13.12.06

Moskva og Salekhard

Það eru nokkrar ástæður fyirir því að ég hef ekkert skrifað undanfarið. Var algerlega ónettengdur í viku í Rússlandi og hef svo verið bakveikur og ekki getað hugsað mér að sitja lengur við tölvuna en allra nauðsynlegast er í vinnunni. Maður er aðeins farinn að skána.

Mikið ferlega er Moskva stór og skítug, og öll svolítið harðgerð. Það er alveg svakalega mikið að ofboðslega stórum blokkum þarna og þeim fer mikið fjölgandi. Byggingaframkvæmdir út um allar trissur. Þetta eru ósköp gráleit og leiðinleg hverfi sýnist mér, sem virðast hafa sáralitla sál. Þetta er svona eins og fellahverfið nema bara tuttugu sinnum stærra allt saman. Þá er umferðin ferleg. Bílaeign Moskvubúa hefur aukist rosalega undanfarið en samgöngukerfið er ennþá miðað við þá tíma þegar fólk beið í tíu ár eftir Lödunni sinni. Umferðin ar kaótísk og vegakantar eru almennt notaðir sem auka akrein. Þá eru stanslausar umferðarteppur þarna. Svo aka allir á nagladekkjum sem spæna upp malbikið sem maður andar svo að sér og þetta sest á bíla og hús þannig allt virkar frekar skítugt. Neðanjarðarlestakerfið er svo magnað. Flottar stöðvar og örar ferðir. Mér sýndist eins og það kæmu lestir á ca. þriggja mínútna fresti.

Ég var ekki nema einn dag í Moskvu og svo var haldið áfram til Salekhard sem er í norðaustri frá Moskvu. Bærinn stendur við ánna Ob og er í Yamal Nenets héraðinu. Þarna eru víst 70% af jarðgasi rússa. Húsin virðast flest vera ný og ansi flott. Þetta minnti mig svolítið á sum íslensk sjávarþorp. Ekki falleg hús, lítið um listir eða menningarlíf, en meiri útgerðarfílingur. Heimamenn tóku ansi vel á móti okkur og fundurinn gekk vel fyrir sig. Tilgangurinn var að halda fund vegna undirbúnings SÞ skýrslu um stöðu frumbyggja, og Rússarnir höfðu boðist til þess að halda fundinn og borga. Við kynntumst líka svolítið lifnaðarháttum frumbyggjanna þarna sem eru hreindýrahirðingjar. Margir þeirra búa ennþá úti á túndrunni, en þar getur orðið djöfull kalt. Ég tók slatta af myndum og hef þegar sett nokkrar á flickr síðuna mína. Ég bæti inn fleirum á næstu dögum.