15.7.06

Svaðilför í suðri

Þá erum við nýkomin til baka frá hinu fallega fylki Virginia. Þetta er eitt gróðursælasta land sem ég hef nokkru sinni séð. Þarna er heill hellingur af vínökrum en annars er Virgina þekktast fyrir tóbakframleiðslu, skinku og nálægð við Washington D.C. Þarna átti Thomas Jefferson til dæmis heima. Reyndar voru fjórir af fyrstu fimm forsetum Bandaríkjanna frá Virginia. Ókei - Virginia er sem sagt fallegt fylki og þar var gaman að koma. Tilgangur ferðarinnar hins vegar að ganga á fjöll í Shenandoah þjóðgarðinum og heimsækja Gwen (vinkonu Catherine), eiginmann hennar, Peter (sem m.a. rekur þessa vefsíðu) og dóttur þeirra, Annick. Það var æðislega fínt að heimsækja þau í sveitasælu suðurríkjanna, sjá nýfædda kálfa í túnunum og spila tennis á bænum (bóndahjónin sem þau leigja hjá eiga þennan fína tennisvöll!). Þetta var sem sagt voðalega fín heimsókn. Við hjónin fórum þangað ásamt Lindu Fan vinkonu okkar en Preston maðurinn hennar komst ekki með vegna vinnu. Þau eru bæði læknar og eiga erfitt með að láta orlof sín stemma saman.

Ferðin til Shenandoah var ekki alveg jafn sæt og fín. Reynar byrjaði þetta ágætlega. Við ákváðum senmma hvaða leið við ætluðum að ganga, ráðfærðum okkur við þjóðgarðsvörð og fundum göngustíginn auðveldlega. Vegurinn í gegnum garðinn er meðfram heilmiklum hryggi þannig að leiðin byrjaði með því að ganga niður í dal og svo aftur upp á annan hrygg hinum megin í dalnum. Eftir rúmlega þriggja klst. göngu vorum við búin að ganga í drjúgan tíma á hryggnum og farin að nálgast fyrstsa "toppinn" af þremur og við fórum að byrja að skyggnast eftir hugsanlegum tjaldstæðum. Það var ekki svo auðvelt að finna tjaldstæði þar sem hrygurinn var það mjór að hann bauð ekki upp á mikið pláss fyrir tjöld. Auk þess var skógurinn ansi þéttur þarna. Við héldum göngu okkar áfram og fórum að sjá nokkrum sinnum stóran svartan skít sem minnti mig kannski helst á blöndu af gæsaskít (skíturinn var svartblár) og hrossataði. Við komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri bjarnarskítur.

Skömmu síðar sáum við bjarndýrið þar sem það var í gögnustígnum í ca. 20 metra fjarlægð að leita sér að "blackberries". Við brugðumst rólega við, náðum í potta og bolla og glömruðum heilmikið þannig að björninn varð okkar var og fór í burtu. Við sáum ekki meira til hans. Rúmum klukkutíma síðar fundum við loks smá svæði þar sem hægt var að koma upp tjöldum í skóginum, í 10 metra fjarlægð frá göngustígnum. Við pössuðum okkur á því að elda í tæplega 100 metra fjarlægð frá tjaldstæðinu og að geyma matinn (hangandi í trjágrein) á öðrum stað langt frá tjaldstæðinu til að tryggja að engin lykt myndi laða birni að okkur sofandi í tjöldunum. Við gerðum þetta allt saman samkvæmt ströngustu reglum enda vissum við að birnir væru þarna á kreiki.

Við Catherine sváfum í einu tjaldi og Linda í öðru við hlið okkar. Veðrið var hlýtt og rakt þannig að við settum ekki upp himna á tjöldin þannig að við fengum smá golu inn í tjöldin og heyrðum afar vel í vhoru öðru - og svo náttúrulega skóginum. Þar sem við höfðum gengið ansi greitt í hitanum og vorum öll orðin þreytt, þá vorum við öll fljót að sofna. Skömmu eftir að ég sofnaði þá fór ég að heyra hljóð, eins og maður eða stór skepna gengi meðfram stígnum. Hljóðið var skýrt og greinilegt og það nálgaðist ótt. Ég var hins vegar ekki alveg viss hvort mig væri að dreyma eða ekki og það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því að mig var svo sannarlega ekki að dreyma og fótsporin voru orðin djöfull nálægt tjöldunum (ég sá ekki út, en ég giska á svona 3 metra fjarlægð frá Lindu). Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og það hafi tekið mig allt of langan tíma til að átta mig á því og viðurkenna það sem var svo augljóst - björninn var kominn alveg upp að tjöldunum!

Catherine var þá ennþá sofandi og ég vakti hana. Strax og ég byrajði að vekja hana spurði Linda mig hvort heyrði í skepnunni fyrir utan tjaldið. Hún hafði þá gengið í gegnum sama hugsanaferlið og ég. Í fyrstu vorum við ekki alveg viss um hvernig við ættum að bregðast við. Ég vissi vel hvað á að gera þegar maður mætir björnum á göngu, en ég hafði aldrei heyrt neitt um það hvernig maður á að bregðast við þegar birnir koma inn á tjaldstæði til manns. Við ákváðum að hafa uppi heilmikinn hávaða og hrópuðum, kölluðum og sungum næstu mínúturnar. Á meðan við görguðum heyrðum við vitaskuld ekkert í birninum þannig að við vissum ekki hvort köll okkar bæru þann árangur að hræða skepnuna í burtu. Við hættum að kalla og hlustuðum aftur.

Þá heyrðum við í birninum ganga hálfan hring í kringum taldstæðið og hann nálgaðist okkur að neðan. Þá vorum við öll orðin hrædd. Ég sá fyrir mér að hann myndi ráðast inn í tjald okkar. Ég hélt fast utan um Catherine með annarri hendinni og í hinni hélt ég á vasahnífi. Ég átti alveg eins von á að sjá klærnar á birninum rífa tjaldið í sundur. Við hugsuðum öll það sama: "Hvern andskotann er ég að gera hérna? Af hverju er ég ekki frekar heima í þægindum og öryggi?". Sem betur fer ákvað björninn að halda áfram leið sinni niður brekkuna og við önduðum aðeins léttar. Hjartað sló samt áfram afar hratt.

Tuttugu mínútum síðar kom björninn aftur og þá fyrst urðum við virkilega hrædd. Björninn hafði þá væntanlega fundið kvöldmatarplássið okkar, fundið lyktina þar og ætlað sér að finna uppsprettuna. Við hrópuðum og kölluðum enn meira en síðast. Hótuðum birninum öllum andskotanum og sögðum meira að segja lélega brandara. Hafi ég verið hræddur áður, þá var ég dauðskelkaður í þetta skiptið. Okkur hafði greinilega ekki tekist að hræða skepnuna á brott. Allir pottar og önnur tól til að búa til hávaða héngu upp í trjágrein langt í burtu ásamt matnum okkar. Við vorum ein uppi á fjalli og engin leið til að kalla á hjálp eða finna sér felustað. Við gátum ekkert gert nema hrópað og vonast eftir því besta. Djöfull var maður eitthvað máttlaust þarna. Ég mun seint gleyma þessari nótt. Auðvitað fór björninn burtu að lokum og engum varð meint af. Við áttum samt erfitt með svefn það sem eftir lifði nætur.

Catherine segist ekki munu fara aftur í útilegu á bjarnarslóðir aftur. Ætli við förum ekki næst til Þórsmerkur...

5 comments:

Saumakona - eða þannig said...

Púha, þar skall hurð nærri hælum. Ég hugsa að ég hefði dáið úr hræðslu - konan sem safnar sætum tuskuböngsum (ég á yfir 30 stk.)!

Broddi Sigurðarson said...

Já, Linda vinkona okkar sem var með í ferðinni sagði að héðan í frá fyndist henni ekkert sætt við tuskubangsa (teddy bears). Hún tók það sérstaklega fram að hún myndi aldrei gefa börnum bangsa nokkru sinni aftur.

Anonymous said...

Þetta hefur verið ansi magnað.

Ég sá einu sinni bangsa í Yosemite í svona 150m færi og var það bara gaman. Þið gleymið þessari upplifun sennilega seint.

Anonymous said...

Hvað eru þið viss um að það hafi verið björn, þið sáuð jú ekkert? Þetta hefur sennilega bara verið raccon.




;-)

Anonymous said...

Eða svona smá pika.





http://en.wikipedia.org/wiki/Pika