3.8.06

Er einhver vafi ennþá um gróðurhúsaáhrif?

Eitt af því sem mér hefur alltaf þott merkilegt að gera, er að horfa á fólk í subway á leiðinni í vinnuna. Mannlífið hérna í NY er svo svakalega fjölbreytilegt að ég get stundum alveg gleymt mér í fólkskoðun. Á meðan ég var að þessu, lét ég hugann reika og mér var hugsað til þess hversu ferlega heitt öllum er hérna. Ég rifjaði upp þegar ég heyrði fyrst um gróðurhúsaáhrif og hitnun jarðarinnar og hvernig maður reyndi að ímynda sér hvernig það væri að upplifa gróðurhúsaáhrifin beint. Ég man hvernig maður ímyndaði sér eyðimerkur og hitabylgjur með tilheyrandi uppskerubrestum og dauða. Ætli ég hafi ekki verið svona 13 ára eða svo þegar maður fór fyrst að velta þessu fyrir sér. Auðvitað var þetta voða dramatískt í huga mínum. Þetta var allt frekar biblíukennt hjá manni. Syndaflóð og plágur o.s.frv...

Ég þarf ekki lengur að ímynda mér hvernig þetta er. Það er heitt, rakt og stundum ansi vindasamt. Þessa dagana fellur hvert hitametið á eftir öðru um öll bandaríkin. Yfir 50 borgir í USA settu nýtt hitamet. Heitasta sumar EVER. Svo sagði Al Gore okkur í myndinni sinni að af 21 heitustu árum síðan mælingar hófust, hafa 20 þeirra átt sér stað á s.l. 25 árum. Svipaða sögu má segja frá Evrópu. Fréttavefur BBC í dag segir:
July the hottest month on record for UK
Gleymum svo ekki öllum fellibyljunum sem verða sífellt algengari vegna hækkandi sjávarhita. Spike Lee er nýbúinn með fjögurra þátta heimildamynd um Katrínu eyðilegginguna í New Orleans, en þar fjallar hann m.a. um stöðu fátæks svarts fólks og hversu litlu máli líf þeirra skiptir. Þrátt fyrir eyðilegginguna og yfir 1800 dauðsföll hefur þetta engin áhrif á umhverfisstefnu stjórnvalda. Hvað svo með evrópu? Muna menn eftir hitabylgjunni 2003 og hversu margir dóu þá? Ég verð að viðurkenna að ég hafði gleymt því hveru margir dóu, en ég leitaði að þessu áðan. Það er áætlað að 35,000 manns hafi látist sumarið 2003 í Evrópu vegna hitabylgjunnar!

Hvað þarf eiginlega til? Hveru margir þurfa að farast áður en við förum að breyta hegðun okkar? Hversu heitt þarf eiginlega að verða hérna?

1 comment:

Saumakona - eða þannig said...

Fyrir um það bil 10 árum hafði ég á orði við eitthvað af fólki hér heima á Íslandi að við værum byrjuð að sjá gróðurhúsaáhrifin í heiminum - þá var sussað á mig og mér sagt að þetta væri dómadags vitleysa í mér - það væri bara svona góð tíðin og ekkert nýtt eða ógnvekjandi við það!
Það er hræðilegt hvernig stjórnvöld og almenningur skella skollaeyrum við öllum viðvörunum og virðast bara vilja fljóta sofandi að feygðarósi... :o(