12.8.05

Svínakjöt

Það er allt stærra í Ameríku. Þannig hefur maður allavegana oft hugsað og maður er alltaf að rekast á dæmi sem sanna þessa alhæfingu. Fólkið er ansi stórt, bílarnir eru risastórir og matarskammtarnir sem maður fær á venjulegum veitingastöðum eru undantekningalaust stærri en það sem aðrar þjóðir eru vanar. Spillingin er líka stærri.
Heima á Íslandi hneykslaðist ég yfir Héðinfjarðargöngunum og 6 milljörðunum sem áttu að fara þangað, en sóun íslendinga í glórulausar samgönguframkvæmdir eru ekkert miðað við fyrirgreiðslupólitíkina hérna megin hafsins. Í vikunni skrifaði forsetinn undir $286 milljarða samgöngufrumvarp, sem er ca. 18,000 milljarðar íslenskra króna. Þetta frumvarp inniheldur 6300 viðbætur þar sem þingmenn hafa náð að koma ákveðnum verkefnum áleiðis innan samgöngunefndarinnar, en slíkar viðbætur eru kallaðar svínakjöt. Kóngurinn í samgöngunefndinni er Don Young frá Alaska, en hann er formaður nefndarinnar og einn flottasti fyrirgreiðslupólitíkus sem ég hef heyrt um, en hann sér til þess að Alaskamenn fá $1000 á hvern íbúa, á meðan Texas fær $3 á hvern íbúa út úr þessu frumvarpi. Þetta eru verkefni eins og 230 milljón dollara brú sem ber þetta fína nafn... 'Don Young´s Way' sem er brú frá Anchorage upp í óbyggðir.

Spillingin er hreint ótrúleg. Það er víst engin leið til að sjá hvaða þingmenn koma með tillögur um viðbætur við frumvörp, og það er orðin regla hjá Repúblíkönum að koma alltaf þingmönnum sem naumlega komust á þing, inn í slíkar nefndir. Þannig tryggja þeir að þegar kemur að næstu kosningum, þá hafa viðkomandi þingmenn náð að bæta nógu miklu svínakjeti fyrir kjósendur sína. Lýðræðið hérna er dásamlegt.

No comments: