3.7.06

Það er komið sumar

Ferlega er heitt og rakt hérna þessa dagana. Ég var heillengi að sofna í gær þrátt fyrir að vera alveg uppgefinn eftir hjólreiðatúrinn. Við fórum til yfir George Washington brúna til New Jersey til Piermont og svo aftur til baka. Þetta var ca. 3 klst. túr og við fórum ca. 70-80 km. Ég var búinn að vera eftir á. Líklega drakk ég ekki nógu mikið vatn á leiðinni. Sem betur fer hafði ég vit á að bera á mig sólarvörn þannig að ég brann ekki.

Mikið er gaman að vera kominn á alvöru spítthjól (sjá mynd til hægri). Fram til þessa hef ég bara notað fjallahjól og hjól ætluð börnum (þegar ég var sjálfur barn). Þetta er talsvert öðruvísi. Hjólið er fislétt og það er magnað hversu auðvelt er að ná upp talsverðum hraða. Nokkrum sinnum brá mér hreinlega við það hversu hratt maður ég fór. Næsta skref er að fá sér hjólaskó og til þess gerða pedala og þá fer maður ennþá hraðar. Svo var Catherine að stinga upp á því að ég fari með henni í duathlon keppni. Duathlon er að hlaupa og hjóla. Það fer fram eitt slíkt í ágúst í Prospect Park, í okkar nágrenni þar sem byrjað er á að hlaupa 5 km. svo eru hjólaðir 22 km. og að lokum er hlaupið 5 km. í víðbót. Það væri gaman að prófa þetta.

Nú er mánudagurinn 3. júlí og á morgun er þjóðhátíðardagur heimamanna. Flestir virðast hafa tekið sér frí í dag. Lestin var hálftóm og sárafáir á götunum hérna í Midtown. Hér eru fáir á skrifstofunni og maður er í frekar rólegum gír. Af vinnunni er helst frá því að segja að mér líður ansi vel í UNPFII (frumbyggjanefnd SÞ). Málefnin eru spennandi og maður er heldur betur að fá að gera eitthvað sem skiptir máli, enda þarf mikið að gera til þess að bæta réttindi frumbyggja. Ég er stoltur yfir því að fá að taka þátt í þeirri vinnu. Um daginn fór faram árlegur fundur frumbyggjanefndarinnar þar sem yfir 1000 frumbyggjar mættu alls staðar að úr heiminum. Ég var því miður allt of upptekinn til að taka ljósmyndir eða fylgjast með umræðunum, en á vefsíðu frumbyggjanefndarinnar (sem ég held utan um) eru myndir sem ég var að setja upp nýlega.

No comments: