13.10.06

Yunus fær friðarverðlaun Nóbels

Mohammed Yunus sem stofnaði Grameen bankann í Bangladesh fær Friðarverðlaun Nóbels í ár. Þetta eru frábærar fréttir þar sem Grameen bankinn er eitt besta dæmið um vel heppnaða leið til að draga úr sárustu fátækt í heiminum, sem er að veita fátæku fólki lítil lán. Fáktækasta fólkið í heiminum (rúmlega tveir milljarðar manna), fólk sem lifir á minna en einum dollara á dag, hefur yfirleitt engan aðgan að lánum eða annars konar bankaþjónustu. Þessi hópur getur hvorki stofnað bankareikninga né fengið lán frá venjulegum bönkum. Þess vegna hafa sprottið upp stofnanir sem veita smálán (microcredit) og hafa vakið heilmikla lukku. Míkrókredit er merkilegt fyrir margar sakir, einna helst fyrir það hversu hátt endurgreiðsluhlutfallið er af lánum. Fátækt fólk er duglegra við að endurgreiða lán en ríkara fólk (endurgeiðsluhlutföllin eru einhversstaðar í kringum 98-99%). Þá hafa konur sérstaklega notið góðs af þessum smálánastofnunum. Ef ég man rétt, þá eru yfir 90% af viðskiptavinum Grameen bankans konur.

Á fyrsta ári mínu hérna í SÞ tók ég þátt í að skipuleggja alþjóðlegt ár smálána (the International Year of Microcredit) og þar kynntist ég því hversu ferlega góð hugmynd smálán eru. Þetta er nefnilega ekki gamaldags þróunaraðstoð í þeirri mynd að fólki er veitt styrkir, heldur eru þetta lán, sem fólk endurgreiðir með vöxtum. Þessi lán fara yfirleitt í það að styðja einkaframtak fátæks fólks, borga fyrir nauðsynlega heilsuþjónustu eða menntun. Aðalatriðið er að fólkið sjálft ákveður hvernig það ráðstafar fénu, frekar en búrókratar hjá SÞ eða einhverjum þróunarsamvinnustofnunum. Þar sem smálánastofnanir eru til staðar eru þau yfirleitt eini möguleikinn fyrir fólk til að fá lán, fyrir utan glæpsamlega aðila (loansharks) sem rukka svimandi háa vexti sem handrukkarar fylgja eftir.

Virkilega vel gert hjá Nóbelsnefndinni.

No comments: