29.8.05

Vinna og brúðkaup


Skýrslan sem við höfum verið að vinna að undanfarna mánuði kom loksins út í síðustu viku. Þetta er skýrsla sem við gefum út á tveggja ára fresti um stöðu félagslmála í heiminum (Report on the World Social Situation). Auðvitað er engin leið til að fjalla að fullu um félagsmál alls heimsins, en þess vegna er ákveðið þema að hverju sinni. Þetta skiptið fjölluðum við um ójöfnuð, en málið er að ójöfnuður hefur að mörgu leyti aukist undanfarna áratugi. Helstu ástæður þess eru ekki að þeir fátæku eru að verða fátækari, heldur að þeir ríku eru að verða ríkari. Reyndin er sú að þeim allra fátækustu hefur fækkað á undanförnum árum, aðallega vegna þess að Kína og Indland eru að ganga í gegnum veruleg hagvaxtarskeið. Vandamálið er hins vegar það að allt of fáir íbúar heimsins njóta hagvaxtar. Þá fjölluðum við ekki bara um efnahagslegan ójöfnuð, heldur líka um aðgang að menntun, heislugæslu, þáttöku í ákvarðanatöku o.s.frv.

Ég er búinn að taka þátt núna í að skrifa nokkrar skýrslur hérna og maður lærir heilmikið af þessu. Auðvitað hugsar maður alltaf um það hvort enn ein skýrslan muni hafa einhver áhrif og hvort maður geti ekki gert meira gagn í heiminum með öðrum hætti. Ég get ennþá ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en eitthvað á þessa leið. Sameinuðu Þjóðirnar eru bráðnauðsynlegur vettvangur og sú starfsemi sem fer fram hérna (eins gölluð og hún er hérna stundum) er besta tækið sem við mannkyn höfum búið til, til þess að bæta heiminn fyrir alla. Það hefur ekki ennþá tekist, en það þarf að halda baráttunni áfram og hluti af þeirri baráttu er að upplýsa almenning, fjölmiðla, stjórnmálamenn og svo fulltrúa aðildarríkja hérna í höfuðstöðvunum. Þó svo að öllum markmiðum SÞ hafi ekki verið náð, þá held ég að vinnan hérna sé að skila árnagri. Slíkan árangur er hins vegar oft ekki hægt að sjá nema með því að líta til lengri tíma. Þetta hljómar kannski svolítið naív, en maður verður að hafa trú á því sem maður er að gera.

Annars er ég upptekinn þessa dagana við að undirbúa brúðkaup, en við Catherine ætlum að giftast 10 sept. Ég er merkilega rólegur með þetta allt saman. Kannski einum of kærulaus. Er allavegana búinn að finna mér fín jakkaföt og skyrtu. Kunni ekki við að klæðast vinnugallanum. Eina fólkið sem við höfum boðið er nánasta fjölskyldan sem mér finnst bara fínt. Höfum þetta rólegt og verðum öll saman í 3 daga á Cape Cod. Þannig ná familíurnar að kynnast aðeins. Við karlarnir ætlum að róa til fiskjar einn daginn. Vonandi nær maður túnfiski. Djöfull væri það nú flott. ..

No comments: