29.8.05

Aristókratarnir

Fór í bíó í gærkvöld og sá mynd sem er öll um aðeins einn bradara. Myndin var þokkaleg, en aðeins of löng, hefði getað virkað sem 30 mín. sjónvarpsþáttur. Brandarinn er alveg sérstaklega ógeðslegur en það sem gerir hann sérstakan er að hann er aldrei eins. Aðalefni brandarans er spuni þess sem segir brandarann, þannig að myndin var endalausar klippur af grínistum að tala um sínar útgáfur af brandaranum og hvernig er hægt að þróa hann í ýmsar áttir. Hérna er til dæmis South Park útgáfa af brandaranum.

Áður en ég fór í bíóið leit ég inn í litla búð í Chelsea og rakst þar á geisladisk sem mér leist nokkuð vel á, en hann innihledur leiðsögn um DUMBO (Down Under the Manhattan Bridge Overpass) hverfið í Brooklyn. Ég er ekki búinn að hlusta á hann ennþá, en þetta virkar þannig að maður byrjar á ákveðnum stað í hverfinu, spilar diskinn með ferðaspilara og fylgir svo litlu korti um hverfið og hlustar svo á á leiðsögumanninn sem segir manni frá hverfinu. Ég hélt að þetta væri mín hugmynd. Hafði meira að segja minnst á þetta við vinkonu hennar Kötu sem þekkir ansi vel til East Village hverfisins. Hugmyndin er sem sagt að gera það sama og gert er í mörgum söfnum þegar fólk fær kassettutæki, nema með því að nota nýjustu tækni og selja fólki leiðsögnina á mp3 formi. Það ætti einvher að gera þetta með 101 Reykjavík - leiða fólk í gegnum Grjótaþorpið, Þingholtin, Hverfisgötuna og segja sögur af frá borginni. Gæti orðið æðislegt ef þetta er vel gert. Skrifa meira um þetta þegar ég er búinn með DUMBO túrinn.

Vinna og brúðkaup


Skýrslan sem við höfum verið að vinna að undanfarna mánuði kom loksins út í síðustu viku. Þetta er skýrsla sem við gefum út á tveggja ára fresti um stöðu félagslmála í heiminum (Report on the World Social Situation). Auðvitað er engin leið til að fjalla að fullu um félagsmál alls heimsins, en þess vegna er ákveðið þema að hverju sinni. Þetta skiptið fjölluðum við um ójöfnuð, en málið er að ójöfnuður hefur að mörgu leyti aukist undanfarna áratugi. Helstu ástæður þess eru ekki að þeir fátæku eru að verða fátækari, heldur að þeir ríku eru að verða ríkari. Reyndin er sú að þeim allra fátækustu hefur fækkað á undanförnum árum, aðallega vegna þess að Kína og Indland eru að ganga í gegnum veruleg hagvaxtarskeið. Vandamálið er hins vegar það að allt of fáir íbúar heimsins njóta hagvaxtar. Þá fjölluðum við ekki bara um efnahagslegan ójöfnuð, heldur líka um aðgang að menntun, heislugæslu, þáttöku í ákvarðanatöku o.s.frv.

Ég er búinn að taka þátt núna í að skrifa nokkrar skýrslur hérna og maður lærir heilmikið af þessu. Auðvitað hugsar maður alltaf um það hvort enn ein skýrslan muni hafa einhver áhrif og hvort maður geti ekki gert meira gagn í heiminum með öðrum hætti. Ég get ennþá ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en eitthvað á þessa leið. Sameinuðu Þjóðirnar eru bráðnauðsynlegur vettvangur og sú starfsemi sem fer fram hérna (eins gölluð og hún er hérna stundum) er besta tækið sem við mannkyn höfum búið til, til þess að bæta heiminn fyrir alla. Það hefur ekki ennþá tekist, en það þarf að halda baráttunni áfram og hluti af þeirri baráttu er að upplýsa almenning, fjölmiðla, stjórnmálamenn og svo fulltrúa aðildarríkja hérna í höfuðstöðvunum. Þó svo að öllum markmiðum SÞ hafi ekki verið náð, þá held ég að vinnan hérna sé að skila árnagri. Slíkan árangur er hins vegar oft ekki hægt að sjá nema með því að líta til lengri tíma. Þetta hljómar kannski svolítið naív, en maður verður að hafa trú á því sem maður er að gera.

Annars er ég upptekinn þessa dagana við að undirbúa brúðkaup, en við Catherine ætlum að giftast 10 sept. Ég er merkilega rólegur með þetta allt saman. Kannski einum of kærulaus. Er allavegana búinn að finna mér fín jakkaföt og skyrtu. Kunni ekki við að klæðast vinnugallanum. Eina fólkið sem við höfum boðið er nánasta fjölskyldan sem mér finnst bara fínt. Höfum þetta rólegt og verðum öll saman í 3 daga á Cape Cod. Þannig ná familíurnar að kynnast aðeins. Við karlarnir ætlum að róa til fiskjar einn daginn. Vonandi nær maður túnfiski. Djöfull væri það nú flott. ..

25.8.05

Ekki skal vanmeta mikilvægi fetaosts

Ég leit við á fréttavef Ríkisútvarpsins áðan og sá lista yfir helstu innlendu fréttirnar í dag. Hérna eru þrjár efstu fyrirsagnirnar.

Innbrot í verslun í Neskaupstað

Fetaostur frá Mjólku á markað innan mánaðar

Leitað að heitu vatni á Grænlandi

Engin furða að allt snúist um Baugsliðið þegar alternatívið er Fetaostur frá Mjólku. Annað hvort er ekkert að gerast á Íslandi, eða þá að menn hafa ekki tíma/pening/metnað/getu til að sinna alvöru fréttamennsku.

24.8.05

Er fólk lukkudýr?

Á hverjum morgni hlustum við á morgunútvarp NPR þar sem maður fær ansi vel unnar fréttir af því sem er að gerast, ekki bara hér í Bandaríkjunum, heldur almennt í heiminum. Þökk sé NPR, hef ég ekki algerlega gefist upp á ljósvakamiðlum hérna. Sjónvarpsfréttir allra stöðva hérna eru slakar og ekki þess virði að horfa á. Maður fær betri og áreiðanlegri upplýsingar um hvað er að gerast í heiminum með því að horfa á grín-fréttaþáttinn Daily Show, heldur en með því að horfa á fréttir frá ABC, CBS, NBC eða CNN, að maður tali ekki um Fox.

Hvað um það… Í morgun var semsagt merkileg frétt í útvarpinu um Florida State Univesity og mascot (lukkudýr? tákn?) þeirra sem er Seminole indíáni. Nýlega höfðu yfirvöld háskólaíþróttamála (NCAA) bannað notkun á slíkum táknum sem fela í sér ákveðna fordóma og notkun á staðalmyndum, en nú hefur verið ákveðið að gera undantekningu fyrir Florida State skólann. Þessar reglur eiga fyrst og fremst við þau lið sem nota ímynd Amerískra frumbyggja sem hluta af búningum, logo og öðru tengdu skrauti. Málið var sem sagt að NCAA ákváðu að veita Florida State undanþágu vegna þess að Seminolarnir sjálfir eru víst sáttir við að vera notaðir sem logo og lukkudýr. Reyndar virðist svo vera að einhver hópur þeirra segjast vera sáttir á meðan aðrir eru það ekki.

Menn hérna deila talsvert um þetta. Sumir segja að það sé ekkert nema pólitísk rétthugsun að banna mönnum að nota ímyndir Amerískra indjána hjá íþróttaliðum. Slíkar ímyndir sýna indíána í jákvæði ljósi og eru ekkert annað en saklaus skemmtun og sem byggir á ríkri hefð og virðingu fyrir frumbyggjum Norður Ameríku. Aðrir segja að þetta hafi ekkert með póliíska rétthugsun að gera, heldur séu slíkar staðalmyndir rangar, niðrandi og hreint út sagt dónalegar gagnvart minnihlutahópi sem er svo fámennur og valdalítill að hann gæti aldrei farið út í alvöru baráttu fyrir því að stoppa notkun á slíkum ímyndum.

Maður getur svosum skilið að flestir þeir sem taka þátt í þessu eru ekki beinlínis að reyna að móðga eða særa ameríska frumbyggja, en fjandinn hafi það! Þetta er ekki beinlínis smekklegt heldur. Eina ástæðan fyrir því að þetta viðgengst, er sú að þessi lið hafa verið að svo lengi - menn leyfa sér að kalla þetta hefð. Þessar hefðir voru bara búnar til í landi þar sem rasisminn var hluti af daglegu brauði og þótti sjálfsagður. Það myndi engum detta í hug að setja á fót eitthvert lið í dag sem ber með sér ákveðinn kynþátt eða þjóðerni sem hluti af logo-inu. Það er engin tilviljun að það eru engin lið hérna sem heita New York Jews, Los Angeles Latinos, eða Detriot Blacks. Ég held að einhver myndi mótmæla slíku. Hins vegar eru a.m.k. 3 atvinnulið og hundruð menntaskóla og háskóla sem nota ímyndir Amerískra índíána. Það er meira að segja til háskólalið núna sem heitir Southeastern Oklahoma State Savages! En þessu stendur víst til að breyta. Gott hjá þeim.

23.8.05

Er þetta kristilegt?

Á meðan Bretar eru (réttilega) að reka geðveika klerka úr landinu fyrir að boða hatur og hvetja til ofbeldis er annað uppi á teningum hérna megin Atlantshafsins. Einn aðal klerkur hægri öfgamanna hérna heitir Pat Robertson. Hann rekur kristilegar sjónvarpsstöðvar og er almennt virkur í baráttunni gegn þeim ógnum sem vofa yfir siðmenningu – réttindi kvenna, samkynhneigð og frjálsyndi yfirleitt. Eitt allra hræðilegasta blótsyrðið í bandarískri pólitík er liberalism. Öllu þessu kristilega liði er meinilla við líberalisma og Demókratar eru upp til hópa skíthræddir við að einhver tengi þá við frjálslyndi.
Nýjasta fréttin af þessum manni er sú að hann vill láta myrða Hugo Chavez, forseta Venezuela. Þett kom fram í einum af sjónvarpsþáttunum hans, en hans helstu rök voru þau að morð á þjóðarleiðtoganum væri ódýrara en innrás. Það er hreint með ólíkindum hversu mikill hatur og ótti býr inni í þessu fólki sem þykist vera svo heilagt. Sem betur fer er allavegana hægt að hlæja að þessu liði.

22.8.05

Belfast, Skagafjörður og Mo

Í ferðablaði New York Times um helgina eru tvær greinar sem gripu athygli mína og vöktu skrítna blöndu af heimþrá, nostalgíu og ánægju með líf mitt og hvernig það hefur þróast undanfarin ár. Fyrri greinin, sem er aðalgrein ferðablaðsins er um Belfast og hvernig borgin er að verða hin nýja Dublin, loksins komin í partístuð eftir leiðindi undanfarinna áratuga. Það var soldið fyndið að lesa greinina þar sem blaðamaðurinn virtist ekki alveg vita hvað hann átti að gera annað en að fara um á milli pöbba og restúranta. Það er reyndar ekki mikið annað að gera þarna fyrir þá sem ekki eiga vini eða ættingja í borginni. Ég sakna þess reyndar svolítið hversu mikið pöbbarnir voru miðja félagslífs manns, þó svo að þetta geti verið aðeins of mikið á tíðum. Svo var ég búinn að gleyma því hvernig miðbær Belfast tæmist aleglega á kvöldin, en blaðamaðurinn bendir réttilega á að miðbærinn líkist draugabæ þegar verslanirnar hafa allar lokað. Norður Írland er ennþá soldið skrítinn staður en ég sakna fólksins þarna. Ég ætti að drífa mig þangað í heimsókn við tækifæri.

Hin greinin er um rafting í Jökulsá Eystri, sem verður að Héraðsvötnum í Skagafirði, þegar hún tengist Jökulsá Vestri. Frændi minn er bóndi þarna rétt hjá í Skagafirði og afi byggði þarna sumarbústað sem mamma og systkini hennar eiga núna. Sumrin sem ég var þarna sem barn höfðu heilmikil áhrif á mig og reynsla mín þarna hefur mótað mig. Auðvitað var gaman að sjá þessa grein, sem er reyndar frekar illa skrifuð, en útgangspunkturinn er að ísland sé land álfa, trölla og sérvitra víkinga. Sama gamla tuggan. Djöfull hlýtur hlýtur svona umfjöllun að fara í taugarnar á íslenskum tónlistarmönnum sem meika það (Björk, SigurRós). Reyndar er ágætis lýsing á bátsferðinni sjálfri, en lítið annað. Svo er lika þokkalegt slideshow á nytimes vefnum með greininni. Aðallega er það bara skrítið að sjá umfjöllun um gömlu sveitina hérna í stórborginni.

Á föstudaginn lést Mo Mowlam sem var einn merkilegasti stjórnmálamaður sem ég veit um. Hún var ekki nema 55 ára. Hún var Norður Írlandsmálaráðherra í stjórn Tony Blair þegar ég átti heima þarna. Ég man hversu fersk hún var í samanburði við Patrick Mayhew sem var fyrirrennari hennar, en hann bar alltaf af sér þokka hins hrokafulla enska nýlenduherra. Mo var af allt öðru sauðahúsi. Hún var þingmaður Redcar í Norðaustur Englandi sem er svona ekta breskt working class kjördæmi. Mo var ekki lengi að vinna traust almennings á Norður Írlandi, sem hafði fram til þessa verið nánast vonlaust (og hefur reyndar reynst eftirmönnum hennar alveg jafn erfitt) fyrir Norður Írlandsmálaráðherra Breta. Hún náði jafnt til kaþólikka og mótmælenda með því að segja hlutina hreint og beint, vera opinská og hreinskilin. Þetta varð reyndar til þess að margir aðrir stjórnmálamenn áttu erfitt með að umbera hana, auk þess sem hún blótaði víst ansi mikið. Hún var til dæmis þekkt fyrir að taka af sér hárkolluna (hún missti hárið vegna krbbameinsmeðferðar) á fundum sem henni þóttu helst til of formelgir. Flestir breskir fjölmiðlar eru með umjöllun um hana þessa dagana, en hún fékk semsagt heilaæxli fyrir 9 árum og eftir áralanga baráttu hefur hún tapað – eins og við öll gerum fyrr eða síðar.

19.8.05

Frústrasjón

Það var frekar frústrerandi dagur í vinnunni í dag. Ég hafði eytt ca. 2 dögum í síðustu viku í að laga powerpoint kynningu á nýju skýrslunni okkar. Þessar breytingar voru nauðsynlegar, enda var þessi kynning sem á að fjalla um ójöfnuð í heiminum, uppfull af hallærislegu clipart drasli, fáránlegum fiffum, þar sem textinn hoppaði út um allt á skjánum og svo endalausum myndum sem þæ höfðu fundið á netinu af fátæku fólki. Þetta var hreinasta hörmung. Þær höfðu farið í eina allsherjar powerpoint orgíu, sem gerist stundum þegar fólk fær að setja eitthvað svona saman, en hefur engan skilning á því hver tilgangurinn er með slíkum sýningum. Það var meira að segja alls konar hljóð sem fylgdu með! Trommusláttur... zooom! bamm! plobbs! í umfjöllun um fátækt, óréttlæti og atvinnuleysi. Ég var frekar ósáttur, og náði því fram að breyta þessu, en svo fór í gær að tveir vinnufélagar mínir komust aftur í showið og breyttu. Þetta er aftur orðið að....ég ætti að fara varlega í að tala um vinnufélaga mína á netinu. Það á svo að frumflytja kynninguna fyrir restina af fólkinu í deildinni. Maður heldur baráttunni áfram...Ég þarf að skipta um umræðuefni og hugsa um eitthvað annað.

Það er alltaf gaman að brosa og sem betur fer er netið alltaf vinur manns. Hér er
yndisleg/hræðileg síða, þar sem spáð er í spilin hver verður næsta fræga manneskjan til að deyja, eða rétara sagt, hversu líklegt er að viðkomandi látist á árinu. Að sjálfsögðu var síðasti páfinn efstur á lista í byrjun þessa árs, en það er vel þess virði að kíkja aðeins á síðuna. Það er ótrúlegt hversu margir þarna á síðunni eru ennþá lifandi, sem maður hefði annars haldið að væru örugglega haldnir á leið feðra sinna. Þessi eru til dæmis ennþá lifandi: Simon Wiesenthal, Claude Levi-Strauss og Richard Pryor. Ég var alveg viss um að Pryor væri dáinn. Ég hefði getað svarið það. Jafnvel þótt fólki þyki þetta ósmekklegt að búa til slíkan lista þá er það allavegana nauðsynlegt að kíkja á myndina af Jóhannesi Páli heitnum.

17.8.05

Línulaust Net

Hér í höfuðvígi kapítalismans er merkileg umræða í gangi um hlutverk ríkisins og fákeppni á markaði. Hér í New York fer fara fram prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar og meðal embætta sem kosið er um, er umboðsmaður almennings en hlutverk hans er að gæta hagsmuna fólks sem nýtir þjónustu borgarinnar og stofnana hennar. Meðal þeirra sem eru í framboði er tölvunördinn Andrew Rasiej en hans helsta mál er að berjast fyrir því að New York borg veiti þráðlausa nettengingu til allra ókeypis.

Hann heldur því fram að fákeppni þriggja fyrirtækja valdi allt of háu verði uppi fyrir nettengingu. Auk þess krefjast nýjir og breyttir tímar nýrra lausna. Rétt eins og okkur þykir sjálfsagt að öll hús hafi rafmagn og vatn, þá á það að vera sjálfsagt að allir íbúar hafi netaðgang. Það þýðir ekki að bíða eftir einkaframtaki í þessum málum. Það er hreinlega of kostnaðarsamt fyrir samfélag okkar að bíða eftir því að einkafyrirtæki bjóði upp á almennilega þjónustu sem allir (óháð tekjum) hafa aðgang að.

Rétt eins og hið opinbera þurfti upphaflega að byggja upp vatnsveitukerfi, rafmagnsveitur og vegakerfi, þá er það skylda hins opinbera að byggja upp upplýsingaveitu fyrir alla borgarana. Það merkilega við allt þetta er að þetta er ekki bara eitthvert baráttumálið, heldur er þetta að verða raunveruleiki í Philadelphia. Mikið vona ég að Rasiej komist að.

Það er kannski til of mikils ætlast að LínuNet fari að bjóða Reykvíkingum upp á slíkt hið sama?

15.8.05

Það er gott að fara í frí

Ég tók eftir því um daginn hversu gamall Tony Blair lítur út fyrir að vera. Hann var að tala um hryðuverkaárásirnar í London um daginn og það var greinilegt að hann var uppgefinn. Hann hefur elst heilan helling síðan Verkamannaflokkurinn komst til valda 1998. Enda er ekki við öðru að búast. Að vera æðsti leiðtogi Bretlands er ekkert grín. Það sama ætti að gilda um forseta Bandaríkjanna. Nei, ekki bara það sama! Það hlýtur taka ennþá meira á að vera forseti eina alvöru stórveldisins í dag. Heilsa og útlit Bill Clinton sýnir það.

Hvernig stendur þá á því að Bush lítur betur út í dag en hann gerði árið 2000? Það eru engar ýkjur. Hann er unglegri, lítur út fyrir að vera í betra formi og er ekki jafn fölur og hann var þegar hann tók við valdamesta embætti allrar veraldar. Myndin hægra megin er tekin árið 2000, en myndin vinstra megin er official mynd frá 2004. Hvernig fer maðurinn að þessu? Það hefur kannski einhver áhrif að hann er núna í 5 viku fríi á búgarði sínum í Texas. Þetta er í 49. skiptið sem hann fer í frí þangað á sinni sem forseti og hann hefur þá samtals verið 319 daga þarna, eða 20% af embættistíðinni. Hann hefur engan tíma til að ræða við Cindy Sheehan, sem er er móðir bandarísks hermanns sem var drepinn skammt frá Baghdad. Hún hefur undanfarna daga haldið uppi mótmælum við búgarð forsetans og krafist þess að fá að ræða við hann um stríðið.

Og þetta í landi þar sem vel menntaðir Bandaríkjamenn í góðri vinnu mega vera ánægðir með að fá þriggja viku orlof á ári hverju. Margir aðrir fá tvær vikur eða minna. Ég þekki engan Bandaríkjamann sem fær meira en 3 vikur, fyrir utan þá sem ég vinn með í SÞ, en sem betur fer njótum við annarra kjara.

Ég um mig frá mér til mín

Netið er fullt af allskonar prófum og leikjum þar sem fólk getur endalaust verið að rýna í sjált sig. Yfirleitt er þetta saklaust gaman en satt að segja er dálítið hvimleitt hversu endalaust menning okkar hvetur einstaklingana til þess að vera meira og meira uppteknir af sjálfum sér. Hvernig get ég bætt sjálfan mig? Hvernig get ég grætt meiri peninga? Hvernig get ég látið sjálfum mér líða betur...fengið flottari brjóst eða six pack? Það eru stórar self-help hillur í öllum bókabúðum hérna. Ég man ekki til þess að hfa séð help-others hillu neins staðar. Vestræn samfélög og alþjóðavædda poppmenning okkar er alveg hreint ótrúlega sjálfhverf. Kannski er þetta vegna þess að við erum orðin of rík? Höfum of mikið á milli handanna og nægan tíma til að velta okkur upp úr alls konar kjaftæði. Ég veit ekki... Ég rakst semsagt á þessa litlu síðu um daginn. Þarna er pínkulítið sjálfspróf þar sem maður setur inn árstekjur sínar og fær svo að bera sig saman við restina af mannkyni. Þörf áminning fyrir okkur litla auðuga mitnnihlua mannkyns. Þetta tekur enga stund.

12.8.05

Svínakjöt

Það er allt stærra í Ameríku. Þannig hefur maður allavegana oft hugsað og maður er alltaf að rekast á dæmi sem sanna þessa alhæfingu. Fólkið er ansi stórt, bílarnir eru risastórir og matarskammtarnir sem maður fær á venjulegum veitingastöðum eru undantekningalaust stærri en það sem aðrar þjóðir eru vanar. Spillingin er líka stærri.
Heima á Íslandi hneykslaðist ég yfir Héðinfjarðargöngunum og 6 milljörðunum sem áttu að fara þangað, en sóun íslendinga í glórulausar samgönguframkvæmdir eru ekkert miðað við fyrirgreiðslupólitíkina hérna megin hafsins. Í vikunni skrifaði forsetinn undir $286 milljarða samgöngufrumvarp, sem er ca. 18,000 milljarðar íslenskra króna. Þetta frumvarp inniheldur 6300 viðbætur þar sem þingmenn hafa náð að koma ákveðnum verkefnum áleiðis innan samgöngunefndarinnar, en slíkar viðbætur eru kallaðar svínakjöt. Kóngurinn í samgöngunefndinni er Don Young frá Alaska, en hann er formaður nefndarinnar og einn flottasti fyrirgreiðslupólitíkus sem ég hef heyrt um, en hann sér til þess að Alaskamenn fá $1000 á hvern íbúa, á meðan Texas fær $3 á hvern íbúa út úr þessu frumvarpi. Þetta eru verkefni eins og 230 milljón dollara brú sem ber þetta fína nafn... 'Don Young´s Way' sem er brú frá Anchorage upp í óbyggðir.

Spillingin er hreint ótrúleg. Það er víst engin leið til að sjá hvaða þingmenn koma með tillögur um viðbætur við frumvörp, og það er orðin regla hjá Repúblíkönum að koma alltaf þingmönnum sem naumlega komust á þing, inn í slíkar nefndir. Þannig tryggja þeir að þegar kemur að næstu kosningum, þá hafa viðkomandi þingmenn náð að bæta nógu miklu svínakjeti fyrir kjósendur sína. Lýðræðið hérna er dásamlegt.

9.8.05

Ný myndasíða

Ég var svo rétt í þessu að setja inn helling af myndum frá ferðinni inn á netið. Er búinn að eyða allt of miklum tíma í að setja þessar myndir upp og ætti eiginlega að fara að vinna aðeins. Annars er ekki mikið að gera eins og er, en það á eftir að breytast fljótt. Verður heldur betur nóg um að vera þegar Allsherjarþing hefst, en það verður væntanlega mesta samkoma þjóðhöfðingja sem nokkru sinni hefur átt sér stað. Tilefnið er 5 ára yfirlit vegna þúsaldarmarkmiðanna auk viðræðna um umbætur á SÞ. Sumir hérna spá róttækum breytingum á meðan aðrir sjá ekki fram á að neitt geti gerst af viti. Meira um það seinna.

8.8.05

King´s Canyon

Ofsalega er gott að komast burt út úr borginni. Við fórum í síðustu viku í vikuferðalag þar sem við gengum um gil, dali og fjöll í King´s Canyon í Kalíforníu. Í túrnum voru ég, Kata og svo hjónin Preston og Linda sem eru bæði læknar. Við tjölduðum í 6 nætur og satt að segja vorum við orðin soldið þreytt, skítug og aum undir restina. Sumir voru með blöðrur á hælum, aðrir pirraðir á skítnum eða aumir í hnjám, en ekki ég. Það eina sem amaði að mér voru tugir á tugi ofan ad mosquito bitum. Helvítis flugurnar voru ferlega ágengar og ég ýkji ekki þegar ég segist hafa bætt við mig ca. 20 bitum á hverjum degi, þessa 6 daga. Sem betur fer var maður svo upptekinn við að njóta útiverunnar og bera 20 kílóa bakpokann að mann klæjaði sáralítið.

Þetta var semsagt yndislegur túr. Náttúrufegurðin var stórfengleg og þá eru trén lang minnisstæðust. Það voru ekki bara sequoia trén (sem eru stærstu tré í heimi) heldur voru skógarnir fullir af risastórum fallegum trjám. Ég sá ekki mikið af merkilegum fuglum, sá enga brini en rakst þó á sæmilega stóran skröltorm sem hristi á sér skottið þannig að maður heyrði til. Við byrjuðum ferðina á frekar auðveldum göngutúr upp Paradise Valley og við gengum upp hálfan dalinn á fyrsta deginum. Annar dagurinn var trúlega sá erfiðasti, en þá gengum við áfram í helvíti miklum hita og ég fann alveg hvernig sólin dró úr manni styrkinn, enda vorum við sífellt að ganga upp í mótið og trjám fór að fækka og því vorum við meira og meira undir berum himni. Við náðum þessu þó á endanum en við gengum ekki nema hálfan daginn, enda er ekkert vit að labba þarna um miðjan daginn. Venjulega vöknuðum við kl. 6 og gengum svo til 1-2. Eftir það hvíldum við okkur í skugganum og skðuðum svæðið. Förinni var heitið til Rae Lakes, sem eru fjöll í ca. 3000 m hæð yfir sjáfarmáli, en við hófum gönguna í 1400 m. Við gistum við Rae vötn í tvær nætur áður en við héldum áfram upp í 3600 m. hæð og svo heim.

Þegar við vorum svo búin með göngutúrinn ákváðum við að kíkja á Sequoia garðinn og sjá stærstu trén í heimi. Við höfðum reyndar séð fullt af sequia trjám á leiðinni sem voru alveg hreint ferlega stór, en samt ekkert í samanburði við það sem beið okkar. Þessi tré voru alveg hreint mögnuð. Þangað á maður að fara með börn. Mikið hefði maður haft gaman af því að hafa komið þangað þegar maður var svona 8-12 ára.