1.9.05

Giftingarhugleiðingar

Í kvöld ætlum við nokkrir strákar að fara saman út að borða. Tilefnið er að ég er að fara að gifta mig. Það hafði aldrei hvarflað að mér að gera eitthvað sérstakt áður og mig langaði alls ekki í neins konar steggjapartí eða neitt svoleiðis. Það var samt gaman þegar Tom stakk upp á að við færum nokkrir saman út að borða á stað sem heitir Peter Luger Steak House sem á að vera sérstakur staður sem er vel þekktur hérna í borginni. Staðurinn er í Williamsburgh hverfinu í Brooklyn og er víst aðallega þekktur fyrir að hafa engan matseðil. Maður fær bara steik. Og steikin er víst svakaleg, meira að segja á Amerískan mælikvarða. Kransæðastífla beint í æð. Vona bara að ég komist í vinnuna á morgun. Annars finnst mér leiðinlegt að hafa ekki aðra vini hérna með mér, en þetta er hluti af því að búa í útlöndum. Stundum fæ ég heimþrá og sakna þess að geta ekki verið meira með fjölskyldunni og vinum. Að sjálfsögðu finnur maður sérstaklega fyrir þessu á ákveðnum tímamótum. Þegar eitthvað sérstaklega gott eða slæmt er að gerast. Til dæmis vor tveir vinnufélagar mínir að missa mæður sínar nýlega, annar í Hollandi en hin í Mongólíu. Það er oft erfitt að vera svo langt frá fólkinu sínu.

Annars er ég ennþá ekki orðinn stressaður fyrir giftinguna. Það er rétt rúm vika þangað til ég geng í hjónaband sem er til æviloka og mér finnst þetta bara sjálfsagt. Auðvitað er aðalástæðan sú að ég er ástfanginn og er handviss um að ég sé að gera rétt. En samt... Á maður ekki að vera stressaður? Kannski kemur þetta síðar. Kannski er ég stressaður en er bara ekki að viðurkenna það gangvart sjálfum mér. Held samt ekki. Það hjálpar til að vera orðinn 34 ára gamall og að hafa svolitla reynslu á bakinu. Ég hef verið ástfanginn áður og veit betur hvað á að varast í samböndum og hvað gæti orðið að vandamáli í framtíðinni og hvað er bara eðlilegt. Auðvitað er ómögulegt fyrir mig að sjá hvað gæti orðið að vandamáli. Aðalatriðið er að við Catherine erum hamingjusöm saman. Við gefum hvort öðru svo margt og styðjum við hvort annað. Sambandið er bara eins og það á að vera. Það er gaman þegar maður er svo heppinn að hafa slíkt.

Hmmm. Þetta er ólíkt flestu sem ég hef verið að skrifa hér. Mun persónulegra en áður. Ég veit ekki hvort þetta sé það sem koma skal. Held samt ekki.

No comments: