10.10.06

Nýr aðalritari

Þá er það ákveðið. Ban Ki-moon verður næsti aðalritari SÞ. Eftir því sem ég kemst næst er maðurinn afar fær diplómati og nýtur mikillar virðingar heima fyrir í S-Kóreu. Ég hef enn sem komið er ekki séð neina alvöru gagnrýni á manninn sem er bara jákvætt. Hann þykir hægverskur, lítillátur og vel gefinn og sjálfsagt fellur það ágætlega að óskum stórveldanna sem myndu sjálfsagt aldrei sætta sig við vel þekktann karismatískann leiðtoga. Ban á greinilega fáa eða enga óvini og sjálfsagt vel hæfur í starfið. Það er nokkuð augljóst að fáir utan S-Kóreu hafa haldið því fram að hann sé besti maðurinn í djobbið, en þannig virkar þetta ekki. Hann var bara eini frambjóðandinn sem enginn var á móti.

Þá hefur hann helst lýst því yfir að taka þurfi til innan SÞ, sem fellur vel að hugmyndum Bandaríkjamanna, og reyndar er ég alveg sammála. Það er löngu orðið tímabært að módernísera allt SÞ kerfið og sérstaklega höfuðstöðvarnar. Kofi Annan hefur reyndar reynt að gera heilmikið í þeim efnum, en helsta vandamálið er að aðildarríkin sjálf þurfa að komast að niðurstöðu um umbæturnar. Aðalritarinn einn og sér er afskaplega valdalítill og getur lítið gert án samþykkis Allsherjarþings, og það getur stundum verið erfitt að fá 192 aðildarríki til að verða sammála um eitt eða neitt.

Svo var rétt í þessu verið að fljúga flugvél á íbúðarhús hérna 30 blokkum fyrir norðan mann. Heyrði heilmikið í sírenum, en var á fundi þegar þetta gerðist. Svo kom heilmikil tilkynning í öryggiskerfinu um að þetta og að það væri engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur. Það er skiljanlegt að öryggisliðið vilji koma í veg fyrir að fólk paníkeri, en hvernig vita þeir það fyrir víst, 20 mínútum eftir að flugvél krassar í íbúðarhús í kílómetra fjarlægð, að það sé engin ástæða til að óttast - að allt sé í góðum málum? Þetta er eins og öryggisleiðbeiningar sem maður fær í flugvélum, un neyðarútganga og hvernig ber að haga sér ef vélin þurfi að nauðlenda í sjó. Einhversstaðar las ég að það hafi aldrei gerst, að farþegaflugvél hafi nauðlent í sjó...

En allavegana, það fór aðeins um mig þegar ég heyrði þessar fréttir um að lítil flugél hafi klesst á hús hérna á manhattan. Ég er sjálfsagt ekki einn um það.

No comments: