25.11.06

Ljósmyndun

Ég fékk mér nýja myndavél um daginn og er að reyna að læra á þetta. Fékk mér líka þrífót. Í dag fór ég út að hjóla og tók fullt af myndum. Fór í gegnum Brooklun og meðfram Hudson ánni þangað til ég kom til Long Island City sem er í Queens, beint á móti SÞ. Það þekkja flestir SÞ bygginguna, en ég vinn í DC2, sem er beint til hægri og bak við SÞ bygginguna á þessari mynd.

Vona svo að ég nái einhverjum almennilegum myndum í Salekhard, sem er í Síberíu, en ég fer þangað á þriðjudaginn og verð í burtu í ca. viku. Þar fer fram fundur sem heimamenn boða til og rætt verður um útgáfu á SÞ skýrslu um frumbyggja sem ég er að vinna í. Er satt að segja farinn að hlakka til, en það er víst helvíti kalt þarna. Undanfarið hefur verið 36-40 stiga frost þarna, samkvæmt síðasta tölvupósti sem ég fékk þaðan.

Heimur batnandi fer (a.m.k. á Norður Írlandi)

Einkennilegar fréttir frá Norður Írlandi þar sem DUP flokkur Ian Paisley og Sinn Fein eru sífellt að komast nær því að geta hugsanlega unnið saman í ríkisstjórn. Sambandssinnar eru ennþá afar tregir til þess að vinna með lýðveldissinnunum frá Sinn Fein, mönnum eins og Gerry Adams og Martin McGuinnness, sem allir vita að voru lengi vel æðstu menn í írska lýðveldishernum. Nú hefur IRA hætt öllum látum og sambandssinnar hafa í raun engar afsakanir til þess að standa í vegi fyrir myndun ríkisstjórnar. Málið er bara að hatrið ristir ansi djúpt og mörgum sambandssinnum (þeir sem vilja viðhalda stöðu N. Írlands sem hluti af Stora Bretlandi) finnst það hið versta mál að vinna með kaþólsku óvinunum.

Einn þeirra sem er ekki nógu ánægður með stöðu mála er Michael Stone, en hann er vel þekkt fígúra á Norður Írlandi. Hann tók sig til í vikunni og mætti í Stormont (þar sem þing N. Írlands situr) með skammbyssu, hníf, bakpoka fullann af heimatilbúinum sprengjum og málningarbrúsa. Áður en hann æddi inn í þingsalinn sprayaði hann "Sinn Fein/IRA mur... " fyrir utan húsið. Tókst greinilega ekki alveg að klára þetta. Svo hendir hann bakpokanum inn í salinn, hrópar "No Surrender" og er festir sig svo í dyrunum á leiðinni út þar sem öryggisverðir ná honum. Þetta er í raun stórfyndinn atburður. Ekki síst vegna þess hvaða maður Michale Stone er.

Stone var og er sjálfsagt ennþá félagi í Ulster Defence Association (UDA) sem er eitt af hryðjuverkasamtökum sambandssinna. Árið 1988 mætti hann í útför þriggja IRA manna sem höfðu verið drepnir af Bretum á Gíbraltar og hóf að kasta handsprengjum á syrgjendur og skjóta svo á hópinn, sem elti hann uppi, náði honum og höfðu sjálfsagt drepið hann, hefðu breskir leyniþjónustumenn ekki komið á bíl og bjargað honum. Hann drap þrjá manns og særði sextíu til viðbótar og sat í fangelsi þar til friðarsamkomulagið var undirritað og öllum föngum selppt í kjölfarið. Hann hefur verið laus s.l. 6 ár.

Fyrir ekki svo löngu síðan hefðu þetta verið hræðilegar fréttir og lýðveldissinnar verið líklegir til þess að hefna sín fyrir tilraunina, en Stone var eflaust að reyna að drepa Adams, McGuinness og félaga. Nú er bara hæðst að Stone sem er greinilega einangraður og náttúrulega spinnegal. Menn hlæja bara að klaufalegri tilraun hans til að sleppa í gegnum "revolving" dyrnar. Siðblindir fantar eins og Stone voru áður fyrr voru álitnar hetjur og leiðtogar af mörgum innan samfélags síns, en eru nú miklu frekar fyrirlitnir og útskúfaðir. Heimur batnandi fer.

Youtube er náttúrulega með þetta allt saman. Hér er sjónvarpsfrétt um árásina frá 1988.
Og svo upptaka frá atburðinum í vikunni.

21.11.06

Enn meiri kaldhæðni

Reuters fréttastofan segir í dag frá sex múslimaklerkum sem var bannað að fara um borð í flugvél í dag á leið frá Minnesota til Phoenix. Þeir voru handjárnaðir, leiddir út úr vélinni og yfirheyrðir. Að lokum var þeim sleppt, enda höfðu þeir ekkert gert af sér. Þeir höfðu hins vegar leyft sér að iðka trú sína og biðja til guðs síns áður en þeir fóru inn í vélina. Það var nóg til þess að flugstjóri sæi ástæðu til þess að krefjast þess að öryuggisverðir kæmu og fjarlægðu mennina eftir að þeir voru komnir um borð. Þetta kallast "suspicious activity" í dag.

Klerkarnir voru á leið heim eftir að hafa tekið þátt í þriggja daga ráðstefnu Norður Amerískra klerka sem fjallaði um að byggja brýr á milli Múslima og Bandarísks samfélags. Gangi þeim vel!

Það er ömurlegt hversu hrætt fólk er orðið og hversu algeng islamfofóbía er. Að sama skapi verður maður að spyrja hvort þessir klerkar séu veruleikafirrtir. Jafnvel þó svo að þeir séu bara að iðka trú sína, geta þeir ekki allavegana sleppt bænahaldi á flugvellinum? Maður þarf ekki að vera glöggur þjóðfélagsrýnir til þess að átta sig á að Bandaríkjamenn eru langt frá því að vera búnir að ná sér eftir 11. sept.

18.11.06

Abu Ghraib

Það er fróðleg umfjöllun á vefritinu Slate í dag um nýja sýningu Kólumbíska málarans Fernando Botero en umfjöllunarefni hans eru pyntingarnar í Abu Ghraib. Ég er enginn listgagnrýnandi og ætla ekki að reyna að rýna í þau verk sem hægt er að sjá á netinu. Gæti alveg hugsað mér að kíkja á sýninguna í Marlborough Galleríinu þó.

Aðallega finnst mér merkilegt og í raun frábært að sjá málverk um málefni sem eru svo djöfull pólitísk, mikilvæg og relevant í dag. Það er ekki nógu mikið hugsað hérna í heimsveldinu um hvað er verið að gera í nafni réttlætis, frelsis og lýðræði. Pistillinn á Slate, sem er vel þess virði að kíkja á, endar með þessum tveimur málsgreinum:

Aside from Botero, surprisingly few major artists have taken on the subject of torture at Abu Ghraib. One notable exception is Richard Serra, who translated the iconic image of the hooded prisoner with outstretched arms into a crude grease-stick drawing framed by the slogan "Stop Bush." It may be that the incidents in Iraq have yet to be culturally digested. And perhaps some artists also feel that the photographs taken by the American guards and later released to the press are themselves the most powerful visual indictments of the crimes committed there.

Yet Botero, by tackling this imagery in a focused and extended series, has demonstrated not only that such things can be represented in art but also that a figurative, cartoonish idiom may be the most powerful means of representing modern atrocity. It's no coincidence that one of the most profound and affecting works of Holocaust literature—Spiegelman's Maus—is a comic book. To some viewers, the chubby figures in Botero's paintings may appear ridiculous, grotesque—but so were the monstrous abuses of power to which they testify.

Hræðsluáróður

Hafi einhver áhyggjur (eða áhuga), þá er hættuástandið, samkvæmt heimavarnarstofnun í Bandaríkjnunum í dag gult sem þýðir á máli heimamanna:

ELEVATED: Significant Risk of Terrorist Attacks

Það er ljóst að maður þarf sífellt að vera á varðbergi. Það er aldrei að vita hvað nágrannarir eru að gera.

16.11.06

Siðblinda (annar hluti)

Það eru ekki bara þingmannsefni og glæpamenn á Íslandi sem þjást af siðblindu. Fox sjónvarpsstöðin ætlar að birta viðtal við OJ Simpson um hvernig hann hefði staðið að morðinu á fyrrverandi eiginkonu sinni og kærasta hennar sinni ef hann hefði gert það. Viðtalið er til að vekja athygli á væntanlegri bók hans sem ber hinn létt ósmekklega titil, "If I did it, Here´s How it Happened". Bókin er gefin út af ReganBooks sem er í eigu News Corporation veldis Rupert Murdoch, sem á m.a. Fox.

15.11.06

Yfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna um rétindi frumbyggja

Fyrr í sumar samþykkti nýstofað Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna Réttindayfirlýsingu Frumbyggja (Declaration on the Rights of Indigenous Peoples) og þessi yfirlýsing er nú til umræðu á yfirstandandi Allsherjarþingi. Líklega er góður meirihlugi aðildarríkja eru fylgjandi yfirlýsingunni sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að leggja línurnar um hver réttindi frumbyggja eru og að vera yfirlýsing alþjóðasamfélagsins um réttindi sem ber að stefna að. Yfirlýsingar eru eins og leiðbeiningar, frekar en fyrirmæli. Yfirlýsingar hafa ekki lagalegt gildi eins og t.d. sáttmálar og aðildarríkin þurfa ekki að staðfesta yfirlýsingar á þjóðþingum sínum. Þekktasta yfirlýsingin af þessu tagi er náttúrulega Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna, sem hefur einmitt ekki lagalegt gildi en hefur gífurlega mikilvægt siðferðislegt gildi.

Þessa dagana fara fram afar harðar umræður um Réttindayfirlýsingu Frumbyggja í Þriðju Nefnd Allsherjarþings. Aðildarríkin og fulltrúar frumbyggja hafa reyndar rætt og samið um orðalag yfirlýsingarinnar undanfarin 20 ár. Þessar samningaviðræður fóru fram undirnefnd Mannréttindanefndar SÞ í Genf, sem hefur nú verið lögð niður og Mannréttindaráð tekið við. Þetta er afar pólitískt málefni sem tengist annars vegar ógeðfelldri sögu og þjóðarmorðum á frumbyggjum og viðleitni til þess að leiðrétta söguleg mistök og hins vegar aðgang að landi, en frumbyggjar búa víðast hvar á landsvæðum þar sem náttúruauðlindir hafa ekki enn verið fullnýttar og því er oft um mikla hagsmuni að ræða.

Nokkur afar áhrifamikil aðildarríki eru andsnúin yfirlýsingunni. Þessi lönd eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Nýja Sjáland og jafnvel Rússland auk nokkurra Afríkuríkja, t.d. Botswana. Það sem þessi lönd óttast eru hugsanleg áhrif sem yfirlýsingin gæti haft á innanríkismál þeirra, en yfirlýsingin inniheldur orðalag um sjálfsákvörðunarrétt frumbyggja. Sérstaklega eru þau ósátt með þriðju og fjórðu málsgreinar yfrrlýsingarinnar.

Article 3
Indigenous peoples have the right of self determination. By virtue of that right they freely determine their political status and freely pursue their economic, social and cultural development.

Article 4
Indigenous peoples, in exercising their right to self-determination, have the right to autonomy or self-government in matters relating to their internal and local affairs, as well as ways and means for financing their autonomous functions.

Það sem ríkin segjast óttast er að að orðalagið um sjálfákvörðunarrétt frumbyggja sé hrein og bein ógnun gagnvart ríkinu og að það geti haft alvarleg áhrif á deilumál innan landamæra þeirra en það eru einmitt fjödinn allur af yfirstandandi dómsmálum í gangi í þessum löndum þar sem frumbyggjar eru að berjast fyrir réttindum sínum og þá aðallega eignarhald á landi. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir eitthvað um sögu þessara landa. Þá benda þessi ríki á að yfirlýsing um sérstök réttindi frumbyggja búi til tvenns konar þegna innan landa þeirra. Hvers vegna þarf sérstaka yfirlýsingu um réttindi frumbyggja fram yfir aðra hópa, spyrja þeir.

Aftur á móti eru nánast öll ríki mið og suður Ameríku fylgjandi yfirlýsingunni, auk Evrópulanda og flestra ríkja Asíu. Þá er fjöldinn allur af frjálsum félagastamtökum sem styðja yfirlýsinguna, þ.á.m. Amnesty International. Sem dæmi má nefna að Norðmenn og Finnar óttast ekki yfirlýsinguna og standa þétt með Sömum sem eru ansi virkir í alþjóðlegri réttindabaráttu frumbyggja. Þeir sem eru fylgjandi yfirlísingunni benda á að yfirlýsingin innihaldi engin ný réttindi sem eru ekki til í öðrum alþjóðasáttmálum eða yfirlýsingum. Þá sé orðalagið um sjálfsákvörðunarréttin ekki tilefni til ótta, enda vísar það til þess að frumbyggjar eigi að fá að ráða eigin málum, en ekki að þeir hafi frelsi til að stofna ný ríki. Þá er einnig orðalag í 46 málsgrein yfirlýsingarinnar sem er sett þar inn sérstaklega til að tryggja réttindi ríksins.

Article 46
1. Nothing in this Declaration may be interpreted as implying for any State, people, group or person any right to engage in any activity or to perform any act contrary to the Charter of the United Nations.
2. In the exercise of the rights enunciated in the present Declaration, human rights and fundamental freedoms of all shall be respected. The exercise of the rights set forth in this Declaration shall be subject only to such limitations as are determined by law, in accordance with international human rights obligations. Any such limitations shall be non-discriminatory and strictly necessary solely for the purpose of securing due recognition and respect for the rights and freedoms of others and for meeting the just and most compelling requirements of a democratic society.

Þau ríki sem styðja yfirlýsinguna segja að þetta orðalag tryggi aðildarríki fyrir því að frumbyggjar geti notfært sér yfirlýsingunu til að réttlæta sjálfstæðisbaráttu. Auk þess benda frumbyggjar sjálfir á að þeir hafi ekki nokkurn áhuga á stofnun eigin ríkja. Þeir vilji einfaldlega að réttindi þeirra séu virt.

Málið er í hnút núna og það eiga sér stað heilmiklar umræður og smaningar innan veggja Sameinuðu Þjóðanna. Ég veit ekki hvernig málið fer, en það gæti farið svo að samningaviræður um orðalag yfirlýsingarinnar verði opnaðar á ný. Það myndi nánast örugglega þýða að staðfesting yfirlýsingarinnar mynfi frestast um einhver ár. Þá er einnig möguleik á að kosið verði um yfirlýsinguna. Allsherjarþing forðast yfirleitt kosningar eins og heitan eldinn, enda hafa yfirlýsingar, eins og áður sagði, ekki lagalegt gildi, heldur aðeins siðferðislegt gildi. Þess vegna eru yfirlýsingarnar miklu sterkari ef allir eru sammála. Það er einmitt þess vegna sem orðalagið í svona textum er oft svo vandræðalegt og nánast ólæsilegt. Þegar orðalag er hreint og beint, og skorinort, má alltaf búast við því að eitthvert af 192 aðildarríjunum sé ósammála. Orðalag sem er óljóst og ómarkvisst geta ríkin hins vegar oftar sætt sig við.

Ég þarf að koma mér aftur að efninu. Þrðja nefnd heldur formlegan fund aftur á morgun og þá verður vonandi búið að leysa hnútinn. Ég er samt ekki allt of vongóður. Það er líklegt að þeir sem eru fylgjandi munu reyna að þrýsta á kosningu á meðan þeir sem eru andsnúnir munu beita einhverjum leiðum til að fresta málinu. Þá má ekki gleyma því að hér er stunduð alvöru realpolitik og allar alvöru ákvarðanir eru teknar á bak við luktar dyr. Það sem kemur fram á opnum fundum er oftast ekkert nema formsatriði. Þess vegna eru doplómatarnir núna að ræða þetta og væntanlega að mynda einhver bandalög. Stóra spurningin núna er hvort andstæðingar yfirlýsingarinnar hafi náð að mynda nógi stórt bandalag til að fella eða fresta samþykkt yfirlýsingarinnar. Þetta kemur í ljós á morgun eða hinn.

14.11.06

Tæknileg mistök

Ég kíki stundum á fréttir að heiman áður en ég fer heim úr vinnunni og sá þar viðtal við Árna Johnsen, þar sem hann segist iðrast og hafa gerst sekur um tæknileg mistök.

Er þetta þá ekki tæknileg iðrun?

13.11.06

Giuliani á leið í framboð

Það lítur út fyrir að Rudy Giuliani sé á leiðinni í forsetaframboð fyrir Repúblíkanaflokkinn. Hann er allavegana búinn að taka fyrsta skrefið og stofna the Rudy Giuliani Presidential Exploratory Commitee Inc. sem gerir honum kleift að safna fé fyrir framboðið. Eftir úrslit síðustu kosninga hljóta hófsamir repúblíkanar að vera afar spenntir fyrir möguleikum sínum, enda höfnuðu kjósendur harðlínustefnu hægrimanna.

Við getum fastlega búist við því að heyra svipaðar fréttir frá John McCain og George Pataki, en ég held að sá síðarnefndi eigi ekki séns. Svo kemur að því að Barack Obama lýsi yfir framboði. Hann er það vinsæll núna að hann getur ekki annað en látið reyna á þetta. Það er aldrei að vita hver staða hans verður eftir 4 ár, á meðan hann veit það að hann á mjög góða möguleika núna. Hann getur hreinlega ekki tekið sénsinn á því að fara ekki fram.

Hins vegar er ómögulegt að segja til um Hillary Clinton. Henni er smám saman að takast að bæta ímynd sína, en ég held samt að hún eigi ekki séns á að vinna. Hún á reyndar mjög góðan séns á að vinna prófkjörið og verða frambjóðandi demókrata, en ég held að hún sé ennþa svo illa liðin á hægri vængnum að forsetaframboð hennar myndi tryggja gífurlega mikla þáttöku hægrimanna. Það eru einfaldlega ofboðslega margir Ameríkanar sem hreinlega þola hana ekki! Svo er hún kona. Það er ljótt að segja þetta, en ég held að Ameríkanar séu ekki tilbúnir til þess að velja konu sem forseta.

Við munum fyrr sjá svartan mann sem forseta heldur en konu. Ég held nefnilega að umræðurnar fyrir nokkrum árum um Colin Powell sem hugsanlegan forsetaframbjóðenda hafa orðið til þess að plægja akurinn og ég held að þjóðin sé til í að kjósa svartan mann í embættið. Obama vs. McCain gæt orðið spennandi barátta.

2.7 milljón króna kompa

Það var æðisleg frétt í Sunnudagsblaði NY Times í gær um hjón sem höfðu keypt sér pínulitla kompu (10x10 fet) á $38500 sem eru ca. 2.7 miljónir króna. Satt að segja veit ég ekki hvort er skrítnara - fasteignaverð á Manhattan, eða söfnunaráráttan sem fær fólk til þess að kaupa svo mikið drasl að það hefur aldrei pláss fyrir það. Þetta er heldur ekki neitt einsdæmi. Í íbúðarhúsum á Manhattan eru langir biðlistar eftir svona geymsluplássi, sem losnar ekki nema þegar fólk flytur eða deyr.

10.11.06

Er Bolton næstur?

Það virðist líklegra með hverjum deginum að John Bolton fylgi í fótspor Donald Rumsfeld og verði næsta fórnarlamb kosningaúrslitanna. Bolton hefur verið afar umdeildur sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ. Hann er reyndar svo umdeildur að núverandi öldungadeild gat ekki einu sinni staðfest hann, en hann var settur í stöðuna tímabundið á meðan þingið var í fríi. Það er útilokað að nýkjörin öldungadeild staðfesti hann. Stjórnin er núna að reyna að ná fá hann staðfestan áður en nýkjörið þing kemur saman, en Lincoln Chafee fráfarandi öldungadeildarþingmaður frá Rhode Island segist ekki vera fylgjandi þeirri tilraun, samkvæmt frétt frá BBC.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig samskiptin á milli SÞ og Bandríkjanna þróast á nýju ári þegar Ban Ki Moon tekur við sem aðalritari og væntanlega nýr sendiherra Bandaríkjanna kominn til starfa.

9.11.06

Kaldhæðni

Ég var rétt að byrja á bók James Traub um Kofi Annan og SÞ. Bókin byjar ágætlega og ég hef þegar lært eitthvað nýtt.

Árið 1970 voru aðildarríki SÞ að velja sér nýjan Aðalritara sem átti að taka við af U. Thant. Norðurlöndin tefldu fram finnska diplómatanum Max Jakobsson og naut hann talsverðs stuðnings, meðal annars frá Bandaríkjamönnum. Þetta var náttúrulega í miðju kalda stríðinu og mikil spenna á milli USA og USSR. Sovétríkin beittu hins vegar neitunarvaldi sínu og felldu framboð Jakobssonar, sem nota bene var og er sósíalisti. Ástæðan sem Sovétmenn gáfu var sú að Jakobsson er gyðingur og að Arabaríki mynu aldrei sætta sig við hann sem aðalritara. Hver var svo niðurstaðan? Hvern gátu þjóðir heimsins sætt sig við, úr því að ekki mátti fá gyðing í starfið? Gamli nasistinn Kurt Waldheim var gerður að aðalritara og hann gengdi stöðunni næstu 10 árin.

Hvað varð um 9 millarða dollara?

Á meðan Bandaríkjamenn fóru með stjórnun Íraks, undir forystu Paul Bremer, tóku þeir m.a. 20 milljarða bandaríkjadollara sem voru í eigu írakska ríkisins. Þetta fé átti að að fara í það að kosta starfsemi ríkisins, og það er ekkert beinlínis óeðlilegt við það. Málið er hins vegar að 9 af þessum 20 milljörðum eru týndir. Það veit enginn hvert þeir fóru, og það sem merkilegast er - enginn neitar þessu, enginn efast um þessa staðhæfingu og um þetta hefur sáralítið verið fjallað. Kaldhæðnin við þetta er að þessir 20 milljarðar komu frá "oil for food" sjóðum íraka, en það var einmitt SÞ verkefnið sem Bandaríkjamenn kvörtuðu svo mikið yfir og notuðu til að gagnrýna Kofi Annan.

Ég trúi ekki öðru en að Demókratar munu krefjast rannsóknar á þessu.
Þessir týndu 9 milljarðar hafa ekki hlotið mikla athygli, en það má lesa um þetta hér, hér, hér og hér.

8.11.06

Rumsfeld farinn

Maður þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrstu áhrifunum. Donald Rumsfeld er farinn. Það kemur kannski ekki svo mikið á óvart, enda var maðurinn orðinn persónugerving íraksklúðursins.

Það er Rumsfeld sem hefur neitað að senda inn fleiri hermenn í Írak, enda passaði það ekki inn í kenningar hans um nútímahernað. Hann, eins og þessi stjórn, yfirleitt neitaði að horfast í augu við raunveruleikann þegar raunveruleikinn passaði ekki inn í hugmyndafræðina. Hugmyndafræði Rumsfeld byggir á því að nútímavæða Bandaríkjaher. Samkvæmt þessu á nútímaher að vera tiltölulega fámennur hópur vel þjálfaðra manna sem eru hreyfanlegir og beita nýjustu tækni þannig að baráttan fer að miklu leyti fram í fjarlægð - fjarstýrður hernaður. Þessar hugmyndir hafa ekki verið mjög vinsælar, hvorki á meðal hermanna né almennings, enda er það almennt talið að mun fleiri hermenn þurfi til að bæla niður uppreisnina þarna. Colin Powell var hefur til dæmis alltaf farið fram á mun fleiri hermenn væru sendir til Íraks. Til viðbótar, þá hefur stjórnunarstíll Rumsfelds gert hann ótrúlega óvinsælan innan varnarmálaráðuneytisins. Nýleg bók Bob Woodwards, lýsir Rumsfeld t.d. sem manni sem er bókstaflega hataður af nánast öllum samstarfsmönnum fyrir utan Bush og Cheney.

Þeir unnu

Demókratar náðu heldur betur fínni kosningu í gær. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á svo miklum breytingum, en það tókst greinilega hjá þeim að gera kosningarnar fyrst og fremst að kosningum um íraksstríð og Bush. Demókratar munu verða með öruggan meirihluta og Nancy Pelosi ætti því að verða sterkur leiðtogi þeirra á þingi. Það var satt að segja svolítið skrítið að heyra "the Democratic majority" í útvarpinu í morgun. Maður var orðinn svo vanur hinum merihlutanum. Svo þurfum við ennþá að bíða eftir niðurstöðunum frá Virginia og Montana, en þar munar svo sáralitlu. Demókratar þurfa að vinna bæði sæti til að ná eins sætis meirihluta í öldungadeildinni. Takist það má fastlega búast við nýjum sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ.

Annars er maður þegar spenntur fyrir því að sjá hverjar breytingarnar verða. Það eina sem er nokkuð öruggt er að nýji meirihlutinn muni afgreiða lög um lágmarkslaun og stofnfrumurannsóknir. Þá má gera ráð fyrir alls konar rannsóknum á íraksstríðinu og aðdraganda þess. Annars virðast demókratar ekki hafa hugmynd um hvað þeir vilja gera með Írak. Þeir hafa enga skýra stefnu, aðra en að segja að núverandi stefna Bush stjórnarinnar gangi ekki upp. Þeir komust upp með svona stefnuleysi fyrir kosningar, en nú þegar þeir hafa náð þinginu, þá verða þeir að koma fram með eitthvað bitastætt. Ég hugsa að þeir bíði eftir Baker-Hamilton skýrslunni.

Svo er alltaf séns á því að Bush neyðist til að gera einhverjar breytingar, svona til þess að bregðast við þessum köldu skilaboðum sem þjóðin var að senda honum. Hann gæti til dæmis fórnað Rumsfeld og leitað leiða til að vinna með nýjum þingmeirihluta, en það er nú ekki líklegt.

7.11.06

Kosið í dag

Þá er loksins komið að kosningadeginum. Catherine var að fara út til að kjósa á meðan ég sit hérna með kaffið og fer yfir helstu spár um kosningarnar. Hérna hjá okkur er þetta ekki mjög spennandi. Demókratar vinna þetta allt, nokkrun veginn. Elliot Spitzer verður fylkisstjóri (hann er reyndar afar spennandi kostur fyrir forsetaframboð eftir kannski átta ár eða svo), Hillary Clinton verður áfram fulltrúi okkar í öldungadeildinni og Demókratinn Yvette Clark verður fulltrúi okkar frá 11. kjördæmi New York fylkis í fulltrúadeildinni. Eina spennan hjá okkur er um Alan Hevesi sem er svokallaður Comptroller en hann er nokkurs konar fjármálaráðherra borgarinnar. Hevesi er demókrati og ætti að vera öruggur, en það komst upp nýlega að hann hefur látið starfsmenn borgarinnar vinna sem eikabílstjóra fyrir eiginkonu sína undanfarin ár. Aðrir demókratar hafa auðvitað forðast hann eins og heitan eldinn en hann heldur áfram að auglýsa.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu. Ég er orðinn nokkuð viss um að demókratar nái nokkuð öruggum meirihluta í fulltrúadeildinni en öldingadeildin verður ábyggilega rosalega spennandi. Það gæti meira að segja farið þannig að báðir flokkar nái 50 sætum. Þá er það hinn heitt elskaði varaforseti, Dick Cheney sem hefur úrslitaáhrif í öldungadeildinni. Svo er það Joe Lieberman (fyrrum varaforsetaefni), sem var felldur í prófkjöri demókrata í Connecticut en virðist munu halda sæti sínu sem óháður frambjóðandi. Það væri rosalegt comeback fyrir hann að komast inn - sæti hans gæti meira að segja orðið munurinn á milli meirihluta og minnihluta fyrir fyrrverandi félaga hans í demókrataflokknum.

2.11.06

Er fiskurinn í sjónum að klárast?

Samkvæmt nýrri rannsókn, sem BBC vitnar í, verður lítið sem ekkert eftir af fiski í sjónum eftir 50 ár. Ef þetta er rétt, þá er þetta náttúrulega hræðilegt, og ef þetta er ekki rétt, þá eru þetta ekki heldur góðar fréttir fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er spurning hvort maður verði sjálfur lifandi eftir 50 ár til að geta staðfest þetta?

Assif Mandvi

Ég er sannfærður um það að the Daily Show sé langbesta sjónvarpsefnið hérna. Ég er svo hrifinn af þættinum að hann er helsta ástæða þess að við gerðumst áskrifendur að kabalsjónvarpi nýlega, en þættirnir eru því miður á Comedy Central sem næst ekki í "venjulegu" sjónvarpi. Aðalmaðurinn á bak við þáttinn (sem er skopstæling af þessum dæmigerðu CNN fréttaspjallþáttum) er stjónrandinn John Stewart. Þó svo að Stewart sé helvíti góður, eru spekúlantarnir sem gera þáttinn jafn æðislegan og hann er. Daily Show er farið að minna mann á hvernig Saturday Night Live var hér áður fyrr - þáttur sem elur af sér hvern grínistann af öðrum sem gerir það svo gott annars staðar. Helsta mætti nefna Steven Colbert og Steve Carell.

Nýlega hefur Assif Mandvi verið að gera frábæra hluti í þættinum. Til dæmis var hann með fínt innlegg um aulabrandarann hjá Kerry og bar hann saman við brandara sem Bush og hans menn hafa sagt um Íraksstríðið. Það besta sem ég hef samt séð frá honum var samt þetta hér...

Kaldhæðnin er reyndar ekki sterkasta hlið Bandaríkjamanna og maður heyrir það að áhorfendum þykir óþægilegt að hlusta á þetta. Engu að síður frábært efni. Ég hlakka til þess að sjá meira frá Mandvi.

1.11.06

Ekkifrétt vikunnar

John Kerry, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Demókrata hefur orðið fyrir heiftarlegri gagnrýni hérna fyrir brandara sem hann sagði í Kaliforníu í gær. Þar var hann, að vanada, að gagnrýna forsetann og sagði svo þetta...

"You know education, if you make the most of it, you study hard, you do your homework, and you make an effort to be smart, you can do well. If you don’t, you get stuck in Iraq."

Það er margbúið að sýna þetta í sjónvarpinu og Repúlíkanar hafa gripið tækifærið og krafist þess að Kerry biðjist afsökunar. Að það sé algerlega óásættanlegt að hann skuli gera lítið úr Bandarískum hermönnum sem eru að fórna lífi sínu fyrir þjóðina. Málið er að Kerry var ekki að tala um hermenn - hann var að tala um forsetann. Hann var að reyna að gera grín að Bush og gefa í skyn að hann væri vitlaus. Eins og svo oft vill gerast, þá eru ummælin tekin úr samhengi. Það virðist samt engu máli skipta enda eru kosningar framundan.