17.8.05

Línulaust Net

Hér í höfuðvígi kapítalismans er merkileg umræða í gangi um hlutverk ríkisins og fákeppni á markaði. Hér í New York fer fara fram prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar og meðal embætta sem kosið er um, er umboðsmaður almennings en hlutverk hans er að gæta hagsmuna fólks sem nýtir þjónustu borgarinnar og stofnana hennar. Meðal þeirra sem eru í framboði er tölvunördinn Andrew Rasiej en hans helsta mál er að berjast fyrir því að New York borg veiti þráðlausa nettengingu til allra ókeypis.

Hann heldur því fram að fákeppni þriggja fyrirtækja valdi allt of háu verði uppi fyrir nettengingu. Auk þess krefjast nýjir og breyttir tímar nýrra lausna. Rétt eins og okkur þykir sjálfsagt að öll hús hafi rafmagn og vatn, þá á það að vera sjálfsagt að allir íbúar hafi netaðgang. Það þýðir ekki að bíða eftir einkaframtaki í þessum málum. Það er hreinlega of kostnaðarsamt fyrir samfélag okkar að bíða eftir því að einkafyrirtæki bjóði upp á almennilega þjónustu sem allir (óháð tekjum) hafa aðgang að.

Rétt eins og hið opinbera þurfti upphaflega að byggja upp vatnsveitukerfi, rafmagnsveitur og vegakerfi, þá er það skylda hins opinbera að byggja upp upplýsingaveitu fyrir alla borgarana. Það merkilega við allt þetta er að þetta er ekki bara eitthvert baráttumálið, heldur er þetta að verða raunveruleiki í Philadelphia. Mikið vona ég að Rasiej komist að.

Það er kannski til of mikils ætlast að LínuNet fari að bjóða Reykvíkingum upp á slíkt hið sama?

No comments: