22.8.05

Belfast, Skagafjörður og Mo

Í ferðablaði New York Times um helgina eru tvær greinar sem gripu athygli mína og vöktu skrítna blöndu af heimþrá, nostalgíu og ánægju með líf mitt og hvernig það hefur þróast undanfarin ár. Fyrri greinin, sem er aðalgrein ferðablaðsins er um Belfast og hvernig borgin er að verða hin nýja Dublin, loksins komin í partístuð eftir leiðindi undanfarinna áratuga. Það var soldið fyndið að lesa greinina þar sem blaðamaðurinn virtist ekki alveg vita hvað hann átti að gera annað en að fara um á milli pöbba og restúranta. Það er reyndar ekki mikið annað að gera þarna fyrir þá sem ekki eiga vini eða ættingja í borginni. Ég sakna þess reyndar svolítið hversu mikið pöbbarnir voru miðja félagslífs manns, þó svo að þetta geti verið aðeins of mikið á tíðum. Svo var ég búinn að gleyma því hvernig miðbær Belfast tæmist aleglega á kvöldin, en blaðamaðurinn bendir réttilega á að miðbærinn líkist draugabæ þegar verslanirnar hafa allar lokað. Norður Írland er ennþá soldið skrítinn staður en ég sakna fólksins þarna. Ég ætti að drífa mig þangað í heimsókn við tækifæri.

Hin greinin er um rafting í Jökulsá Eystri, sem verður að Héraðsvötnum í Skagafirði, þegar hún tengist Jökulsá Vestri. Frændi minn er bóndi þarna rétt hjá í Skagafirði og afi byggði þarna sumarbústað sem mamma og systkini hennar eiga núna. Sumrin sem ég var þarna sem barn höfðu heilmikil áhrif á mig og reynsla mín þarna hefur mótað mig. Auðvitað var gaman að sjá þessa grein, sem er reyndar frekar illa skrifuð, en útgangspunkturinn er að ísland sé land álfa, trölla og sérvitra víkinga. Sama gamla tuggan. Djöfull hlýtur hlýtur svona umfjöllun að fara í taugarnar á íslenskum tónlistarmönnum sem meika það (Björk, SigurRós). Reyndar er ágætis lýsing á bátsferðinni sjálfri, en lítið annað. Svo er lika þokkalegt slideshow á nytimes vefnum með greininni. Aðallega er það bara skrítið að sjá umfjöllun um gömlu sveitina hérna í stórborginni.

Á föstudaginn lést Mo Mowlam sem var einn merkilegasti stjórnmálamaður sem ég veit um. Hún var ekki nema 55 ára. Hún var Norður Írlandsmálaráðherra í stjórn Tony Blair þegar ég átti heima þarna. Ég man hversu fersk hún var í samanburði við Patrick Mayhew sem var fyrirrennari hennar, en hann bar alltaf af sér þokka hins hrokafulla enska nýlenduherra. Mo var af allt öðru sauðahúsi. Hún var þingmaður Redcar í Norðaustur Englandi sem er svona ekta breskt working class kjördæmi. Mo var ekki lengi að vinna traust almennings á Norður Írlandi, sem hafði fram til þessa verið nánast vonlaust (og hefur reyndar reynst eftirmönnum hennar alveg jafn erfitt) fyrir Norður Írlandsmálaráðherra Breta. Hún náði jafnt til kaþólikka og mótmælenda með því að segja hlutina hreint og beint, vera opinská og hreinskilin. Þetta varð reyndar til þess að margir aðrir stjórnmálamenn áttu erfitt með að umbera hana, auk þess sem hún blótaði víst ansi mikið. Hún var til dæmis þekkt fyrir að taka af sér hárkolluna (hún missti hárið vegna krbbameinsmeðferðar) á fundum sem henni þóttu helst til of formelgir. Flestir breskir fjölmiðlar eru með umjöllun um hana þessa dagana, en hún fékk semsagt heilaæxli fyrir 9 árum og eftir áralanga baráttu hefur hún tapað – eins og við öll gerum fyrr eða síðar.

2 comments:

Anonymous said...

Þetta er fín grein í NYT um Belfast. Var þar í nóv. 2003, eftir að hafa ekki komið í þrjú ár. Upplifði einmitt þetta, sem blaðamaðurinn lýsir; ég hafði semsé gleymt því hvað miðbær Belfast fer fullkomlega að sofa eftir sex á daginn. Stórfurðulegt.

Kv. Davíð Logi

Broddi Sigurðarson said...

Ekki svo furðulegt þegar maður hugsar til þess að fólk leitar ennþá í dag í heimahverfin öryggisins vegna. Það var og er ennþá soldið hættulegt að vera að ferðast seint á kvöldin heim úr miðbænum. Sérstaklega ef maður býr í tilteknu kaþólsku eða mótmæledahverfi, eins og flestir gera. Skynsamlegra að halda sig bara við sitt eigið hverfi, eins sorglegt og það nú er.