8.11.06

Þeir unnu

Demókratar náðu heldur betur fínni kosningu í gær. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á svo miklum breytingum, en það tókst greinilega hjá þeim að gera kosningarnar fyrst og fremst að kosningum um íraksstríð og Bush. Demókratar munu verða með öruggan meirihluta og Nancy Pelosi ætti því að verða sterkur leiðtogi þeirra á þingi. Það var satt að segja svolítið skrítið að heyra "the Democratic majority" í útvarpinu í morgun. Maður var orðinn svo vanur hinum merihlutanum. Svo þurfum við ennþá að bíða eftir niðurstöðunum frá Virginia og Montana, en þar munar svo sáralitlu. Demókratar þurfa að vinna bæði sæti til að ná eins sætis meirihluta í öldungadeildinni. Takist það má fastlega búast við nýjum sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ.

Annars er maður þegar spenntur fyrir því að sjá hverjar breytingarnar verða. Það eina sem er nokkuð öruggt er að nýji meirihlutinn muni afgreiða lög um lágmarkslaun og stofnfrumurannsóknir. Þá má gera ráð fyrir alls konar rannsóknum á íraksstríðinu og aðdraganda þess. Annars virðast demókratar ekki hafa hugmynd um hvað þeir vilja gera með Írak. Þeir hafa enga skýra stefnu, aðra en að segja að núverandi stefna Bush stjórnarinnar gangi ekki upp. Þeir komust upp með svona stefnuleysi fyrir kosningar, en nú þegar þeir hafa náð þinginu, þá verða þeir að koma fram með eitthvað bitastætt. Ég hugsa að þeir bíði eftir Baker-Hamilton skýrslunni.

Svo er alltaf séns á því að Bush neyðist til að gera einhverjar breytingar, svona til þess að bregðast við þessum köldu skilaboðum sem þjóðin var að senda honum. Hann gæti til dæmis fórnað Rumsfeld og leitað leiða til að vinna með nýjum þingmeirihluta, en það er nú ekki líklegt.

No comments: