27.9.05

Helgin og mánudagurinn

Helgin var frekar tíðindalítil. Það sem helst stendur upp úr er að húsið er fullt af rússneskum iðnaðarmönnum sem eru að gera upp íbúðina fyrir ofan okkur á þriðju hæðinni. Pípararnir þurftu að komast að lögnum inni í eldhúsi hjá okkur og enduðu með því að vera að puða í þessu allann daginn, þannig að við gátum ekki mikið gert. Ekki gátum við verið í burtu allann daginn og ekki gátum við heldur hagað okkur eins og venjulega heima, enda komumst við ekki inn í eldhúsið og svo var ekkert vatn. Við enduðum á því að horfa á 5 þætti af Six Feet Under sem var helvíti gaman. Við erum á öðru seasoni og þetta er frábær skemmtun.

Svo prófuðum við sótrónu- og kirsuberjasorbet sem ég hafði búið til kvöldið áður. Svakalega tókst það vel hjá manni, en það eina sem maður notaði í þetta var vatn, sítrónur, kirsuber og sykur.

Nú í vinnunni erum við að setja saman tillögu að þriggja daga fundi þar sem við bjóðum sérfræðingum að koma saman og ræða um tiltekin mál. Hugmyndin er svo sú að efni slíkra funda nýtist okkur í að setja saman skýrslur okkar til Allsherjarþings. Hugmynd okkar er að fjalla um hvernig stefnumörkun í félagsmálum getur leitt til þess að koma í veg fyrir að átök brjótist út og um mikilvægi slíkrar stefnumörkunar fyrir uppbyggingu samfélaga sem eru að ná sér eftir að átökum er lokið. Hugmyndin á bak við þetta er sú að samfélög verða að sinna félagslegu málunum (hinum svo kölluðu mjúku málum) til þess að tryggja öryggi og frið. Annars er fjandinn laus.

No comments: