22.8.06

um aðlögun og þjóðerniskennd

Í kljölfar fréttanna nýlega um hóp ungra Múslima á Bretlandi sem ætluðu sér að sprengja flugvélar á leiðinni til Bandaríkjanna frá Bretlandi hafa bæði NPR og New York times verið með umfjöllun og samanburð á ungum Múslimum á Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sérstaklega eru menn hérna að velta því fyrir sér hvers vegna ungir Múslimar og innflytjendur almennt virðast vera sáttari með tilveruna í Bandaríkjunum heldur en á Bretlandi. Ég hef sjálfur velt þessu talsvert fyrir mér, ekki síst fyrr í vetur þegar óeirðirnar í París áttu sér stað. Mín kenning er sú að þjóðerniskennd Evrópumanna sé mun exklúsívari en sú Bandaríska. Tökum íslensku þjóðerniskenndina sem dæmi. Hvað er það að vera íslendingur? Er það nóg að vera með íslenskan ríkisborgararétt? Þarf maður að tala íslensku? Þarf maður að vera hvítur? Þarf maður að eiga sér "rætur" á Íslandi? Auðvitað er ekki til neitt eitt svar við þessu en við höfum flest einvherja tilfinningu fyrir því hvað það er að vera íslendingur. Það hafa líka innflytjendur sem sest hafa að hér á Íslandi og margir finna reglulega fyrir því að þeir séu ekki "alvöru" íslendingar, sama hversu mikið þeir læra íslensku og reyna að aðlagast. Stundum á þetta líka við um börn þeirra sem hafa aldrei búið annars staðar en á Íslandi. Þessir krakkar reka sig samt á það (sums staðar) að það líta ekki allir á þau sem íslendinga. Það sama á við um innflytjendur í flestum öðrum Evrópulöndum.

Hér í Bandaríkjunum er þetta öðruvísi. Bandaríkjamenn krefjast þess eins að innflytjandinn skilgreini sjálfan sig sem Bandaríkjamann, með tilheyrandi þjóðernishyggju (patriotism) og þar með er maður orðinn Bandaríkjamaður. Lýsi maður yfir hylli sinni gagnvart fánanum er maður orðinn hluti af hópnum. Bandaríkjamenn krefjast þess í raun af innflytjendum að þeir skilgreini sig sem Bandaríkjamenn líka. Annars fá þeir ekki að koma inn (auðivtað eru líka aðrar ástæður sem koma í veg fyrir að innflytjendur komist inn). Þetta er bæði harkalegra viðhorf og líka "inclusive". Í Evrópu eru heimamenn sífellt að velta fyrir sér aðlögun innflytjenda á sama tíma og þeir gefa innflytjendum ekki séns á að verða nokkru sinni "alvöru" Evrópumenn. Bandaríkjamenn kerfjast þess hins vegar að innflytjendur gerist kanar líka - annar geta þeir bara hypjað sig. Ég er ekki endilega að mæla með þessu, en það vekur athygli manns að á meðan Bandaríkjastórn hagar sér eins og hún gerir, þá hafa engir ungir Múslimar staðið fyrir mótmælum eða óeirðum að neinu marki og ekki hafa (allavega enn sem komið er) borist fréttir af "homegrown" hryðjuverkamönnum eins og við erum að sjá á Bretlandi.

3.8.06

Er einhver vafi ennþá um gróðurhúsaáhrif?

Eitt af því sem mér hefur alltaf þott merkilegt að gera, er að horfa á fólk í subway á leiðinni í vinnuna. Mannlífið hérna í NY er svo svakalega fjölbreytilegt að ég get stundum alveg gleymt mér í fólkskoðun. Á meðan ég var að þessu, lét ég hugann reika og mér var hugsað til þess hversu ferlega heitt öllum er hérna. Ég rifjaði upp þegar ég heyrði fyrst um gróðurhúsaáhrif og hitnun jarðarinnar og hvernig maður reyndi að ímynda sér hvernig það væri að upplifa gróðurhúsaáhrifin beint. Ég man hvernig maður ímyndaði sér eyðimerkur og hitabylgjur með tilheyrandi uppskerubrestum og dauða. Ætli ég hafi ekki verið svona 13 ára eða svo þegar maður fór fyrst að velta þessu fyrir sér. Auðvitað var þetta voða dramatískt í huga mínum. Þetta var allt frekar biblíukennt hjá manni. Syndaflóð og plágur o.s.frv...

Ég þarf ekki lengur að ímynda mér hvernig þetta er. Það er heitt, rakt og stundum ansi vindasamt. Þessa dagana fellur hvert hitametið á eftir öðru um öll bandaríkin. Yfir 50 borgir í USA settu nýtt hitamet. Heitasta sumar EVER. Svo sagði Al Gore okkur í myndinni sinni að af 21 heitustu árum síðan mælingar hófust, hafa 20 þeirra átt sér stað á s.l. 25 árum. Svipaða sögu má segja frá Evrópu. Fréttavefur BBC í dag segir:
July the hottest month on record for UK
Gleymum svo ekki öllum fellibyljunum sem verða sífellt algengari vegna hækkandi sjávarhita. Spike Lee er nýbúinn með fjögurra þátta heimildamynd um Katrínu eyðilegginguna í New Orleans, en þar fjallar hann m.a. um stöðu fátæks svarts fólks og hversu litlu máli líf þeirra skiptir. Þrátt fyrir eyðilegginguna og yfir 1800 dauðsföll hefur þetta engin áhrif á umhverfisstefnu stjórnvalda. Hvað svo með evrópu? Muna menn eftir hitabylgjunni 2003 og hversu margir dóu þá? Ég verð að viðurkenna að ég hafði gleymt því hveru margir dóu, en ég leitaði að þessu áðan. Það er áætlað að 35,000 manns hafi látist sumarið 2003 í Evrópu vegna hitabylgjunnar!

Hvað þarf eiginlega til? Hveru margir þurfa að farast áður en við förum að breyta hegðun okkar? Hversu heitt þarf eiginlega að verða hérna?