27.12.05

Bestu plötur ársins 2005

Auðitað hefur maður bara heyrt brot af öllum þeim plötum sem komu út á árinu, en hérna eru uppáhaldsplötur mínar frá árinu sem er að líða í engri sérstakri röð. Megnið af þessu er frekar rólegt en það segir auðvitað meira um minn smekk heldur en úrvalið af tónlist sem framleitt þessa dagana. Þetta er ekki í neinni sérstakri röð nema þá að ég bíð með bestu plötuna þangað til seinast.

Devendra Banhart - Cripple Crow
Reyndar er þessi plata soldið misjöfn, en þarna er uppáhalds lag mitt frá árinu, Santa Maria de la Feira, sem er sungin á spænsku. Devendra, sem fæddist í Venezuela og býr í San Francisco semur þessa dæmigerðu tónlist fyrir háskólastúdenta í tilvistarkreppu, sbr. Jeff Buckley, Elliot Smith eða Bob Dylan.

Sufjan Stevens - Illinoise
Sufjan segist ætla að gera eina plötu um hvert ríki Bandaríkjanna (einhversstaðar las ég að Texas verði skilið út undan) og þetta er önnur platan í seríunni. Sú fyrsta var um heimahaga hans, Michigan. Afar róleg og falleg plata sem inniheldur fullt af sögum um staði, fólk og geimverur í Illinois. Ólíkt mörgum af þessu rólegheitar indie liði þá er Sufjan með húmor fyrir því sem hann er að gera.

Sigur Rós - Takk
Besta hljómsevit í heimi.








Clap your hands say yeah - Clap your hands say yeah
Ég hafði ekkert heyrt um þessa sveit áður en ég las um hana á pitchforkmedia. Fyrir mig er þetta ein af uppgötvunum ársins. Reyndar fór rödd söngvarans í taugarnar á mér og minnti mig soldið á Violent Femmes, en maður var fljótur að venjast röddinni. Svo eru lögin líka æðislega grípandi.

Bright Eyes - I´m wide awake it´s morning
Besta plata ársins. Hvert einasta lag á plötunni er yndislegt, grípandi með fínum textum. Minnir kannski dálítið á Belle and Sebastian með kántrí-áhrifum.

22.12.05

Ljótir fótboltamenn

Sumir fylgjast með íþróttum ekki endilega vegna brennandi áhuga á þeim, heldur bara til þess að fylgjast með hæfileikaríkum, glæsilegum ungum mönnum og konum leika listir sínar. Þannig verður fólk eins og David Beckham og Anna Kournikova mun frægara en árangur þeirra ætti að gefa til kynna. Sjálfum fannst mér alltaf skemmtilegt að fylgjast með Austur-Evropskum konum í spjótkasti og kúluvarpi á níunda áratugnum. Það var einhvernveginn allt annar sjarmi yfir þessu liði. Að sama skapi líst mér helvíti vel á síðuna Ugly Footballers, sem er tileinkuð ljótum fótboltamönnum, enda er nóg til af þeim.

21.12.05

Verkfall í NY

Hér eru starfsmenn almenningssamgangna í verkfalli þannig að ég hjólaði í vinnuna annan daginn í röð. Það var svolítið kalt en aðallega bara skemmtilegt enda er sérstök stemning á götum borgarinnar þessa dagana. Allir leigubílar fullir af fólki keyrandi upp og niður breiðgöturnar eins og strætisvagnar, hellingur af hjólreiðamönnum, geggjaðar umferðarteppur og endalaus straumur af fólki að labba yfir Brooklyn Bridge. Ég gerði þau mistök að fara yfir Brooklyn brúna í gær, en hefði betur sleppt því enda þurfti maður að reiða hjólið nánast alla leið - svo mikið var mannhafið þarna. Ég lærði af þessu og fór nú í morgun yfir Manhattan Bridge og gekk sá túr miklu betur þar sem sú brú endar í Chinatown sem er ekki alveg jafn mikilvægt athafnasvæði og fjármálahverfið (þar sem Brooklyn brúin endar).

Yfirleitt held ég að fólk sé mun stressaðra yfir allri þessari vitleysu á leiðinni heim, heldur en á leiðinni í vinnuna - það á allavegana við um mig. Það var tvisvar sinnum næstum því keyrt yfir mig á leiðinni heim í gær, umferðin var miklu verri og það lá alveg í loftinu hversu pirraðir margir voru orðnir. Þessi fílingur um að það væri bara skemmtileg tilbreyting að labba eða hjóla í vinnuna var alveg horfinn. Í staðinn var óþolinmæði í garð samborgaranna ríkjandi. Þetta verður sjálfsagt svipað í kvöld.

Svo veit maður ekkert hversu lengi þetta mun standa yfir. Það er greinilega heilmikil harka í samningarviðræðum og hér er bara rætt um að fylkisstjórinn George Pataki geti komið inn og miðlað málum. Hér er engin staða ríkissáttasemjara, enda eru stéttarfélög mun veikari hér en á Íslandi og minna um svona uppákomur. Svo er þetta verkfall ólöglegt. Opinberir starfsmenn mega ekki fara í verkföll. Verkalýðsfélagið er sektað um $1 miljón á dag hvern sem verkfallið stendur yfir auk þess sem starfmenn eru sektaður um tveggja daga tekjur fyrir hvern dag sem þau eru í verkfalli. Svona er þetta hérna í landi frelsisins.

2.12.05

Leti og vinna

Ég er búinn að vera allt of latur við að skirfa eitthvað hérna undanfarið. Sem betur fer hef ég nokkuð góða ástæðu fyrir því, sem er sú að ég hef haft heilmikið að gera í vinnunni. Vegna þess að ég hafði allt of lítið að gera fyrir ekki svo löngu, þá er ég alveg í skýjunum yfir því að vera upptekinn og þurfa að vinna lengi. Enda er djobbið skemmtilegt. Er að tala við fólk frá UNICEF og UNDP um hvernig þau fara að því að setja saman skýrslur sínar um stöðu barna í heiminum o.s.frv. Hugmyndin er sú að við notfærum okkur reynslu annarra til þess að get með besta hætti sett saman fyrstu global skýrsluna um málefni frumbyggja.

Ég er á leiðinni heim! Hlakka heilmikið til þess að borða rúgbrauð með kæfu, mysuost og síld í majonesdrullu sem þeir kalla víst karrísósu. Þetta er í fyrsta skiptið sem maður kemur heim sem giftur maður. Við erum ekki enn búin að fara í brúðkaupsferð. Kannski hana langi með mér í pílagrímsferð til bæjarins Fucking sem er í Austurríki. Ólíklegt þó. Hugsa að ég gæti samt platað Óla með mér einhvern tímann...