29.9.05

Heima er bezt?

Afi minn var á sínum tíma áskrifandi að Skagfirska tímaritinu Heima er bezt. Ekki man ég mikið eftir efni blaðsins, nema zetunni í nafninu og að yfirleitt voru það glæsileg hross eða virðulegir eldri borgarar sem prýddu forsíðurnar. Sem barn fannst mér nafnið hræðilega asnalegt (og finnst reyndar enn). Zetan fór alltaf í taugarnar á mér, en hitt sem mér fannst verra var sú hugmynd að ákveða fyrirfram að sá litli staður sem maður sjálfur þekkir bezt, í þessu tilviki Skagafjörður væri í raun og veru besti staðurinn í heimi. Gat það verið satt? Er ekki skynsamlegra að prófa eitthvað annað áður en maður kemst að þeirri niðurstöðu (og ferðalag í Þingeyjasýslu er ekki nóg). Það er eitthvað skrítið við þessa hugmynd, sem er samt ansi rík hjá íslendingum almennt og reyndar flestu fólki sem ég hef kynnst annars staðar.

Sjálfur hef ég samt átt erfitt með að sætta mig við það viðhorf að mans eigin heimahagar séu eitthvað betri en aðrir. Reyndar stendur maður sjálfa sig og aðra oft að því að lýsa því yfir þveröfugum skoðunum (Ísalnd er verzt). Að Ísland sé ekki endilega svo góður staður til að búa á. Landinu er stýrt af fámennri klíku valdasjúkra manna og stuttbuxnadregja í kring um þá. Spillingin er alls staðar og maður er bara feginn að búa annars staðar. Að þurfa ekki að horfa upp á þessa blöndu af græðgi, heimsku og aumingjaskap á hverjum degi. Það hafa ansi margir hugsað á þessa leið. Að þetta eða hitt myndi ekki líðast í siðmenntuðu lýðræðisríki (ein og það viðgengst á Íslandi). Í útlöndum myndu ráðherrar þurfa að segja af sér fyrir mistök sem íslenskir ráðherrar neita að bera ábyrgð á. Ísland er bara bananalýðveldi. Allt þetta hefur maður sjálfur oft hugsað (kannski stundum með réttu) og svona hugsanaháttur læðist alltaf að manni reglulgega. Svo verður mér hugsað til afa.

Er það virkilega svo að málin á Íslandi séu miklu verri en annars staðar? Á sama tíma og allt var (réttilega) á öðrum endanum í íslensku þjóðlífi vegna ráðningar reynslulauss ungs manns í stöðu fréttastjóra útvarps var Paul Wolfowitz ráðinn bankastjóri í Alþjóðabankanum. Með fullri virðingu fyrir starfsfólki RÚV, og íslensku þjóðinni, þá held ég að síðari ráðningin kunni að hafa alvarlegri afleiðingar fyrir þann tæpan helming jarðarbúa (2.7 miljarðar) sem lifa á minna en $2 á degi hverjum, heldur en sý fyrrnefndi fyrir hlustendur gufunnar.

Hundruðir manna létust nýlega í Louisiana og Mississippi vegna skipulgasleysis og vanhæfni yfirvalda í kjölfar Katrínar. Aumingjarnir sem Bush stjórnin réði til að bregðast við hamförum reyndu í fyrstu að kenna hinum fátæku og veiku sjálfum um það að hafa ekki getað bjargað sér. Skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín er svo hræðilega algengt (ekki bara í Bandaríkjunum) að aðstæður þess fólks komast varla upp á yfirborðið nema þegar fellibylur eyðileggur heilu landsvæðin og það er ekki hægt annað en að taka eftir því hversu fátækt fólk er hérna. Dags daglega getur maður litið undan þegar heimilislaus kona betlar, eða gegngur fram hjá manni með poka fulla af tómum dósum og plastflöskum, en það var ekki hægt í New Orleans.

Á íslandi lætur Davíð Oddson af störfum á sama tíma og Tom DeLay segir af sér sem leiðtogi repúblíkana í fulltrúadeildinni, en það er búið að kæra hann fyrir að brjóta lög um fjáröflun í kosningsjóði. DeLay er öfgasinnaður, öfgatrúaður og hatursfullur maður sem á fátt sameiginlegt með Davíð Oddsyni.

Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr því sem er að gerast á Íslandi og auðvitað ber að rannsaka allar hliðar á Baugsmálinu. Skandalar eiga sér stað alls staðar og okkur ber að sjálfsögðu skylda til þess að vinna gegn spillingu þar sem hana er að finna. Sem betur fer er spilling á íslandi ekki alveg það sama og annars staðar og því er ég feginn.

Kannski er heima ekki endilega bezt, en heima er samt stundum ágætt og jafnvel gott betur en það. Þetta er semsagt mí versjón af heimþrá.

1 comment:

Anonymous said...

Mér finnst þetta hið beZta nafn. Það eru bara ekki allir sem hafa kost á því að ferðast og afhverju er þá ekki bara gott að þeir telji sjálfum sér trú um að þar sem þeir eru staddir sé beZti staðurinn. Það er þó skárra en að velta sér upp úr því hvað grasið sé alltaf grænna hinu megin.
Hildur Þóra