27.10.05

Kosningar: menn og (sárafá) málefni

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að New York sé allt öðru vísi en restin af Bandaríkjunum. Nokkurs skonar eyja fyrir utan Atlantshafsströndina og einhvernvegin mun nær Evrópu og reyndar nær öllum heiminum. Hér er mannlíf ótrúlega fjölbreytt og opið, hommar og lesbíur áberandi út um allt, maður heyrir ótrúlega fjölda af tungumálum í neðanjarðarlestinni á hverjum degi og ég þekki ekki nema einn Bandaríkjamann sem er ánægður með sitjandi forseta. New York búar eru yfirleitt ekki feitir (maður sér strax muninn þegar maður fer út úr bænun), keyra ekki um á risastórum bílum og búa í frekar litlum íbúðum. Það er svo margt sem er öðruvísi hérna miðað við restina af bandaríkjunum, en auðvitað er New York hluti af USA. Hér er MacDonalds og Starbucks á hevrju götuhorni, kapítalisminn blómstar og neyslan alveg rosalega amerísk.

Annað dæmi um hversu amerísk, New York borg er, er kosningabaráttan um borgarstjóraembættið, sem er alveg ótrúlega litlaus og eiginlega steindauð. Það kemur svosum ekki á óvart þar sem sitjandi borgarstjóri, Mike Bloomberg er almennt talinn hafa staðið sig vel og hann er auk þess moldríkur og getur hreinlega dælt eins miklum peningum í eigin kosningasjóð og þörf er á. Það sem mér hefur þótt merkilegast er hversu aumur og hugmyndalaus frambjóðandi demókrata, Fernando Ferrer virðist vera. Þessi maður virðist ekkert hafa að segja, engar nýjar hugmyndir og engar tillögur nema það eitt að lækka fasteignaskatt fyrir millistéttarfólk. Þetta er allt og sumt. Ég sem hafði hlakkað til líflegrar kosningabaráttu, feginn því að þurfa ekki að velja á milli stuttbuxnadrengja og valdþreyttra R listamanna. Hérna er maður staddur í "höfuðborg heimsins" og það er enging málefnaleg barátta um borgina. Engin kosningaloforð. Ekkert rifist um byggingu nýrra skóla, eða leikskóla, eða umbætur á lestarkerfinu, eða húsnæðisskort, eða skipulagsmál almennt, sem er alveg ótrúlegt, miðað við það að ekkert er að gerast í endurbyggingu svæðisins þar sem tvíburaturnarnir stóðu. Ekki neitt. Þeir hafareyndar aðeins farið út í grunnskólakerfið. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu strax, en svo held ég að ég sé farin að skilja þetta. Hérna snúast kosningar um menn, en ekki málefni. Kosningar í New York, rétt eins og í öllum bandaríkjunum snúast um gildi. Er þetta maður sem maður treystir? Er þetta týpa sem er raunverulegur fulltrúi minn? Fólk virðist ekki hafa áhuga á stefnumálum, og þess vegna eru frambjóðendur yfirleitt ekkert að lofa einu eða neinu. Þeir eru bara að reyna að sannfæra fólk um að þeir hafi alla þessu mikilvægu eiginleika eins og skap, trú, karakter og gildi. Skoðanir um hvernig eigi að reka land, eða borg skipta minna máli en hvort maður hafi prófað hass í æsku, eða hvort maður sækir kirkju á hverjum sunnudegi.

Þetta hefur verið að fara voðalega í taugarnar á mér, þangað til að mér varð aftur hugsað til stuttbuxnadrengjanna. Jú, á Íslandi og í Evrópu almennt er okkur meira sama um karakter stjórnmálamanna eða hvað þeir gera með frítíma sinn. Ekki veit ég hvort Ingibjörg Sólrún sækir kirkju eða hvort Davíð Oddson hafi nokkru sinni prófað hass, og mér er líka sama. Einkamál þessa fólks koma mér ekki við. Þetta eru jú einkamál. Í Evrópu viljum við hins vegar fá langan lista af stefnumálum og loforðum um hvað skuli gera. Þetta er miklu betra, er það ekki? Hvað verður svo um loforðin? Kannski er alveg eins gott fyrir mann að fókusera bara á karakterinn og velja þann sem manni finnst skemmtilegastur. Kannski er reyndar ekki svo mikill munur á okkur íslendingum og ameríkönum. Davíð var jú ansi skemmtilegur, kannski ekki alveg undir það síðasta, en á árum áður var hann helvíti töff. Ég veit að ég er búinn að tala mig í hring. En það er allt í lagi. Enda er það eina sem ég hef að segja það að kannski er ekki svo mikill munur á evrópumönnum og ameríkönum.

Bara svo til að klára þetta, þá er það alveg ljóst að repúblíkaninn Bloomberg muni vinna með miklkum mun. Það er á hreinu. Ekki skil ég það hvernig Demókratar virðast ekki hafa neina almennilega frambjóðendur. Hvernig er það hægt í þessari 8 milljón manna borg þar sem yfirgnæfandi meirihluti manna eru demókratar? Ef ég man rétt, þá fékk Kerry yfir 80% atkvæða í Manhattan og Brooklyn, yfir 70% í Bronx og Queens og eitthvað aðeins minna í Staten Island. Það er merkilegt hvernig demókrötum tekst að tapa borgarstjórnarkosningum. Reyndar má benda á það að Bloomberg og republíkanar almennt í NY eiga meira sameiginlegt með demókrötum en repúblíkönum annars staðar í landinu, en það er samt frekar léleg afsökun.

No comments: