28.10.05

Rosa Parks

Í vikunni lést ein af merkilegustu baráttukonum fyrir réttindum svartra hérna í Bandaríkjunum, Rosa Parks. Á þessari mynd er auglýsingaherferð Apple notuð til að minnast hennar, en hún var fræg fyrir að vera handtekin og dæmd fyrir neita að standa upp fyrir hvítum manni í strætó í Birmingham, Alabama árið 1955. Mál hennar varð til þess að lítt þekktur prestur efndi til mótmæla og þess að fólk hætti að nota strætó í borginni. Þessi prestur hét Martin Luther King Jr. Myndinni "stal" ég héðan.

27.10.05

Kosningar: menn og (sárafá) málefni

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að New York sé allt öðru vísi en restin af Bandaríkjunum. Nokkurs skonar eyja fyrir utan Atlantshafsströndina og einhvernvegin mun nær Evrópu og reyndar nær öllum heiminum. Hér er mannlíf ótrúlega fjölbreytt og opið, hommar og lesbíur áberandi út um allt, maður heyrir ótrúlega fjölda af tungumálum í neðanjarðarlestinni á hverjum degi og ég þekki ekki nema einn Bandaríkjamann sem er ánægður með sitjandi forseta. New York búar eru yfirleitt ekki feitir (maður sér strax muninn þegar maður fer út úr bænun), keyra ekki um á risastórum bílum og búa í frekar litlum íbúðum. Það er svo margt sem er öðruvísi hérna miðað við restina af bandaríkjunum, en auðvitað er New York hluti af USA. Hér er MacDonalds og Starbucks á hevrju götuhorni, kapítalisminn blómstar og neyslan alveg rosalega amerísk.

Annað dæmi um hversu amerísk, New York borg er, er kosningabaráttan um borgarstjóraembættið, sem er alveg ótrúlega litlaus og eiginlega steindauð. Það kemur svosum ekki á óvart þar sem sitjandi borgarstjóri, Mike Bloomberg er almennt talinn hafa staðið sig vel og hann er auk þess moldríkur og getur hreinlega dælt eins miklum peningum í eigin kosningasjóð og þörf er á. Það sem mér hefur þótt merkilegast er hversu aumur og hugmyndalaus frambjóðandi demókrata, Fernando Ferrer virðist vera. Þessi maður virðist ekkert hafa að segja, engar nýjar hugmyndir og engar tillögur nema það eitt að lækka fasteignaskatt fyrir millistéttarfólk. Þetta er allt og sumt. Ég sem hafði hlakkað til líflegrar kosningabaráttu, feginn því að þurfa ekki að velja á milli stuttbuxnadrengja og valdþreyttra R listamanna. Hérna er maður staddur í "höfuðborg heimsins" og það er enging málefnaleg barátta um borgina. Engin kosningaloforð. Ekkert rifist um byggingu nýrra skóla, eða leikskóla, eða umbætur á lestarkerfinu, eða húsnæðisskort, eða skipulagsmál almennt, sem er alveg ótrúlegt, miðað við það að ekkert er að gerast í endurbyggingu svæðisins þar sem tvíburaturnarnir stóðu. Ekki neitt. Þeir hafareyndar aðeins farið út í grunnskólakerfið. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu strax, en svo held ég að ég sé farin að skilja þetta. Hérna snúast kosningar um menn, en ekki málefni. Kosningar í New York, rétt eins og í öllum bandaríkjunum snúast um gildi. Er þetta maður sem maður treystir? Er þetta týpa sem er raunverulegur fulltrúi minn? Fólk virðist ekki hafa áhuga á stefnumálum, og þess vegna eru frambjóðendur yfirleitt ekkert að lofa einu eða neinu. Þeir eru bara að reyna að sannfæra fólk um að þeir hafi alla þessu mikilvægu eiginleika eins og skap, trú, karakter og gildi. Skoðanir um hvernig eigi að reka land, eða borg skipta minna máli en hvort maður hafi prófað hass í æsku, eða hvort maður sækir kirkju á hverjum sunnudegi.

Þetta hefur verið að fara voðalega í taugarnar á mér, þangað til að mér varð aftur hugsað til stuttbuxnadrengjanna. Jú, á Íslandi og í Evrópu almennt er okkur meira sama um karakter stjórnmálamanna eða hvað þeir gera með frítíma sinn. Ekki veit ég hvort Ingibjörg Sólrún sækir kirkju eða hvort Davíð Oddson hafi nokkru sinni prófað hass, og mér er líka sama. Einkamál þessa fólks koma mér ekki við. Þetta eru jú einkamál. Í Evrópu viljum við hins vegar fá langan lista af stefnumálum og loforðum um hvað skuli gera. Þetta er miklu betra, er það ekki? Hvað verður svo um loforðin? Kannski er alveg eins gott fyrir mann að fókusera bara á karakterinn og velja þann sem manni finnst skemmtilegastur. Kannski er reyndar ekki svo mikill munur á okkur íslendingum og ameríkönum. Davíð var jú ansi skemmtilegur, kannski ekki alveg undir það síðasta, en á árum áður var hann helvíti töff. Ég veit að ég er búinn að tala mig í hring. En það er allt í lagi. Enda er það eina sem ég hef að segja það að kannski er ekki svo mikill munur á evrópumönnum og ameríkönum.

Bara svo til að klára þetta, þá er það alveg ljóst að repúblíkaninn Bloomberg muni vinna með miklkum mun. Það er á hreinu. Ekki skil ég það hvernig Demókratar virðast ekki hafa neina almennilega frambjóðendur. Hvernig er það hægt í þessari 8 milljón manna borg þar sem yfirgnæfandi meirihluti manna eru demókratar? Ef ég man rétt, þá fékk Kerry yfir 80% atkvæða í Manhattan og Brooklyn, yfir 70% í Bronx og Queens og eitthvað aðeins minna í Staten Island. Það er merkilegt hvernig demókrötum tekst að tapa borgarstjórnarkosningum. Reyndar má benda á það að Bloomberg og republíkanar almennt í NY eiga meira sameiginlegt með demókrötum en repúblíkönum annars staðar í landinu, en það er samt frekar léleg afsökun.

15.10.05

1984 eða 2005

Maður les eða sér fréttir næstum því á hverjum einasta degi sem minna mann skuggalega mikið á 1984 eftir George Orwell. Stríðið gegn hryðjuverkum er náttúrulega nærtækasta dæmið en af nógu öðru er að taka. Nýjasta dæmið sem ég hef rekist á er frétt af unglingi sem hafði búið til plakat fyrir námskeið um borgaraleg réttindi. Á plakatinu var mynd af forseta Bush, ásamt þumalputta unglingsins sem var beint niður sem tákn um óánægju með forsetann. Þessa mynd fór drengurinn með í Wal Mart til að láta prenta, en starfsmanni þar þótti nóg um og hringdi í lögregluna sem hafði samband við leyniþjónustuna. Leyniþjónustan mætti í skólann og tóku viðtal við kennarann en ákváðu að aðhafast ekki frekar í málinu þar til saksóknari hefði tekið ákvörðun.

Hér er fréttin í heild sinni.


Þessi blanda af heimsku, ótta og trú á yfirvöld er virkielga óhugguleg og á sér margar skelfilegar hliðstæður í mannkynssögunni.

13.10.05

Amerískur fótbolti

Ég hef alltaf reynt að koma mér inn í 'local' áhugamál þar sem ég hef búið. Á Írlandi kynntist ég Gaelic football og Guinness drykkju, á spáni lærði ég að meta flamenco tónlist og petanqua og á Englandi tókst mér meira að segja að komast inn í cricket. Hérna í NY hefur áhuginn á baseball ekki enn vaknað, nema fyrir utan það að fylgjast með öllu kjaftæðinu í kring um New York Yankees og hinn ofstopafulla eiganda liðsins, George Steinbrenner. Ég hef aftur á móti uppgötvað ameríska fótboltann, sem mér finnst skemmtilegri og skemmtilegri með hverri vikunni sem líður. Þetta er ansi flókinn leikur sem krefst mikillar skipulagningar og útsjónarsemi, en ekki síður líkamsburða. Þess vegna er hægt að hafa gaman af þessu alveg óviðkomandi því hversu vel maður skilur leikinn. Ég hef eiginlega ekkert annað að segja um þetta. Þessi litla færsla er í raun bara léleg afsökun fyrir því að birta þessa stórkostlegu mynd hérna (forsíða Sports Illustrated fyrir rúmum 30 árum), sem er af tveimur sillingum sem voru upp á sitt besta um það leyti sem ég fæddist (1971). Svona töffarar sjást ekki lengur, nema þá kannski í klámmyndum.

Úflur, úlfur!

Í síðustu viku var varað við hugsanlegum/væntanlegum sprengjuárásum á neðanjarðarlestir hérna í NY. Á fimmtudag flutti forsetinn ræðu um hryðjuverk og hversu vel baráttan gengi gegn hryðjuverkamönnunum og að endalaust væru yfirvöld að handtaka hryðjuverkamenn og koma í veg fyrir voðaverk. Einhverjum klukkutímum síðar kom svo yfirlýsing frá Mike Bloomberg, borgarstjóra um að upplýsingar lægju fyrir um yfirvofandi sprengjuárásir á neðanjarðarlestakerfið í borginni og að miklar öryggisráðstafanir stæðu yfir. Hérna í vinnunni fengum við tölvupóst um þessa alvarlegu ógn sem steðjaði að almenningssamgöngum hérna og að við ættum að vera sérstaklega vör um okkur á leið heim úr vinnunni. Sumir hérna tóku þessu alvarlega en aðrir höfðu efasemdir og bentu á að þetta væri síður en svo í fyrsta skiptið sem hryðjuverkagrýlan er dregin upp úr kistunni til að beina athygli almennings frá einhverjum málefnum sem koma illa við yfirvöld. Auðitað veit maður þetta ekki og í fyrstu tekur maður þessu alvarlega, en þessar viðvaranir eru orðnar ansi margar og lítt trúverðugar.

Fjölmiðlar hérna eru meira að segja farnir að fjalla opinskátt um þennan hræðsluáróður. Það bendir nefnilega allt til þess að ráðamenn hérna kyndi undir ótta við hryðjuverk og noti hryðjuverkagrýluna kerfisbundið til að koma ákveðnum málefnum áleiðis og til að beina athyglinni frá skandölum. Þessa dagana hefur Bush stjórnin aldrei notið jafn lítils stuðnings, fólk er reitt vegna viðbragðanna við Katrínu og helsti ráðgjafi Bush, Karl Rove á jafnvel yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa uppljóstrað um starfsmann CIA, auk þess sem stríðið í Írak gegnur hörmulega. Í þá 19 mánuði sem ég hef verið hérna hef ég upplifað nokkrar svona "ógnir" og þetta virðist alltaf koma á tíma sem hentar stjórnvöldum ansi vel. Að sama skapi kemur svo líka í ljós að þetta voru engar ógnir, að upplýsingarnar voru rangar eða afar vafasamar og jafnvel margra mánaða gamlar. Til dæmis vissu sumir fréttamiðlar af þessari ógn á neðanjarðarlestakerfið nokkrum dögum áður en borgarstjórinn tilkynnti um hana, en voru beðnir af yfirvödlum um að bíða með að flytja fréttir af þessu. Svo mikil var ógnin. Það er ferlegt ástand þegar maður getur ekki treyst slíkum yfirlýsingum frá yfirvöldum, því vissulega er möguleiki á annarri árás hérna. Reyndar held ég að við höfum frekari ástæðu til að hafa áhyggjur af fuglaflensu, en það er annað mál.

Reyndar er hræðsluáróður ótrúlega algengur hérna og yfirvöld eru alls ekki ein um að leika þennan leik. Fréttamiðlar, og þá sérstaklega sjónvarpsfréttir hérna birta endalausar fréttir sem virðast þjóna þeim eina tilgangi að valda ótta svo að áhrofendur haldi áfram að fylgjast með. Oft fjalla þessar fréttir um hættur sem ógna öryggi barna. Þannig setja þeir móralska pressu á foreldra og aðra sem er annt um öryggi barna, að fylgjast með. Auðvitað er þetta hvimleið og ómerkileg fréttamennska, en hún selur greinilega auglýsingapláss og sala á auglýsingum er greinilega mikilvægari en miðlun upplýsinga.

5.10.05

Lítið um að vera

Ég hef ekkert uppfært undanfarna daga, enda hef ég ekkert merkilegt að segja. Geri lítið annað en að vinna og fara að hlaupa eftir vinnu. Vinnan er ekki merkileg nema að því leyti að það er endalaust að koma manni á óvart hversu lítinn tilgang allar umræður í nefndarstargi Allsherjaþings virðast hafa. Fulltrúar sendinefndana halda áfram að flytja sömu ræðurnar aftur og aftur. Þetta er allt saman voðalega sterílt og fyrirsjáanlegt. Reyndar kom það manni á óvart þegar skýrslur okkar voru kynntar að enginn einasti fulltrúi hafði nokkrar spurningar eða komment fram að færa. Ekki einn, fyrir utan fulltrúa Suður Afríku sem kom með spurningu um viðbrögð við umhverfisslysum, sem (að vísu eru mikilvægt málefni) koma nefndarstarfinu ekki neitt við. Annars hafði enginn diplómati neinn áhuga á að ræða málefnin, enda er það svo augljóst að málefni eru ALGERT aukaatriði hérna.

Það eina sem ég haf fram að færa að þessu sinni sem er ágætis trailer fyrir Shining sem ég rakst á á netinu. Það er búið að dubba yfir myndefnið og myndin er presenteruð sem falleg fjölskyldumynd um samkskipti foreldra og ungs drengs. Lítur út fyrir að vera sæt hollívúdd mynd hér á ferð.
Það er nauðsynlegt að hafa installerað QuickTime forritið , sem Apple framleiðir.