6.9.06

kæra kæra kæra

Yfirleitt tekst manni að vera sæmilega sáttur hérna í bandarísku samfélagi, allavegana á meðan maður reynir að hugsa ekki of mikið um forsetann, Guantanamo, gífurlegan ójöfnuð og fátækt, framkomu gagnvart indjánum o.s.frv. Maður verður bara að reyna að taka þessu rólega. Annars yrði maður geðveikur. Svo les ég stundum fréttir og ég veit satt að segja ekki hvað maður á að hugsa. Það gerist oftar og oftar að ég held að Bandaríkin séu hnignandi veldi sem sé að rotna innan frá. Það er svo margt reyndar sem bendir í þá átt, og eitt þeirra er hreint út sagt geðveikin í kring um að kæra náungann.

Fyrir nokkrum dögum var Mark Morice kærður af nágranna sínum fyrir að hafa stolið bát hans. Það er reyndar rétt að Morice tók bátinn í leyfisleysi og eigandinn fékk víst aldrei bátinn í réttu ástandi til baka. Væri þetta allt og sumt, væri kannski eðlilegt að nágranninn kærði Morice. Málið er hins vegar að eigandi bátsins og Morice búa báðir í New Orleans. Morice notaði bátinn til þess að bjarga um 200 manns frá drukknun. Eigandinn var ekki heima og Morice sá sig tilneyddan til þess að "stela" þremur bátum þegar fellibylurinn Katrína rústaði New Orleans og hundruðir manna fórust. Eftir að þetta gekk yfir fór Morice til nágranna síns og lét hann vita hvað hafði gerst. Svo gerðist það seinna að nágranninn sendi Morice bréf þess efnis að tryggingafyrirtækið hafi ekki greitt nema helming upphaflegs verðs bátsins og hann mætti vinsamlegast ganga frá þessum 12 þúsund dollurum sem vantaði upp á. Morice hélt að þetta væri grín og hundsaði bréfið. Nú er nágranninn búinn að kæra hann.

Sjá frétt hér, og hér.

No comments: