18.7.06

Hot hot hot

Ferlega er heitt hérna. Þriðja daginn í röð er yfir 95 stiga hiti á farenheit (um og yfir 35 á celsíus kvarðanum). Metið í New York borg er víst 101, þannig að það verður ekki mikið heitara hérna. Til viðbótar er rakinn 45-50%. Þegar ég fór út í hádeginu áðan kom ég drullusveittur til baka og þá er manni náttúrulega kalt í helvítis loftkælingunni í lobbyinu. Sem betur fer er loftkælingin inni á skrifstofunni hérna ekki keyrð í botni eins og gert er á flestum vinnustöðum og byggingum almennt. Já, þetta með Bandaríkjamenn og loftkælingu er eitthvað sem ég á afar erfitt með að átta mig á. Auðvitað er loftkæling nauðsynleg á dögum eins og í dag, en þetta er bara svo öfgakennt hérna.

Ég hef ennþá kynnst neinni manneskju sem getur skýrt það fyrir mér hvers vegna svo margir staðir heyra loftkælinguna af þvílíku magni að fólki verður skítkalt innanhúss. Ekki er þetta bara óþægilegt, heldur er þetta rándýrt. 14-16% af allri raforku landsins á hverju ári fer í að kæla loft. Rafmagnsreikningurinn heima hjá okkur tvöfaldaðist frá Maí til Júní. Ég kenni Önnu, herbergisfélaga okkar aðallega um, en hún er alltaf með þetta í gangi - alla nóttina, þannig að herbergið hennar og stofan er rétt fyrir ofan frostmark á hverjum morgni! Auðvitað er ég að ýkja aðeins, en loftkælingaráráttan er hrein og klár geðveiki og er gífurleg sóun á orku, að maður minnist ekki á umhverfisáhrifin.

Að lokum ætti maður að bæta því við að það er búið að opna yfir 300 kælistöðvar í skólum og opinberum byggingum fyrir fólk sem ekki hefur loftkælingu heima hjá sér. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að (sérstaklega eldra) fólk hreinlega deyji úr hita. Þá þurfti að loka einni hraðbrautinni í gær á Long Island vegna þess að malbikið gaf sig í hitanum. Gatan bókstaflega bráðnaði!

Þess skal svo getið að myndinni sem fylgir þessari færslu "stal" ég af nytimes vefsíðunni. Það er ekki óalgengt að fólk taki sig til og skrúfi frá brunahönum hér í borg.

1 comment:

Anonymous said...

Hér á frónni er líka ógeðslega heitt, búið að heiðskýrt í 2 daga og yfir 10 stiga hiti.
Flott mynd!