin hérna spennandi á næstunni. Þetta er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að forsetinn hefur aldrei verið jafn óvinsæll og einmitt núna.

Hvernig bregðast þá ráðamenn við? Hlusta þeir á fólk sem er ósátt með stríðið í Írak, njósnir á borgurum innanlands, stanslausa spillingu í Washington DC, eða ömurlegt ástand í New Orleans. Ó nei. Þeir reyna bara að höfða til "the base" eða undirstöðufylgisins. "Hvað vill undirstöðufylgið?" spyrja þeir. Svarið er einfalt. Undirstöðufylgið er hrætt. Það er hrætt við innflytjendur, homma, fóstureyðingar, Sameinuðu Þjóðirnar og fólk sem vill skemma ameríska fána. Þess vegna eru endalausar umræður hérna um að hefta ólöglegan innfluting fólks (sem er reyndar bráðnauðsynlegur fyrir efnahagslífið), koma í veg fyrir hjúskap samkynhneigðra, banna allar fóstureyðingar, hætta í SÞ og breyta sjálfri stjórnarskránni til þess að vernda alla ameríska fána.

Auðvitað mun sáralítið breytast. Stjórnarskránni verður ekki breytt, fóstureyðingar verða áfram leyfilegar, það stendur eingöngu til þess að koma á umbótum innan SÞ (sem er svosum í fínu lagi) og ólöglegir innflytjendur munu halda áfram að streyma hingað inn á meðan það er eftirspurn eftir þeim hérna. Það eina sem stendur eftir er að þeim er að takast að traðka aðeins á réttindum homma og lesbía. Allt þjónar þetta einum tilgangi. Að gera íhaldssinnaða trúarofstækismenn nógu reiða og hrædda til þess að mæta á kjörstað og kjósa repúblíkana. Það tókst í síðustu forsetakosningum, og gæti vel tekist aftur.

5.7.06

Mountain Goats

Ein besta hljómsveitin sem ég hef uppgötvað undanfarið er The Mountain Goats frá Kalíforníu. Ég ætla svosum ekki að fara út í neinar meiriháttar lýsingu á hljómsveitinni, enda finnst mér yfirleitt leiðinlegt að lesa það sem aðrir hafa að segja um hljósveitir, rétt eins og mer finnst leiðinlegt að skrifa um poppsveitir. Hér er bara dæmi um texta eins lags sem ég var að hlusta á áðan. Helvíti flott:

No Children
I hope that our few remaining friends
give up on trying to save us.
I hope we come out with a fail-safe plot
to piss off the dumb few that forgave us.

I hope the fences we mended
fall down beneath their own weight.
And I hope we hang on past the last exit,
I hope it's already too late.

And I hope the junkyard a few blocks from here
someday burns down.
And I hope the rising black smoke carries me far away,
and I never come back to this town again.

In my life, I hope I lie,
and tell everyone you were a good wife.
And I hope you die,
I hope we both die.

I hope I cut myself shaving tomorrow;
I hope it bleeds all day long.
Our friends say it's darkest before the sun rises;
we're pretty sure they're all wrong.

I hope it stays dark forever,
I hope the worst isn't over.
And I hope you blink before I do,
and I hope I never get sober.

And I hope when you think of me years down the line,
you can't find one good thing to say.
And I'd hope that if I found the strength to walk out,
you'd stay the hell out of my way.

I am drowning.
There is no sign of land.
You are coming down with me,
hand in unlovable hand.

And I hope you die,
I hope we both die.

Ég held að þetta sé eins konar ástarljóð um tvær bitrar manneskjur sem geta ekki án hvors annars verið. Ég er samt ekki alveg viss. Þeir hafa víst gert seríu af lögum sem heita Going to...
Þetta eru ca. 40-50 lög. Eitt þeirra heitir Going to Iceland. Annað heitir Going to Reykjavík. Meira veit ég ekki.

3.7.06

Það er komið sumar

Ferlega er heitt og rakt hérna þessa dagana. Ég var heillengi að sofna í gær þrátt fyrir að vera alveg uppgefinn eftir hjólreiðatúrinn. Við fórum til yfir George Washington brúna til New Jersey til Piermont og svo aftur til baka. Þetta var ca. 3 klst. túr og við fórum ca. 70-80 km. Ég var búinn að vera eftir á. Líklega drakk ég ekki nógu mikið vatn á leiðinni. Sem betur fer hafði ég vit á að bera á mig sólarvörn þannig að ég brann ekki.

Mikið er gaman að vera kominn á alvöru spítthjól (sjá mynd til hægri). Fram til þessa hef ég bara notað fjallahjól og hjól ætluð börnum (þegar ég var sjálfur barn). Þetta er talsvert öðruvísi. Hjólið er fislétt og það er magnað hversu auðvelt er að ná upp talsverðum hraða. Nokkrum sinnum brá mér hreinlega við það hversu hratt maður ég fór. Næsta skref er að fá sér hjólaskó og til þess gerða pedala og þá fer maður ennþá hraðar. Svo var Catherine að stinga upp á því að ég fari með henni í duathlon keppni. Duathlon er að hlaupa og hjóla. Það fer fram eitt slíkt í ágúst í Prospect Park, í okkar nágrenni þar sem byrjað er á að hlaupa 5 km. svo eru hjólaðir 22 km. og að lokum er hlaupið 5 km. í víðbót. Það væri gaman að prófa þetta.

Nú er mánudagurinn 3. júlí og á morgun er þjóðhátíðardagur heimamanna. Flestir virðast hafa tekið sér frí í dag. Lestin var hálftóm og sárafáir á götunum hérna í Midtown. Hér eru fáir á skrifstofunni og maður er í frekar rólegum gír. Af vinnunni er helst frá því að segja að mér líður ansi vel í UNPFII (frumbyggjanefnd SÞ). Málefnin eru spennandi og maður er heldur betur að fá að gera eitthvað sem skiptir máli, enda þarf mikið að gera til þess að bæta réttindi frumbyggja. Ég er stoltur yfir því að fá að taka þátt í þeirri vinnu. Um daginn fór faram árlegur fundur frumbyggjanefndarinnar þar sem yfir 1000 frumbyggjar mættu alls staðar að úr heiminum. Ég var því miður allt of upptekinn til að taka ljósmyndir eða fylgjast með umræðunum, en á vefsíðu frumbyggjanefndarinnar (sem ég held utan um) eru myndir sem ég var að setja upp nýlega.

2.7.06

Kominn til baka eftir heimferð til Íslands

Fórum til Íslands í stutt frí, seinni hluta Júní. Það var helvíti fínt að koma aftur heim. Með okkur hjónunum komu foreldrar og móðursystir Catherine og það var heilmikil törn að sýna þeim landið. Þar sem mig langaði að sýna þeim suðurlandið (mikið að sjá þar) og mig langaði sjálfan að fara í Skagafjörðinn, kom eiginlega ekki annað til greina en að fara hringveginn, þar sem Sprengisandur var ennþá lokaður. Það var fínt mín vegna, enda hafði ég aldrei áður farið allann hringinn og tími til kominn. Ég keyrði alla leiðina og var orðinn þreyttur á þessu undir rest, eins og við öll, enda tókum við allann hringinn á 4 dögum og þremur nóttum.


Þau fóru öll eftir eina viku og ég varð eftir hjá fjölskyldu minni, sem var bara fínt, þó svo ég hafi saknað konu minnar. Sérstaklega fannst mér vænt um að hafa geta farið í Skaftafell með Kobba Hiildi og mömmu í tveggja daga túr. Veðrið leit reyndar ekki vel út til að byrja með, en það rættist aldeilis úr því. Ferðin var fín og við fórum í göngutúra inn í Morsárdal og upp á Kristínartinda. Það var gott að vera með þeim, enda sakna ég þeirra allra. Það eru myndir af ferðinni á flickr myndasíðunni minni og fleiri væntanlegar þangað.

Síðan ég kom aftur til NY hefur mig langað til að fá mér almennilegt hjól og ég dreif mig loksins í dag og fékk mér helvíti fínt hjól á 5th Avenue hérna í Park Slope. Við hjónin ætlum í hjólreiðatúr í fyrramálið yfir George Washington brúna og í gegnum Palisades garðinn í New Jersey. Ég er soldið spenntur yfir því að prófa hjólið. Ég tek myndavélina með mér og mun skella einhverjum inn á flickr, nema þær verði allar hræðilegar.