21.12.05

Verkfall í NY

Hér eru starfsmenn almenningssamgangna í verkfalli þannig að ég hjólaði í vinnuna annan daginn í röð. Það var svolítið kalt en aðallega bara skemmtilegt enda er sérstök stemning á götum borgarinnar þessa dagana. Allir leigubílar fullir af fólki keyrandi upp og niður breiðgöturnar eins og strætisvagnar, hellingur af hjólreiðamönnum, geggjaðar umferðarteppur og endalaus straumur af fólki að labba yfir Brooklyn Bridge. Ég gerði þau mistök að fara yfir Brooklyn brúna í gær, en hefði betur sleppt því enda þurfti maður að reiða hjólið nánast alla leið - svo mikið var mannhafið þarna. Ég lærði af þessu og fór nú í morgun yfir Manhattan Bridge og gekk sá túr miklu betur þar sem sú brú endar í Chinatown sem er ekki alveg jafn mikilvægt athafnasvæði og fjármálahverfið (þar sem Brooklyn brúin endar).

Yfirleitt held ég að fólk sé mun stressaðra yfir allri þessari vitleysu á leiðinni heim, heldur en á leiðinni í vinnuna - það á allavegana við um mig. Það var tvisvar sinnum næstum því keyrt yfir mig á leiðinni heim í gær, umferðin var miklu verri og það lá alveg í loftinu hversu pirraðir margir voru orðnir. Þessi fílingur um að það væri bara skemmtileg tilbreyting að labba eða hjóla í vinnuna var alveg horfinn. Í staðinn var óþolinmæði í garð samborgaranna ríkjandi. Þetta verður sjálfsagt svipað í kvöld.

Svo veit maður ekkert hversu lengi þetta mun standa yfir. Það er greinilega heilmikil harka í samningarviðræðum og hér er bara rætt um að fylkisstjórinn George Pataki geti komið inn og miðlað málum. Hér er engin staða ríkissáttasemjara, enda eru stéttarfélög mun veikari hér en á Íslandi og minna um svona uppákomur. Svo er þetta verkfall ólöglegt. Opinberir starfsmenn mega ekki fara í verkföll. Verkalýðsfélagið er sektað um $1 miljón á dag hvern sem verkfallið stendur yfir auk þess sem starfmenn eru sektaður um tveggja daga tekjur fyrir hvern dag sem þau eru í verkfalli. Svona er þetta hérna í landi frelsisins.

No comments: