24.8.05

Er fólk lukkudýr?

Á hverjum morgni hlustum við á morgunútvarp NPR þar sem maður fær ansi vel unnar fréttir af því sem er að gerast, ekki bara hér í Bandaríkjunum, heldur almennt í heiminum. Þökk sé NPR, hef ég ekki algerlega gefist upp á ljósvakamiðlum hérna. Sjónvarpsfréttir allra stöðva hérna eru slakar og ekki þess virði að horfa á. Maður fær betri og áreiðanlegri upplýsingar um hvað er að gerast í heiminum með því að horfa á grín-fréttaþáttinn Daily Show, heldur en með því að horfa á fréttir frá ABC, CBS, NBC eða CNN, að maður tali ekki um Fox.

Hvað um það… Í morgun var semsagt merkileg frétt í útvarpinu um Florida State Univesity og mascot (lukkudýr? tákn?) þeirra sem er Seminole indíáni. Nýlega höfðu yfirvöld háskólaíþróttamála (NCAA) bannað notkun á slíkum táknum sem fela í sér ákveðna fordóma og notkun á staðalmyndum, en nú hefur verið ákveðið að gera undantekningu fyrir Florida State skólann. Þessar reglur eiga fyrst og fremst við þau lið sem nota ímynd Amerískra frumbyggja sem hluta af búningum, logo og öðru tengdu skrauti. Málið var sem sagt að NCAA ákváðu að veita Florida State undanþágu vegna þess að Seminolarnir sjálfir eru víst sáttir við að vera notaðir sem logo og lukkudýr. Reyndar virðist svo vera að einhver hópur þeirra segjast vera sáttir á meðan aðrir eru það ekki.

Menn hérna deila talsvert um þetta. Sumir segja að það sé ekkert nema pólitísk rétthugsun að banna mönnum að nota ímyndir Amerískra indjána hjá íþróttaliðum. Slíkar ímyndir sýna indíána í jákvæði ljósi og eru ekkert annað en saklaus skemmtun og sem byggir á ríkri hefð og virðingu fyrir frumbyggjum Norður Ameríku. Aðrir segja að þetta hafi ekkert með póliíska rétthugsun að gera, heldur séu slíkar staðalmyndir rangar, niðrandi og hreint út sagt dónalegar gagnvart minnihlutahópi sem er svo fámennur og valdalítill að hann gæti aldrei farið út í alvöru baráttu fyrir því að stoppa notkun á slíkum ímyndum.

Maður getur svosum skilið að flestir þeir sem taka þátt í þessu eru ekki beinlínis að reyna að móðga eða særa ameríska frumbyggja, en fjandinn hafi það! Þetta er ekki beinlínis smekklegt heldur. Eina ástæðan fyrir því að þetta viðgengst, er sú að þessi lið hafa verið að svo lengi - menn leyfa sér að kalla þetta hefð. Þessar hefðir voru bara búnar til í landi þar sem rasisminn var hluti af daglegu brauði og þótti sjálfsagður. Það myndi engum detta í hug að setja á fót eitthvert lið í dag sem ber með sér ákveðinn kynþátt eða þjóðerni sem hluti af logo-inu. Það er engin tilviljun að það eru engin lið hérna sem heita New York Jews, Los Angeles Latinos, eða Detriot Blacks. Ég held að einhver myndi mótmæla slíku. Hins vegar eru a.m.k. 3 atvinnulið og hundruð menntaskóla og háskóla sem nota ímyndir Amerískra índíána. Það er meira að segja til háskólalið núna sem heitir Southeastern Oklahoma State Savages! En þessu stendur víst til að breyta. Gott hjá þeim.

No comments: