31.10.06

Eru hvalveiðar virkilega þess virði?

Sjávarútvegsráðherra skrifar um hvalveiðar á vísi í dag og hvers vegna íslendingar mega veiða hvali ef þeir vilja. Íslensk stjórnvöld eru komin í vafasaman félagsskap þegar þau vísa í þjóðarrétt og sjálfsákvörðunarrétt til þess að réttlæta óvinsælar aðgerðir sínar. Þetta eru sömu rök og Súdanir, Norður Kóreumenn og Kínverjar beita.

Jafnvel þó svo að veiðar á nokkrum langreyðum megi réttlæta með vísindalegum hætti og þó svo að það sé öruggt að þessar veiðar séu algerlega sjálfbærar út frá umhverfissjónarmiðum, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar veiðar skaða ímynd íslands. Ímynd skiptir máli. Yfirleitt virðast íslensk stjórvöld gera sér grein fyrir því. Hérna í USA hafa íslendigar eytt mikilli orku í að byggja upp ímynd íslands sem hreint og fagurt land sem býður upp á óspillta náttúru, ferskan fisk og besta lamabakjöt í heimi. Hver er markhópurinn sem íslendingar eru að leita til með þessari markaðssetningu? Nákvæmlega sama fólkið sem hryllir við tilhugsuninni um að drepa hvali. Það er nefnilega millistéttin í vestrænum borgarsamfélögum sem hefur efni og áhuga á því að kaupa íslenskt lamabakjöt og fara í sumarfrí til þess að skoða Gullfoss og Geysi. Þessi sama millistétt vestrænna samfélaga er uppistaðan í hópum umhverfinsverndarsinna sem mótmæla hvalveiðum harðast.

Auðvitað geta Íslendingar þrjóskast áfram og haldið áfram að drepa nokkra hvali bara vegna þess að okkur finnst við mega það. En er það skynsamlegt? Er þetta þess virði?

No comments: