27.10.06

Kosningar

Það eru kosningar framundan hérna í Bandaríkjunm til beggja deilda þingsins. Það verður kosið um 33 af 100 sætum í öldungadeildinni (Senate) og öll 440 sætin í fulltrúadeildinni (Congress). Það bendir margt til þess að Demókratar munu ná þokkalegri kosningu og eru reyndar líklegir til þess að taka fulltrúadeildina og þeir eiga meira að segja séns á að ná meirihlutanum í öldungadeildinni. Þetta eru engar nýjar fréttir.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta allt saman eru kannski þrjú atriði sem eru öll skyld og tengd. Í fyrsta lagi er það hversu ofboðslega erfitt það er fyrir frambjóðanda að sigra stijandi þingmann, það sem menn hérna kalla "the power of incumbency". Í öðru lagi hvernig er búið að breyta kjördæmum til þess að tryggja örugga meirihluta sitjandi þingmanna og svo í þriðja lagi einkennileg og mótsagnakennd viðhorf kjósenda gagnvart þingheimi annars vegar og svo einstökum þingmönnnum hins vegar.

95% af sitjandi þingmönnum hérna halda sætum sínum á þingi. Þetta er aðallega skýrt með fyrirgreiðslupólitílk en þingmenn hérna berjast afar hart fyrir því að fá eins mikið af skattpeningum í verkefni inn í sín kjördæmi. Sitjandi þingmenn hafa auðvitað betri aðgang að fjölmiðlum og sömu leiðis betri aðgang að fjárstuðningi frá lobbyistum. Þá hafa Repúlíkanar verið afar snjallir í því að styðja þingmenn með tæpan meirihluta í sínum kjördæmum með því að tryggja þeim lykilembætti í þingnefndum þar sem þeir geta betur barist fyrir gæluverkefnum sem höfða til kjósenda. Repúblíkaninn Rick Santorum sem er senator frá Pennsylvania er gott dæmi um pólitíkus sem hefur fengið mikinn stuðning flokksins, enda standa Demókratar yfirleitt vel að vígi þar. Kerry vann til dæmis Pennsylvania í síðustu forsetakosningum.

Annað sem ráðamenn hafa gert til að auðvelda endurkjör sitjandi þingmanna er að breyta kjördæmum þannig að sitjandi þingmenn eigi meiri möguleika á að halda sæti sínu. Á ensku er þetta kallað gerrymandering. Orðið gerrymander er nefnt eftir Bandaríska pólitíkusnum Elbridge Gerry, og er blanda af eftirnafni hans og salamöndru, en mönnum þótti kjödæmið sem hann lét skapa til að tryggja sér góða kosningu, líkjast salamöndru í laginu. Sjálfur kynntist ég fyrst gerrymandering þegar ég kynnti mér sögu Norður Írlands, en þar skiptu mótmælendur borginni Derry kjördæmi, sem tryggðu mótmælendum meirhluta í borgarstjórn þrátt fyrir að kaþólikkar væru meirihluti borgarbúa. Niðurstaðan var að árið 1967 tryggðu 35% atkvæða mótmælenda 60% af borgarfulltrúm Derry. Myndin hérna sýnir hvernig Travis County (merkt með rauðu) er hluti af þremur kjördæmum (fyrir fulltrúadeildina) í Texas. Demókratar njóta miklis stuðnings í Travis County. Myndin sýnir glöggt hverning Repúblíarnar sem stjórna Texas fylki hafa klofið Travis County þannig að sýslan er hluti af þremur einkennilega löguðum kjördæmum þar sem öruggur meirihluti Repúblíkana er tryggur. Demókratar hafa sjálfir gerst sekir um svipaða hegðun annars staðar.

Það kemur það mér alltaf á óvart hveru lítið traust fólk hefur til þingheims hérna. Ég heyrði í útvarpinu í morgun að þingdeildirnar báðar njóta trausts 16% landsmanna. Það er sífellt verið að birta skoðanakannanir sem sýna að fólk bera afar lítið traust til pólitíkusa almennt og tilfinningin er sú að spillingin í Washington sé svakaleg. Á sama tíma segjast kjósendur yfirleitt vera ánægðir með sína eigin þingmenn. Það eru bara allir hinir sem eru svo slæmir. Þetta hefur sjálfsagt eitthvað með fyrirgreiðslur að gera og svo það að fólk þekkir sína menn, en þingmenn almennt eru í huga fólks óljósari - hluti af einhverju siðspilltu kerfi sem er fyrst og fremst að verja eigin hagsmuni og hagsmuni stuðningsmanna sinna.

Það sem ég er að fara með þessu er eiginlega það að þrátt fyrir miklar óvinsældir sitjandi stjórnar, klúðrið í kring um Írak, Katrínu og endalausar sögur um spillingu í Washington, þá hefur það ekki svo mikil áhrif á ákvarðanir kjósenda sem sýna "sínum mönnum" alveg ótrúlega tryggð. Það er ekki nema menn geri einhver hræðileg mistök (til dæmis George "macaca" Allen eða Joe Lieberman sem eru báðir sitjandi senatórar sem eiga ennþá þokkalega möguleika á endurkjöri) að þingmenn missi sæti sín. Þess vegna er aðal spennan í kring um frekar fá sæti sem flest eru opin, þ.e.a.s. sæti þar sem núverandi þingmaður býður sig ekki fram til endurkjörs. Þess vegna held ég að þessar kosningar hafi ekki svo mikil áhrif. Úrslitin munu líklega ekki breyta svo miklu í deildum þingsins og jafnvel þó svo að Demókratar nái að vinna aðra eða báðar deildir þingsins, þa mun það kannski helst leiða til aukins eftirlits með framkvæmdavaldinu. Og talandi um framkvæmdavaldið, þá má ekki gleyma því að forsetinn er náttúrulega með neitunarvald, sem hann mun örugglega ekki hika við að beita, nái Demókratar að vinna stórsigur. Sem sagt, ekki búast við of miklu.

No comments: