20.9.05

Giftur og kominn aftur í vinnuna

Þá er maður orðinn giftur maður. Það er reyndar ekkert svo skrítið. Að vísu er samband okkar Catherine orðið allt saman mun raunverulegra, en það var svosum alveg raunverulegt fyrir brúðkaupið. Við búum ennþá saman í sömu íbúðinni ásamt Danielle systur hennar, við erum alveg jafn ástfangin og áður og erum ennþá með sömu óljósu plönin fyrir framtíðina... langar í börn, langar að búa einhver ár í Suður Ameríku (erum þá aðallega að hugsa um ECLAC í Chile) en viljum kaupa okkur íbúð hérna í NY á næstu tveimur árum. Helsti munurinn dags daglega er að stundum heyrir maður fólk núna segja við mig your wife, sem hljómar soldið einkennilega (ekki illa, bara einkennilega), en það ætti nú að venjast. Maður er bara hamingjusamur og allt eins og það á að vera hérna.

Mamma, pabbi, Hildur, Kobbi, Sigrún, amma og Guðrún komu öll í brúðkaupið og það var yndislegt að hitta þau öll á sama tíma, en brúðkaupið fór fram á Cape Cod á heimili tengdaforeldra (annað sem maður er að venjast, er að tala um foreldra Catherine sem tengdó) minna. Þetta var látlaus athöfn sem tók ca. 20 mínútur allt í allt. Við fengum Justice of the Peace í heimsókn til ap sjá am athöfnina, og endurskrifuðum fyrir hann, ræðuna sem hann flytur í upphafi athafnarinnnar, aðallega til þess að losna við allar tilvísanirnar í guð og kristna trú, en við vorum bæði alveg með það á hreinu að gifta okkur ekki í krikju og að vera ekki að láta trúarbrögð vera að þvælast fyrir. Þess vegna var kjörið að gera þetta bara í stöfunni hjá André og Lise, foreldrum Catherine. Veðrið þarfa var yndislegt og við syntum í sjónum, fórum að veiða (Kobbi varð reyndar sjóveikur) og fjöslkyldurnar náðu að kynnast aðeins, en fram að þessu höfðu foreldrar okkar aldrei séð hvort annað. Ég held að það hafi komið öllum á óvart hversu vel öllum kom saman, þó svo maður hafi ekki átt von á neinu veseni. Þetta gekk bara alveg eins og maður vonaðist, og það er sjaldgæft.

Nú er maður aftur kominn í vinnuna. Í síðustu viku var leiðtogafundurinn hérna í upphafi allsherjarþings og ég tók mér frí mestan hluta vikunnar, enda voru öryggisráðstafanir svo yfirgengilegar að það tók því varla að þvælast í gegnum þetta allt saman bara til þess að stija á hálf tómri skrifstofunni hérna. Auk þess voru flest okkar hvött til þess að vera ekkert að mæta í vinnuna hvort sem er, aftur vegna öryggisráðstafana. Leiðtogafundurinn var svo hálfgert anticlimax eins og reynslumeiri menn en ég höfðu spáð fyrir um. Lítið sem ekkert af viti var ákveðið og Ameríkanar drugu sumar af hörðustu breytingartillögum til baka, en Kanarnir virtust á tímabili vera algerlega á móti nokkrum tilvísunum í þúsaldarmakmiðunum, sem eru markmið í átt að því að bæta kjör þeirra allra fátækustu. Lítið varð úr tillögum um að gera endurbætur á SÞ og enn minna varð úr hgumyndum um að fjölga í öryggisráðinu. Það eina sem virðist hafa gengið upp var að breyta Mannréttindanefndinni og að setja upp Peacebuilding Commision, sem eru að vísu skref í rétta átt. Við hérna í félagslegri þróun höldum okkar vinnu áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda tókum við engan þátt í leiðtogafundinum. Svo í gær fór allt rafmagn af í höfuðstöðvunum þannig að við fengum að fara heim snemma. Mér leið eins og ég væri aftur kominn í grunnskóla. Rafmagnslagnir í aðalbyggingunnu er víst í afar slæmu ástandi og það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að það stendur til að taka aðabygginguna í gegn, en ekkert ennþá vegna þess að tilskilin leyfi fást ekki frá New York fylki til að byggja nýja byggingu við hliðinni á aðalbyggingunni þar sem starfsemin myndi flytjast á meðan á endurbótum stæði. Það er afar nauðsynlegt að taka húsið í gegn enda er húsið fullt af asbestos auk þess sem margt annað er að. Repúblikanara hérna eru hins vegar á móti öllu slíku og fara ekki leynt með það að þeir eru að hefna sín á SÞ vegna ummæla Kofi Annan um stríðið í Íraq þegar hann sagði (réttilega) að innrásin stangaðist á við alþjóðalög. Þess vegna er alltaf af og til talað (aðallega í gríni) um að best væri bara að flytja höfuðstöðvarnar eitthvað annað, eins og til dæmis Osló, enda eiga Norðmenn nóg af peningum til að standa á bak við bygginagarkostnaðinn. Mér fyndist reyndar sniðugra ef að stjórnmálamenn í New Jersey byðu SÞ upp á pláss til að byggja á. Þannig yrðu höfuðstöðvarnar ekki fluttar burt frá Bandaríkjunum (sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar), en myndu samt fá að flytja í almennilegt húsnæði, auk þess sem þetta væri hressileg vítamínssprauta fyrir efnahag NJ. Slíkt boð myndi allavegana setja pressu á pólitíkusa hér í NY. En eins og oftast með málefni SÞ, þá er líklegast að ekkert gerist á næstunni og að þetta muni allt taka drjúgan tíma. Ég held að þolinmæði sé mikilvægasti eiginleikinn sem starfsmenn hérna þurfa á að halda.

Ég set svo upp myndir af brúðkaupinu þegar ég fæ þær, en skilanlega, þá tók ég lítið af myndum sjálfur.

No comments: