29.9.05

Heima er bezt?

Afi minn var á sínum tíma áskrifandi að Skagfirska tímaritinu Heima er bezt. Ekki man ég mikið eftir efni blaðsins, nema zetunni í nafninu og að yfirleitt voru það glæsileg hross eða virðulegir eldri borgarar sem prýddu forsíðurnar. Sem barn fannst mér nafnið hræðilega asnalegt (og finnst reyndar enn). Zetan fór alltaf í taugarnar á mér, en hitt sem mér fannst verra var sú hugmynd að ákveða fyrirfram að sá litli staður sem maður sjálfur þekkir bezt, í þessu tilviki Skagafjörður væri í raun og veru besti staðurinn í heimi. Gat það verið satt? Er ekki skynsamlegra að prófa eitthvað annað áður en maður kemst að þeirri niðurstöðu (og ferðalag í Þingeyjasýslu er ekki nóg). Það er eitthvað skrítið við þessa hugmynd, sem er samt ansi rík hjá íslendingum almennt og reyndar flestu fólki sem ég hef kynnst annars staðar.

Sjálfur hef ég samt átt erfitt með að sætta mig við það viðhorf að mans eigin heimahagar séu eitthvað betri en aðrir. Reyndar stendur maður sjálfa sig og aðra oft að því að lýsa því yfir þveröfugum skoðunum (Ísalnd er verzt). Að Ísland sé ekki endilega svo góður staður til að búa á. Landinu er stýrt af fámennri klíku valdasjúkra manna og stuttbuxnadregja í kring um þá. Spillingin er alls staðar og maður er bara feginn að búa annars staðar. Að þurfa ekki að horfa upp á þessa blöndu af græðgi, heimsku og aumingjaskap á hverjum degi. Það hafa ansi margir hugsað á þessa leið. Að þetta eða hitt myndi ekki líðast í siðmenntuðu lýðræðisríki (ein og það viðgengst á Íslandi). Í útlöndum myndu ráðherrar þurfa að segja af sér fyrir mistök sem íslenskir ráðherrar neita að bera ábyrgð á. Ísland er bara bananalýðveldi. Allt þetta hefur maður sjálfur oft hugsað (kannski stundum með réttu) og svona hugsanaháttur læðist alltaf að manni reglulgega. Svo verður mér hugsað til afa.

Er það virkilega svo að málin á Íslandi séu miklu verri en annars staðar? Á sama tíma og allt var (réttilega) á öðrum endanum í íslensku þjóðlífi vegna ráðningar reynslulauss ungs manns í stöðu fréttastjóra útvarps var Paul Wolfowitz ráðinn bankastjóri í Alþjóðabankanum. Með fullri virðingu fyrir starfsfólki RÚV, og íslensku þjóðinni, þá held ég að síðari ráðningin kunni að hafa alvarlegri afleiðingar fyrir þann tæpan helming jarðarbúa (2.7 miljarðar) sem lifa á minna en $2 á degi hverjum, heldur en sý fyrrnefndi fyrir hlustendur gufunnar.

Hundruðir manna létust nýlega í Louisiana og Mississippi vegna skipulgasleysis og vanhæfni yfirvalda í kjölfar Katrínar. Aumingjarnir sem Bush stjórnin réði til að bregðast við hamförum reyndu í fyrstu að kenna hinum fátæku og veiku sjálfum um það að hafa ekki getað bjargað sér. Skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín er svo hræðilega algengt (ekki bara í Bandaríkjunum) að aðstæður þess fólks komast varla upp á yfirborðið nema þegar fellibylur eyðileggur heilu landsvæðin og það er ekki hægt annað en að taka eftir því hversu fátækt fólk er hérna. Dags daglega getur maður litið undan þegar heimilislaus kona betlar, eða gegngur fram hjá manni með poka fulla af tómum dósum og plastflöskum, en það var ekki hægt í New Orleans.

Á íslandi lætur Davíð Oddson af störfum á sama tíma og Tom DeLay segir af sér sem leiðtogi repúblíkana í fulltrúadeildinni, en það er búið að kæra hann fyrir að brjóta lög um fjáröflun í kosningsjóði. DeLay er öfgasinnaður, öfgatrúaður og hatursfullur maður sem á fátt sameiginlegt með Davíð Oddsyni.

Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr því sem er að gerast á Íslandi og auðvitað ber að rannsaka allar hliðar á Baugsmálinu. Skandalar eiga sér stað alls staðar og okkur ber að sjálfsögðu skylda til þess að vinna gegn spillingu þar sem hana er að finna. Sem betur fer er spilling á íslandi ekki alveg það sama og annars staðar og því er ég feginn.

Kannski er heima ekki endilega bezt, en heima er samt stundum ágætt og jafnvel gott betur en það. Þetta er semsagt mí versjón af heimþrá.

27.9.05

Helgin og mánudagurinn

Helgin var frekar tíðindalítil. Það sem helst stendur upp úr er að húsið er fullt af rússneskum iðnaðarmönnum sem eru að gera upp íbúðina fyrir ofan okkur á þriðju hæðinni. Pípararnir þurftu að komast að lögnum inni í eldhúsi hjá okkur og enduðu með því að vera að puða í þessu allann daginn, þannig að við gátum ekki mikið gert. Ekki gátum við verið í burtu allann daginn og ekki gátum við heldur hagað okkur eins og venjulega heima, enda komumst við ekki inn í eldhúsið og svo var ekkert vatn. Við enduðum á því að horfa á 5 þætti af Six Feet Under sem var helvíti gaman. Við erum á öðru seasoni og þetta er frábær skemmtun.

Svo prófuðum við sótrónu- og kirsuberjasorbet sem ég hafði búið til kvöldið áður. Svakalega tókst það vel hjá manni, en það eina sem maður notaði í þetta var vatn, sítrónur, kirsuber og sykur.

Nú í vinnunni erum við að setja saman tillögu að þriggja daga fundi þar sem við bjóðum sérfræðingum að koma saman og ræða um tiltekin mál. Hugmyndin er svo sú að efni slíkra funda nýtist okkur í að setja saman skýrslur okkar til Allsherjarþings. Hugmynd okkar er að fjalla um hvernig stefnumörkun í félagsmálum getur leitt til þess að koma í veg fyrir að átök brjótist út og um mikilvægi slíkrar stefnumörkunar fyrir uppbyggingu samfélaga sem eru að ná sér eftir að átökum er lokið. Hugmyndin á bak við þetta er sú að samfélög verða að sinna félagslegu málunum (hinum svo kölluðu mjúku málum) til þess að tryggja öryggi og frið. Annars er fjandinn laus.

21.9.05

Myndir frá brúðkaupinu

Ég er búinn að setja upp nokkrar myndir frá brúðkaupinu. Þetta eru bara myndir sem ég tók, þannig að það er ekkert enn komið frá sjálfri athöfninni. Myndirnar eru hérna. Svo þegar myndir fara að berast frá Hildi, Kobba og fröken DeMarco, þá skelli ég þeim upp líka.

Myndin hérna er af Guðrúnu frænku og mömmu. Guðrún er ekki alveg viss um hvað hún á að gera með sjávarréttarsúpuna.

20.9.05

ipod batterí

Ég var rétt í þessu að skipta um batterí í æpoddinum mínum, en batteríið var orðið ónýtt eftir aðeins eitt ár. Mér datt ekki í hug að borga apple $100 til að setja nýtt batterí í tækið, þannig að ég pantaði mér batterí af netinu á $15 og setti þetta inn sjálfur sem var ekkert mál. Eina vesenið var að opna helvítis tækið en það tókst á endanum, þökk sé þessum fínu leiðbeiningum hérna.

Ég rispaði æpoddinn aðeins, en þetta virkar alveg eins og það á að gera.

Giftur og kominn aftur í vinnuna

Þá er maður orðinn giftur maður. Það er reyndar ekkert svo skrítið. Að vísu er samband okkar Catherine orðið allt saman mun raunverulegra, en það var svosum alveg raunverulegt fyrir brúðkaupið. Við búum ennþá saman í sömu íbúðinni ásamt Danielle systur hennar, við erum alveg jafn ástfangin og áður og erum ennþá með sömu óljósu plönin fyrir framtíðina... langar í börn, langar að búa einhver ár í Suður Ameríku (erum þá aðallega að hugsa um ECLAC í Chile) en viljum kaupa okkur íbúð hérna í NY á næstu tveimur árum. Helsti munurinn dags daglega er að stundum heyrir maður fólk núna segja við mig your wife, sem hljómar soldið einkennilega (ekki illa, bara einkennilega), en það ætti nú að venjast. Maður er bara hamingjusamur og allt eins og það á að vera hérna.

Mamma, pabbi, Hildur, Kobbi, Sigrún, amma og Guðrún komu öll í brúðkaupið og það var yndislegt að hitta þau öll á sama tíma, en brúðkaupið fór fram á Cape Cod á heimili tengdaforeldra (annað sem maður er að venjast, er að tala um foreldra Catherine sem tengdó) minna. Þetta var látlaus athöfn sem tók ca. 20 mínútur allt í allt. Við fengum Justice of the Peace í heimsókn til ap sjá am athöfnina, og endurskrifuðum fyrir hann, ræðuna sem hann flytur í upphafi athafnarinnnar, aðallega til þess að losna við allar tilvísanirnar í guð og kristna trú, en við vorum bæði alveg með það á hreinu að gifta okkur ekki í krikju og að vera ekki að láta trúarbrögð vera að þvælast fyrir. Þess vegna var kjörið að gera þetta bara í stöfunni hjá André og Lise, foreldrum Catherine. Veðrið þarfa var yndislegt og við syntum í sjónum, fórum að veiða (Kobbi varð reyndar sjóveikur) og fjöslkyldurnar náðu að kynnast aðeins, en fram að þessu höfðu foreldrar okkar aldrei séð hvort annað. Ég held að það hafi komið öllum á óvart hversu vel öllum kom saman, þó svo maður hafi ekki átt von á neinu veseni. Þetta gekk bara alveg eins og maður vonaðist, og það er sjaldgæft.

Nú er maður aftur kominn í vinnuna. Í síðustu viku var leiðtogafundurinn hérna í upphafi allsherjarþings og ég tók mér frí mestan hluta vikunnar, enda voru öryggisráðstafanir svo yfirgengilegar að það tók því varla að þvælast í gegnum þetta allt saman bara til þess að stija á hálf tómri skrifstofunni hérna. Auk þess voru flest okkar hvött til þess að vera ekkert að mæta í vinnuna hvort sem er, aftur vegna öryggisráðstafana. Leiðtogafundurinn var svo hálfgert anticlimax eins og reynslumeiri menn en ég höfðu spáð fyrir um. Lítið sem ekkert af viti var ákveðið og Ameríkanar drugu sumar af hörðustu breytingartillögum til baka, en Kanarnir virtust á tímabili vera algerlega á móti nokkrum tilvísunum í þúsaldarmakmiðunum, sem eru markmið í átt að því að bæta kjör þeirra allra fátækustu. Lítið varð úr tillögum um að gera endurbætur á SÞ og enn minna varð úr hgumyndum um að fjölga í öryggisráðinu. Það eina sem virðist hafa gengið upp var að breyta Mannréttindanefndinni og að setja upp Peacebuilding Commision, sem eru að vísu skref í rétta átt. Við hérna í félagslegri þróun höldum okkar vinnu áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda tókum við engan þátt í leiðtogafundinum. Svo í gær fór allt rafmagn af í höfuðstöðvunum þannig að við fengum að fara heim snemma. Mér leið eins og ég væri aftur kominn í grunnskóla. Rafmagnslagnir í aðalbyggingunnu er víst í afar slæmu ástandi og það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að það stendur til að taka aðabygginguna í gegn, en ekkert ennþá vegna þess að tilskilin leyfi fást ekki frá New York fylki til að byggja nýja byggingu við hliðinni á aðalbyggingunni þar sem starfsemin myndi flytjast á meðan á endurbótum stæði. Það er afar nauðsynlegt að taka húsið í gegn enda er húsið fullt af asbestos auk þess sem margt annað er að. Repúblikanara hérna eru hins vegar á móti öllu slíku og fara ekki leynt með það að þeir eru að hefna sín á SÞ vegna ummæla Kofi Annan um stríðið í Íraq þegar hann sagði (réttilega) að innrásin stangaðist á við alþjóðalög. Þess vegna er alltaf af og til talað (aðallega í gríni) um að best væri bara að flytja höfuðstöðvarnar eitthvað annað, eins og til dæmis Osló, enda eiga Norðmenn nóg af peningum til að standa á bak við bygginagarkostnaðinn. Mér fyndist reyndar sniðugra ef að stjórnmálamenn í New Jersey byðu SÞ upp á pláss til að byggja á. Þannig yrðu höfuðstöðvarnar ekki fluttar burt frá Bandaríkjunum (sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar), en myndu samt fá að flytja í almennilegt húsnæði, auk þess sem þetta væri hressileg vítamínssprauta fyrir efnahag NJ. Slíkt boð myndi allavegana setja pressu á pólitíkusa hér í NY. En eins og oftast með málefni SÞ, þá er líklegast að ekkert gerist á næstunni og að þetta muni allt taka drjúgan tíma. Ég held að þolinmæði sé mikilvægasti eiginleikinn sem starfsmenn hérna þurfa á að halda.

Ég set svo upp myndir af brúðkaupinu þegar ég fæ þær, en skilanlega, þá tók ég lítið af myndum sjálfur.

5.9.05

Brúðkaup

Ég er farinn á Cape Cod að gifta mig. Mamma, pabbi og Hildur eru komin í heimsókn og hafa verið hérna undanfarna tvo daga. Svo förum við norður og hittum Kobba og Sigrúnu ásamt ömmu og Guðrúnu og svo fjölskyldu hennar Catherine. Við verðum svo aðeins saman, fjölskyldurnar tvær. Við karlarnir ætlum saman út að veiða einn daginn og á meðan hittast konurnar og hafa s.k. shower fyrir Catheirine. Ég vona bara að einhver okkar nái einum túnfiski. Svo fer brúpkaupið fram á laugardegi heima hjá forledrum hennar Kötu. Við fáum dómara í heimsókn til að sjá um athöfnina, og svo er þetta búið. Förum út að borða og svo heim aftur til foreldranna, þar sem við munum sjálfsagt halda eitthvað áfram að drekka og kjafta.

Degi síðar förum við til Boston þar sem við verðum eina nótt á hóteli áður en við komum aftur til New York þar sem vinnan bíður okkar. Við förum ekki í neina brúðkaupsferð fyrr en kannski einhverntímann í janúar. Svo er stefnan tekin á að koma heim til íslands og hafa almennilegt partí næsta sumar. Ég er þegar farinn að hlakka til þess. Ég sé ekki fram á að skrifa neitt hérna fyrr en að viku liðinni. Svo koma myndir á myndasíðuna, en það er tengill á hana hér á hægri hönd síðunnar.

2.9.05

Koppel góður

Viðmót Ted Koppel er enn eitt dæmið um reiði fólks héna rétt eins og flóttaleg svör Micahel Brown eru gott dæmi um skeytingarleysi og vanhæfi yfirvalda.
Hér er QuckTime myndband af viðtalinu

Katrín

Það er merkilegt að horfa upp á það sem virðist vera algert klúður og hanhæfni hjá yfirvöldum hérna í kjölfar Katrínar. Fólk hér er orðið afar reitt og maður er meira að segja farinn að sjá reiði blaðamanna skína í gegn. Annars er þrennt sem stendur upp úr í mínum huga.

Í fyrsta lagi er það hversu illa stjórnvöld hafa brugðist við og reyndar hversu illa þau voru undirbúin fyrir slíka atburði. Það er ekki eins og fellibylir séu séu sjaldgæfir á þessum slóðum. Það féllu fleiri fellibylir á bandaríkin en nokkru sinni fyrr (síðan menn hafa verið að taka saman slíkar upplýsingar) á síðasta ári. Fólk og félagasamtök hafa lengi vel farið fram á betri flóðavarnir og að eitthvað veri gert við landrofi þarna, en yfirvöld brugðust ekki við. Svo núna þegar fellibylurinn hefur riðið yfir, virðist það vera ómögulegt að koma mat og vatni til fólks sem er að svelta í hel. Fimm dagar eru liðnir, en lítið viriðist vera gert. Hryllingssögur um lík, ógeðslega lykt, steikjandi hita og ofbeldi frá fóboltevellinum Superdome eru skelfilegar, en þar eru hafa einverjir tugir þúsunda fólks verið undanfarna daga. Nú er svo byrjað að flytja fólk þaðan til annars fótboltavallar í Houston. Eru þetta lausnirnar sem völdugasta ríki veraldar hefur? Vandamálið er náttúrulega það að voldugasta ríki veraldar er uppteknara við aðra hluti en að hugsa um fátækt fólk og náttúruhamfarir. Sérstaklega virðist FEMA (Federal Emergency Managament Agency) vera illa undirbúið og illa stjórnað, en yfirmaður stofnunarinnar sem á að stjórna neyðvarvinnu virðist frekar vilja skella skuldinni á fórnarlömbin.

Annað sem mér finnst magnað að sjá er reiðif fólks almennt og sérstaklega reiði blaðamanna sem eru þarna í Louisiana og í kring. Það eru nánast allir brjálæðir yfir skeytingarleysi yfirvalda. Anderson Cooper á CNN gat greinilega ekk leynt reiði sinni þegar hann tók viðtal við þingmannsfífl frá Louisiana. Bush hefur ekki enn farið á svæðin, en ég held að hann hafi flogið yfir New Orleans í fyrradag. Í gær flutti hann ræðu til landsmanna sem var ótrúlega slök, rétt eins og hann gerði sér enga grein fyrir alvöru málsins. New York Times leiðarinn í dag fjallar um ræðuna. Annars er netið troðfullt af umfjöllun um ástandið og þetta er allt saman á sömu leið. Meira að segja fjölmiðlar sem yfirleitt styðja Bush taka undir gagnrýnina, enda ekki annað hægt. Ég hef að vísu ekki kíkt á Fox News enn sem komið er.

Að lokum hefur fellibylurinn komið hinu ofboðslega óréttlæti og fátækt í þessu samfélagi upp á yfirborðið. Nánast allir þeir sem þjást mest vegna Katrínar eru fátækt svart fólk. Í daglegu amstri hugsa Bandaríkjamenn ekki um hinn óhugnanlega ójöfnuð hérna þar sem svart svart fólk vinnur við það að þjóna hvítu fólki. Fari maður inn á MacDonalds, Starbucks eða Dunkin Donuts, þá er það nær undantekningarlaust svört manneskja sem þjónar manni. Fái maður vörur sendar heim eru það svartir ungir menn sem bera kassana fyrir mann. Á golfklúbbunum, hótelunum og líkamsræktarstöðvunum hér í Bandaríkjunum er það upp til hópa svart fólk sem þrífur skítinn undan hvítu fólki. Allt þetta fólk fær borgað lágmakrslaun fyrir vinnu sína og það lifir í fátækt.

Þetta er allt saman fátækt fólk sem varð eftir í New Orleans. Þau eiga ekki bíla og höfðu ekki efni á því að skjótast burt úr borginni fara á gistiheimili. Margir þarna eiga ekki ættingja utan borgarinnar sem þau geta leitað til. Við slíkar aðstæður er það skiljanlegt að fólk hafi hugsað að kannski væri betra að vera bara heima. Kannski verður fellibylurinn ekki svo slæmur.

Svo núna, þegar engin aðstoð berst, þá leggja yfirvöld meiri áherslu á að koma í veg fyrir að fólk brjótist inn í verslanir, heldur en að bjarga deyjandi fólki. Þegar fréttir bárust af þjófnaði ákváðu yfirvöld í fyrradaga að skipa öllum lögreglumönnum að einbeita sér að því að stöðva þjófnað, og hætta öllum björgunarstörfum. Það er semsagt mikilvægara að verja vörur inni í verslunum, heldur en að bjarga deyjandi fólki...

1.9.05

Giftingarhugleiðingar

Í kvöld ætlum við nokkrir strákar að fara saman út að borða. Tilefnið er að ég er að fara að gifta mig. Það hafði aldrei hvarflað að mér að gera eitthvað sérstakt áður og mig langaði alls ekki í neins konar steggjapartí eða neitt svoleiðis. Það var samt gaman þegar Tom stakk upp á að við færum nokkrir saman út að borða á stað sem heitir Peter Luger Steak House sem á að vera sérstakur staður sem er vel þekktur hérna í borginni. Staðurinn er í Williamsburgh hverfinu í Brooklyn og er víst aðallega þekktur fyrir að hafa engan matseðil. Maður fær bara steik. Og steikin er víst svakaleg, meira að segja á Amerískan mælikvarða. Kransæðastífla beint í æð. Vona bara að ég komist í vinnuna á morgun. Annars finnst mér leiðinlegt að hafa ekki aðra vini hérna með mér, en þetta er hluti af því að búa í útlöndum. Stundum fæ ég heimþrá og sakna þess að geta ekki verið meira með fjölskyldunni og vinum. Að sjálfsögðu finnur maður sérstaklega fyrir þessu á ákveðnum tímamótum. Þegar eitthvað sérstaklega gott eða slæmt er að gerast. Til dæmis vor tveir vinnufélagar mínir að missa mæður sínar nýlega, annar í Hollandi en hin í Mongólíu. Það er oft erfitt að vera svo langt frá fólkinu sínu.

Annars er ég ennþá ekki orðinn stressaður fyrir giftinguna. Það er rétt rúm vika þangað til ég geng í hjónaband sem er til æviloka og mér finnst þetta bara sjálfsagt. Auðvitað er aðalástæðan sú að ég er ástfanginn og er handviss um að ég sé að gera rétt. En samt... Á maður ekki að vera stressaður? Kannski kemur þetta síðar. Kannski er ég stressaður en er bara ekki að viðurkenna það gangvart sjálfum mér. Held samt ekki. Það hjálpar til að vera orðinn 34 ára gamall og að hafa svolitla reynslu á bakinu. Ég hef verið ástfanginn áður og veit betur hvað á að varast í samböndum og hvað gæti orðið að vandamáli í framtíðinni og hvað er bara eðlilegt. Auðvitað er ómögulegt fyrir mig að sjá hvað gæti orðið að vandamáli. Aðalatriðið er að við Catherine erum hamingjusöm saman. Við gefum hvort öðru svo margt og styðjum við hvort annað. Sambandið er bara eins og það á að vera. Það er gaman þegar maður er svo heppinn að hafa slíkt.

Hmmm. Þetta er ólíkt flestu sem ég hef verið að skrifa hér. Mun persónulegra en áður. Ég veit ekki hvort þetta sé það sem koma skal. Held samt ekki.