13.10.05

Úflur, úlfur!

Í síðustu viku var varað við hugsanlegum/væntanlegum sprengjuárásum á neðanjarðarlestir hérna í NY. Á fimmtudag flutti forsetinn ræðu um hryðjuverk og hversu vel baráttan gengi gegn hryðjuverkamönnunum og að endalaust væru yfirvöld að handtaka hryðjuverkamenn og koma í veg fyrir voðaverk. Einhverjum klukkutímum síðar kom svo yfirlýsing frá Mike Bloomberg, borgarstjóra um að upplýsingar lægju fyrir um yfirvofandi sprengjuárásir á neðanjarðarlestakerfið í borginni og að miklar öryggisráðstafanir stæðu yfir. Hérna í vinnunni fengum við tölvupóst um þessa alvarlegu ógn sem steðjaði að almenningssamgöngum hérna og að við ættum að vera sérstaklega vör um okkur á leið heim úr vinnunni. Sumir hérna tóku þessu alvarlega en aðrir höfðu efasemdir og bentu á að þetta væri síður en svo í fyrsta skiptið sem hryðjuverkagrýlan er dregin upp úr kistunni til að beina athygli almennings frá einhverjum málefnum sem koma illa við yfirvöld. Auðitað veit maður þetta ekki og í fyrstu tekur maður þessu alvarlega, en þessar viðvaranir eru orðnar ansi margar og lítt trúverðugar.

Fjölmiðlar hérna eru meira að segja farnir að fjalla opinskátt um þennan hræðsluáróður. Það bendir nefnilega allt til þess að ráðamenn hérna kyndi undir ótta við hryðjuverk og noti hryðjuverkagrýluna kerfisbundið til að koma ákveðnum málefnum áleiðis og til að beina athyglinni frá skandölum. Þessa dagana hefur Bush stjórnin aldrei notið jafn lítils stuðnings, fólk er reitt vegna viðbragðanna við Katrínu og helsti ráðgjafi Bush, Karl Rove á jafnvel yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa uppljóstrað um starfsmann CIA, auk þess sem stríðið í Írak gegnur hörmulega. Í þá 19 mánuði sem ég hef verið hérna hef ég upplifað nokkrar svona "ógnir" og þetta virðist alltaf koma á tíma sem hentar stjórnvöldum ansi vel. Að sama skapi kemur svo líka í ljós að þetta voru engar ógnir, að upplýsingarnar voru rangar eða afar vafasamar og jafnvel margra mánaða gamlar. Til dæmis vissu sumir fréttamiðlar af þessari ógn á neðanjarðarlestakerfið nokkrum dögum áður en borgarstjórinn tilkynnti um hana, en voru beðnir af yfirvödlum um að bíða með að flytja fréttir af þessu. Svo mikil var ógnin. Það er ferlegt ástand þegar maður getur ekki treyst slíkum yfirlýsingum frá yfirvöldum, því vissulega er möguleiki á annarri árás hérna. Reyndar held ég að við höfum frekari ástæðu til að hafa áhyggjur af fuglaflensu, en það er annað mál.

Reyndar er hræðsluáróður ótrúlega algengur hérna og yfirvöld eru alls ekki ein um að leika þennan leik. Fréttamiðlar, og þá sérstaklega sjónvarpsfréttir hérna birta endalausar fréttir sem virðast þjóna þeim eina tilgangi að valda ótta svo að áhrofendur haldi áfram að fylgjast með. Oft fjalla þessar fréttir um hættur sem ógna öryggi barna. Þannig setja þeir móralska pressu á foreldra og aðra sem er annt um öryggi barna, að fylgjast með. Auðvitað er þetta hvimleið og ómerkileg fréttamennska, en hún selur greinilega auglýsingapláss og sala á auglýsingum er greinilega mikilvægari en miðlun upplýsinga.

No comments: