27.12.05

Bestu plötur ársins 2005

Auðitað hefur maður bara heyrt brot af öllum þeim plötum sem komu út á árinu, en hérna eru uppáhaldsplötur mínar frá árinu sem er að líða í engri sérstakri röð. Megnið af þessu er frekar rólegt en það segir auðvitað meira um minn smekk heldur en úrvalið af tónlist sem framleitt þessa dagana. Þetta er ekki í neinni sérstakri röð nema þá að ég bíð með bestu plötuna þangað til seinast.

Devendra Banhart - Cripple Crow
Reyndar er þessi plata soldið misjöfn, en þarna er uppáhalds lag mitt frá árinu, Santa Maria de la Feira, sem er sungin á spænsku. Devendra, sem fæddist í Venezuela og býr í San Francisco semur þessa dæmigerðu tónlist fyrir háskólastúdenta í tilvistarkreppu, sbr. Jeff Buckley, Elliot Smith eða Bob Dylan.

Sufjan Stevens - Illinoise
Sufjan segist ætla að gera eina plötu um hvert ríki Bandaríkjanna (einhversstaðar las ég að Texas verði skilið út undan) og þetta er önnur platan í seríunni. Sú fyrsta var um heimahaga hans, Michigan. Afar róleg og falleg plata sem inniheldur fullt af sögum um staði, fólk og geimverur í Illinois. Ólíkt mörgum af þessu rólegheitar indie liði þá er Sufjan með húmor fyrir því sem hann er að gera.

Sigur Rós - Takk
Besta hljómsevit í heimi.








Clap your hands say yeah - Clap your hands say yeah
Ég hafði ekkert heyrt um þessa sveit áður en ég las um hana á pitchforkmedia. Fyrir mig er þetta ein af uppgötvunum ársins. Reyndar fór rödd söngvarans í taugarnar á mér og minnti mig soldið á Violent Femmes, en maður var fljótur að venjast röddinni. Svo eru lögin líka æðislega grípandi.

Bright Eyes - I´m wide awake it´s morning
Besta plata ársins. Hvert einasta lag á plötunni er yndislegt, grípandi með fínum textum. Minnir kannski dálítið á Belle and Sebastian með kántrí-áhrifum.

22.12.05

Ljótir fótboltamenn

Sumir fylgjast með íþróttum ekki endilega vegna brennandi áhuga á þeim, heldur bara til þess að fylgjast með hæfileikaríkum, glæsilegum ungum mönnum og konum leika listir sínar. Þannig verður fólk eins og David Beckham og Anna Kournikova mun frægara en árangur þeirra ætti að gefa til kynna. Sjálfum fannst mér alltaf skemmtilegt að fylgjast með Austur-Evropskum konum í spjótkasti og kúluvarpi á níunda áratugnum. Það var einhvernveginn allt annar sjarmi yfir þessu liði. Að sama skapi líst mér helvíti vel á síðuna Ugly Footballers, sem er tileinkuð ljótum fótboltamönnum, enda er nóg til af þeim.

21.12.05

Verkfall í NY

Hér eru starfsmenn almenningssamgangna í verkfalli þannig að ég hjólaði í vinnuna annan daginn í röð. Það var svolítið kalt en aðallega bara skemmtilegt enda er sérstök stemning á götum borgarinnar þessa dagana. Allir leigubílar fullir af fólki keyrandi upp og niður breiðgöturnar eins og strætisvagnar, hellingur af hjólreiðamönnum, geggjaðar umferðarteppur og endalaus straumur af fólki að labba yfir Brooklyn Bridge. Ég gerði þau mistök að fara yfir Brooklyn brúna í gær, en hefði betur sleppt því enda þurfti maður að reiða hjólið nánast alla leið - svo mikið var mannhafið þarna. Ég lærði af þessu og fór nú í morgun yfir Manhattan Bridge og gekk sá túr miklu betur þar sem sú brú endar í Chinatown sem er ekki alveg jafn mikilvægt athafnasvæði og fjármálahverfið (þar sem Brooklyn brúin endar).

Yfirleitt held ég að fólk sé mun stressaðra yfir allri þessari vitleysu á leiðinni heim, heldur en á leiðinni í vinnuna - það á allavegana við um mig. Það var tvisvar sinnum næstum því keyrt yfir mig á leiðinni heim í gær, umferðin var miklu verri og það lá alveg í loftinu hversu pirraðir margir voru orðnir. Þessi fílingur um að það væri bara skemmtileg tilbreyting að labba eða hjóla í vinnuna var alveg horfinn. Í staðinn var óþolinmæði í garð samborgaranna ríkjandi. Þetta verður sjálfsagt svipað í kvöld.

Svo veit maður ekkert hversu lengi þetta mun standa yfir. Það er greinilega heilmikil harka í samningarviðræðum og hér er bara rætt um að fylkisstjórinn George Pataki geti komið inn og miðlað málum. Hér er engin staða ríkissáttasemjara, enda eru stéttarfélög mun veikari hér en á Íslandi og minna um svona uppákomur. Svo er þetta verkfall ólöglegt. Opinberir starfsmenn mega ekki fara í verkföll. Verkalýðsfélagið er sektað um $1 miljón á dag hvern sem verkfallið stendur yfir auk þess sem starfmenn eru sektaður um tveggja daga tekjur fyrir hvern dag sem þau eru í verkfalli. Svona er þetta hérna í landi frelsisins.

2.12.05

Leti og vinna

Ég er búinn að vera allt of latur við að skirfa eitthvað hérna undanfarið. Sem betur fer hef ég nokkuð góða ástæðu fyrir því, sem er sú að ég hef haft heilmikið að gera í vinnunni. Vegna þess að ég hafði allt of lítið að gera fyrir ekki svo löngu, þá er ég alveg í skýjunum yfir því að vera upptekinn og þurfa að vinna lengi. Enda er djobbið skemmtilegt. Er að tala við fólk frá UNICEF og UNDP um hvernig þau fara að því að setja saman skýrslur sínar um stöðu barna í heiminum o.s.frv. Hugmyndin er sú að við notfærum okkur reynslu annarra til þess að get með besta hætti sett saman fyrstu global skýrsluna um málefni frumbyggja.

Ég er á leiðinni heim! Hlakka heilmikið til þess að borða rúgbrauð með kæfu, mysuost og síld í majonesdrullu sem þeir kalla víst karrísósu. Þetta er í fyrsta skiptið sem maður kemur heim sem giftur maður. Við erum ekki enn búin að fara í brúðkaupsferð. Kannski hana langi með mér í pílagrímsferð til bæjarins Fucking sem er í Austurríki. Ólíklegt þó. Hugsa að ég gæti samt platað Óla með mér einhvern tímann...

14.11.05

Frumbyggjar, hryðjuverkamenn og Monty Python

Ég er búinn að vera latur undanfarið við að skrifa en bæti hér með aðeins úr því.
Ein helsta ástæða leti minnar er sú að ég hef haft talsvert mikið að gera í vinnunni undanfarið. Ég er nú tímabundið kominn í nýjan hóp, þar sem við vinnum að málefnum frumbyggja. Ég vinn ný fyrir The Secretariat for the Permanent Forum on Indigenous Peoples. Það sem við gerum er að halda utan um þetta litla batterí sem kemur saman í tvær vikur á ári hverju í höfuðstöðvum SÞ. Ansi spennandi verkefni satt að segja, nóg af verkefnum og spennandi málefni sem eru afar pólitísk og viðvkæm. Hérna er linkur á vefsíðuna sem er frekar ljót en það stendur til bóta.

Dagurinn byrjaði snemma í morgun þar sem ég þurfti að vinna í co-opinu í morgun kl. 6. Meðlimir þurfa að vinna í 2.45 klst einu sinni á fjögurra vikna fresti til þess að fá að versla í búðinni sem er vel þess virði enda fær maður hvergi jafn góðan, hollan og ódýran mat. Þannig að ég var allavegana vel vaknaður þegar ég keypti mér Times á leiðinni í vinnuna en ég fann heldur betur fyrir blendnum tilfinningum þegar ég sá eina ljósmyndina á forsíðunni. Myndin er af konunni sem tók þátt í sjálfsmorðsárásunum í Jórdaníu í síðustu viku. Hennar bombur sprungu ekki þannig að hún lifði af og var handtekin um helgina og yfirvöld í Jórdaníu birtu myndir. Dóttir eins vinnifélaga míns var á einu hótelinu þarna og rétt slapp þannig að eg geri mér vel grein fyrir alvöru málsins. Hins vegar er ekki hægt að neita því að myndin af konugreyinu er alveg ferlega fyndin - allavegana fyrir þá sem kannast við Monty Python og þá sérstaklega myndina The Life of Brian, því þarna var hún komin, kerlingin maman hans Brian. Ekki satt? Þetta hlýtur að vera tvífari ársins.

28.10.05

Rosa Parks

Í vikunni lést ein af merkilegustu baráttukonum fyrir réttindum svartra hérna í Bandaríkjunum, Rosa Parks. Á þessari mynd er auglýsingaherferð Apple notuð til að minnast hennar, en hún var fræg fyrir að vera handtekin og dæmd fyrir neita að standa upp fyrir hvítum manni í strætó í Birmingham, Alabama árið 1955. Mál hennar varð til þess að lítt þekktur prestur efndi til mótmæla og þess að fólk hætti að nota strætó í borginni. Þessi prestur hét Martin Luther King Jr. Myndinni "stal" ég héðan.

27.10.05

Kosningar: menn og (sárafá) málefni

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að New York sé allt öðru vísi en restin af Bandaríkjunum. Nokkurs skonar eyja fyrir utan Atlantshafsströndina og einhvernvegin mun nær Evrópu og reyndar nær öllum heiminum. Hér er mannlíf ótrúlega fjölbreytt og opið, hommar og lesbíur áberandi út um allt, maður heyrir ótrúlega fjölda af tungumálum í neðanjarðarlestinni á hverjum degi og ég þekki ekki nema einn Bandaríkjamann sem er ánægður með sitjandi forseta. New York búar eru yfirleitt ekki feitir (maður sér strax muninn þegar maður fer út úr bænun), keyra ekki um á risastórum bílum og búa í frekar litlum íbúðum. Það er svo margt sem er öðruvísi hérna miðað við restina af bandaríkjunum, en auðvitað er New York hluti af USA. Hér er MacDonalds og Starbucks á hevrju götuhorni, kapítalisminn blómstar og neyslan alveg rosalega amerísk.

Annað dæmi um hversu amerísk, New York borg er, er kosningabaráttan um borgarstjóraembættið, sem er alveg ótrúlega litlaus og eiginlega steindauð. Það kemur svosum ekki á óvart þar sem sitjandi borgarstjóri, Mike Bloomberg er almennt talinn hafa staðið sig vel og hann er auk þess moldríkur og getur hreinlega dælt eins miklum peningum í eigin kosningasjóð og þörf er á. Það sem mér hefur þótt merkilegast er hversu aumur og hugmyndalaus frambjóðandi demókrata, Fernando Ferrer virðist vera. Þessi maður virðist ekkert hafa að segja, engar nýjar hugmyndir og engar tillögur nema það eitt að lækka fasteignaskatt fyrir millistéttarfólk. Þetta er allt og sumt. Ég sem hafði hlakkað til líflegrar kosningabaráttu, feginn því að þurfa ekki að velja á milli stuttbuxnadrengja og valdþreyttra R listamanna. Hérna er maður staddur í "höfuðborg heimsins" og það er enging málefnaleg barátta um borgina. Engin kosningaloforð. Ekkert rifist um byggingu nýrra skóla, eða leikskóla, eða umbætur á lestarkerfinu, eða húsnæðisskort, eða skipulagsmál almennt, sem er alveg ótrúlegt, miðað við það að ekkert er að gerast í endurbyggingu svæðisins þar sem tvíburaturnarnir stóðu. Ekki neitt. Þeir hafareyndar aðeins farið út í grunnskólakerfið. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu strax, en svo held ég að ég sé farin að skilja þetta. Hérna snúast kosningar um menn, en ekki málefni. Kosningar í New York, rétt eins og í öllum bandaríkjunum snúast um gildi. Er þetta maður sem maður treystir? Er þetta týpa sem er raunverulegur fulltrúi minn? Fólk virðist ekki hafa áhuga á stefnumálum, og þess vegna eru frambjóðendur yfirleitt ekkert að lofa einu eða neinu. Þeir eru bara að reyna að sannfæra fólk um að þeir hafi alla þessu mikilvægu eiginleika eins og skap, trú, karakter og gildi. Skoðanir um hvernig eigi að reka land, eða borg skipta minna máli en hvort maður hafi prófað hass í æsku, eða hvort maður sækir kirkju á hverjum sunnudegi.

Þetta hefur verið að fara voðalega í taugarnar á mér, þangað til að mér varð aftur hugsað til stuttbuxnadrengjanna. Jú, á Íslandi og í Evrópu almennt er okkur meira sama um karakter stjórnmálamanna eða hvað þeir gera með frítíma sinn. Ekki veit ég hvort Ingibjörg Sólrún sækir kirkju eða hvort Davíð Oddson hafi nokkru sinni prófað hass, og mér er líka sama. Einkamál þessa fólks koma mér ekki við. Þetta eru jú einkamál. Í Evrópu viljum við hins vegar fá langan lista af stefnumálum og loforðum um hvað skuli gera. Þetta er miklu betra, er það ekki? Hvað verður svo um loforðin? Kannski er alveg eins gott fyrir mann að fókusera bara á karakterinn og velja þann sem manni finnst skemmtilegastur. Kannski er reyndar ekki svo mikill munur á okkur íslendingum og ameríkönum. Davíð var jú ansi skemmtilegur, kannski ekki alveg undir það síðasta, en á árum áður var hann helvíti töff. Ég veit að ég er búinn að tala mig í hring. En það er allt í lagi. Enda er það eina sem ég hef að segja það að kannski er ekki svo mikill munur á evrópumönnum og ameríkönum.

Bara svo til að klára þetta, þá er það alveg ljóst að repúblíkaninn Bloomberg muni vinna með miklkum mun. Það er á hreinu. Ekki skil ég það hvernig Demókratar virðast ekki hafa neina almennilega frambjóðendur. Hvernig er það hægt í þessari 8 milljón manna borg þar sem yfirgnæfandi meirihluti manna eru demókratar? Ef ég man rétt, þá fékk Kerry yfir 80% atkvæða í Manhattan og Brooklyn, yfir 70% í Bronx og Queens og eitthvað aðeins minna í Staten Island. Það er merkilegt hvernig demókrötum tekst að tapa borgarstjórnarkosningum. Reyndar má benda á það að Bloomberg og republíkanar almennt í NY eiga meira sameiginlegt með demókrötum en repúblíkönum annars staðar í landinu, en það er samt frekar léleg afsökun.

15.10.05

1984 eða 2005

Maður les eða sér fréttir næstum því á hverjum einasta degi sem minna mann skuggalega mikið á 1984 eftir George Orwell. Stríðið gegn hryðjuverkum er náttúrulega nærtækasta dæmið en af nógu öðru er að taka. Nýjasta dæmið sem ég hef rekist á er frétt af unglingi sem hafði búið til plakat fyrir námskeið um borgaraleg réttindi. Á plakatinu var mynd af forseta Bush, ásamt þumalputta unglingsins sem var beint niður sem tákn um óánægju með forsetann. Þessa mynd fór drengurinn með í Wal Mart til að láta prenta, en starfsmanni þar þótti nóg um og hringdi í lögregluna sem hafði samband við leyniþjónustuna. Leyniþjónustan mætti í skólann og tóku viðtal við kennarann en ákváðu að aðhafast ekki frekar í málinu þar til saksóknari hefði tekið ákvörðun.

Hér er fréttin í heild sinni.


Þessi blanda af heimsku, ótta og trú á yfirvöld er virkielga óhugguleg og á sér margar skelfilegar hliðstæður í mannkynssögunni.

13.10.05

Amerískur fótbolti

Ég hef alltaf reynt að koma mér inn í 'local' áhugamál þar sem ég hef búið. Á Írlandi kynntist ég Gaelic football og Guinness drykkju, á spáni lærði ég að meta flamenco tónlist og petanqua og á Englandi tókst mér meira að segja að komast inn í cricket. Hérna í NY hefur áhuginn á baseball ekki enn vaknað, nema fyrir utan það að fylgjast með öllu kjaftæðinu í kring um New York Yankees og hinn ofstopafulla eiganda liðsins, George Steinbrenner. Ég hef aftur á móti uppgötvað ameríska fótboltann, sem mér finnst skemmtilegri og skemmtilegri með hverri vikunni sem líður. Þetta er ansi flókinn leikur sem krefst mikillar skipulagningar og útsjónarsemi, en ekki síður líkamsburða. Þess vegna er hægt að hafa gaman af þessu alveg óviðkomandi því hversu vel maður skilur leikinn. Ég hef eiginlega ekkert annað að segja um þetta. Þessi litla færsla er í raun bara léleg afsökun fyrir því að birta þessa stórkostlegu mynd hérna (forsíða Sports Illustrated fyrir rúmum 30 árum), sem er af tveimur sillingum sem voru upp á sitt besta um það leyti sem ég fæddist (1971). Svona töffarar sjást ekki lengur, nema þá kannski í klámmyndum.

Úflur, úlfur!

Í síðustu viku var varað við hugsanlegum/væntanlegum sprengjuárásum á neðanjarðarlestir hérna í NY. Á fimmtudag flutti forsetinn ræðu um hryðjuverk og hversu vel baráttan gengi gegn hryðjuverkamönnunum og að endalaust væru yfirvöld að handtaka hryðjuverkamenn og koma í veg fyrir voðaverk. Einhverjum klukkutímum síðar kom svo yfirlýsing frá Mike Bloomberg, borgarstjóra um að upplýsingar lægju fyrir um yfirvofandi sprengjuárásir á neðanjarðarlestakerfið í borginni og að miklar öryggisráðstafanir stæðu yfir. Hérna í vinnunni fengum við tölvupóst um þessa alvarlegu ógn sem steðjaði að almenningssamgöngum hérna og að við ættum að vera sérstaklega vör um okkur á leið heim úr vinnunni. Sumir hérna tóku þessu alvarlega en aðrir höfðu efasemdir og bentu á að þetta væri síður en svo í fyrsta skiptið sem hryðjuverkagrýlan er dregin upp úr kistunni til að beina athygli almennings frá einhverjum málefnum sem koma illa við yfirvöld. Auðitað veit maður þetta ekki og í fyrstu tekur maður þessu alvarlega, en þessar viðvaranir eru orðnar ansi margar og lítt trúverðugar.

Fjölmiðlar hérna eru meira að segja farnir að fjalla opinskátt um þennan hræðsluáróður. Það bendir nefnilega allt til þess að ráðamenn hérna kyndi undir ótta við hryðjuverk og noti hryðjuverkagrýluna kerfisbundið til að koma ákveðnum málefnum áleiðis og til að beina athyglinni frá skandölum. Þessa dagana hefur Bush stjórnin aldrei notið jafn lítils stuðnings, fólk er reitt vegna viðbragðanna við Katrínu og helsti ráðgjafi Bush, Karl Rove á jafnvel yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa uppljóstrað um starfsmann CIA, auk þess sem stríðið í Írak gegnur hörmulega. Í þá 19 mánuði sem ég hef verið hérna hef ég upplifað nokkrar svona "ógnir" og þetta virðist alltaf koma á tíma sem hentar stjórnvöldum ansi vel. Að sama skapi kemur svo líka í ljós að þetta voru engar ógnir, að upplýsingarnar voru rangar eða afar vafasamar og jafnvel margra mánaða gamlar. Til dæmis vissu sumir fréttamiðlar af þessari ógn á neðanjarðarlestakerfið nokkrum dögum áður en borgarstjórinn tilkynnti um hana, en voru beðnir af yfirvödlum um að bíða með að flytja fréttir af þessu. Svo mikil var ógnin. Það er ferlegt ástand þegar maður getur ekki treyst slíkum yfirlýsingum frá yfirvöldum, því vissulega er möguleiki á annarri árás hérna. Reyndar held ég að við höfum frekari ástæðu til að hafa áhyggjur af fuglaflensu, en það er annað mál.

Reyndar er hræðsluáróður ótrúlega algengur hérna og yfirvöld eru alls ekki ein um að leika þennan leik. Fréttamiðlar, og þá sérstaklega sjónvarpsfréttir hérna birta endalausar fréttir sem virðast þjóna þeim eina tilgangi að valda ótta svo að áhrofendur haldi áfram að fylgjast með. Oft fjalla þessar fréttir um hættur sem ógna öryggi barna. Þannig setja þeir móralska pressu á foreldra og aðra sem er annt um öryggi barna, að fylgjast með. Auðvitað er þetta hvimleið og ómerkileg fréttamennska, en hún selur greinilega auglýsingapláss og sala á auglýsingum er greinilega mikilvægari en miðlun upplýsinga.

5.10.05

Lítið um að vera

Ég hef ekkert uppfært undanfarna daga, enda hef ég ekkert merkilegt að segja. Geri lítið annað en að vinna og fara að hlaupa eftir vinnu. Vinnan er ekki merkileg nema að því leyti að það er endalaust að koma manni á óvart hversu lítinn tilgang allar umræður í nefndarstargi Allsherjaþings virðast hafa. Fulltrúar sendinefndana halda áfram að flytja sömu ræðurnar aftur og aftur. Þetta er allt saman voðalega sterílt og fyrirsjáanlegt. Reyndar kom það manni á óvart þegar skýrslur okkar voru kynntar að enginn einasti fulltrúi hafði nokkrar spurningar eða komment fram að færa. Ekki einn, fyrir utan fulltrúa Suður Afríku sem kom með spurningu um viðbrögð við umhverfisslysum, sem (að vísu eru mikilvægt málefni) koma nefndarstarfinu ekki neitt við. Annars hafði enginn diplómati neinn áhuga á að ræða málefnin, enda er það svo augljóst að málefni eru ALGERT aukaatriði hérna.

Það eina sem ég haf fram að færa að þessu sinni sem er ágætis trailer fyrir Shining sem ég rakst á á netinu. Það er búið að dubba yfir myndefnið og myndin er presenteruð sem falleg fjölskyldumynd um samkskipti foreldra og ungs drengs. Lítur út fyrir að vera sæt hollívúdd mynd hér á ferð.
Það er nauðsynlegt að hafa installerað QuickTime forritið , sem Apple framleiðir.

29.9.05

Heima er bezt?

Afi minn var á sínum tíma áskrifandi að Skagfirska tímaritinu Heima er bezt. Ekki man ég mikið eftir efni blaðsins, nema zetunni í nafninu og að yfirleitt voru það glæsileg hross eða virðulegir eldri borgarar sem prýddu forsíðurnar. Sem barn fannst mér nafnið hræðilega asnalegt (og finnst reyndar enn). Zetan fór alltaf í taugarnar á mér, en hitt sem mér fannst verra var sú hugmynd að ákveða fyrirfram að sá litli staður sem maður sjálfur þekkir bezt, í þessu tilviki Skagafjörður væri í raun og veru besti staðurinn í heimi. Gat það verið satt? Er ekki skynsamlegra að prófa eitthvað annað áður en maður kemst að þeirri niðurstöðu (og ferðalag í Þingeyjasýslu er ekki nóg). Það er eitthvað skrítið við þessa hugmynd, sem er samt ansi rík hjá íslendingum almennt og reyndar flestu fólki sem ég hef kynnst annars staðar.

Sjálfur hef ég samt átt erfitt með að sætta mig við það viðhorf að mans eigin heimahagar séu eitthvað betri en aðrir. Reyndar stendur maður sjálfa sig og aðra oft að því að lýsa því yfir þveröfugum skoðunum (Ísalnd er verzt). Að Ísland sé ekki endilega svo góður staður til að búa á. Landinu er stýrt af fámennri klíku valdasjúkra manna og stuttbuxnadregja í kring um þá. Spillingin er alls staðar og maður er bara feginn að búa annars staðar. Að þurfa ekki að horfa upp á þessa blöndu af græðgi, heimsku og aumingjaskap á hverjum degi. Það hafa ansi margir hugsað á þessa leið. Að þetta eða hitt myndi ekki líðast í siðmenntuðu lýðræðisríki (ein og það viðgengst á Íslandi). Í útlöndum myndu ráðherrar þurfa að segja af sér fyrir mistök sem íslenskir ráðherrar neita að bera ábyrgð á. Ísland er bara bananalýðveldi. Allt þetta hefur maður sjálfur oft hugsað (kannski stundum með réttu) og svona hugsanaháttur læðist alltaf að manni reglulgega. Svo verður mér hugsað til afa.

Er það virkilega svo að málin á Íslandi séu miklu verri en annars staðar? Á sama tíma og allt var (réttilega) á öðrum endanum í íslensku þjóðlífi vegna ráðningar reynslulauss ungs manns í stöðu fréttastjóra útvarps var Paul Wolfowitz ráðinn bankastjóri í Alþjóðabankanum. Með fullri virðingu fyrir starfsfólki RÚV, og íslensku þjóðinni, þá held ég að síðari ráðningin kunni að hafa alvarlegri afleiðingar fyrir þann tæpan helming jarðarbúa (2.7 miljarðar) sem lifa á minna en $2 á degi hverjum, heldur en sý fyrrnefndi fyrir hlustendur gufunnar.

Hundruðir manna létust nýlega í Louisiana og Mississippi vegna skipulgasleysis og vanhæfni yfirvalda í kjölfar Katrínar. Aumingjarnir sem Bush stjórnin réði til að bregðast við hamförum reyndu í fyrstu að kenna hinum fátæku og veiku sjálfum um það að hafa ekki getað bjargað sér. Skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín er svo hræðilega algengt (ekki bara í Bandaríkjunum) að aðstæður þess fólks komast varla upp á yfirborðið nema þegar fellibylur eyðileggur heilu landsvæðin og það er ekki hægt annað en að taka eftir því hversu fátækt fólk er hérna. Dags daglega getur maður litið undan þegar heimilislaus kona betlar, eða gegngur fram hjá manni með poka fulla af tómum dósum og plastflöskum, en það var ekki hægt í New Orleans.

Á íslandi lætur Davíð Oddson af störfum á sama tíma og Tom DeLay segir af sér sem leiðtogi repúblíkana í fulltrúadeildinni, en það er búið að kæra hann fyrir að brjóta lög um fjáröflun í kosningsjóði. DeLay er öfgasinnaður, öfgatrúaður og hatursfullur maður sem á fátt sameiginlegt með Davíð Oddsyni.

Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr því sem er að gerast á Íslandi og auðvitað ber að rannsaka allar hliðar á Baugsmálinu. Skandalar eiga sér stað alls staðar og okkur ber að sjálfsögðu skylda til þess að vinna gegn spillingu þar sem hana er að finna. Sem betur fer er spilling á íslandi ekki alveg það sama og annars staðar og því er ég feginn.

Kannski er heima ekki endilega bezt, en heima er samt stundum ágætt og jafnvel gott betur en það. Þetta er semsagt mí versjón af heimþrá.

27.9.05

Helgin og mánudagurinn

Helgin var frekar tíðindalítil. Það sem helst stendur upp úr er að húsið er fullt af rússneskum iðnaðarmönnum sem eru að gera upp íbúðina fyrir ofan okkur á þriðju hæðinni. Pípararnir þurftu að komast að lögnum inni í eldhúsi hjá okkur og enduðu með því að vera að puða í þessu allann daginn, þannig að við gátum ekki mikið gert. Ekki gátum við verið í burtu allann daginn og ekki gátum við heldur hagað okkur eins og venjulega heima, enda komumst við ekki inn í eldhúsið og svo var ekkert vatn. Við enduðum á því að horfa á 5 þætti af Six Feet Under sem var helvíti gaman. Við erum á öðru seasoni og þetta er frábær skemmtun.

Svo prófuðum við sótrónu- og kirsuberjasorbet sem ég hafði búið til kvöldið áður. Svakalega tókst það vel hjá manni, en það eina sem maður notaði í þetta var vatn, sítrónur, kirsuber og sykur.

Nú í vinnunni erum við að setja saman tillögu að þriggja daga fundi þar sem við bjóðum sérfræðingum að koma saman og ræða um tiltekin mál. Hugmyndin er svo sú að efni slíkra funda nýtist okkur í að setja saman skýrslur okkar til Allsherjarþings. Hugmynd okkar er að fjalla um hvernig stefnumörkun í félagsmálum getur leitt til þess að koma í veg fyrir að átök brjótist út og um mikilvægi slíkrar stefnumörkunar fyrir uppbyggingu samfélaga sem eru að ná sér eftir að átökum er lokið. Hugmyndin á bak við þetta er sú að samfélög verða að sinna félagslegu málunum (hinum svo kölluðu mjúku málum) til þess að tryggja öryggi og frið. Annars er fjandinn laus.

21.9.05

Myndir frá brúðkaupinu

Ég er búinn að setja upp nokkrar myndir frá brúðkaupinu. Þetta eru bara myndir sem ég tók, þannig að það er ekkert enn komið frá sjálfri athöfninni. Myndirnar eru hérna. Svo þegar myndir fara að berast frá Hildi, Kobba og fröken DeMarco, þá skelli ég þeim upp líka.

Myndin hérna er af Guðrúnu frænku og mömmu. Guðrún er ekki alveg viss um hvað hún á að gera með sjávarréttarsúpuna.

20.9.05

ipod batterí

Ég var rétt í þessu að skipta um batterí í æpoddinum mínum, en batteríið var orðið ónýtt eftir aðeins eitt ár. Mér datt ekki í hug að borga apple $100 til að setja nýtt batterí í tækið, þannig að ég pantaði mér batterí af netinu á $15 og setti þetta inn sjálfur sem var ekkert mál. Eina vesenið var að opna helvítis tækið en það tókst á endanum, þökk sé þessum fínu leiðbeiningum hérna.

Ég rispaði æpoddinn aðeins, en þetta virkar alveg eins og það á að gera.

Giftur og kominn aftur í vinnuna

Þá er maður orðinn giftur maður. Það er reyndar ekkert svo skrítið. Að vísu er samband okkar Catherine orðið allt saman mun raunverulegra, en það var svosum alveg raunverulegt fyrir brúðkaupið. Við búum ennþá saman í sömu íbúðinni ásamt Danielle systur hennar, við erum alveg jafn ástfangin og áður og erum ennþá með sömu óljósu plönin fyrir framtíðina... langar í börn, langar að búa einhver ár í Suður Ameríku (erum þá aðallega að hugsa um ECLAC í Chile) en viljum kaupa okkur íbúð hérna í NY á næstu tveimur árum. Helsti munurinn dags daglega er að stundum heyrir maður fólk núna segja við mig your wife, sem hljómar soldið einkennilega (ekki illa, bara einkennilega), en það ætti nú að venjast. Maður er bara hamingjusamur og allt eins og það á að vera hérna.

Mamma, pabbi, Hildur, Kobbi, Sigrún, amma og Guðrún komu öll í brúðkaupið og það var yndislegt að hitta þau öll á sama tíma, en brúðkaupið fór fram á Cape Cod á heimili tengdaforeldra (annað sem maður er að venjast, er að tala um foreldra Catherine sem tengdó) minna. Þetta var látlaus athöfn sem tók ca. 20 mínútur allt í allt. Við fengum Justice of the Peace í heimsókn til ap sjá am athöfnina, og endurskrifuðum fyrir hann, ræðuna sem hann flytur í upphafi athafnarinnnar, aðallega til þess að losna við allar tilvísanirnar í guð og kristna trú, en við vorum bæði alveg með það á hreinu að gifta okkur ekki í krikju og að vera ekki að láta trúarbrögð vera að þvælast fyrir. Þess vegna var kjörið að gera þetta bara í stöfunni hjá André og Lise, foreldrum Catherine. Veðrið þarfa var yndislegt og við syntum í sjónum, fórum að veiða (Kobbi varð reyndar sjóveikur) og fjöslkyldurnar náðu að kynnast aðeins, en fram að þessu höfðu foreldrar okkar aldrei séð hvort annað. Ég held að það hafi komið öllum á óvart hversu vel öllum kom saman, þó svo maður hafi ekki átt von á neinu veseni. Þetta gekk bara alveg eins og maður vonaðist, og það er sjaldgæft.

Nú er maður aftur kominn í vinnuna. Í síðustu viku var leiðtogafundurinn hérna í upphafi allsherjarþings og ég tók mér frí mestan hluta vikunnar, enda voru öryggisráðstafanir svo yfirgengilegar að það tók því varla að þvælast í gegnum þetta allt saman bara til þess að stija á hálf tómri skrifstofunni hérna. Auk þess voru flest okkar hvött til þess að vera ekkert að mæta í vinnuna hvort sem er, aftur vegna öryggisráðstafana. Leiðtogafundurinn var svo hálfgert anticlimax eins og reynslumeiri menn en ég höfðu spáð fyrir um. Lítið sem ekkert af viti var ákveðið og Ameríkanar drugu sumar af hörðustu breytingartillögum til baka, en Kanarnir virtust á tímabili vera algerlega á móti nokkrum tilvísunum í þúsaldarmakmiðunum, sem eru markmið í átt að því að bæta kjör þeirra allra fátækustu. Lítið varð úr tillögum um að gera endurbætur á SÞ og enn minna varð úr hgumyndum um að fjölga í öryggisráðinu. Það eina sem virðist hafa gengið upp var að breyta Mannréttindanefndinni og að setja upp Peacebuilding Commision, sem eru að vísu skref í rétta átt. Við hérna í félagslegri þróun höldum okkar vinnu áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda tókum við engan þátt í leiðtogafundinum. Svo í gær fór allt rafmagn af í höfuðstöðvunum þannig að við fengum að fara heim snemma. Mér leið eins og ég væri aftur kominn í grunnskóla. Rafmagnslagnir í aðalbyggingunnu er víst í afar slæmu ástandi og það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að það stendur til að taka aðabygginguna í gegn, en ekkert ennþá vegna þess að tilskilin leyfi fást ekki frá New York fylki til að byggja nýja byggingu við hliðinni á aðalbyggingunni þar sem starfsemin myndi flytjast á meðan á endurbótum stæði. Það er afar nauðsynlegt að taka húsið í gegn enda er húsið fullt af asbestos auk þess sem margt annað er að. Repúblikanara hérna eru hins vegar á móti öllu slíku og fara ekki leynt með það að þeir eru að hefna sín á SÞ vegna ummæla Kofi Annan um stríðið í Íraq þegar hann sagði (réttilega) að innrásin stangaðist á við alþjóðalög. Þess vegna er alltaf af og til talað (aðallega í gríni) um að best væri bara að flytja höfuðstöðvarnar eitthvað annað, eins og til dæmis Osló, enda eiga Norðmenn nóg af peningum til að standa á bak við bygginagarkostnaðinn. Mér fyndist reyndar sniðugra ef að stjórnmálamenn í New Jersey byðu SÞ upp á pláss til að byggja á. Þannig yrðu höfuðstöðvarnar ekki fluttar burt frá Bandaríkjunum (sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar), en myndu samt fá að flytja í almennilegt húsnæði, auk þess sem þetta væri hressileg vítamínssprauta fyrir efnahag NJ. Slíkt boð myndi allavegana setja pressu á pólitíkusa hér í NY. En eins og oftast með málefni SÞ, þá er líklegast að ekkert gerist á næstunni og að þetta muni allt taka drjúgan tíma. Ég held að þolinmæði sé mikilvægasti eiginleikinn sem starfsmenn hérna þurfa á að halda.

Ég set svo upp myndir af brúðkaupinu þegar ég fæ þær, en skilanlega, þá tók ég lítið af myndum sjálfur.

5.9.05

Brúðkaup

Ég er farinn á Cape Cod að gifta mig. Mamma, pabbi og Hildur eru komin í heimsókn og hafa verið hérna undanfarna tvo daga. Svo förum við norður og hittum Kobba og Sigrúnu ásamt ömmu og Guðrúnu og svo fjölskyldu hennar Catherine. Við verðum svo aðeins saman, fjölskyldurnar tvær. Við karlarnir ætlum saman út að veiða einn daginn og á meðan hittast konurnar og hafa s.k. shower fyrir Catheirine. Ég vona bara að einhver okkar nái einum túnfiski. Svo fer brúpkaupið fram á laugardegi heima hjá forledrum hennar Kötu. Við fáum dómara í heimsókn til að sjá um athöfnina, og svo er þetta búið. Förum út að borða og svo heim aftur til foreldranna, þar sem við munum sjálfsagt halda eitthvað áfram að drekka og kjafta.

Degi síðar förum við til Boston þar sem við verðum eina nótt á hóteli áður en við komum aftur til New York þar sem vinnan bíður okkar. Við förum ekki í neina brúðkaupsferð fyrr en kannski einhverntímann í janúar. Svo er stefnan tekin á að koma heim til íslands og hafa almennilegt partí næsta sumar. Ég er þegar farinn að hlakka til þess. Ég sé ekki fram á að skrifa neitt hérna fyrr en að viku liðinni. Svo koma myndir á myndasíðuna, en það er tengill á hana hér á hægri hönd síðunnar.

2.9.05

Koppel góður

Viðmót Ted Koppel er enn eitt dæmið um reiði fólks héna rétt eins og flóttaleg svör Micahel Brown eru gott dæmi um skeytingarleysi og vanhæfi yfirvalda.
Hér er QuckTime myndband af viðtalinu

Katrín

Það er merkilegt að horfa upp á það sem virðist vera algert klúður og hanhæfni hjá yfirvöldum hérna í kjölfar Katrínar. Fólk hér er orðið afar reitt og maður er meira að segja farinn að sjá reiði blaðamanna skína í gegn. Annars er þrennt sem stendur upp úr í mínum huga.

Í fyrsta lagi er það hversu illa stjórnvöld hafa brugðist við og reyndar hversu illa þau voru undirbúin fyrir slíka atburði. Það er ekki eins og fellibylir séu séu sjaldgæfir á þessum slóðum. Það féllu fleiri fellibylir á bandaríkin en nokkru sinni fyrr (síðan menn hafa verið að taka saman slíkar upplýsingar) á síðasta ári. Fólk og félagasamtök hafa lengi vel farið fram á betri flóðavarnir og að eitthvað veri gert við landrofi þarna, en yfirvöld brugðust ekki við. Svo núna þegar fellibylurinn hefur riðið yfir, virðist það vera ómögulegt að koma mat og vatni til fólks sem er að svelta í hel. Fimm dagar eru liðnir, en lítið viriðist vera gert. Hryllingssögur um lík, ógeðslega lykt, steikjandi hita og ofbeldi frá fóboltevellinum Superdome eru skelfilegar, en þar eru hafa einverjir tugir þúsunda fólks verið undanfarna daga. Nú er svo byrjað að flytja fólk þaðan til annars fótboltavallar í Houston. Eru þetta lausnirnar sem völdugasta ríki veraldar hefur? Vandamálið er náttúrulega það að voldugasta ríki veraldar er uppteknara við aðra hluti en að hugsa um fátækt fólk og náttúruhamfarir. Sérstaklega virðist FEMA (Federal Emergency Managament Agency) vera illa undirbúið og illa stjórnað, en yfirmaður stofnunarinnar sem á að stjórna neyðvarvinnu virðist frekar vilja skella skuldinni á fórnarlömbin.

Annað sem mér finnst magnað að sjá er reiðif fólks almennt og sérstaklega reiði blaðamanna sem eru þarna í Louisiana og í kring. Það eru nánast allir brjálæðir yfir skeytingarleysi yfirvalda. Anderson Cooper á CNN gat greinilega ekk leynt reiði sinni þegar hann tók viðtal við þingmannsfífl frá Louisiana. Bush hefur ekki enn farið á svæðin, en ég held að hann hafi flogið yfir New Orleans í fyrradag. Í gær flutti hann ræðu til landsmanna sem var ótrúlega slök, rétt eins og hann gerði sér enga grein fyrir alvöru málsins. New York Times leiðarinn í dag fjallar um ræðuna. Annars er netið troðfullt af umfjöllun um ástandið og þetta er allt saman á sömu leið. Meira að segja fjölmiðlar sem yfirleitt styðja Bush taka undir gagnrýnina, enda ekki annað hægt. Ég hef að vísu ekki kíkt á Fox News enn sem komið er.

Að lokum hefur fellibylurinn komið hinu ofboðslega óréttlæti og fátækt í þessu samfélagi upp á yfirborðið. Nánast allir þeir sem þjást mest vegna Katrínar eru fátækt svart fólk. Í daglegu amstri hugsa Bandaríkjamenn ekki um hinn óhugnanlega ójöfnuð hérna þar sem svart svart fólk vinnur við það að þjóna hvítu fólki. Fari maður inn á MacDonalds, Starbucks eða Dunkin Donuts, þá er það nær undantekningarlaust svört manneskja sem þjónar manni. Fái maður vörur sendar heim eru það svartir ungir menn sem bera kassana fyrir mann. Á golfklúbbunum, hótelunum og líkamsræktarstöðvunum hér í Bandaríkjunum er það upp til hópa svart fólk sem þrífur skítinn undan hvítu fólki. Allt þetta fólk fær borgað lágmakrslaun fyrir vinnu sína og það lifir í fátækt.

Þetta er allt saman fátækt fólk sem varð eftir í New Orleans. Þau eiga ekki bíla og höfðu ekki efni á því að skjótast burt úr borginni fara á gistiheimili. Margir þarna eiga ekki ættingja utan borgarinnar sem þau geta leitað til. Við slíkar aðstæður er það skiljanlegt að fólk hafi hugsað að kannski væri betra að vera bara heima. Kannski verður fellibylurinn ekki svo slæmur.

Svo núna, þegar engin aðstoð berst, þá leggja yfirvöld meiri áherslu á að koma í veg fyrir að fólk brjótist inn í verslanir, heldur en að bjarga deyjandi fólki. Þegar fréttir bárust af þjófnaði ákváðu yfirvöld í fyrradaga að skipa öllum lögreglumönnum að einbeita sér að því að stöðva þjófnað, og hætta öllum björgunarstörfum. Það er semsagt mikilvægara að verja vörur inni í verslunum, heldur en að bjarga deyjandi fólki...

1.9.05

Giftingarhugleiðingar

Í kvöld ætlum við nokkrir strákar að fara saman út að borða. Tilefnið er að ég er að fara að gifta mig. Það hafði aldrei hvarflað að mér að gera eitthvað sérstakt áður og mig langaði alls ekki í neins konar steggjapartí eða neitt svoleiðis. Það var samt gaman þegar Tom stakk upp á að við færum nokkrir saman út að borða á stað sem heitir Peter Luger Steak House sem á að vera sérstakur staður sem er vel þekktur hérna í borginni. Staðurinn er í Williamsburgh hverfinu í Brooklyn og er víst aðallega þekktur fyrir að hafa engan matseðil. Maður fær bara steik. Og steikin er víst svakaleg, meira að segja á Amerískan mælikvarða. Kransæðastífla beint í æð. Vona bara að ég komist í vinnuna á morgun. Annars finnst mér leiðinlegt að hafa ekki aðra vini hérna með mér, en þetta er hluti af því að búa í útlöndum. Stundum fæ ég heimþrá og sakna þess að geta ekki verið meira með fjölskyldunni og vinum. Að sjálfsögðu finnur maður sérstaklega fyrir þessu á ákveðnum tímamótum. Þegar eitthvað sérstaklega gott eða slæmt er að gerast. Til dæmis vor tveir vinnufélagar mínir að missa mæður sínar nýlega, annar í Hollandi en hin í Mongólíu. Það er oft erfitt að vera svo langt frá fólkinu sínu.

Annars er ég ennþá ekki orðinn stressaður fyrir giftinguna. Það er rétt rúm vika þangað til ég geng í hjónaband sem er til æviloka og mér finnst þetta bara sjálfsagt. Auðvitað er aðalástæðan sú að ég er ástfanginn og er handviss um að ég sé að gera rétt. En samt... Á maður ekki að vera stressaður? Kannski kemur þetta síðar. Kannski er ég stressaður en er bara ekki að viðurkenna það gangvart sjálfum mér. Held samt ekki. Það hjálpar til að vera orðinn 34 ára gamall og að hafa svolitla reynslu á bakinu. Ég hef verið ástfanginn áður og veit betur hvað á að varast í samböndum og hvað gæti orðið að vandamáli í framtíðinni og hvað er bara eðlilegt. Auðvitað er ómögulegt fyrir mig að sjá hvað gæti orðið að vandamáli. Aðalatriðið er að við Catherine erum hamingjusöm saman. Við gefum hvort öðru svo margt og styðjum við hvort annað. Sambandið er bara eins og það á að vera. Það er gaman þegar maður er svo heppinn að hafa slíkt.

Hmmm. Þetta er ólíkt flestu sem ég hef verið að skrifa hér. Mun persónulegra en áður. Ég veit ekki hvort þetta sé það sem koma skal. Held samt ekki.

29.8.05

Aristókratarnir

Fór í bíó í gærkvöld og sá mynd sem er öll um aðeins einn bradara. Myndin var þokkaleg, en aðeins of löng, hefði getað virkað sem 30 mín. sjónvarpsþáttur. Brandarinn er alveg sérstaklega ógeðslegur en það sem gerir hann sérstakan er að hann er aldrei eins. Aðalefni brandarans er spuni þess sem segir brandarann, þannig að myndin var endalausar klippur af grínistum að tala um sínar útgáfur af brandaranum og hvernig er hægt að þróa hann í ýmsar áttir. Hérna er til dæmis South Park útgáfa af brandaranum.

Áður en ég fór í bíóið leit ég inn í litla búð í Chelsea og rakst þar á geisladisk sem mér leist nokkuð vel á, en hann innihledur leiðsögn um DUMBO (Down Under the Manhattan Bridge Overpass) hverfið í Brooklyn. Ég er ekki búinn að hlusta á hann ennþá, en þetta virkar þannig að maður byrjar á ákveðnum stað í hverfinu, spilar diskinn með ferðaspilara og fylgir svo litlu korti um hverfið og hlustar svo á á leiðsögumanninn sem segir manni frá hverfinu. Ég hélt að þetta væri mín hugmynd. Hafði meira að segja minnst á þetta við vinkonu hennar Kötu sem þekkir ansi vel til East Village hverfisins. Hugmyndin er sem sagt að gera það sama og gert er í mörgum söfnum þegar fólk fær kassettutæki, nema með því að nota nýjustu tækni og selja fólki leiðsögnina á mp3 formi. Það ætti einvher að gera þetta með 101 Reykjavík - leiða fólk í gegnum Grjótaþorpið, Þingholtin, Hverfisgötuna og segja sögur af frá borginni. Gæti orðið æðislegt ef þetta er vel gert. Skrifa meira um þetta þegar ég er búinn með DUMBO túrinn.

Vinna og brúðkaup


Skýrslan sem við höfum verið að vinna að undanfarna mánuði kom loksins út í síðustu viku. Þetta er skýrsla sem við gefum út á tveggja ára fresti um stöðu félagslmála í heiminum (Report on the World Social Situation). Auðvitað er engin leið til að fjalla að fullu um félagsmál alls heimsins, en þess vegna er ákveðið þema að hverju sinni. Þetta skiptið fjölluðum við um ójöfnuð, en málið er að ójöfnuður hefur að mörgu leyti aukist undanfarna áratugi. Helstu ástæður þess eru ekki að þeir fátæku eru að verða fátækari, heldur að þeir ríku eru að verða ríkari. Reyndin er sú að þeim allra fátækustu hefur fækkað á undanförnum árum, aðallega vegna þess að Kína og Indland eru að ganga í gegnum veruleg hagvaxtarskeið. Vandamálið er hins vegar það að allt of fáir íbúar heimsins njóta hagvaxtar. Þá fjölluðum við ekki bara um efnahagslegan ójöfnuð, heldur líka um aðgang að menntun, heislugæslu, þáttöku í ákvarðanatöku o.s.frv.

Ég er búinn að taka þátt núna í að skrifa nokkrar skýrslur hérna og maður lærir heilmikið af þessu. Auðvitað hugsar maður alltaf um það hvort enn ein skýrslan muni hafa einhver áhrif og hvort maður geti ekki gert meira gagn í heiminum með öðrum hætti. Ég get ennþá ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en eitthvað á þessa leið. Sameinuðu Þjóðirnar eru bráðnauðsynlegur vettvangur og sú starfsemi sem fer fram hérna (eins gölluð og hún er hérna stundum) er besta tækið sem við mannkyn höfum búið til, til þess að bæta heiminn fyrir alla. Það hefur ekki ennþá tekist, en það þarf að halda baráttunni áfram og hluti af þeirri baráttu er að upplýsa almenning, fjölmiðla, stjórnmálamenn og svo fulltrúa aðildarríkja hérna í höfuðstöðvunum. Þó svo að öllum markmiðum SÞ hafi ekki verið náð, þá held ég að vinnan hérna sé að skila árnagri. Slíkan árangur er hins vegar oft ekki hægt að sjá nema með því að líta til lengri tíma. Þetta hljómar kannski svolítið naív, en maður verður að hafa trú á því sem maður er að gera.

Annars er ég upptekinn þessa dagana við að undirbúa brúðkaup, en við Catherine ætlum að giftast 10 sept. Ég er merkilega rólegur með þetta allt saman. Kannski einum of kærulaus. Er allavegana búinn að finna mér fín jakkaföt og skyrtu. Kunni ekki við að klæðast vinnugallanum. Eina fólkið sem við höfum boðið er nánasta fjölskyldan sem mér finnst bara fínt. Höfum þetta rólegt og verðum öll saman í 3 daga á Cape Cod. Þannig ná familíurnar að kynnast aðeins. Við karlarnir ætlum að róa til fiskjar einn daginn. Vonandi nær maður túnfiski. Djöfull væri það nú flott. ..

25.8.05

Ekki skal vanmeta mikilvægi fetaosts

Ég leit við á fréttavef Ríkisútvarpsins áðan og sá lista yfir helstu innlendu fréttirnar í dag. Hérna eru þrjár efstu fyrirsagnirnar.

Innbrot í verslun í Neskaupstað

Fetaostur frá Mjólku á markað innan mánaðar

Leitað að heitu vatni á Grænlandi

Engin furða að allt snúist um Baugsliðið þegar alternatívið er Fetaostur frá Mjólku. Annað hvort er ekkert að gerast á Íslandi, eða þá að menn hafa ekki tíma/pening/metnað/getu til að sinna alvöru fréttamennsku.

24.8.05

Er fólk lukkudýr?

Á hverjum morgni hlustum við á morgunútvarp NPR þar sem maður fær ansi vel unnar fréttir af því sem er að gerast, ekki bara hér í Bandaríkjunum, heldur almennt í heiminum. Þökk sé NPR, hef ég ekki algerlega gefist upp á ljósvakamiðlum hérna. Sjónvarpsfréttir allra stöðva hérna eru slakar og ekki þess virði að horfa á. Maður fær betri og áreiðanlegri upplýsingar um hvað er að gerast í heiminum með því að horfa á grín-fréttaþáttinn Daily Show, heldur en með því að horfa á fréttir frá ABC, CBS, NBC eða CNN, að maður tali ekki um Fox.

Hvað um það… Í morgun var semsagt merkileg frétt í útvarpinu um Florida State Univesity og mascot (lukkudýr? tákn?) þeirra sem er Seminole indíáni. Nýlega höfðu yfirvöld háskólaíþróttamála (NCAA) bannað notkun á slíkum táknum sem fela í sér ákveðna fordóma og notkun á staðalmyndum, en nú hefur verið ákveðið að gera undantekningu fyrir Florida State skólann. Þessar reglur eiga fyrst og fremst við þau lið sem nota ímynd Amerískra frumbyggja sem hluta af búningum, logo og öðru tengdu skrauti. Málið var sem sagt að NCAA ákváðu að veita Florida State undanþágu vegna þess að Seminolarnir sjálfir eru víst sáttir við að vera notaðir sem logo og lukkudýr. Reyndar virðist svo vera að einhver hópur þeirra segjast vera sáttir á meðan aðrir eru það ekki.

Menn hérna deila talsvert um þetta. Sumir segja að það sé ekkert nema pólitísk rétthugsun að banna mönnum að nota ímyndir Amerískra indjána hjá íþróttaliðum. Slíkar ímyndir sýna indíána í jákvæði ljósi og eru ekkert annað en saklaus skemmtun og sem byggir á ríkri hefð og virðingu fyrir frumbyggjum Norður Ameríku. Aðrir segja að þetta hafi ekkert með póliíska rétthugsun að gera, heldur séu slíkar staðalmyndir rangar, niðrandi og hreint út sagt dónalegar gagnvart minnihlutahópi sem er svo fámennur og valdalítill að hann gæti aldrei farið út í alvöru baráttu fyrir því að stoppa notkun á slíkum ímyndum.

Maður getur svosum skilið að flestir þeir sem taka þátt í þessu eru ekki beinlínis að reyna að móðga eða særa ameríska frumbyggja, en fjandinn hafi það! Þetta er ekki beinlínis smekklegt heldur. Eina ástæðan fyrir því að þetta viðgengst, er sú að þessi lið hafa verið að svo lengi - menn leyfa sér að kalla þetta hefð. Þessar hefðir voru bara búnar til í landi þar sem rasisminn var hluti af daglegu brauði og þótti sjálfsagður. Það myndi engum detta í hug að setja á fót eitthvert lið í dag sem ber með sér ákveðinn kynþátt eða þjóðerni sem hluti af logo-inu. Það er engin tilviljun að það eru engin lið hérna sem heita New York Jews, Los Angeles Latinos, eða Detriot Blacks. Ég held að einhver myndi mótmæla slíku. Hins vegar eru a.m.k. 3 atvinnulið og hundruð menntaskóla og háskóla sem nota ímyndir Amerískra índíána. Það er meira að segja til háskólalið núna sem heitir Southeastern Oklahoma State Savages! En þessu stendur víst til að breyta. Gott hjá þeim.

23.8.05

Er þetta kristilegt?

Á meðan Bretar eru (réttilega) að reka geðveika klerka úr landinu fyrir að boða hatur og hvetja til ofbeldis er annað uppi á teningum hérna megin Atlantshafsins. Einn aðal klerkur hægri öfgamanna hérna heitir Pat Robertson. Hann rekur kristilegar sjónvarpsstöðvar og er almennt virkur í baráttunni gegn þeim ógnum sem vofa yfir siðmenningu – réttindi kvenna, samkynhneigð og frjálsyndi yfirleitt. Eitt allra hræðilegasta blótsyrðið í bandarískri pólitík er liberalism. Öllu þessu kristilega liði er meinilla við líberalisma og Demókratar eru upp til hópa skíthræddir við að einhver tengi þá við frjálslyndi.
Nýjasta fréttin af þessum manni er sú að hann vill láta myrða Hugo Chavez, forseta Venezuela. Þett kom fram í einum af sjónvarpsþáttunum hans, en hans helstu rök voru þau að morð á þjóðarleiðtoganum væri ódýrara en innrás. Það er hreint með ólíkindum hversu mikill hatur og ótti býr inni í þessu fólki sem þykist vera svo heilagt. Sem betur fer er allavegana hægt að hlæja að þessu liði.

22.8.05

Belfast, Skagafjörður og Mo

Í ferðablaði New York Times um helgina eru tvær greinar sem gripu athygli mína og vöktu skrítna blöndu af heimþrá, nostalgíu og ánægju með líf mitt og hvernig það hefur þróast undanfarin ár. Fyrri greinin, sem er aðalgrein ferðablaðsins er um Belfast og hvernig borgin er að verða hin nýja Dublin, loksins komin í partístuð eftir leiðindi undanfarinna áratuga. Það var soldið fyndið að lesa greinina þar sem blaðamaðurinn virtist ekki alveg vita hvað hann átti að gera annað en að fara um á milli pöbba og restúranta. Það er reyndar ekki mikið annað að gera þarna fyrir þá sem ekki eiga vini eða ættingja í borginni. Ég sakna þess reyndar svolítið hversu mikið pöbbarnir voru miðja félagslífs manns, þó svo að þetta geti verið aðeins of mikið á tíðum. Svo var ég búinn að gleyma því hvernig miðbær Belfast tæmist aleglega á kvöldin, en blaðamaðurinn bendir réttilega á að miðbærinn líkist draugabæ þegar verslanirnar hafa allar lokað. Norður Írland er ennþá soldið skrítinn staður en ég sakna fólksins þarna. Ég ætti að drífa mig þangað í heimsókn við tækifæri.

Hin greinin er um rafting í Jökulsá Eystri, sem verður að Héraðsvötnum í Skagafirði, þegar hún tengist Jökulsá Vestri. Frændi minn er bóndi þarna rétt hjá í Skagafirði og afi byggði þarna sumarbústað sem mamma og systkini hennar eiga núna. Sumrin sem ég var þarna sem barn höfðu heilmikil áhrif á mig og reynsla mín þarna hefur mótað mig. Auðvitað var gaman að sjá þessa grein, sem er reyndar frekar illa skrifuð, en útgangspunkturinn er að ísland sé land álfa, trölla og sérvitra víkinga. Sama gamla tuggan. Djöfull hlýtur hlýtur svona umfjöllun að fara í taugarnar á íslenskum tónlistarmönnum sem meika það (Björk, SigurRós). Reyndar er ágætis lýsing á bátsferðinni sjálfri, en lítið annað. Svo er lika þokkalegt slideshow á nytimes vefnum með greininni. Aðallega er það bara skrítið að sjá umfjöllun um gömlu sveitina hérna í stórborginni.

Á föstudaginn lést Mo Mowlam sem var einn merkilegasti stjórnmálamaður sem ég veit um. Hún var ekki nema 55 ára. Hún var Norður Írlandsmálaráðherra í stjórn Tony Blair þegar ég átti heima þarna. Ég man hversu fersk hún var í samanburði við Patrick Mayhew sem var fyrirrennari hennar, en hann bar alltaf af sér þokka hins hrokafulla enska nýlenduherra. Mo var af allt öðru sauðahúsi. Hún var þingmaður Redcar í Norðaustur Englandi sem er svona ekta breskt working class kjördæmi. Mo var ekki lengi að vinna traust almennings á Norður Írlandi, sem hafði fram til þessa verið nánast vonlaust (og hefur reyndar reynst eftirmönnum hennar alveg jafn erfitt) fyrir Norður Írlandsmálaráðherra Breta. Hún náði jafnt til kaþólikka og mótmælenda með því að segja hlutina hreint og beint, vera opinská og hreinskilin. Þetta varð reyndar til þess að margir aðrir stjórnmálamenn áttu erfitt með að umbera hana, auk þess sem hún blótaði víst ansi mikið. Hún var til dæmis þekkt fyrir að taka af sér hárkolluna (hún missti hárið vegna krbbameinsmeðferðar) á fundum sem henni þóttu helst til of formelgir. Flestir breskir fjölmiðlar eru með umjöllun um hana þessa dagana, en hún fékk semsagt heilaæxli fyrir 9 árum og eftir áralanga baráttu hefur hún tapað – eins og við öll gerum fyrr eða síðar.

19.8.05

Frústrasjón

Það var frekar frústrerandi dagur í vinnunni í dag. Ég hafði eytt ca. 2 dögum í síðustu viku í að laga powerpoint kynningu á nýju skýrslunni okkar. Þessar breytingar voru nauðsynlegar, enda var þessi kynning sem á að fjalla um ójöfnuð í heiminum, uppfull af hallærislegu clipart drasli, fáránlegum fiffum, þar sem textinn hoppaði út um allt á skjánum og svo endalausum myndum sem þæ höfðu fundið á netinu af fátæku fólki. Þetta var hreinasta hörmung. Þær höfðu farið í eina allsherjar powerpoint orgíu, sem gerist stundum þegar fólk fær að setja eitthvað svona saman, en hefur engan skilning á því hver tilgangurinn er með slíkum sýningum. Það var meira að segja alls konar hljóð sem fylgdu með! Trommusláttur... zooom! bamm! plobbs! í umfjöllun um fátækt, óréttlæti og atvinnuleysi. Ég var frekar ósáttur, og náði því fram að breyta þessu, en svo fór í gær að tveir vinnufélagar mínir komust aftur í showið og breyttu. Þetta er aftur orðið að....ég ætti að fara varlega í að tala um vinnufélaga mína á netinu. Það á svo að frumflytja kynninguna fyrir restina af fólkinu í deildinni. Maður heldur baráttunni áfram...Ég þarf að skipta um umræðuefni og hugsa um eitthvað annað.

Það er alltaf gaman að brosa og sem betur fer er netið alltaf vinur manns. Hér er
yndisleg/hræðileg síða, þar sem spáð er í spilin hver verður næsta fræga manneskjan til að deyja, eða rétara sagt, hversu líklegt er að viðkomandi látist á árinu. Að sjálfsögðu var síðasti páfinn efstur á lista í byrjun þessa árs, en það er vel þess virði að kíkja aðeins á síðuna. Það er ótrúlegt hversu margir þarna á síðunni eru ennþá lifandi, sem maður hefði annars haldið að væru örugglega haldnir á leið feðra sinna. Þessi eru til dæmis ennþá lifandi: Simon Wiesenthal, Claude Levi-Strauss og Richard Pryor. Ég var alveg viss um að Pryor væri dáinn. Ég hefði getað svarið það. Jafnvel þótt fólki þyki þetta ósmekklegt að búa til slíkan lista þá er það allavegana nauðsynlegt að kíkja á myndina af Jóhannesi Páli heitnum.

17.8.05

Línulaust Net

Hér í höfuðvígi kapítalismans er merkileg umræða í gangi um hlutverk ríkisins og fákeppni á markaði. Hér í New York fer fara fram prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar og meðal embætta sem kosið er um, er umboðsmaður almennings en hlutverk hans er að gæta hagsmuna fólks sem nýtir þjónustu borgarinnar og stofnana hennar. Meðal þeirra sem eru í framboði er tölvunördinn Andrew Rasiej en hans helsta mál er að berjast fyrir því að New York borg veiti þráðlausa nettengingu til allra ókeypis.

Hann heldur því fram að fákeppni þriggja fyrirtækja valdi allt of háu verði uppi fyrir nettengingu. Auk þess krefjast nýjir og breyttir tímar nýrra lausna. Rétt eins og okkur þykir sjálfsagt að öll hús hafi rafmagn og vatn, þá á það að vera sjálfsagt að allir íbúar hafi netaðgang. Það þýðir ekki að bíða eftir einkaframtaki í þessum málum. Það er hreinlega of kostnaðarsamt fyrir samfélag okkar að bíða eftir því að einkafyrirtæki bjóði upp á almennilega þjónustu sem allir (óháð tekjum) hafa aðgang að.

Rétt eins og hið opinbera þurfti upphaflega að byggja upp vatnsveitukerfi, rafmagnsveitur og vegakerfi, þá er það skylda hins opinbera að byggja upp upplýsingaveitu fyrir alla borgarana. Það merkilega við allt þetta er að þetta er ekki bara eitthvert baráttumálið, heldur er þetta að verða raunveruleiki í Philadelphia. Mikið vona ég að Rasiej komist að.

Það er kannski til of mikils ætlast að LínuNet fari að bjóða Reykvíkingum upp á slíkt hið sama?

15.8.05

Það er gott að fara í frí

Ég tók eftir því um daginn hversu gamall Tony Blair lítur út fyrir að vera. Hann var að tala um hryðuverkaárásirnar í London um daginn og það var greinilegt að hann var uppgefinn. Hann hefur elst heilan helling síðan Verkamannaflokkurinn komst til valda 1998. Enda er ekki við öðru að búast. Að vera æðsti leiðtogi Bretlands er ekkert grín. Það sama ætti að gilda um forseta Bandaríkjanna. Nei, ekki bara það sama! Það hlýtur taka ennþá meira á að vera forseti eina alvöru stórveldisins í dag. Heilsa og útlit Bill Clinton sýnir það.

Hvernig stendur þá á því að Bush lítur betur út í dag en hann gerði árið 2000? Það eru engar ýkjur. Hann er unglegri, lítur út fyrir að vera í betra formi og er ekki jafn fölur og hann var þegar hann tók við valdamesta embætti allrar veraldar. Myndin hægra megin er tekin árið 2000, en myndin vinstra megin er official mynd frá 2004. Hvernig fer maðurinn að þessu? Það hefur kannski einhver áhrif að hann er núna í 5 viku fríi á búgarði sínum í Texas. Þetta er í 49. skiptið sem hann fer í frí þangað á sinni sem forseti og hann hefur þá samtals verið 319 daga þarna, eða 20% af embættistíðinni. Hann hefur engan tíma til að ræða við Cindy Sheehan, sem er er móðir bandarísks hermanns sem var drepinn skammt frá Baghdad. Hún hefur undanfarna daga haldið uppi mótmælum við búgarð forsetans og krafist þess að fá að ræða við hann um stríðið.

Og þetta í landi þar sem vel menntaðir Bandaríkjamenn í góðri vinnu mega vera ánægðir með að fá þriggja viku orlof á ári hverju. Margir aðrir fá tvær vikur eða minna. Ég þekki engan Bandaríkjamann sem fær meira en 3 vikur, fyrir utan þá sem ég vinn með í SÞ, en sem betur fer njótum við annarra kjara.

Ég um mig frá mér til mín

Netið er fullt af allskonar prófum og leikjum þar sem fólk getur endalaust verið að rýna í sjált sig. Yfirleitt er þetta saklaust gaman en satt að segja er dálítið hvimleitt hversu endalaust menning okkar hvetur einstaklingana til þess að vera meira og meira uppteknir af sjálfum sér. Hvernig get ég bætt sjálfan mig? Hvernig get ég grætt meiri peninga? Hvernig get ég látið sjálfum mér líða betur...fengið flottari brjóst eða six pack? Það eru stórar self-help hillur í öllum bókabúðum hérna. Ég man ekki til þess að hfa séð help-others hillu neins staðar. Vestræn samfélög og alþjóðavædda poppmenning okkar er alveg hreint ótrúlega sjálfhverf. Kannski er þetta vegna þess að við erum orðin of rík? Höfum of mikið á milli handanna og nægan tíma til að velta okkur upp úr alls konar kjaftæði. Ég veit ekki... Ég rakst semsagt á þessa litlu síðu um daginn. Þarna er pínkulítið sjálfspróf þar sem maður setur inn árstekjur sínar og fær svo að bera sig saman við restina af mannkyni. Þörf áminning fyrir okkur litla auðuga mitnnihlua mannkyns. Þetta tekur enga stund.

12.8.05

Svínakjöt

Það er allt stærra í Ameríku. Þannig hefur maður allavegana oft hugsað og maður er alltaf að rekast á dæmi sem sanna þessa alhæfingu. Fólkið er ansi stórt, bílarnir eru risastórir og matarskammtarnir sem maður fær á venjulegum veitingastöðum eru undantekningalaust stærri en það sem aðrar þjóðir eru vanar. Spillingin er líka stærri.
Heima á Íslandi hneykslaðist ég yfir Héðinfjarðargöngunum og 6 milljörðunum sem áttu að fara þangað, en sóun íslendinga í glórulausar samgönguframkvæmdir eru ekkert miðað við fyrirgreiðslupólitíkina hérna megin hafsins. Í vikunni skrifaði forsetinn undir $286 milljarða samgöngufrumvarp, sem er ca. 18,000 milljarðar íslenskra króna. Þetta frumvarp inniheldur 6300 viðbætur þar sem þingmenn hafa náð að koma ákveðnum verkefnum áleiðis innan samgöngunefndarinnar, en slíkar viðbætur eru kallaðar svínakjöt. Kóngurinn í samgöngunefndinni er Don Young frá Alaska, en hann er formaður nefndarinnar og einn flottasti fyrirgreiðslupólitíkus sem ég hef heyrt um, en hann sér til þess að Alaskamenn fá $1000 á hvern íbúa, á meðan Texas fær $3 á hvern íbúa út úr þessu frumvarpi. Þetta eru verkefni eins og 230 milljón dollara brú sem ber þetta fína nafn... 'Don Young´s Way' sem er brú frá Anchorage upp í óbyggðir.

Spillingin er hreint ótrúleg. Það er víst engin leið til að sjá hvaða þingmenn koma með tillögur um viðbætur við frumvörp, og það er orðin regla hjá Repúblíkönum að koma alltaf þingmönnum sem naumlega komust á þing, inn í slíkar nefndir. Þannig tryggja þeir að þegar kemur að næstu kosningum, þá hafa viðkomandi þingmenn náð að bæta nógu miklu svínakjeti fyrir kjósendur sína. Lýðræðið hérna er dásamlegt.

9.8.05

Ný myndasíða

Ég var svo rétt í þessu að setja inn helling af myndum frá ferðinni inn á netið. Er búinn að eyða allt of miklum tíma í að setja þessar myndir upp og ætti eiginlega að fara að vinna aðeins. Annars er ekki mikið að gera eins og er, en það á eftir að breytast fljótt. Verður heldur betur nóg um að vera þegar Allsherjarþing hefst, en það verður væntanlega mesta samkoma þjóðhöfðingja sem nokkru sinni hefur átt sér stað. Tilefnið er 5 ára yfirlit vegna þúsaldarmarkmiðanna auk viðræðna um umbætur á SÞ. Sumir hérna spá róttækum breytingum á meðan aðrir sjá ekki fram á að neitt geti gerst af viti. Meira um það seinna.

8.8.05

King´s Canyon

Ofsalega er gott að komast burt út úr borginni. Við fórum í síðustu viku í vikuferðalag þar sem við gengum um gil, dali og fjöll í King´s Canyon í Kalíforníu. Í túrnum voru ég, Kata og svo hjónin Preston og Linda sem eru bæði læknar. Við tjölduðum í 6 nætur og satt að segja vorum við orðin soldið þreytt, skítug og aum undir restina. Sumir voru með blöðrur á hælum, aðrir pirraðir á skítnum eða aumir í hnjám, en ekki ég. Það eina sem amaði að mér voru tugir á tugi ofan ad mosquito bitum. Helvítis flugurnar voru ferlega ágengar og ég ýkji ekki þegar ég segist hafa bætt við mig ca. 20 bitum á hverjum degi, þessa 6 daga. Sem betur fer var maður svo upptekinn við að njóta útiverunnar og bera 20 kílóa bakpokann að mann klæjaði sáralítið.

Þetta var semsagt yndislegur túr. Náttúrufegurðin var stórfengleg og þá eru trén lang minnisstæðust. Það voru ekki bara sequoia trén (sem eru stærstu tré í heimi) heldur voru skógarnir fullir af risastórum fallegum trjám. Ég sá ekki mikið af merkilegum fuglum, sá enga brini en rakst þó á sæmilega stóran skröltorm sem hristi á sér skottið þannig að maður heyrði til. Við byrjuðum ferðina á frekar auðveldum göngutúr upp Paradise Valley og við gengum upp hálfan dalinn á fyrsta deginum. Annar dagurinn var trúlega sá erfiðasti, en þá gengum við áfram í helvíti miklum hita og ég fann alveg hvernig sólin dró úr manni styrkinn, enda vorum við sífellt að ganga upp í mótið og trjám fór að fækka og því vorum við meira og meira undir berum himni. Við náðum þessu þó á endanum en við gengum ekki nema hálfan daginn, enda er ekkert vit að labba þarna um miðjan daginn. Venjulega vöknuðum við kl. 6 og gengum svo til 1-2. Eftir það hvíldum við okkur í skugganum og skðuðum svæðið. Förinni var heitið til Rae Lakes, sem eru fjöll í ca. 3000 m hæð yfir sjáfarmáli, en við hófum gönguna í 1400 m. Við gistum við Rae vötn í tvær nætur áður en við héldum áfram upp í 3600 m. hæð og svo heim.

Þegar við vorum svo búin með göngutúrinn ákváðum við að kíkja á Sequoia garðinn og sjá stærstu trén í heimi. Við höfðum reyndar séð fullt af sequia trjám á leiðinni sem voru alveg hreint ferlega stór, en samt ekkert í samanburði við það sem beið okkar. Þessi tré voru alveg hreint mögnuð. Þangað á maður að fara með börn. Mikið hefði maður haft gaman af því að hafa komið þangað þegar maður var svona 8-12 ára.

30.7.05

80s lög batna með árunum

Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með hugmyndaríku fólki. Ekki veit ég hvaðan þeir eru, en þetta eru greinilega Skandínavar. Hljomsveitin heitir Hurra Torpedo og það kannast langflestir við lagið þegar Bonnie Tyler syngur það - Total Eclipse of the Heart.
Þó svo að útgáfan hennar Bonnie sé fín, þá nær hún bara ekki alveg jafn flottum töktum eins og þessir menn. Fínt atriði sem á vel heima í öllum betri ríkisreknum sjónvarpsstöðvum sem vilja höfða til unga fólksins.

29.7.05

Arkítektúr í USSR og USA

Lengi vel hafði ég lítinn áhuga á arkítektúr. Það kviknaði reyndar smá áhugi þegar ég átti heima í Barcelona og kynntist aðeins verkum hans Antonio Gaudi. Svo flutti ég aftur heim til Íslands, og það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir marga kosti, þá er Reykjavík ekkert sérstaklega falleg borg, allavegana ekki það sem við mennirnir höfum gert. Það fallegsta við borgina er það sem við höfum ekki ennþá eyðilagt - náttúran og útsýnið.
Nú þegar maður er umrkingdur ótrúlegustu húsum á hverjum degi hérna á Manhattan þá byrjar maður aðeins að vakna. Það er ekki bara það að maður skuli sjá og vera innan í sumum af frægustu byggingum heims á hverjum degi, heldur er þetta allt svo stórt - stórt hugsað og stórt byggt. En það eru ekki bara kapítalistarnir sem eru flottir. Hérna er vefsíða með hugmyndum sem voru í gangi í Sovétríkjunum. Ekki vantar upp á grand hugmyndir. Örugglega samt ekki jafn flott og nýja Hringbrautin, ha?
Ég er nú farinn í vikufrí. Kem aftur eftir viku með fullt af myndum af fjöllunum í Sierra Nevada.

28.7.05

Hvar er Guð?

Irving Pointing to God, eftir William Lamson.
Ég rakst á þessa mynd í tímariti um daginn og fannst hún alveg frábær. Það sem gerir hana svo skemmtilega finnst mér að það er ekki bara verið að benda manni almennt á hvar Guð er að finna. Það er hann
Irving sem er að því og hann virðist vera með þetta alveg á hreinu.

Það alveg merkilegt við Bandaríkin hversu mikilvæg trúarbrögð eru fólki hérna. Réttara sagt ætti maður eiginlega að segja að það er alveg hreint merkilegt hversu litlu máli trúarbrögð skipta fólki í vestur Evrópu. Annars ber ég fulla virðingu fyrir trúarbrögðum nágranna minna. Það sem ég á erfiðara með að skilja er hvernig strjórnmál hér snúast nær eingöngu um fóstureyðingar og réttindi samkynhneigðra. Deilur um stríð, skattalækkanir til hinna ríkustu niðurskurður velferðarkerfisins eða efnahagsmál almennt falla oft í skuggan á þessum tveimur málefnum. Afturhaldsöflunum hefur tekist alveg ótrulega vel upp með að skilgreina um hvaða málefni skuli rætt og hvað skiptir engu máli. Þannig skiptir eigin atvinnuleysi og fátækt Alabamabúa miklu minna máli heldur en að hommar skulu vilja giftast í Massachusets.

Annað mál, sem fær minni athygli enn sem komið er, eru þeir sem vilja að hætt verði að kenna þróunarkenningu Darwins. Enn sem komið er fara þeir aðallega fram á að ásamt þróunarkenningunni verði líka kennd
creationsim, sem byggir eingöngu á biblíunni sem heimild um uppruna mannkyns og raunar allmennt um þróun alheimsins. Þeir eru að byggja safn í Ohio.

27.7.05

Enn eitt dæmi um illsku manna

Þetta eru myndir frá Harare, höfuðborg Zimbabwe, þar sem stórvöld ákváðu hreinlega að þurrka út heilu fátækrarhverfin í maí 2005. Það var ekki alveg þetta sem menn eru að tala um þegar SÞ setja fram markmið um að útrýma fátækt. Um 700,000 manns hafa misst heimili sín. SÞ birtu skýrslu um þetta nú nýlega þar sem stjórnvöld eru harkalega gangrýnd, en ólíklegt er að nokkuð breytist á næstunni, sérstaklega þar sem bæði Kínverjar og Rússar neita að viðhafast nokkuð innan öryggisráðsins.

Dánlódaði svo Google Earth forritið í dag. Það er hreint út sagt ótrúlegt að skoða þetta. Það er eiginlega einfaldast að lýsa þessu sem forriti sem líkir eftir gamaldags hnetti af jörðinni. Munurinn er sá að það er hægt að stækka upp kortið ótrúlega mikið á sumum stöðum. Vel þess virði að kíkja á.

Samhengi, vinna, sumarfrí og þríþraut

Kláraði Fight Club í subwayinu á leiðinni í vinnuna áðan. Gaman að þessari bók, en hún minnir mig talsvert á Trainspotting að því leyti að myndin sem gerð var eftir bókinni er alveg jafn mikil skemmtun og bókin. Svo held ég að það sé manni hollt að lesa slíkar bækur sem minna mann á að setja hlutina í samhengi. Við erum yfirleitt allt of upptekin af smávægilegum hlutum sem skipta satt að segja engu máli. Maður sér þetta svo sérstaklega vel hérna í NY, þar sem fólk er endalaust að stressa sig og leggja allann andskotann á sig til þess eins að eignast flottari bíl, nýjan æpod eða buxur sem kosta mörg hundruð dollara. Auðvitað líður manni ekkert betur með þetta drasl í kring um sig. Ég veit að það er klisja að tala um og kvarta yfir þessu svokallaða lífsgæðakapphlaupi, en þetta er komið út í tómt rugl. Kannski áttum við (mannkyn) okkur á þessu einhverntímann áður en annar hver Kínverji er farinn að keyra um á Hummer.

Núna þarf ég að drusla af mínum hluta af grein sem við erum að vinna hérna um innflytjendur. Minn hluti er lítill kafli um fólksflutninga og alþjóðavæðingu. Svo þarf ég að ganga frá leigu á bíl fyrir mömmu og pabba þegar þau koma í haust. Hér er fín skýrsla sem vinnufélagar mínir hérna skrfuðu í fyrra um innflytjendur. World Economic and Social Survey 2005

Mikið hlakka ég til þess að fara til King´s Canyon, en ætlunin er að ganga þar á fjöll í 6 daga. Vona að ég rekist á einhverja birni og svo væri æðislegt að sjá fjallaljón, en það er samt afar ólíklegt. Set myndir hingað inn á þetta þegar ég kem heim, sem verður á mánudaginn 8. ágúst. Við ætlum að ganga um Rae Lakes Loop sem er ca. 6 daga ganga. Þetta fólk hérna fór þessa göngu fyrir nokkrum árum og eru með fínar myndir.

Hér er svo mynd af Catherine, en hún tók þátt um daginn í New York þríþrautinni og stóð sig eins og hetja. Hún endaði í 26 sæti af 166 keppendum í hennar aldursflokki.
Héðan í frá fer ég að skrifa reglulega inn hérna.